Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 3 árum.

Joe Biden: „Nóg er nóg er nóg“

Verð­andi for­seti kall­ar eft­ir end­ur­reisn vel­sæm­is og heið­urs. Frá­far­andi for­seti seg­ist skilja stuðn­ings­menn sína sem rudd­ust inn í þing­hús­ið.

Verðandi Bandaríkjaforseti, Joe Biden, sem verður settur í embætti 20. janúar næstkomandi, lagði í kvöld áherslu á að óreiðan í þinghúsinu í Washington, þar sem trumpistar ruddust inn og yfirtóku bygginguna, væri ekki hin sönnu Bandaríki.

Biden hélt ræðu í heimabæ sínum, Wilmington í Delaware, á meðan uppreisnarmenn á bandi Trumps voru enn í þinghúsinu. Hann sagði innrásina ekki vera andstöðu heldur uppreisn. Í henni fælist „fordæmalaus árás á lýðræðið okkar. Ólík nokkru sem við höfum séð í nútímanum.“ 

„Dagurinn er áminning, sársaukafull, um að lýðræðið er brothætt og varðveisla þess krefst velviljaðs fólks, leiðtoga með hugrekkið til að rísa upp, sem eru drifnir áfram, ekki af valdi, eða eiginhagsmunum sama hvað þeir kosta, heldur af almannaheill.“

Biden beindi orðum sínum til Donalds Trump, sem á sama tíma ávarpaði fylgismenn sína með þeim orðum að hann skildi þá, elskaði þá en bæði þá að fara heim.

„Orð forseta skipta máli, hversu góður eða slæmur sá forseti er. Þegar best lætur geta orð forseta veitt innblástur. Þegar verst lætur geta þau hellt olíu á eldinn,“ sagði Biden.

Sérfræðingar í öryggis- og utanríkismálum hafa lýst ótta sínum um að innrásin í þinghúsið verði notuð af andlýðræðislegum ríkisstjórnum og andstæðingum Bandaríkjanna til þess að réttlæta eigin aðgerðir.

„Ímyndið ykkur hvað börnin, sem eru að horfa á sjónvarpið, eru að hugsa. Ímyndið ykkur hvað heimsbyggðin horfir upp á. Í meira en tvær og hálfa öld höfum við, fólkið, í leit að fullkomnu samfélagi, haft augastað á almannaheill. Bandaríkin eru svo miklu betri en þau sem við höfum séð í dag.“

Eftir ræðuna steig Biden af sviði, en sneri við þegar spurningum var kallað til hans um hvort hann hefði áhyggjur af innsetningu sinni í embætti sem fyrirhuguð er 20. janúar.

„Ég hef ekki áhyggjur af öryggi mínu, velferð eða innsetningu. Ég hef ekki áhyggjur. Bandaríkjamenn munu rísa upp, og rísa upp núna. Nóg er nóg er nóg.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár