Á undanförnum misserum hefur endurtekið verið fjallað í fjölmiðlum um erfið starfsskilyrði opinberra safna hér á landi. Svo virðist sem víða sé pottur brotinn þegar kemur að faglegum vinnubrögðum í safnastarfi, sem skilgreind eru í íslenskum lögum og alþjóðasiðareglum, og hagsmunaárekstrar koma reglulega upp sem draga úr starfsemi og jafnvel skaða orðspor safna.
Þannig hefur komið til endurtekinna uppsagna forstöðumanna vegna faglegs ágreinings við eigendur safna, eins og gerst hefur t.d. á Gerðarsafni; safnkostur hefur verið á hrakhólum vegna umdeildra pólitískra ákvarðana um húsakost, eins og gerst hefur til dæmis á Byggðasafni Skagfirðinga, Náttúruminjasafni Íslands og Listasafni ASÍ; og nú síðast afhjúpuðust óviðunandi varðveisluaðstæður fyrir safneignir margra stærstu safna í landinu í nýlegri umfjöllun Kveiks, eins og t.d. á Listasafni Íslands, Kvikmyndasafni Íslands og Þjóðskjalasafni Íslands.
Þessi dæmi vekja ekki eingöngu spurningar um ábyrgð og skyldur þegar kemur að faglegu safnastarfi, heldur einnig um hvaða stjórnsýslulegu verkfæri séu fyrir hendi til að tryggja virkt eftirlit með slíku starfi. Það er því tilefni til að staldra við og rýna í þá lagalegu umgjörð sem viðurkenndum söfnum er búin hér á landi. Hvaða stjórnsýslulegu verkfæri eru til staðar svo tryggja megi að söfn starfi eftir þeim lögum sem þeim hafa verið sett? Hversu vel eru yfirstjórnir safna upplýstar um þau lög og siðareglur sem söfnum er gert að starfa eftir hér á landi? Hvaða afleiðingar hefur það þegar lög og reglur eru brotin í söfnum? Hver er ábyrgð eigenda þegar slíkt gerist?
Hvað segja lögin?
Öll opinber söfn, sem hafa hlotið viðurkenningu Safnaráðs, starfa samkvæmt núgildandi safnalögum, sem tóku gildi 2013 og voru sett meðal annars í þeim tilgangi að efla starfsemi safna hér á landi og tryggja að menningar- og náttúruarfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða. Í 14. grein laganna kemur fram að söfn skuli leitast við að efla faglegt starf á sínu sviði og standast lágmarkskröfur um söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknir og miðlun. Í 10. grein, þar sem skilyrði fyrir viðurkenningu Safnaráðs eru útlistuð, kemur meðal annars fram að söfn skuli starfa í samræmi við skilmála um húsnæði, öryggismál, skráningarkerfi og faglega starfsemi. Í þessari sömu grein laganna kemur einnig fram að söfn skuli starfa í samræmi við siðareglur Alþjóðaráðs safna (ICOM) til að mega hljóta viðurkenningu Safnaráðs. ICOM eru frjáls félagasamtök sem hafa komið á fót faglegum viðmiðum og siðareglum fyrir safnastarfsemi á heimsvísu. Í siðareglunum eru útlistaðir lágmarksstaðlar fyrir faglega starfshætti á söfnum, og eru þeir grundvöllur alls safnastarfs aðildarfélaganna. Samtökin telja yfir 40.000 félaga, og þrátt fyrir þá gífurlegu fjölbreytni sem ríkir á safnasviðinu í yfir 140 löndum sem eiga aðild að samtökunum, þá hafa meðlimirnir komið sér saman um sameiginlegar leikreglur sem birtast í siðareglunum. Hér á landi er starfrækt Íslandsdeild ICOM, sem meðal annars styður íslensk söfn, safnstjóra og starfsfólk safna í að fylgja siðareglunum og vinna í átt að markmiðum Alþjóðaráðsins. Samkvæmt íslenskum safnalögum eiga öll viðurkennd söfn að starfa eftir siðareglum ICOM.
Hagsmunaárekstrar
Skoðum nú valda kafla úr þessum siðareglum nánar, í samhengi við spurningarnar sem ég varpaði fram hér í upphafi. Kveðið er á um að söfn skuli tryggja að gerðar séu viðeigandi öryggisráðstafanir á safneigninni (gr. 1.7), að við fjáröflun sé þess gætt að hvergi sé slegið af faglegum kröfum (gr. 1.10), að forstöðumaður skuli bera beina ábyrgð gagnvart viðkomandi yfirstjórn og jafnframt hafa fullan aðgang að þeim (gr. 1.13), og að starfsfólk skuli hafa sérþekkingu til að valda allri ábyrgð sem á það er lögð (gr. 1.14). Þá er kveðið á um faglega ábyrgð og faglega hegðun í siðareglunum (gr. 8.2 og 8.3), þar sem meðal annars kemur fram að starfsfólki sé heimilt að gera réttmætar athugasemdir við það sem telja má skaða safnið eða brjóta í bága við siðareglur starfsstéttarinnar.
„Þannig hefur komið til endurtekinna uppsagna forstöðumanna vegna faglegs ágreinings við eigendur safna“
En hvaða afleiðingar hefur það þegar safn brýtur þessar reglur? Hvert eiga safnstjórar að beina áhyggjum sínum telji þeir að yfirstjórnir hamli faglegum viðmiðum í starfi? Hjá hverjum liggur eftirlitshlutverkið gagnvart söfnum?
Samkvæmt 7. grein safnalaga liggur sú ábyrgð hjá Safnaráði, sem er helsta stjórnvaldstækið sem yfirvöld hafa til að framfylgja stefnumótun og sýn (þetta gildir ekki um höfuðsöfnin þrjú, Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands, þar sem sér lög gilda um hvert og eitt). Hins vegar má ekki lesa út úr lögunum hvernig Safnaráð starfrækir þetta eftirlitshlutverk, þótt gera megi ráð fyrir að það sé skrifað í innri verkferla og starfshætti ráðsins. Þá er ekki ljóst, hvorki á lögunum né siðareglunum, hvert safnstjórar safna eigi að leita ef um hagsmunaárekstra milli þeirra og yfirstjórna er að ræða. Hagsmunir, sem annars vegar varða faglegt starf og hins vegar rekstrarsjónarmið, og koma reglulega upp nú þegar nýfrjálshyggjumódelið gerir söfnum skylt að afla sértekna með öðrum hætti en faglegu safnastarfi (til dæmis með rekstri safnbúðar, útleigu á húsnæði, eða með veitingarekstri). Þetta rekstrarmódel er síður en svo bundið við íslenskt safnastarf og er nokkuð sem söfn alls staðar í heiminum þurfa að samþætta faglegu starfi. Einmitt þess vegna er fjallað um þetta í siðareglunum, þar sem kveðið er á um að hagræn sjónarmið megi aldrei vera yfirsterkari faglegu starfi, og að safnstjórar beri ábyrgð á að ekki komi til slíks. En hvað gerist þegar safnstjórar njóta ekki sannmælis meðal sinna yfirstjórna og sú faglega hagsmunavarsla, sem safnstjórar viðhafa í sínu starfi, nær ekki eyrum eigenda safna?
Ábyrgð eigenda
Eigendur viðurkenndra safna á Íslandi eru í langflestum tilfellum sveitarfélög, sem skipa kjörna fulltrúa í yfirstjórnir þeirra. Safnstjórar eru hins vegar ráðnir inn á grundvelli faglegrar þekkingar, reynslu og menntunar, og starfa sem slíkir í umboði yfirstjórna. Rétt eins og í fyrirtækjum eða stofnunum af hvaða tagi sem er, getur ágreiningur milli safnstjóra og yfirstjórna komið upp, svo sem í tengslum við ráðstöfun húsnæðis eða rekstur, en einnig getur ágreiningurinn risið um faglegt innra starf. Í slíkum tilfellum er gríðarlega mikilvægt að yfirstjórnir séu upplýstar um þá ábyrgð og skyldur sem fylgir því að eiga safn, og að fulltrúar í slíkum yfirstjórnum þekki þá ramma sem safnstjórum er gert að starfa eftir og bundnir eru í lög. Ef ekki tekst að leysa slíkan ágreining geta safnstjórar þurft að starfa gegn eigin fagvitund eða jafnvel brjóta vísvitandi í bága við lög og reglur. Í sumum tilfellum kjósa safnstjórar fremur að segja starfi sínu lausu en starfa við slíkar aðstæður.
Nýlegasta dæmið um ágreining af þessu tagi er uppsögn Jónu Hlífar Halldórsdóttur, fráfarandi forstöðumanns Gerðarsafns, sem er í eigu Kópavogsbæjar. Gerðarsafn er framsækið listasafn, þar sem boðið er upp á fjölbreytt sýningarhald á verkum íslenskra og erlendra samtímalistamanna samhliða sýningum úr einstakri safneign sem telur vel yfir 4000 verk. Það geymir meðal annars ævistarf Gerðar Helgadóttur, Barböru og Magnúsar Á. Árnasonar og Valgerðar Briem auk fjölmargra annarra listaverka sem tilheyra sameiginlegum menningararfi þjóðarinnar. Á undanförnum tveimur árum hafa tveir forstöðumenn, einn verkefnastjóri og þriggja manna ráðgjafarnefnd öll sagt upp störfum. Ástæður uppsagnanna voru þeir stjórnsýsluhættir sem Kópavogsbær hefur viðhaft varðandi Gerðarsafn og komið hafa áður fram í fjölmiðlum. Þrátt fyrir að bæði Myndlistarráð og Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM) hafi opinberlega lýst yfir áhyggjum af stöðunni hefur yfirstjórn safnsins ekki tjáð sig opinberlega um málið. Ekkert hefur heldur heyrst frá yfirstjórninni eftir að stjórn Íslandsdeildar ICOM sendi formlega ályktun til bæjarráðs Kópavogsbæjar, þar sem brýnt er fyrir bæjaryfirvöldum að virða siðareglur Alþjóðaráðsins í hvívetna. Í ályktuninni er einnig minnt á að yfirstjórnir skuli aldrei fara fram á að það við stjórnendur eða starfsfólk safna að það geri neitt það sem talið er stríða gegn siðareglum eða landslögum. Þá eru bæjaryfirvöld minnt á að það sé forstöðumaður safns sem gegni lykilhlutverki í starfi þess, að hann beri beina ábyrgð gagnvart viðkomandi yfirstjórn, og að hann skuli jafnframt hafa fullan aðgang að henni.
Virkar stjórnsýslan?
Í dæminu um Gerðarsafn virðist ágreiningurinn snúast um notkun á rými undir veitingastaðarrekstur. Hér hefur yfirstjórn safnsins, án samþykkis og samráðs við forstöðumanninn, tekið ákvarðanir varðandi safnrýmið þannig að verulega þrengir að bæði fræðslurými og sýningarrými, auk þess sem ráðstöfunin heftir aðgengi að lyftu og safneignargeymslu, sem aftur gerir flutning listaverka erfiða í framkvæmd. Þá hefur ólögleg áfengissala farið fram á vegum rekstraraðila veitingastaðarins í húsnæði safnsins, og sami rekstraraðili hefur staðið fyrir einkaviðburðum með veitingaþjónustu í safninu utan opnunartíma, án þess að starfsmanni frá safninu sé falið að tryggja öryggi verka í sýningarsölum og safneign. Ekkert af þessu samræmist íslenskum safnalögum eða alþjóðlegum siðareglum, og því má álykta að hvoru tveggja hafi verið brotið. Fráfarandi forstöðumaður hefur rakið fleiri ágreiningsmál í opnu bréfi sínu til yfirvalda í Kópavogsbæ, sem ekki verða tíunduð hér. Staðan vekur hins vegar brýnar spurningar um stjórnsýslulega umgjörð safna í stærra samhengi en á við um Gerðarsafn, um samband eigenda og safnstjóra, um ábyrgð og skyldur eigenda og yfirstjórna andspænis ábyrgð safnstjóra (sem er skýr í lögum og reglum). Þá má einnig álykta, af áður útkominni umfjöllun í fjölmiðlum, að forstöðumaðurinn hafi verið orðinn einangraður frá yfirstjórn og ekki lengur haft aðgengi að henni til að koma faglegum sjónarmiðum sínum til skila. Það er einnig brot á þeim lögum og reglum sem íslenskt safnastarf byggir á. Hvað er til bragðs að taka í stöðu sem þessari? Á Safnaráð, sem formlegur eftirlitsaðili safna, að beita sér með skýrari hætti hér?
Dæmið um Gerðarsafn er ekki einsdæmi og mikilvægt að ábyrgðaraðilar safna um allt land taki það til sín. Mikilvægt er að kjörnir fulltrúar og aðrir þeir sem sitja í yfirstjórnum safna treysti þeim safnstjórum sem hafa verið ráðnir til að stýra söfnum á grundvelli fagmennsku sinnar, að því gefnu að þeir hafi verið ráðnir að undangengnu formlegu hæfismati. Brýnt er að sveitarfélög taki hlutverk sitt sem safnaeigendur alvarlega og tryggi að faglegt starf sé ávallt í samræmi við íslensk safnalög og alþjóðlegar siðareglur, eins og safnstjórar eru meðvitaðir um og sjá til þess að viðhaft sé í hverju safni.
Athugasemdir