Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 2 árum.

Samtöl við skattakónga

Þau sem eru hluti af 1 pró­sent tekju­hæstu Ís­lend­ing­un­um sam­kvæmt álagn­inga­skrá eiga marg­ar og mis­mun­andi sög­ur að baki, bæði af sigr­um og sorg­um. Stund­in ræð­ir við nokk­ur þeirra. „Svo þeg­ar ég er bú­inn að eign­ast alla þessa pen­inga núna þá kann ég ekk­ert að nota þá,“ seg­ir næst­hæsti skatt­greið­andi á land­inu. „Það má and­skot­inn vita hvað verð­ur gert við þetta,“ seg­ir skattakóng­ur að vest­an.

Samtöl við skattakónga

Tekjuhæsta eitt prósent landsmanna telur 3.125 manns. Stundin ræddi við nokkra þeirra hæstu og heyrði sögurnar um hvernig peningarnir urðu til, hvernig þeir breyta lífinu og ekki. 


„Ég er bara úti um allt“

Þorvaldur Hafdal Jónsson er í fimmta sæti á lista yfir tekjuhæstu einstaklingana í Vestmannaeyjum. 

Þú ert í fimmta sæti í Vestmannaeyjum, hvernig blasir það við þér?

Það blasir vel við mér. Ég flutti bara þangað í nóvember. Þannig að þetta passar ekki alveg. Ég var skráður í Hafnarfirði og flutti til Vestmannaeyja í nóvember. 

Hvers vegna fluttir þú til Vestmannaeyja í nóvember?

Til að fá léttara rými og betri aðstæður fyrir fjölskylduna. 

Og virkaði það?

Jájá. Það lítur þannig út. 

Frábært. Er ekki rétt að titla þig sem kerfisstjóra DK hugbúnaðar?

Það er einn titill sem ég er með. 

Hvernig myndir þú titla þig sjálfur?

Það er eiginlega bara óskilgreint. 

Nú, hvernig þá?

Ég er bara úti um allt. 

Þannig að þú ert að vinna í fleiru en að vera kerfisstjóri hjá DK hugbúnaði?

Já. forritari, netstjóri, kerfisstjóri. Hjá DK. Ég er að sinna mörgum hlutverkum þar. 

Þú ert nú með heildarárstekjur 79 milljónir. Það er svolítið mikill peningur. 

Það er kannski út af því að ég átti part í fyrirtækinu sjálfur sem var selt. 

Já, ég skil. Ég sé að þú ert með 55 milljónir í fjármagnstekjur, það myndi skýra það?

Já, það er skýringin. 

Þannig að þú seldir þinn hlut í fyrirtækinu í fyrra?

Já, allt fyrirtækið var selt í fyrra. Hundrað prósent sala í fyrra. 

Þannig að þeir sem eru hjá DK hugbúnaði eru á listanum þess vegna?

Já, þeir koma á listann núna á þessu ári og svo ekki meir. 

Heldur þú að þeir komi aldrei aftur?

Nei, ekki nema þeir fari að stofna sitt eigið fyrirtæki aftur og fari í svona. Þetta er búið að vera að byggjast upp síðan 1998. 

Af hverju var þá verið að selja?

Það snýst aðallega um það að þeir sem stofnuðu fyrirtækið, þeir eru komnir á ákveðinn aldur og eru farnir að huga að eftirlaunahlutanum. 

En hvað gerir þú núna þegar þú ert búinn að selja þinn hlut? Þú vinnur enn þá fyrir þá? 

Ég vinn enn þá hjá DK, það eru bara komnir nýir eigendur og þeir koma með nýjar áherslur. 

Þú ert með tæplega tvær milljónir á mánuði í tekjur. 

Það gæti alveg stemmt, ein og hálf, eitthvað svoleiðis. 

Hvernig er að vera með eina og hálfa milljón á mánuði í tekjur?

Það er bara allt í lagi. 

En hvað gerir maður við 79 milljónir?

Greiðir niður skuldir fyrst og fremst. 

Er það mikið sem þú skuldar? Fer mikill hluti af þessu í það?

Stór hluti hefur farið í að greiða niður lán og svoleiðis. Náttúrlega húsnæðislán, ég á sex börn. 

Vá. þannig að þú getur greitt húsnæðislánið niður alveg?

Ég get greitt stóran hluta niður. 

Geggjað. Er það ekki góð tilfinning?

Það er léttir að þurfa ekki að vera með allt þetta yfir sér. Það koma bara aðrir hlutir og svona í kringum þetta. Eins og er þá til dæmis endurnýjuðum við bílana. 

Er eitthvað fleira sem þú ætlar að gera við peningana?

Nei, þetta er bara búið. Þetta er bara þannig upphæð. 

Hvernig finnst þér að vera á þessum lista með hinum skattakóngunum í Vestmannaeyjum?

Það kemur mér á óvart. Menn eru búnir að vera að vinna að fyrirtækjum í uppbyggingu alla sína ævi og svo fara þeir að selja sitt eins og með bátana og fyrirtækin og annað slíkt. Þetta vefur upp á sig og byggir upp fjármagn. Ef fyrirtæki ganga vel þá er náttúrlega hugmyndin að það greiði arð. 

Þannig að þú ert svona nýi krakkinn á listanum í ár?

Yndislegt. 


„Við vorum að selja eignir“

Benedikt Guðmundsson er í þriðja sæti á lista yfir tekjuhæstu einstaklingana á Vestfjörðum. 

Þú ert í þriðja sæti á Vestfjörðum, hvernig blasir það við þér?

Það er ekkert annað. 

Það er bara ekkert annað. Hvað finnst þér um það?

Ég vissi svosem að þetta væri hátt. 

Já, er það?

Já. 

Ég meina heildarárstekjurnar þínar eru 229 milljónir. Það er svolítið mikið. 

Tjaaaaah. Þetta eru ekki tekjur. Við vorum að selja eignir, sko. 

Nú hvaða eignir voruð þið að selja?

Við vorum að selja bara ævistarfið. 

Hvaða ævistarf er það?

Við erum búin að vera með útgerð í 40 ár, nei meira, 50 ár. Þetta er bara rugl, þetta eru ekki tekjur, sem er verið að birta þarna. 

Ég sé að þú ert með 217 milljónir í fjármagnstekjur fyrir seinasta ár. Og 996 þúsund í laun. Þannig að þetta eru fjármagnstekjurnar fyrst og fremst sem koma þér á listann. 

Já, það er ekkert annað. Ég var hættur að vinna í ágúst á seinasta ári. Ég var ekki á neinum launum eftir 1. ágúst, sko. Þá var ég hættur að vinna. 

Hvaða útgerð er þetta?

Þessi útgerð hét Páll Helgi ehf. 

Væri þá rétt að titla þig sem útgerðarmaður? 

Ekki lengur. Ég var það. 

Hvernig myndir þú titla þig núna?

Nú, bara atvinnulausan aumingja. 

Atvinnulausan aumingja! 

Nei, ég er bara eldri borgari. Er orðinn 71 árs og hættur að vinna. Ég veit ekki hvað á að kalla það fólk. 

En hvað ætlarðu að gera við 229 milljónir?

Heyrðu, það fer nú 50 milljónir af þessu í skatt. 

Já, en restin, hvað með hana?

Restin, ja, ég er búinn að fjárfesta í íbúð í Kópavoginum. Ég ætla að búa þar. Ég er fluttur þangað. 

Það er eitthvað, en hvað með restina? Hvað ætlar þú að gera við þetta allt?

Það má andskotinn vita hvað verður gert við þetta. Lifa af þessu. 

Já, vonandi. 

Vonandi lifir maður eitthvað af þessu næstu árin. Þetta dugar einhver ár. 


„Ég er bara búinn að borga mína skatta“

Frímann Jóhannsson var á fjórða sæti á lista yfir tekjuhæstu einstaklinga á Norðurlandi eystra.

Þú ert í fjórða sæti á Norðurlandi eystra. Hvernig blasir það við þér?

Það er nú bara það að ég var að losa mig við eignir. 

Nú jæja, hvaða eignir varstu að losa þig við?

Það er ekkert meira sem ég get sagt um það, vinan. 

Ertu með svona mikið í fjármagnstekjur vegna þess að þú varst að selja þessar eignir?

Ég er ekki alveg klár á þessu. Ég er ekki einu sinni búinn að skoða þetta. 

Myndi maður titla þig sem útgerðarmann?

Það held ég ekki. 

Hvernig myndir þú titla þig sjálfur?

Ég er nú bara búinn að vera sjómaður allt mitt líf. 

Þú varst þá ekki að selja útgerð?

Jú, ég var í smá rekstri líka en hvaða máli skiptir það?

Nei, ég er bara að hringja í þá sem eru efstir á þessum listum og spyrja þá hvernig þeir auðguðust og hvernig maður eignast svona mikla peninga. Og í þínu tilfelli er það vegna þess að þú seldir útgerð, eða hvað?

Neineinei. 

„Þú verður að tala við þessa menn sem eru með 35 milljónir á mánuði“ 

Hvað er það þá?

Þú verður bara að komast að þessu sjálf. Ef það er svona mikið kappsmál að skoða þetta. Ég er bara búinn að borga mína skatta alveg hreint. 

Jájá, ég er nú ekki að saka þig um neitt. En hvað gerir maður við 111 milljónir?

Það hlýtur að vera hægt að nota það eitthvað. 

Já, ég held það nú. Hvað ætlar þú að gera við þær?

Þú verður að tala við þessa menn sem eru með 35 milljónir á mánuði. 

Ég tala við þá líka. Eins og ég segi, ég er að tala við alla. Ná einhverri tilfinningu fyrir því hvernig manneskjur þetta eru á bak við þessi nöfn og þessar fjárhæðir. Ætlar þú að kaupa þér hús eða bíl eða hvernig sérðu fyrir þér að eyða 111 milljónum?

Ég var að hugsa um að eiga þetta bara svona í ellinni. Ég á ekki digran lífeyrissjóð þó svo að ég sé búinn að borga í hann alla mína ævi. Ég reikna með því að lifa á þeim næstu árin. 


„Ég missti manninn minn“

Svana Guðlaugsdóttir er í öðru sæti á lista yfir tekjuhæstu einstaklinga á Austurlandi.

Ég sé að þú ert í öðru sæti á Austurlandi hvað varðar hæstu skatta en í fyrsta sæti hvað varðar heildarárstekjur, hvernig blasir það við þér?

Þetta eru nú ekki tekjur, þetta er fjármagnstekjuskattur, ég missti manninn minn. 

Ég samhryggist. 

Já, í fyrra, og við rákum rafmagnsverkstæði á Eskifirði. 

Varstu að selja það?

Já. 

Æ, ég samhryggist. 

Já, takk fyrir það. En það er ár síðan og þaðan eru þessar tekjur eins og maður segir. 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Tekjulistinn 2021

Reykvísk fjölskylda hagnaðist um 2,5 milljarða á tæknilausnum í baráttunni við Covid-19
FréttirTekjulistinn 2021

Reyk­vísk fjöl­skylda hagn­að­ist um 2,5 millj­arða á tækni­lausn­um í bar­átt­unni við Covid-19

Inga Dóra Sig­urð­ar­dótt­ir er skatta­drottn­ing Ís­lands. Hún hagn­að­ist um tæpa tvo millj­arða á sölu á hluta­bréf­um í danska fyr­ir­tæk­inu ChemoMetec, ásamt eig­in­manni sín­um, Berki Arn­við­ar­syni. Syn­ir henn­ar tveir högn­uð­ust báð­ir um tæp­ar 250 millj­ón­ir króna og eru á lista yf­ir 50 tekju­hæstu Ís­lend­ing­ana ár­ið 2020.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu