Þessi grein er meira en mánaðargömul.

Sómi Íslands

Björg­un­ar­sveitar­fólk úr björg­un­ar­sveit­inni Þor­birni í Grinda­vík hef­ur sumt hvert stað­ið sleitu­lít­ið vakt­ina frá því að eld­gos­ið hófst í Fagra­dals­fjalli. Þau hafa jafn­framt not­ið liðsinn­is hundruða koll­ega sinna sem hafa tryggt ör­yggi fólks og kom­ið hrökt­um og slös­uð­um ferða­löng­um til bjarg­ar. Allt í sjálf­boða­vinnu, án þess að skeyta um eig­in hag held­ur ein­beitt í að hjálpa sam­borg­ur­um sín­um. Það verð­ur seint of­met­ið.

Sómi Íslands
Þriðja vikan á vaktinni Karín og Jakob hafa staðið vaktina á gosstöðvunum með félögum sínum í björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík í þrjár vikur. Þau létu það ekki aftra sér í að ferja blaðamenn í skoðunarferð að eldstöðvunum. Mynd: Davíð Þór

Tugir þúsunda Íslendinga hafa haldið gangandi upp að gosstöðvunum á Reykjanesi allt frá því að eldgos hófst í Fagradalsfjalli í Geldingadölum 19. mars. Veður hafa verið misjöfn, fólk hefur lent í villum og háska. Björgunarsveitarfólk hefur haft í nægu að snúast, og ríflega það, við björgun, við aðstoð við göngufólk, vettvangsstjórnun og eftirlit á svæðinu. Sögurnar af afrekum þeirra eru orðnar æði margar.

Blaðamaður Stundarinnar hringdi í Boga Adolfsson, formann björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík, að morgni miðvikudagsins 7. apríl og spurði tíðinda um aðgerðir björgunarsveitarinnar. Nóttin hafði ekki verið tíðindalaus. Ný gossprunga hafði opnast og nú streymdi hraun á þremur stöðum á Fagradalsfjalli og í Geldingadölum. Til hafði staðið að draga verulega úr viðbragði björgunarsveitanna nú eftir páska en miðað við nýjustu vendingar þurfti að slá því eitthvað á frest.

Spurður hvort þeir væru á leið inn að gosstöðvunum og hvort mögulegt væri að sníkja far með björgunarsveitinni aftók Bogi það ekki með öllu. Það myndi þó ekki gerast strax þar eð byrja þyrfti á að fara með jarðvísindamenn inn á svæðið að meta aðstæður. Hann myndi hafa samband ef hægt yrði að koma slíkri ferð við.

Kraftar náttúrunnarÁ meðfylgjandi drónamyndbandi sem Davíð Þór Guðlaugsson ljósmyndari Stundarinnar tók má sjá hversu gríðarlegir kraftar eru að verki á Fagradalsfjalli.Davíð Þór

„Komið þið bara“

Í Reykjavík var hálfgert leiðindaveður fram eftir degi, skyggni lítið og úrkoma. Blaðamaður var því sumpart alls ekki að búast við neinu þegar síminn hringdi um tvöleytið. „Sæll, þetta er Jakob Máni í björgunarsveitinni í Grindavík. Þú varst eitthvað að hugsa um að fá að fara með okkur inn að gosinu. Komið þið bara, ég fer með ykkur.“ Það var ekki flóknara en það.

Við upphaf ferðarKarín og Jakob taka stöðuna áður en lagt er af stað.

Þegar blaðamaður og ljósmyndari Stundarinnar komu til Grindavíkur mættu þau Jakob Máni Jónsson og Karín Óla Eiríksdóttir þeim í björgunarsveitarhúsinu. Bæði eru þau ungir Grindvíkingar sem hafa staðið vaktina upp á því sem næst hvern einasta dag síðustu tæpar þrjár vikurnar, eftir að eldgos hófst í Geldingadölum 19. mars. Við klifruðum með þeim upp í stóran jeppa björgunarsveitarinnar Þorbjarnar og án vafninga var haldið af stað.

„Þetta er eiginlega þannig að ég skrepp rétt aðeins í vinnuna á milli þess sem ég sinni „alvöru“ verkefninu“
Karín Óla Eiríksdóttir

Björgunarsveitarfólk sinnir störfum sínum í sjálfboðavinnu og þarf að treysta á velvild vinnuveitenda sinna þegar útköll koma. Sem betur fer er sú velvild almennt mikil og skilningur á mikilvægi björgunarsveitanna almennur. Spurð hvað þau geri dagsdaglega svarar Karín: „Ég er að vinna í sundlauginni hérna og í forföllum í báðum grunnskólunum. Svo er ég að selja Tupperware þess á milli. Ég var á sjó áður en þetta byrjaði þannig að ég er bara í ýmsu. Það er mikill plús að vinna hjá bæjarfélaginu í þessum aðstæðum. Ég fékk alveg heila viku í frí í upphafi til að sinna björgunarsveitarstörfum. Það er líka takmörkuð opnun í sundlauginni sem hentar mér vel, ég er að vinna tvo daga í þessari viku og bara hálfan daginn. Þannig að þetta er eiginlega þannig að ég skrepp rétt aðeins í vinnuna á milli þess sem ég sinni „alvöru“ verkefninu. Maður er voða heppinn.“

Jakob er hins vegar nemi, að læra vélstjórn í Tækniskólanum. „Það er kennt bæði í staðnámi og yfir netið. Ég mætti ekkert fyrstu vikuna eftir að byrjaði að gjósa, var bara í fríi frá skólanum. Ég er bara í tveimur áföngum og skólinn er þannig að ég þarf að keyra í bæinn til að mæta í einn tíma. Ég vildi ekki fara úr þessu fyrir einn tíma svo ég var bara hér og svo kom páskafrí svo ég þurfti ekki að hugsa um námið á meðan.“

Á SuðurstrandarvegiJarðskjálftahrinan sem stóð yfir áður en fór að gjósa fór verulega illa með Suðurstrandarveg, svo mjög að á köflum er hann hættulegur og lokað hefur verið fyrir umferð á honum að hluta.

Kæmi ekki á óvart ef ásókn yrði í björgunarsveitarstarf

Þau hafa, þrátt fyrir ungan aldur, bæði verið í björgunarsveitinni Þorbirni nokkuð lengi. „Það eru að verða þrjú ár sem ég er búin að vera í björgunarsveitinni sjálfri en ég byrjaði í unglingadeildinni bara fjórtán ára,“ segir Karín sem er 23 ára.  Jakob er aðeins yngri, 19 ára og verður tvítugur í desember.  „Ég er að verða búinn að vera í eitt og hálft ár í björgunarsveitinni en hafði líka verið í unglingastarfinu áður.“

Bæði sinna þau umsjón með ungliðastarfinu í dag, en að vísu er allt stopp í því þessa dagana, vegna kórónaveirufaraldursins. Spurð hvort þeim þyki ekki líklegt að krakkar í Grindavík muni flykkjast í ungliðastarfið þegar það kemst í gang aftur, eftir að hafa fylgst með eldgosi svo að segja í bakgarðinum hjá sér, jánka þau því. „Það eru held ég alveg líkur á því að það verði meiri áhugi, það verður gaman að sjá. Það væri alveg frábært ef við fengjum fleiri inn út á þetta. Núna megum við ekki halda því úti, vegna Covid, og höfum kannski ekki heldur tök á því í þessum aðstæðum, vegna gossins,“ segir Karín.

Björgunarsveitin Þorbjörn er öflug björgunarsveit, vel tækjum búin og nokkuð fjölmenn. Ekki hefur veitt af síðustu vikur enda í ansi mörg horn að líta eftir að eldgosið hófst. „Þetta er líka þéttur og góður hópur sem er virkastur í sveitinni. Við erum hvað þekktust fyrir sjóbjörgun en við erum samt það lítil að það geta eiginlega allir verið í öllu, það þarf og er nauðsynlegt. Þú ert ekki bara í bílaflokk eða bara í bátaflokk,“ segir Karín.

„Það ganga flestir í flest störf, þannig séð. Rétt áður en að byrjaði að gjósa var maður úti á skipi að sækja bát sem var vélarvana en næstu viku vorum bara öll upp á fjalli þannig að þetta er ansi fjölbreytt,“ bætir Jakob við.

Aðstoð kollega ómetanleg

Það hefði hins vegar verið Þorbjarnarfólki næsta ómögulegt að sinna öllu því sem sinna hefur þurft síðan að gosið hófst, ef ekki hefði komið til aðstoð frá öðrum björgunarsveitum, víðs vegar af landinu. Allt í allt hafa á bilinu 1.300 til 1.400 björgunarsveitarmenn gengið vaktir vegna gossins. Það gefur augaleið að talsvert utanumhald þarf til að koma öllu heim og saman með slíkan fjölda. „Það er Landsbjörg sem sér um það, samhæfinguna. Það var sett upp skráningarform þar sem fólk og sveitir gátu skráð sig inn á vaktir og það hefur verið ótrúlega mikið af fólki sem vildi koma, sem hefur skráð sig og komið og staðið vaktir með okkur. Þetta er auðvitað spennandi verkefni og þetta er alveg frábært. Þetta er stærsta verkefni sem við höfum fengist við hér á svæðinu,“ segir Karín.

Jakob segir að mikilvægt sé að hafa öfluga sveit heimamanna til staðar við skipulagningu sem þessa. „Við sem heimamenn höfum auðvitað mikla yfirsýn, þekkingu á svæðinu, sem er auðvitað grunnurinn að stjórnuninni. Vettvangsstjórnun fer fram í vettvangsstjórnunarbíl, Birninum, sem er staðsettur við björgunarsveitarhúsið hjá okkur.“

„Yfirsýnin er þar, hópum er skipað til og mannaðir póstar þaðan. Ég held að það megi segja að þetta gangi mjög vel og hafi gengið,“ segir Karín.

Í þessum orðum töluðum er keyrt framhjá gönguleiðinni sem stikuð hefur verið frá Suðurstrandarvegi og upp að gosstöðvunum. Á hægri hönd er mikið flæmi utan vegar sem útbúið hefur verið sem bílastæði fyrir fólk sem fer gangandi á staðinn. Sjá má nokkra tugi bíla á svæðinu, þó ekki gríðarlegan flota. Á vinstri hönd er upphaf gönguleiðarinnar og þar er nokkur fjöldi tækja ýmissa björgunarsveita, sexhjól, stórir jeppar og aðstöðubíll. Björgunarsveitarfólk er á svæðinu til að leiðbeina göngufólki og hafa eftirlit. Tveir kollegar þeirra Jakobs og Karínar veifa brosandi þegar við keyrum framhjá og við veifum til baka. Sjá má hóp göngufólks sem er að hefja gönguna upp að gosstöðvunum. Í sjónhendingu virðast allir vel búnir til útivistar, enda mikilvægt. Þó veður sé gott í svipinn þá er kalt og allra veðra von á fjöllum.

Ganga hefstEkki voru margir göngumenn á ferðinni þennan dag upp að gosstöðvunum en þó einhver slæðingur. Fólk virtist vel búið og til í gönguna.

Spurð hvort að björgunarsveitarmenn hendi reiður á fjölda þess fólks sem leggur af stað að eldstöðvunum segir Karín að það hafi verið reynt að gera það. „Ferðamálastofa setti upp teljara til að hafa yfirsýn yfir það hversu margir fara inn á svæðið. Við sjáum það kannski best á bílunum samt,“ segir Jakob.

„Það er dreift miðum til fólks sem það er beðið um að setja í rúðurnar í bílunum, þar sem það skrifar hvað það á von á að vera lengi og hvað það séu margir í hverjum bíl,“ bætir Karín við.

Fjöldi fólks hætt kominn

Aðfararnótt 22. mars gerði vonskuveður við gosstöðvarnar og ræsa þurfti út um 140 björgunarsveitarmenn til leitar og björgunar á svæðinu. Hjálpa varð tugum fólks sem var kalt og hrakið og má segja að talsverður fjöldi hafi verið hætt komin hreinlega, sumir komnir með alvarlega ofkælingu. Björgunarsveitarmenn skráðu fólk sem þeir komu til hjálpar og hófu að bera þær upplýsingar saman við bílnúmer bíla sem enn voru á svæðinu. Það var ekki fyrr en liðið var á morgun að tókst að hafa upp á öllum umráðamönnum bílanna og staðreyna að þeir væru öruggir. Eftir þessa nótt voru græjaðir miðar frá Savetravel til að setja í bíla, segir Jakob. Á þá miða skrifar fólk fullt nafn þeirra sem komu með bílnum og símanúmer. Hefur þessi háttur auðveldað starf björgunarsveitarmanna verulega.

Bregðast þurfti við aðstæðunum með því að hefja allsherjarleit. „Útkallið kom hjá okkur um klukkan eitt um nóttina en við í Þorbirni voru í raun bara send heim, við vorum búin að standa vaktina frá því klukkan átta um morguninn,“ segir Karín. „Það voru kallaðar út sveitir af höfuðborgarsvæðinu og annars staðar af Reykjanesinu sem bjuggu yfir óþreyttum mannskap í verkefnið,“ bætir Jakob við.

Þetta eru óþægilegar aðstæður að lenda í, um það eru þau Karín og Jakob sammála. Að fjöldi fólks sé í raun týndur á ótryggu svæði í aftakaveðri og því sem næst ómögulegt að segja til um hversu margt fólkið sé. „En það hefur ekki verið mikið um slíkt nema þarna fyrst, ekki eftir að tókst að koma skipulagi á þetta. Svoleiðis tekur auðvitað tíma, eðlilega,“ segir Karín.

Jakob segir að fyrstu dagana hafi fólk farið ansi geyst. „Fólk var kannski aðeins of bratt að fara af stað þarna fyrst. Þá þurfti að labba yfir tvö fjöll en þetta er orðið töluvert þægilegri gönguleið sem búið er að stika út í dag.“

„Þú skottast þetta ekkert bara eins og ekkert sé“
Karín Óla Eiríksdóttir

Karín segir að þrátt fyrir þetta séu enn ekki allir að átta sig á út í hvað það sé að fara. „Þú skottast þetta ekkert bara eins og ekkert sé, fyrir óvant fólk þá er þetta alveg meira en að segja það.“

En hvað er fólk, sem er í því sem mætti kalla venjulegu formi, lengi að ganga upp að gosstöðvunum. Jakob útskýrir að nýja leiðin sem stikuð var út á þriðjudaginn var sé aðeins lengri en sú sem var áður. „Það voru konur úr björgunarsveitinni sem löbbuðu hana í fyrradag, svona býsna rösklega, og þær voru einn og hálfan tíma á leiðinni. Þannig að það er ekki óvarlegt að ætla að lágmarki tvo tíma í gang.“

Stór tækiAlvöru ökutæki þarf til að fara um slóðina upp í Meradali, að gosstöðvunum.

Tíminn rennur saman í eitt

Nú er beygt út af Suðurstrandarvegi inn á vegslóða sem að Jakob fræðir okkur um að liggi inn í Meradali, þangað sem hraun er nú farið að flæða úr gosstöðinni sem hóf að gjósa á annan í páskum. Slóðinn er grýttur og á eftir að fara versnandi, þarna er ekki á færi annarra en stórra bíla að fara enda ekki ætlast til að verið sé að keyra á öðrum bílum þangað upp eftir. Fyrir framan okkur má sjá stóran trukk að silast áfram, bíll sem blaðamaður giskar á að sé af gerðinni Volvo Laplander, án allrar ábyrgðar. Hann er á vegum einhverrar fréttastofunnar segir Jakob.

„Ég er orðinn alveg dagavilltur, ég er ekki lengur að spá í dögum“
Jakob Máni Jónsson

Við komum að léttri girðingu sem hefur verið sett upp yfir slóðann og Karín hoppar út til að opna fyrir okkur. Það ætti því að vera fólki ljóst að ekki er ætlast til þess að það keyri þessa leið án heimildar. Engu að síður hefur fullt af fólki virt það að vettugi og reynt að troðast slóðann án þess að hafa heimild til þess, á ýmsum tegundum af ökutækjum. „Við höfum haft mannaða lokun hér, þetta er nú eiginlega bara fyrsta skiptið sem ég keyri hingað upp eftir þar sem er ekki bíll frá okkur hér,“ segir Jakob.

Aðgangur bannaðurAkstur á slóðinni er háður því að heimild sé fengin, enda er um einkaland að ræða og auk þess er mikilvægt að björgunarsveitir hafi greiðan aðgang.

Þetta er sem sagt ekki í fyrsta skipti sem Jakob keyrir upp að gosstöðvunum, fjarri því. Spurður hversu margar ferðirnar séu hlær hann. „Veistu, ég bara veit það ekki. Tíminn er bara farinn í eitt. Ég er orðinn alveg dagavilltur, ég er ekki lengur að spá í dögum. Fólk spyr, manstu þarna á þriðjudaginn og ég segi bara ha? En þeir eru allir búnir að vera skemmtilegir, þannig lagað alla vega.“ Og Karín tekur undir það.“

Til stóð að draga verulega úr vöktun og viðveru björgunarsveita á svæðinu eftir páska. Hins vegar voru þær áætlanir endurskoðaðar eftir að byrjaði að gjósa í nýju sprungunum. „Það er nú búið að draga eitthvað úr samt,“ segir Jakob. Bætt skipulag og reynsla hjálpar þar mikið til segir Karín. „Það er komið töluvert betra skipulag á til dæmis bílastæðin og annað, svo það er ekki jafn mikið sem þarf að huga að í þeim efnum. Það hjálpar klárlega.“

 „Ég held líka að það skipti máli að það er búið að leggja áherslu á það í fjölmiðlum að þetta er ekki bara einhver auðveld ganga, fólk er að átta sig á því. Það skiptir líka máli að svæðinu er lokað snemma, klukkan sex í eftirmiðdaginn er lokað á að fólk leggi af stað og svo er svæðið bara rýmt að kvöldinu,“ segir Jakob.

Karín segir að það gefi björgunarsveitinni færi á að hafa minna viðbragð. „Það er líka það sem gefur okkur færi á að hafa minna viðbragð. Það var nótt um daginn þar sem ég stóð vakt frá því klukkan níu um morguninn og til fjögur um nóttina því það var nóg að gera við að koma fólki til baka sem var bara örmagnað eða slasað.“

Fjöldi slysa og óhappa á svæðinu

Og það hefur verið töluvert mikið að gera fyrir björgunarsveitarfólk í slíkum verkefnum, mun meira en komið hefur fram í fjölmiðlum til þessa segja þau Jakob og Karín. „Sem betur fer hefur ekki verið mikið um alvarleg slys, fólk er ekki endilega að fara heim í sjúkrabíl en það eru margir sem hafa meitt sig þannig að þeir labba ekki til baka. Ég var eina nóttina til klukkan að verða fimm um morguninn í flutningum á fólki sem hafði slasað sig, bara fram og til baka,“ segir Jakob og Karín tekur undir, sömu nótt hafi hún verið í eins aðgerðum.

„Ég var eina nóttina til klukkan að verða fimm um morguninn í flutningum á fólki sem hafði slasað sig“
Jakob Máni Jónsson

Við komum að mönnuðum eftirlitspósti þar sem er bíll frá Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík. Í bílnum sitja tveir björgunarsveitarmenn, maður og kona. Jakob rúllar niður rúðunni og heilsar kumpánlega. „Það er blessuð blíðan,“ segir hann og fær til baka: „Já, það er frábært veður.“ Veðrið er reyndar alveg skaplegt þessa stundina. Það er auðheyrt á samtalinu að þessi eftirlitspóstur er kannski ekki uppáhaldsstaður neinna, það langt frá gosinu að ekkert er að sjá. Jakob upplýsir að þau Karín séu á leiðinni upp eftir með okkur blaðamennina og fær ósk um góða skemmtun og svarar hinu sama til baka.

Jakob útskýrir að á þessum eftirlitspósti sé haft eftirlit með því hverjir fari um svæðið og upp að gosstöðvunum, hvort viðkomandi hafi leyfi til þess og þeim sem ekki hafi heimild sé þá snúið til baka. Það er ekki fyrir hvaða bíla sem er að fara slóðann sem fyrr segir, bæði vegna þess hversu grófur og grýttur hann er en líka vegna þess að hann er blautur. Búið er að herða kröfur til þess hvernig bílar eru útbúnir sem fara um svæðið segir Karín, nú þurfa bílar að vera að lágmarki á 38 tommu dekkjum til að fara slóðina.

Mikið um að veraÞyrla Landhelgisgæslunnar var á sveimi á svæðinu, til eftirlits.

„Það var búið að heimila að fjölmiðlar gætu komið hingað uppeftir á venjulegum jeppum, þeir þyrftu ekki að vera breyttir. En þá voru menn að koma bara á Suzuki Jimny og einhverju slyddujeppum. Þeir komast kannski en það tætir bara slóðann upp og gerir hann erfiðara og verri yfirferðar að vera að keyra hann á bílum sem komast þetta kannski bara rétt svo,“ segir Jakob.

Í þessu keyrum við framhjá einhverju torkennilegu tæki sem augsjáanlega er knúið af sólarsellum. Jakob segir okkur að þetta sé jarðskjálftamælir, sem settur hafi verið þarna upp löngu fyrir gos. Jarðskjálftamælar eru víst ansi víða á svæðinu, settir upp eftir að jarðskjálftahrinan hófst sem plagaði Grindvíkinga og Reyknesinga verulega fyrir gosið, sem frægt er orðið.

Mikilvægt að þekkja svæðið

Við keyrum áfram sem leið liggur, um svæði sem heitir Stóri-Leirdalur. Slóðin ýmist liggur beint eða hlykkjast áfram, allt eftir landslaginu. Ekki margir vissu af þessum slóða fyrir gos segja þau Jakob og Karín okkur, enda slóðin um einkaland og ekki ætlast til að fólk sé að þvælast hann án leyfis. Björgunarsveitarfólk þekkti hann hins vegar, enda mikilvægt að þekkja leiðir sem færar eru sem víðast á þeirra heimasvæði, ef eitthvað kemur upp á. Það er líka ríkur þáttur í þjálfun sveitanna að fara um svæðin til að kynnast þeim, aðstæðum og átta sig á hvernig hægt er að komast um.

„Fólk getur verið í bráðahættu og það þarf bara að vera fært og ekki vanbúnir bílar sem eru að þvælast fyrir“
Jakob Máni Jónsson

Það er mikilvægt að höfð sé stjórn á því hverjir fara um svæðið. Jakob segir frá því að hann hafi verið við sjúkraflutninga af gossvæðinu, með slasaða konu aftur í,  þó ekki þá leið sem við ökum nú heldur aðra sem hann lýsir sem „tæpum fjórhjólaslóða“. „Maður var að drífa sig eins hægt var, það beið sjúkrabíll niður frá, og alltaf mætti maður bílum, fullt af bílum. Það var alveg glatað. Fólk getur verið í bráðahættu og það þarf bara að vera fært og ekki vanbúnir bílar sem eru að þvælast fyrir.“

Álagið á tækjum og bílum er gríðarlega mikið með svo mikilli umferð um svæðið, og á ekki betri slóðum um um ræðir. Smá bilanir hafa verið að koma upp í bílunum og hefur þurft að sinna meira viðhaldi en vanalegt er.

Þeir sem keyra á svæðinu eru í raun að brjóta lög, slóðinn er ekki merktur og því er í praxís um utanvegaakstur að ræða, sem er óheimill. Jakob lýsir fyrir okkur slíkum atvikum. „Það hafa líka verið að fara menn á fjórhjólum og krossurum um svæðið utan slóða. Það var einn daginn sem við komum að gosstöðvunum þar sem við keyrðum fram á hóp af krossarahjólum sem höfðu verið keyrð eins og dró upp í mjög bratta hlíð rétt við gosstöðvarnar, allt þar til þau drógu ekki meir. Þá lögðu menn bara hjólunum og gengu rest. Fimm eða sex hjól voru þar rétt utan við slóðina í hlíðinni, búnir að spóla upp um allt. Annan daginn þegar við vorum að koma niður af gosstöðvunum hafði einhver tekið sig til niðri í Meraradalnum og leikið sér að því að spóla í hringi í þar niðri, í algjöru tilgangsleysi.“

Þó það hafi ekki margir heimild til að keyra um svæðið er samt töluverð umferð. Við mætum bíl þar sem eru innanborðs kollegar okkar frá Stöð 2, einn helsti náttúruhamfarafréttamaður þjóðarinnar í framsætinu. Töluvert er um umferð blaðamanna á svæðinu segja þau Jakob og Karín, fyrir ýmsar fréttastofur. Síðast í fyrradag var tökulið á vegum National Geographic á svæðinu, Jakob telur þó að það hafi aðallega verið Íslendingar sem voru að vinna að því.

Þegar þau Jakob og Karín eru spurð hvort þau hafi komið á svæðið áður en fór að gjósa svara þau því bæði játandi en þá hafi verið verulegur snjór yfir á svæðinu. Jakob segir að hann hafi raunar farið oftar en einu sinni, á æfingu með sveitinni og til að glöggva sig á slóðum og leiðum á svæðinu.

Rætt við kollegaJakob ræðir hér við kollega sína úr björgunarsveitinni Björg á Eyrarbakka, sem leggja Þorbjarnarfólki lið við vöktun á svæðinu.

Gosið kemur í ljós

Nú komum við upp brekku og í fyrsta skipti blasir eldgosið við okkur, úr fjarlægð. En jafnvel úr fjarlægð er yfirþyrmandi að sjá krafta náttúrunnar, hvernig eldurinn brýst úr iðrum jarðar. Af brekkubrúninni sést niður í Merardali, næsta dal við Geldingadal þar sem eldgosið braust út. Þar má sjá hraunstraum sem rennur niður í dalinn og hraun sem hefur breitt úr sér í dalbotninum. Sá hraunstraumur kemur eingöngu úr sprungunni sem opnaðist á annan í páskum. Fyrir leikmann er ótrúlegt að sjá hversu mikið flæmi er komið undir hraun á ekki fleiri dögum, á tveimur sólarhringum.

Uppi á brekkubrúninni er annar eftirlitspóstur björgunarsveita. Þar er mikill tækjabíll fyrir, sexhjól og jeppi frá björgunarsveitinni Björg á Eyrarbakka. Inni í jeppanum sitja tveir björgunarsveitarmenn, glaðbeittir og heilsa kumpánlega. Annar þeirra segir þetta vera tíunda daginn sem hann er við vakt á svæðinu en hinn er á sinni fyrstu vakt. Allt í allt hafa á milli tíu og fimmtán björgunarsveitarmenn frá Björg tekið vaktir á svæðinu frá því að gos hófst. Þeirra hlutverk í dag er að vera til taks ef bregðast þarf við, komi eitthvað upp á á svæðinu. Klukkan er að ganga fimm í eftirmiðdaginn og þeir hafa setið í bílnum frá því um hádegi, án þess að til tíðinda hafi dregið, sem betur fer. „Þannig viljum við hafa það,“ segja þeir og Jakob kinkar kolli sammála.

SjónarspilÚtsýnið yfir Merardali og að gosstöðvunum á Fagradalsfjalli er ótrúlegt.

Til hliðar við bíl björgunarsveitarinnar er Volvoinn sem hefur dólað á undan okkur kyrrstæður. Út úr honum koma fréttamaður og myndatökumaður Stöðvar 2, að virða fyrir sér útsýnið. Þetta er ekki fyrsta ferðin þeirra á svæðið en upplifunin er eftir sem áður þannig að menn setur hljóða, lýsa þeir.

Við stígum upp í bílana að nýju og höldum niður í Merardali. Það er talsvert kaldara þarna upp frá en var niðri í byggð, örlítil úrkoma á köflum. Upp undir gosstöðvunum má sjá fólk bera við himinn, á hreyfingu. Við nálgumst hraunbreiðuna niðri í dalnum, sem nú er runnin yfir slóðann sem björgunarsveitarfólk hefur keyrt fram til þessa. Niðri í dalbotninum eru þrír eða fjórir bílar. Þegar við komum niður eykst slyddan og við rennum upp í háls, setjum upp vettlinga og húfur og förum út úr bílnum. Ljósmyndarar Fréttablaðsins eru nýkomnir niður og að tygja sig heim á leið. Þeir lýsa því að fátt sé af fólki við gosstöðvarnar. Létt er yfir fólki, það er upplifun og gaman að koma á staðinn.

Yfirþyrmandi kraftar

Jakob og Karín bjóðast til að fylgja okkur á fæti að gosstöðvunum og við þiggjum það boð með þökkum. Þau eru með gasmæla, vel búin, með hjálma og í björgunarsveitargöllum. Við erum í þeim fötum sem líkjast mest útivistarfötum og við gátum dregið upp úr skúffunum heima hjá okkur. Leiðin fram undan er stutt, en brekkan er brött, raunar mjög brött. Við höldum af stað og stikum upp á við. Við og við blásum við mæðinni en kemst þó hægt fari. Og þegar upp er komið er upplifunin stórkostleg.

Við okkur blasir sullandi gígur, dyngja sem er að hlaðast upp fyrir augunum á okkur ef svo má segja. Hraun flæðir í ýmsar áttir, niður í Meradali úr gígnum sem við sjáum næst okkur. Fólk er á vappi um svæðið, en ekki mikill fjöldi. Fæstir segja margt, kraftarnir í náttúruöflunum eru yfirþyrmandi og enginn vill missa af neinu.

Við göngum um svæðið, að gossprungunni sem hafði byrjað að gjósa úr nóttina áður. Þar hefur hraun líka hlaðist upp og það er undrunarvert að sjá hversu hratt það hefur byggst upp. Lengst frá okkur er fyrsta eldstöðin, þar sem gos hófst að kvöldi 19. mars. Hraunbreiðan sem runnið hefur þaðan er stórt og mikið og fyllir að manni finnst hálfan Geldingadalinn. Við sjáum ekki sjálfan gíginn þaðan sem við stöndum en hraunslettur koma af og til upp fyrir brúnina.

Jakob bendir okkur á hvar tjald björgunarsveitanna stóð áður en hóf að gjósa úr eldstöð númer tvö. Fjarlægðin er ekki mikil, talin í nokkur hundruð metrum. Enn nær er gossprungan sem hóf að gjósa úr aðfaranótt 7. apríl. Þau Karín lýsa því hvernig björgunarsveitarfólk skipti sér í hópi, til að rýma svæðið, til að taka saman tjaldið og tól sín og tæki. Á meðan fór hann ásamt öðrum til að koma olíu á ljósavél sem knýr gsm-sendi sem björgunarsveitirnar komu upp á svæðinu. „Það var metið sem svo að það væri algjört forgangsatriði að tryggja að samband héldist við þessar aðstæður.“ Karín tekur undir og segir það gríðarlega mikilvægt að hægt sé að ná símasambandi á svæðinu.

Fátt er um björgunarsveitarfólk við gosstöðvarnar að þessu sinni og fólk sem er þarna statt gefur sig á tal við þau Jakob og Karín, spyr spurninga, leitar ráða, um hvort sé óhætt að fara svo og svo nálægt hrauninu eða hvort hægt sé að komast annað til sjá það frá öðru sjónarhorni. Þau leysa greiðlega úr beiðnum fólksins og svara spurningum þess. Fréttamaður Sjónvarps spyr hvort óhætt sé að standa á ákveðnum stað með eldgosið í baksýn í beinni útsendingu í kvöldfréttum. Þau Karín og Jakob sjá ekki meinbugi á því, vindátt er með þeim hætti að ekki ætti að þurfa að hafa áhyggjur af gasmengun. En þau brýna fyrir öllum að fara með gát og hafa varan á.

Einu viðbragðsaðilarnir aðrir sem sjáanlegir eru við gosstöðvarnar eru tveir meðlimir úr sérsveit ríkislögreglustjóra sem rölta um og hafa gát á öllu. Þeir segja að staðan sé ágæt, fátt fólk hafi verið á svæðinu í dag en það hafi verið heldur kalt fyrr um daginn. Veðrið er ekki meira en skaplegt þessa stundina og ljósmyndarar bölva í hljóði vegna skorts á skyggni. Veðrið eykur þó að sumu leyti á dulúðina, í bland við eld og eimyrju.

Við förum að huga okkur til hreyfings heim á leið, viljum ekki troða um of á gestrisni þeirra Jakobs og Karínar. Slyddan er líka að aukast, það stefnir í leiðinda bleytu hríð. Við röltum niður brekkuna aftur að bílnum, þurfum að fara að öllu með gát til að renna ekki í krapanum. Þegar niður er komið höldum við af stað heim að nýju. Leiðin til baka virkar styttri, færra er sagt, við blaðamenn enn að melta það sem við höfum orðið vitni að.

Þegar komið er niður í byggð þökkum við kærlega fyrir okkur. Þau Jakob og Karín gefa lítið fyrir það, þetta hafi verið sjálfsagt. Þau halda svo inn í björgunarmiðstöð, til að hafa fataskipti, til að fara í kvöldmat. Til að safna kröftum því þau eru tilbúin til að bregðast við. Á morgun verða standa þau líka vaktina. Ásamt félögum sínum í björgunarsveitinni Þorbirni og ásamt félögum sínum í öðrum björgunarsveitum, bæði á gosstöðvunum á Reykjanesi og um land allt. Sómi Íslands.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt á Stundinni

385. spurningaþraut: Hverjir voru eiginmaður og elskhugi Guinevere drottningar?
Þrautir10 af öllu tagi

385. spurn­inga­þraut: Hverj­ir voru eig­in­mað­ur og elsk­hugi Guinev­ere drottn­ing­ar?

Þraut­in frá í gær. Var­stú bú­in/n að prófa hana? * Fyrri auka­spurn­ing: Hverj­ir prýða mynd­ina hér að of­an? * Að­al­spurn­ing­ar: 1.  Reg­in­ald Kenn­eth Dwig­ht, hvað kall­ar hann sig aft­ur? 2.  Ár hvaða dýrs er nú í gangi sam­kvæmt kín­verskri stjörnu­speki? 3.  Hvað hét grín­flokk­ur­inn sem bauð fram í al­þing­is­kosn­ing­un­um 1971? 4.  Jor­d­an Peter­son heit­ir um­deild­ur sál­fræð­ing­ur sem hef­ur, að söfn, lagt...
„Aukin umsvif einkageirans er eina leiðin út úr kreppunni“
ViðtalFramtíðin sem þau vilja

„Auk­in um­svif einka­geir­ans er eina leið­in út úr krepp­unni“

Hall­dór Benjam­in Þor­bergs­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífs­ins, seg­ir að eina leið­in út úr efna­hags­lægð­inni sem fylg­ir heims­far­aldr­in­um sé einkafram­tak­ið. Nú þurfi að sporna gegn auknu at­vinnu­leysi.
„Stærra bótakerfi tekur ekki á vandanum“
ViðtalFramtíðin sem þau vilja

„Stærra bóta­kerfi tek­ur ekki á vand­an­um“

Jó­hann­es Þór Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferða­þjón­ust­unn­ar, seg­ir stærra bóta­kerfi ekki leysa neinn vanda held­ur þurfi að fjölga störf­um til að stoppa í fjár­lagagat­ið.
Norræn samtök heimilislækna fordæma skrif heimilislæknis
Fréttir

Nor­ræn sam­tök heim­il­is­lækna for­dæma skrif heim­il­is­lækn­is

Siðanefnd Lækna­fé­lags Ís­lands hef­ur feng­ið ábend­ing­ar vegna niðr­andi um­mæla Guð­mund­ar Páls­son­ar heim­il­is­lækn­is á sam­fé­lags­miðl­um er varð­ar bæði kon­ur og að­ila í minni­hluta­hóp­um. Lækna­fé­lag­ið tek­ur ekki af­stöðu í ein­staka mál­um en sam­tök nor­rænna heim­il­is­lækna gera það hins veg­ar og hafa for­dæmt skrif Guð­mund­ar.
„Okkur vantar atvinnustefnu“
ViðtalFramtíðin sem þau vilja

„Okk­ur vant­ar at­vinnu­stefnu“

Drífa Snæ­dal, for­seti ASÍ, seg­ir ekki nóg að treysta á að allt komi upp í hend­urn­ar á okk­ur, hvort sem það sé síld­in, loðn­an eða túrist­inn. Nú þurfi að ein­blína á fjöl­breytt­ari tæki­færi, bæði í ný­sköp­un, land­bún­aði, græn­um störf­um og fleira.
384. spurningaþraut: Hér reynir verulega á þekkingu fólks á utanríkisráðherrum!
Þrautir10 af öllu tagi

384. spurn­inga­þraut: Hér reyn­ir veru­lega á þekk­ingu fólks á ut­an­rík­is­ráð­herr­um!

Gær frá þraut­in í. * Fyrri auka­spurn­ing. Á mynd­inni að of­an má sjá eina fræga film­stjörnu fyrri tíma. Hvað hét hún? * Að­al­spurn­ing­ar: 1.  Fjár­hættu­spil­ið póker hef­ur stund­um ver­ið rak­ið langt aft­ur í tím­ann, en raun­in mun þó vera sú að það hafi í raun­inni þró­ast í nú­tíma­mynd sinni í einu til­teknu ríki á 19. öld. Hvaða ríki er það?...
Ölli Krókur, Skvetta og einn á hjóli
Páll Stefánsson
Mynd dagsins

Páll Stefánsson

Ölli Krók­ur, Skvetta og einn á hjóli

Öskrað gegn óréttlæti
FréttirMetoo

Öskr­að gegn órétt­læti

Hóp­ur kvenna safn­að­ist sam­an fyr­ir ut­an Hér­aðs­dóm Reykja­vík­ur um há­deg­is­bil í dag til að öskra gegn órétt­læti og með sam­stöðu fyr­ir þo­lend­um kyn­ferð­isof­beld­is
Siðprúðasti her í heimi slátrar börnum
Símon Vestarr
Blogg

Símon Vestarr

Sið­prúð­asti her í heimi slátr­ar börn­um

Jæja, hvað á að segja um „eina lýð­ræð­is­rík­ið“ í Mið-Aust­ur­lönd­um? Er eitt­hvað hægt að segja sem ekki hef­ur ver­ið tí­und­að millj­ón sinn­um? 119 Palestínu­menn í valn­um, þar af 31 barn. Átta Ísra­els­menn. Og að­drag­and­inn var ekk­ert sér­stak­lega frum­leg­ur held­ur. Ísra­els­menn halda upp­tekn­um hætti og vísa fjór­um tug­um Palestínu­manna (þar af tíu börn­um) út af heim­il­um sín­um til að rýma...
383. spurningaþraut: Lítil Evrópuríki, Hamlet og veiðibjalla
Þrautir10 af öllu tagi

383. spurn­inga­þraut: Lít­il Evr­ópu­ríki, Hamlet og veiði­bjalla

Þraut, sú í gær. * Fyrri auka­spurn­ing. Á mynd­inni hér að of­an má sjá skip eitt á sigl­ingu ekki all­fjarri Ís­landi fyr­ir all­nokkru síð­an. Hvað hét þetta skip? * Að­al­spurn­ing­ar: 1.  Hver skrif­aði leik­rit­ið um Hamlet Danaprins? 2.  Ég hef ör­ugg­lega spurt að því áð­ur, en hvað er smæsta sjálf­stæða rík­ið í Evr­ópu? 3.  En hvað er næst minnst? 4. ...
Þegar Freud fékk bréf um Lísu prinsessu
Flækjusagan

Þeg­ar Fr­eud fékk bréf um Lísu prins­essu

Laust fyr­ir 1930 fékk sál­grein­and­inn frægi Sig­mund Fr­eud bréf þar sem hann var beð­inn að gefa ráð til að með­höndla Lísu prins­essu af Batten­berg eða Mount­batten því hún liti svo á að hún væri orð­in skila­boða­skjóða fyr­ir Guð al­mátt­ug­an. Hvað hafði gerst?!
Þakklát fyrir tækifæri til að búa á Íslandi
Fólkið í borginni

Þakk­lát fyr­ir tæki­færi til að búa á Ís­landi

Noemi Ehrat flutti frá Zürich í Sviss til Reykja­vík­ur til að stunda ís­lensku­nám við Há­skóla Ís­lands. Hún seg­ir líf­ið hér vera ró­legra en í heima­land­inu, en borg­in iði af menn­ing­ar­lífi og bjóði upp á ým­iss tæki­færi til að vera skap­andi.