Ljóst er að verulegt tjón hefur orðið í allmörgum byggingum Háskóla Íslands vegna mikils vatnsleka í nótt en allt kapp er lagt á að röskun á starfi skólans verði sem minnst. Eftirfarandi liggur fyrir í framhaldi af vinnu okkar í nótt og í morgun:
◾ Öll kennsla sem fram hefur farið í húsakynnum Háskólatorgs og Gimli verður nú rafræn.
◾ Jarðhæð í Gimli verður ónothæf næstu mánuði og sama gildir um fyrirlestrasali á jarðhæð á Háskólatorgi.
◾ Hægt er að nálgast þjónustu skrifstofu Félagsvísindasviðs símleiðis eða með rafrænum hætti fram að helgi.
◾ Verið er að leita að hentugu húsnæði fyrir skrifstofu Félagsvísindasviðs og til staðkennslu vegna þeirra rýma sem ekki er unnt að nýta vegna vatnstjónsins.
◾ Þjónustuborð á Háskólatorgi verður opið á skrifstofutíma. Fólk er þó hvatt til að nýta rafrænar þjónustuleiðir eins og nokkur er kostur.
Háma og Bóksalan á Háskólatorgi eru lokuð í dag en verða opnuð á morgun.
◾ Stúdentakjallarinn er lokaður en verður opnaður á laugardag.
Starfsfólk í þeim byggingum þar sem vatnstjón varð, á Háskólatorgi, í Gimli, Lögbergi, Árnagarði og í Aðalbyggingu, hafi samband við næstu stjórnendur varðandi tilhögun vinnu í dag og út vikuna.
Mér er efst í huga þakklæti til þeirra fjölmörgu, starfsfólks okkar og slökkviliðs, sem lögðu afar hart að sér í nótt við erfiðar aðstæður við að draga úr tjóni eins og unnt var.
Þá vil ég þakka nemendum og starfsfólki skólans fyrir seiglu og samstöðu.
Jón Atli Benediktsson, rektor
Athugasemdir