Mest lesið

1
300 milljóna veðmál fjölskyldu dómsmálaráðherra
Einkahlutafélag sem stofnað var af Jóni Gunnarssyni dómsmálaráherra og eiginkonu hans í mars keypti einbýlishús og 3,2 hektara lóð í Garðabæ á 300 milljónir mánuði síðar. Daginn áður komu nýir eigendur inn í félagið og Jón fór úr eigendahópnum. Konan hans er meðal eigenda og situr hún í stjórn félagsins ásamt syni þeirra og tengdadóttur. Stefnt er að byggingu 30-40 íbúða byggð. Fyrri eigandi reyndi margítrekað að fá að ráðast í sambærilega uppbyggingu en var alltaf hafnað af bænum.

2
Faðir Bjarna tvisvar fengið að kaupa ríkiseignir á undirverði
Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar, hefur tvívegis keypt ríkiseignir á undirverði í einkavæðingarferli. Þetta eru viðskiptin með SR-mjöl árið 1993 og kaup hans á hlutabréfum í Íslandsbanka árið 2022. Í báðum tilfellum hefur Ríkisendurskoðun tekið söluna á eignunum til rannsóknar. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, sem helst var gagnrýndur fyrir söluna á SR-mjöli, segir að gagnrýnin eigi ekki rétt á sér.

3
Embættismaður á hlut í félagi sem hann samdi við um hergagnaflutning
Utanríkisráðuneytið hefur flogið hergögnum til Úkraínu í á annan tug skipta undanfarna mánuði. Ráðuneytið vill ekki gefa upp hversu mörg flugin eru, hver kostnaðurinn sé eða hvað hafi verið flutt. Ráðuneytið telur ekkert óeðlilegt við að embættismaður sé hluthafi í flugfélaginu sem oftast var samið við. Sama félag er sakað um félagsleg undirboð og að brjóta kjarasamninga.

4
Hvað vill Framsókn eiginlega í borginni og hverjir eru sammála?
Framsóknarfólk með Einar Þorsteinsson í broddi fylkingar þarf á endanum að beygja annað hvort til hægri eða vinstri, ætli flokkurinn sér í meirihluta. Málefnin ráða för, segir hann, en hvaða afstöðu hefur flokkurinn og hvar er samhljómur?

5
„Ég neyði engan til að leigja hjá mér“
Á Holtsgötu 7 leigja hátt í 30 manns herbergi í húsnæði sem búið er að stúka niður í fjölda lítilla herbergja. Eldvörnum er illa eða ekkert sinnt. Fyrirtækið sem leigir út herbergin sætir engu opinberu eftirliti þar sem húsið er skráð sem íbúðarhúsnæði. Margir viðmælendur Stundarinnar sjá mikil líkindi með aðstæðum þar og þeim á Bræðraborgarstíg 1, þar sem þrennt lést í eldsvoða.

6
Vilja opna augu almennings fyrir neyð kvenna í vændi
Brynhildur Björnsdóttir, fjölmiðlakona og Eva Dís Þórðardóttir, leiðbeinandi hjá Stígamótum segja að samfélagið átti sig ekki á ömurlegri stöðu þeirra kvenna sem neyðist til að vera í vændi og að flestar þeirra beri af því varanlegan skaða. Í þættinum Eigin Konur segja þær frá bók um vændi á Íslandi sem kemur út innan skamms. Í henni eru meðal annars birtar reynslusögur sex kvenna sem hafa verið í vændi.

7
„Þeir eru að kaupa sér vald“
Brynhildur Björnsdóttir og Eva Dís Þórðardóttir segja í þættinum frá bókinni Venjulegar konur sem fjallar um vændi á Íslandi. Í bókinni sem Brynhildur skrifar er rætt við sex konur sem hafa verið í vændi á Íslandi og einn karl sem hefur keypt vændi. Eva Dís fékk hugmyndina að því að setja reynslusögur kvenna sem hafa verið í vændi í bók. Eva Dís og Brynhildur segjast vilja sýna að vændi jafnvel þótt það sé óþvingað, geti haft miklar og slæmar afleiðingar. Eva Dís segir lang flestar konur sem hafa verið í vændi séu ekki reiðubúnar að stíga opinberlega fram og á meðan svo sé hafi hún tekið að sér að tala fyrir þeirra hönd en Eva Dís var sjálf í vændi í Kaupmannahöfn um skeið. „Ég þurfti að vera búin að taka fjóra kúnna yfir daginn áður en ég fór að fá pening til þess að eiga fyrir auglýsingunum, til þess að borga fyrir leiguna á herberginu sem ég notaði á vændishúsinu, ég þurfi að borga símadömu og ákveðin verndargjöld inní skipulagða glæparstarfsemi. Það er fyrir utan, fatnað, smokka, sleipiefni og allt draslið sem maður þarf til að stunda þetta,“ segir Eva Dís. Hún segir að í Þýskalandi kosti vændi svipað og hamborgari á skyndibitastað og það sé líka mjög ódýrt að kaupa aðgang að líkama kvenna í vændi í Danmörku. „Fyrir mér er kynlífsvinna ekki orð,“ segir Eva Dís og Brynhildur segir að þeir sem kaupi aðgang að líkama kvenna séu alls ekki að kaupa kynlíf. „Þeir eru að kaupa sér vald. Þeir eru að kaupa sér réttinn á því að ganga yfir mörk,“ segir Brynhildur. „Við verðum að berjast gegn því að normalisera vændi, af því að það er bara ekkert normal við vændi,“ segir Brynhildur og bætir við að 90 prósent þeirra sem hafa verið í vændi upplifi það sem ofbeldi. Eva Dís og Brynhildur fara einnig yfir það í þættinum hvaðan hugmyndir okkar um vændi eru komnar og þá staðalímynd sem við höfum af konum í vændi. „Fólk heldur að þetta séu konur sem finnst kynlíf bara geggjað og þetta séu bara einhverjar kynlífsvélar,“ segir Brynhildur.
Athugasemdir