Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 3 árum.

Trump ávarpar innrásarfólkið: „Við elskum ykkur, þið eruð mjög sérstök“

„Þetta var svindl­kosn­ing,“ seg­ir Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti í ávarpi til stuðn­ings­manna sinna eft­ir að hóp­ur þeirra rudd­ist inn í þing­hús­ið í Washingt­on.

„Ég þekki sársauka ykkar. Ég veit að þið eruð særð. Kosningunum var stolið af okkur,“ sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti fyrir stundu í ávarpi sínu til stuðningsmanna sinna í kvöld, eftir að stór hópur þeirra ruddist inn í þinghúsið í Washington fyrr í kvöld. Nokkrir eru slasaðir og ein kona er látin eftir að hafa fengið skot í hálsinn í þinghúsinu.

Þingmönnum og varaforsetanum var forðað úr þinghúsinu með hraði fyrr í dag þegar stuðningsmenn Trumps brutu sér leið inn í húsið til að hindra að Joe Biden yrði formlega valinn forseti. Trump hefur hvatt áfram stuðningsmenn sína í dag með fölskum ásökunum um að svindlað hefði verið í forsetakosningunum í nóvember.

Trump sýnir hópnum samhug og skilning. „Þetta var yfirburðarkosning og allir vita það, sérstaklega hitt liðið.“

Hann bað stuðningsmenn sína að fara heim. „En þið verðið að fara heim núna. Við verðum að hafa frið. Við þurfum að virða okkar stórfenglega fólk sem starfar við lög og reglu. Við viljum ekki að neinn meiðist.“ 

Loks sagðist hann elska þá. „Farið heim, við elskum ykkur. Þið eruð mjög sérstök. Þið hafið séð hvað gerist. Þið hafið séð hvernig er komið fram við aðra, sem eru svo slæmir og svo illir. Ég veit hvernig ykkur líður. En farið heim og farið heim í friði.“

Í dag hefur Trump ítrekað kvartað undan kosningasvindli. Á útifundi með stuðningsmönnum sínum undir titlinum Save America sagðist hann aldrei ætla að gefast upp. Þá sagðist lögfræðingur hans og fyrrverandi borgarstjóri New York, Rudy Giuliani, vilja að skorið yrði úr um kosningarnar „í bardaga“. Tugum málaferla Trumps og Giuliani vegna kosningaúrslitanna hefur verið vísað frá dómstólum á undanförnum vikum.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu