Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 3 árum.

Veiran nú meira smitandi - Aðgerðir verði hertar

Alma Möller land­lækn­ir og Þórólf­ur Guðna­son sótt­varna­lækn­ir ásamt Víði Reyn­is­syni yf­ir­lög­reglu­þjóni fóru yf­ir stöðu mála vegna Covid-19.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir greindi frá því á nýyfirstöðnum upplýsingafundi Almannavarna að samfélagssmit covid-19 væri enn að færast í vöxt, þrátt fyrir að vonir hefðu staðið til að þeim fækkaði. Stórar hópsýkingar tengdar Landakotsspítala og Ölduselsskóla hafa þar áhrif, en einnig er fjöldi smærri hópsýkinga tengdur veislum, vinahópum, fjölskyldum, íþróttaiðkun og vinnustöðum. „Það er ákveðið áhyggjuefni,“ sagði Þórólfur. Um fimmtíu klasar sýkinga hafa greinst í samfélaginu undanfarið.

Hann mun leggja til að aðgerðir verði hertar, í tvær til þrjár vikur. Fyrirliggjandi er áætlun um tilslakanir ef vel gengur. Hluti af lausninni er, að sögn Þórólfs, að „allir gæti vel að því að þeir mæti ekki veikir í vinnuna“ og „allir gæti vel að sínum einstaklingsbundnu sýkingavörnum og forðist hvers konar óþarfa hópamyndun.“

Fólki er ráðlagt að vera duglegt að þrífa handrið, handföng og hurðarhúna í stigagöngum. Sem og að sleppa því að hafa hendurnar í andlitinu, svo veiran berist ekki um munn, nef eða augu.

Meira smitandi

Alma Möller landlæknir sagði að svo virtist sem það afbrigði kórónaveirunnar, sem nú fer um samfélagið, sé meira smitandi en fyrri afbrigði. „Það virðist sem að þetta afbrigði veirunnar, sem við erum að fást við núna, kunni að vera meira smitandi en þau sem við höfum áður fengist við. Ég verð eiginlega að segja, hvernig mætti eiginlega annað vera miðað við hvernig við sjáum þróun faraldursins. Og smitstuðullinn hefur verið hærri. Eins benda raðgreiningarupplýsingar erlendis frá í þessa átt.“

Þá segir hún hins vegar að færri fari á gjörgæslu og færri hafi látist en í fyrstu bylgju faraldursins í vor. 

„Staðan á Landspítala er gríðarlega snúin og þar er mikið álag,“ sagði Alma.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, gat ekki mætt á upplýsingafundinn. Alma hefur eftir Páli að starfið á covid-göngudeildum og -legudeildum gangi þó vel. „Staðan á Landakoti er áfram þung en gengur betur. En þar er ótrúlega krefjandi staða. Það eru skilaboð og hvatning til hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða um að liðsinna Landakoti. Það væri mjög vel þegið. Hvort heldur er í gegnum bakvarðasveit eða hafa samband beint við Landspítala í netfangið monnunarteymi@landspitali.is,“ sagði Alma.

Samfélagssmit á uppleið

42 einstaklingar greindust innanlands í gær með Covid-19, þar af helmingur ekki í sóttkví. Áhrif hefur að færri sýni voru tekin en undanfarna daga, eða um tvö þúsund.

„Kúrva samfélagssmita er uppávið, sem er heldur óæskileg þróun,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði hærra nýgengi sjúkdómsins gæti skýrst af því að samfélagið hefði ekki hægt á sér með sama hætti og í fyrri bylgju faraldursins. „En við sjáum líka hvað við höfum verið að gera. Við vorum með misvísandi skilaboð og þau draga auðvitað úr trúverðugleika og rugla fólk.“ Hann sagði að breytingar tilmæla síðustu 12 vikur hafi verið um 14 til 17 talsins, sem sé ruglandi og hafi áhrif á þátttöku fólks.

Víðir sagði að markmiðin væru þríþætt, byggð á því sem dugði til að kveða niður fyrstu bylgjuna: „Það er í fyrsta lagi að verja heilbrigðiskerfið, það er í öðru lagi að takmarka innflæði veirunnar við landamæri, og í þriðja lagi að hefta samfélagsleg smit, þannig að hægt sé að hafa sem opnasta samfélagið með minnstu takmörkunum.“

Hann sagði markmiðin skýr og þau sömu og höfð hefðu verið allan tímann, en umræðuna fara um víðan völl. „Umræður um veirufrítt samfélag eða að láta veiruna flæða hér um eru ekki frá okkur komin,“ sagði hann.

62 eru nú á spítala smitaðir af covid-19, þar af tveir á gjörgæslu og einn í öndunarvél. Einn einstaklingur á níræðisaldri lést í gær á Landspítalnum í Fossvogi.

Nokkur stór hópsmit hafa orðið, sem hækka hlutfallslega fjölda fólks í viðkvæmum hópum með covid-smit.

Hópsýkingar víða

Undanfarna daga hefur mátt rekja 140 tilfelli til Landakotssmitsins svokallaða. Þar af eru um 90 tilfelli á öldrunarlækningadeildinni á Landakoti, sjö á Reykjalundi og 24 á Sólvöllum. Auk þess eru 21 með óbein tengsl. „Það er kannski það sem við höfum haft töluverðar áhyggjur af, að þau smit fari að dreifast og komast út í samfélagið,“ sagði Þórólfur.

44 tilfelli hafa greinst tengt Ölduselsskóla, þar af flestir nemendur, auk tengsla út fyrir skólann.

Auk þessara smita hafa litlar hópsýkingar greinst víða, sem tengjast fjölskyldum, veislum, vinahópum, vinnustöðum og jafnvel íþróttum. „Við erum áfram með litlar hópsýkingar víða og það vekur áhyggjur af því að við séum ekki að ná tökum á þessu samfélagslega smiti,“ sagði Þórólfur.

Hann sagði mikilvægt að standa saman þar til „gott og öruggt bóluefni kemur á markaðinn“.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Covid-19

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu