Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 3 árum.

Segir útilokunarmenningu eins og flugbeittan hníf útataðan í smjöri

Gest­ir Stóru mál­anna eru Arn­ar Eggert Thorodd­sen, aðjunkt við fé­lags­fræði­deild Há­skóla Ís­lands og Tara Mar­grét Vil­hjálms­dótt­ir, fé­lags­ráð­gjafi og formað­ur Sam­taka um lík­ams­virð­ingu. Í þætt­in­um ræða þau um úti­lok­un­ar­menn­ingu og hvaða áhrif hún hef­ur á sam­fé­lag­ið í heild.

Í Stóru málunum er rætt um útilokunarmenningu, eða „cancel culture“ eins og það er kallað á ensku. Með tilkomu samfélagsmiðla hefur fólk mun hærri rödd en áður hefur þekkst og getur hver og einn einstaklingur verið sinn eiginn fjölmiðill, í raun. Samfélagsmiðlastjörnur hafa mikil áhrif í og skoðanir þeirra geta haft gríðarleg samfélagsleg áhrif. Einfaldara er fyrir fólk að finna hópa sem er því sammála í ákveðnum málaflokkum og geta þessir hópar haft svo mikil áhrif að stórfyrirtæki, stjórnmálamenn og leikarar geta misst allt vegna ummæla sinna, gjörða eða stefnu.

Gestir Stóru málanna að þessu sinni eru þau Arnar Eggert Thoroddsen, aðjunkt við félagsfræðideild Háskóla Íslands og Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, félagsráðgjafi og formaður samtaka um líkamsvirðingu.  

Arnar segir að útilokunarmenning sé alls ekki nýtt fyrirbæri, en í dag séu dæmin fleiri en áður þekktust og fólki sé jafnvel hent út úr samfélaginu.„Útilokunarmenning er auðvitað eldgamalt fyrirbæri. Það er hópur fólks sem tekur sig til í einhverskonar sammætti og tekur einstakling, en þetta getur samt alveg verið fyrirtæki og slíkt, oft frægan einstakling. Honum er oft hreinlega vikið úr samfélaginu og tekið af honum öll aðföng sem hann kost á, eins og vinnu, komast inn í fjölmiðla eða selja plötur sem dæmi. Þetta er mjög harkaleg aðgerð. Þetta hefur verið keyrt á mikið í gegnum internetið. Þetta er stafrænn hlutur. Ég skil alveg þessa tenginguna við orðið nornaveiðar. Þetta virkar mjög hratt. Það fer allt af stað, menn eru bara aflífaðir og einhvern veginn hent út.

„Ég skil alveg þessa tenginguna við orðið nornaveiðar“
Arnar Eggert Thoroddsen

Þá segir Arnar að útilokunarmenningin hafi bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar og getur í raun verið eins og flugbeittur hnífur sem sé allur útataður í smjöri. „Það er hægt að líta á þetta jákvætt og neikvætt og einhvers staðar þar á milli. Tölum um jákvæðu hliðarnar, eins og metoo byltinguna. Þar sem einmitt jaðarsettur hópur fær völd með svona samtryggingu og kemur á alvöru breytingum þar sem loksins Harvey Weinstein gripinn. Sama á við um Black Lives Matters hreyfinguna. Ég er sammála því að fólk þurfi að taka ábyrgð á gerðum samningum, þú getur ekki sagt hvað sem er. Það er verið að uppræta ákveðin viðhorf með þessu. Hvernig töluðu pabbar okkar og afar stundum? Maður sat stundum undir þessu með hnút í maganum við eldhúsborðið og maður var valdalaust sem barn, maður gat ekkert sagt. Ég fagna því þegar fólk segir: Halló, þetta er bara ekki í lagi. En síðan finnst mér oft með útilokunar menninguna. Við erum með einhvern svona flugbeitta hnífi höndunum og hann er allur útataður í smjöri líka.

Segir útilokunarmenningu gott verkfæri

Tara Margrét segir að útilokunarmennings sé gott verkfæri í samfélagslegu aðhaldi. „Fyrir mér er þetta verkfæri til samfélagslegs aðhalds. Það er þannig sem ég lít á það. Það er mikið talað um að þetta sé einhver aðför að tjáningarfrelsinu. En þeir sem segja það eru yfirleitt þeir sömu einstaklingarnir sem eru ekki sjálfir tilbúnir til að taka ábyrgð á eigin tjáningu. Þetta er ekki verkfæri sem er í raun og veru beint af einhverjum persónum, þetta er ekki persónulegt. Við erum ekki að reyna, ef ég tala bara fyrir sjálfan mig, við erum ekki að reyna aflífa neinn. Við erum ekki að reyna að vega að æru einhvers eða fá hann rekinn. Við erum bara að segja: Þetta er orðræða sem er skaðleg. Þetta er orðræða sem ýfir upp fordóma í samfélaginu og viðheldur þeim. Þetta veitir samfélagslegt samþykki fyrir fordómum og mismunun. Þetta er eitthvað sem hefur veruleg áhrif á líf okkar.

„Við erum ekki að reyna aflífa neinn“
Tara Margrét Vilhjálmsdóttir

Þá segir Tara Margrét að útilokunarmenningin beinist helst gegn einstaklingum sem séu valdamiklir, eins og stjórnmálamönnum, en ekki gegn valdalitlu fólki. „Þetta er aðallega beint að einhverjum einstaklingum sem eru valdamiklir. Það er enginn að fara eftir einhverju gaurum á kommentakerfinum. Þetta er fólk sem hefur völd í samfélaginu. Það nýtur forréttinda og hefur aðgengi að fjölmiðlum, þar sem það er með mjög skaðlega og hættulega orðræðu. Það er í raun og veru það sem við erum að benda á. Ég vil frekar setja þetta í samhengi, árið er 2021 og fólk er fyrst núna einhvern veginn að þurfa að taka ábyrgð á gjörðum sínum. Það er fyrst núna að hugsa að það séu kannski afleiðingar á því hvað það sagði og gerði fyrir það.

Stjarnfræðilegar breytingar

Í yfir 9 ár hefur Tara Margrét tekið þátt í baráttu gegn fitufordómum og segist hún hafa séð mikla breytingu frá því að hún byrjaði í þeirri baráttu. Hún segir að það sé í raun og veru engin raunveruleg útilokunarmenning á Íslandi þar sem fólk þurfti aldrei að taka afleiðingum orða sinna. Það var nóg að koma með afsökunarbeiðni og halda svo bara áfram. Það kom henni því verulega á óvart þegar útvarpsþættinum Zúúber á Bylgjunni var hætt eftir að þátta­stjórn­end­ur létu niðrandi um­mæli í garð tón­list­ar­manns­ins Valdi­mars Guðmunds­son­ar falla í beinni út­send­ingu.

„Nú er ég búinn að vera í líkamsvirðingar baráttunni síðan 2012. Breytingarnar sem ég hef séð á síðustu níu árum eru stjarnfræðilegar, bara hvernig við leyfum okkur að tala. Ég sé þetta í fjölmiðlum, ég sé breytinguna við kaffiborðið. Kannski eru bara af því að ég sit við kaffiborðið. En almennt, ég finn mikla breytingu. Þetta er eitthvað sem er að hafa áhrif kannski er útilokunarmenningin allt öðruvísi í Bandaríkjunum en hérna. En mér finnst ekki vera til neinn þannig útilokunarmenning hérna á Íslandi. Stjórnmálamenn segja aldrei af sér, alveg sama hvað þeir gera. Það eru engar nákvæmlega beinar afleiðingar. Þetta hefur ekki jafn mikil áhrif hér á Íslandi og við höldum. Gillzenegger er enn þá með aðgengi að fjölmiðlum og Björn Bragi er kominn aftur. Ég er ekki að segja að þeir eigi ekki að gera það, en þetta hefur ekki eins mikil áhrif og við höldum. Ef við tökum bara sem dæmi það sem gerðist í útvarpsþættinum Zúper á Bylgjunni. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef nokkurn tímann séð afleiðingar af því að einhver opinberar fitufordóma sína í fjölmiðlum, þetta er í fyrsta skipti. Eftir öll þessi ár kann ég svo vel handritið sem er skrifað eftir svona atvik. Einhver segir eitthvað sem er fordómafullt, síðan eru þau ummæli gagnrýnd. Hann eða hún koma svo með sína afsökun og málið er bara búið.“

Þáttinn má sjá í heild sinni hér að ofan.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu