Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 3 árum.

Í neti narsissistans

Það er auð­velt að flækj­ast í net nars­iss­ist­ans óaf­vit­andi um hvað bíð­ur okk­ar, en átt­ir þú því á að þú ert fórn­ar­lamb slíks ein­stak­lings skaltu koma þér í burtu hið fyrsta.

Í neti narsissistans
Sigríður Björk Starfar í Bjarkarhlíð þar sem hægt er að fá faglega aðstoð við að vinna úr afleiðingum samskipta við sjálfsdýrkendur. Mynd: Heiða Helgadóttir

Undanfarnar vikur hefur borið á aukinni umræðu um ofbeldi í samfélaginu meðal annars vegna álags sem myndast hefur inni á heimilum í einangrun. Ástæður þess að fólk beitir ofbeldi geta verið fjölmargar en stundum getur verið um að ræða ákveðna persónugerð sem kallast „Sjálfsupphafningar-persónuleikaröskun“ eða „sjálfsdýrkandi“ (narsissisti). Við höfum öll heyrt orðinu „narsissisti“ fleygt í daglegri umræðu. Mörg erum við í samskiptum við einstaklinga sem bera  þessi einkenni og lendum jafnvel í ástarsambandi við þá og mun þessi grein fyrst og fremst taka á slíkum samböndum. Sjálfsdýrkandinn getur verið af hvaða kyni sem er en til að auðvelda textaflæði verður almennt rætt um hann í karlkyni og þolandann í kvenkyni. 

Hvað er sjálfsdýrkandi eða narsissisti?

Hugtakið „narsissisti“ er komið úr grískri goðafræði þar sem fallega goðið Narsissus var svo upptekinn af eigin spegilmynd að hann féll út í spegilslétt vatnið og drukknaði. Það er auðvelt að flækjast í net narsissistans óafvitandi um hvað bíður okkar. Þessir einstaklingar eru oft mjög aðlaðandi í fyrstu, bera þig á höndum sér, umvefja þig lofi og bera þig gjarnan saman við annað fólk í lífi sínu sem ekki hefur reynst þeim vel. Þannig færðu að heyra hvernig „aðeins þú“ hafir fengið að skyggnast inn í sálarlíf þeirra þar sem þú sért á flestan hátt betri en hinir makarnir. Hverjum finnst ekki gott að upplifa slíka aðdáun? Þegar þeir hafa náð þér í net sitt fer oft að bera á annarri hegðun, jafnvel strax í brúðkaupsferðinni. 

Orðabækur tala gjarnan um að þetta eigi við fólk sem sé mjög sjálfhverft, yfirborðskennt og eigingjarnt en geðlæknisfræðin og sálfræðin nálgast þetta út frá greiningarsjónarmiði sem byggt er á áralöngum rannsóknum. Þar er talað um sjálfsupphafningar-persónuleikaröskun sem eina af 10 tegundum persónuleikaraskana í greiningarkerfi sálfræðinnar (DSM-V). Narsissismi er samansafn einkenna og ef þau eru nægilega mörg og hafa nægilega eitrandi áhrif á sálarlíf einstaklingsins og sambönd við aðra er talað um persónuleikaröskun. Talið er að um 1% einstaklinga greinist með þessa röskun og hún sé algengari hjá karlmönnum. Fagfólki greinir þó á, þar sem almennt er talið að fagaðilar greini konur frekar með jaðarpersónuleikaröskun (borderline personality disorder) sýni þær af sér þessa hegðun og sé tíðnin í raun hærri, jafnvel 4%. Einkenni sjálfsdýrkunar finnast í samfelldri heild, frá heilbrigðri sjálfsdýrkun, til óheilbrigðra einkenna og allt til sjúklegrar sjálfsupphafningar-persónuleikaröskunar. Við erum öll með einhverja narsissíska eiginleika en það er verulegur stigsmunur á eðlilegri sjálfhverfu við ákveðnar aðstæður og narsissisma. Narsissistinn þarf þó ekki að sýna öll einkenni sjálfsupphafningar-persónuleikaröskunar til að valda þolandanum miklu sálrænu tjóni. 

„Narsissistinn þarf þó ekki að sýna öll einkenni sjálfsupphafningar-persónuleikaröskunar til að valda þolandanum miklu sálrænu tjóni“

Í DSM-V er fyrirbærinu lýst sem endurteknu mynstri af hugmyndum um eigin yfirburði og ágæti hvort sem það er í hegðun eða hugarheimi viðkomandi, mikilli þörf á aðdáun annarra og skorti á raunverulegri samkennd með þeim sem eru að ganga í gegnum erfiðleika. Þegar sagt er „raunverulegri“ þá er átt við að einstaklingurinn geti lært að í ákveðnum aðstæðum hafi fólk þörf fyrir stuðning og átti sig fljótt á að stigi hann inn sem stuðningur geti hann hlotið aðdáun og virðingu – einmitt það sem hann þarfnast. Stuðningurinn snýst því ekki um þann sem er í erfiðleikum heldur um tilfinninguna sem skapast innra með sjálfsdýrkandanum. Hann finnur til mikilvægis en finnur lítið til með einstaklingnum og getur því oft verið klaufalegur í nálgun sinni og missir fljótt áhugann á stuðningshlutverkinu dragist það á langinn eða fái hann ekki nógu mikið lof og þakklæti fyrir stuðninginn. 

Í greiningarkerfinu DSM-V eru nokkrir þættir dregnir fram sem gott er að hafa í huga teljir þú þig vera í samskiptum við narsissista. Sá aðili:

  • Er með upphafna hugmynd um sjálfan sig (til dæmis ýkir afrek sín eða hæfileika, til dæmis í íþróttum, „var bestur endurtekið“, ætlast til þess að vera séður sem afreksmaður þrátt fyrir að hafa ekki til þess unnið). 

  • Er upptekinn af hugmyndum um völd, frama, fegurð og fullkomið ástarsamband.

  • Upplifir sig einstakan, æðri öðrum og ætlast til að vera meðhöndlaður sem slíkur og leitar eftir því að umgangast fólk sem nýtur virðingar og velur sér oft þannig maka.

  • Hefur mikla þörf fyrir aðdáun og hrós – gjarnan endurteknir póstar á samfélagsmiðlum sem segja frá hamingju eða sigrum, eigin eða barna sinna. 

  • Telur sig eiga meiri rétt en aðrir  (til dæmis þurfa ekki að fara í röð eða fá afslætti eða tilboð sem aðrir fá ekki).

  • Nýtir sér persónuleg sambönd til að fá sínu fram.

  • Skortir samkennd, neitar að horfast í augu við hvernig hegðun hans gæti hafa sært aðra. Hefur lítinn áhuga á tilfinningum eða þörfum annarra eða slíkri umræðu. Setningar eins og „ef þú myndir snúa þessu við, hvernig liði þér þá“ gera hann argan því hann tengir á engan hátt við slíkt.

  • Er oft afbrýðisamur út í aðra eða hefur hugmyndir um að aðrir öfundi sig.

  • Hefur fram úr hófi álit á eigin ágæti og sjálfhverfur.

  • Sýnir sterk neikvæð viðbrögð við gagnrýni eða neikvæðum athugasemdum. Notar setningar eins og „hvernig dirfistu ...“ og myndi til dæmis bregðast illa við því að upplifa það að gengið væri framhjá honum.

  • Hefur lágt sjálfsmat sem oft er falið með yfirborðskenndri hegðun og jafnvel hroka og yfirlæti. Stærir sig fyrir framan aðra.

Aðrir þættir sem einkenna sterklega sjálfsdýrkandann eru að þeir eiga gjarnan í erfiðleikum og átökum í flestum nánum samböndum, þar með talið ástarsamböndum, samböndum við börn, tengdabörn, vinnuveitanda, systkini, maka þeirra og aðra, en oft ekki við vini. Þrátt fyrir að DSM-V skipti þessu svona upp þá sýna rannsóknir betur og betur fram á að sjálfsdýrkun getur skipst í undirtýpur sem of langt mál er að fara út í hér. 

Sjálfsdýrkandinn eyðir mikilli orku í að byggja upp varnir til að vernda sjálfan sig, svo sem að þróa „falskt sjálf“. Þessi uppgerð veldur því að hann er stöðugt á varðbergi gagnvart „afhjúpun á þessu falska sjálfi“ sem gerir hann ofurviðkvæman fyrir gagnrýni. Til að viðhalda blekkingunni og vernda falska sjálfið krefst narsissistinn fullkominnar speglunar, smjaðurs og viðbragða frá umhverfi sínu þar sem upplifaður sigur er tekinn fram yfir siðferði og heilindi. Hann skortir oftast tilfinningastjórn, fær ófyrirsjáanleg reiðiköst ef álag eykst eilítið og lítið þol er gegn áreiti og álagi. Hann er hégómafullur, þarf stöðugt að hafa rétt fyrir sér og lætur ekki undan í ósætti nema sjá í því aukinn hag fyrir sjálfan sig. Einnig er áberandi skortur á eftirsjá, skömm eða samkennd í garð annarra og hann á auðvelt með að brjóta illilega á maka sínum, svo sem með framhjáhaldi og daðri (jafnvel í viðurvist maka), illu umtali um makann eða skorti á stuðningi í augljóslega erfiðum aðstæðum. Hann virðist svo geta óhikað horft framan í nærumhverfi sitt í kjölfar slíkrar hegðunar og reynir jafnvel að réttlæta hegðunina og koma henni á einhvern hátt yfir á makann: „Ég hélt bara framhjá því mig skorti ást og umhyggju heima hjá mér“, „ég ákvað að koma ekki heim í nótt, þú varst hvort sem er svo upptekin uppi á spítala hjá mömmu þinni“ eða með öðrum orðum, „þér er refsað fyrir að hafa ekki fulla athygli á mér“. 

„Ég hélt bara framhjá því mig skorti ást og umhyggju heima hjá mér“

Oft er talað um „narsissitic supply“ eða „narsissíska athygli“. Narsissísk athygli er í raun og veru allt sem verndar narsissistann frá skammartilfinningu eða höfnun og verndar þannig brothætta sjálfsmynd hans.  Um er að ræða annars vegar athygli (líka neikvæða) sem hann upplifir sjálfur á opinberan hátt (svo sem frægð og frami) eða á persónulegan hátt (svo sem aðdáun, lof, ótti, andúð). Hins vegar er um að ræða athygli sem hann fær út á annað fólk eða hluti í sínu lífi svo sem maka, börn, vini og jafnvel viðskiptavini. Þessi síðari athyglisgerð gerir narsissistanum kleift að lifa eðlilegri tilveru, veitir honum stolt, fjárhagslegt öryggi, félagslega viðurkenningu og tengslin sem hann þarfnast. Einnig geta þetta verið hlutir eins og glæsilegur bíll, fasteignir, föt, vera meðlimur í félagi eða fyrirtæki eða allt sem virkar sem stöðutákn fyrir sjálfsdýrkandann og veitir honum því narsissíska athygli. Sjálfsdýrkandinn hefur lítið þol fyrir takmörkunum annarra og sérstaklega barna sinna og maka. Börnin þurfa helst að skara fram úr, fá hæstu einkunnir, ná hæstu menntunarstigum og fá bestu vinnuna eða háa stöðu. „Standi“ makinn sig ekki eða börnin þá upplifir hann að þetta endurspegli hann og bregst gjarnan argur við, því á sama hátt og með sigra, sér hann mistök náinna sem framlengingu á sjálfum sér. Þetta getur oft skapað þá tilfinningu hjá börnum og maka að þau geri aldrei nóg. Á sama hátt leggur hann sig fram við að gera lítið úr sigrum þessara aðila ef ekki hefur verið gefið rými fyrir narsissistann til að njóta afrakstursins líka. Gjarnan upplifa þeir eigið framlag (þó lítilfjörlegt sé) sem fram úr hófi og vænta mikils þakklætis og viðurkenningar fyrir. Þeir væru til dæmis líklegir til að mæta ekki á mikilvægan atburð maka sínum til heiðurs, eins og verðlaunaafhendingu og jafnvel ásaka makann um sjálfhverfu í því samhengi (svo sem einhver þarf að sinna börnunum í kvöld, ekki gerir þú það). 

Sjálfsdýrkandi myndar ekki auðveldlega djúpa tengingu eða tilfinningasambönd við fólk og eiga þessir einstaklingar oft yfirborðskennd vinasambönd sem oft byggja á aðdáun og gagnrýnisleysi „vina“ sem fá einungis að kynnast upphafinni sjálfsmynd narsissistans. Átök eru því ekki algeng í þessum tengslum. Oft eru þetta einstaklingar sem sjálfsdýrkandinn velur vegna þess að honum steðjar ekki ógn af þeim og öðlast mikilvægi hjá eða nær valdi yfir, til að mynda með að vera hjálplegur gagnvart þeim, til dæmis með því að veita þeim fría þjónustu og því upplifaður sem einstaklega góður vinur. Þessir einstaklingar virðist stundum hreinlega „dýrka“ narsissistann og eru tilbúnir að ganga fram til að tala máli hans eða verja hann og myndu til dæmis hringja í börnin, makann eða aðra til að tala máli hans óafvitandi að þau er lítið annað en tól í stjórnunarleik hans. 

Hvað veldur narsissisma eða sjálfdýrkun?

Það er ákveðinn ágreiningur innan sálfræði og geðlæknisfræðinnar um hvers vegna þetta gerist en almennt er talið að þetta sé afurð uppeldis frekar en erfðafræðileg arfleifð. Það getur þó verið um sambland hvoru tveggja að ræða.

Það sem fræðimenn hafa lagt fram sem líklega þætti sem stuðla að sjálfsdýrkun eru eftirfarandi:

  • Vanræksla í æsku og óöryggi, svo sem ef foreldri er lítið til staðar eða sinnir tilfinningaþörf lítið.

  • Ýkt hól foreldra eða skortur á hvatningu í uppeldinu sem gefur barninu ranga hugmynd um eigin getu eða afrek og skortur getur þá leitt af sér upphafna sjálfsmynd.

  • Óútreiknanleg hegðun uppalanda, svo sem ef foreldri á við áfengisvanda að stríða eða er tilfinningalega kalt og bregst ekki við tilfinningum eða fallegum gjörðum barns á sama hátt og aðrir foreldrar, svo sem ef barnið kemur og sýnir mynd sem það hefur teiknað og foreldri lítur varla við henni eða ýtir barni frá sem þráir snertingu.

  • Mikill og djúpstæður ótti við höfnun annarra vegna höfnunar foreldris í einhverju formi, svo sem með lítilli viðveru eða skorti á atlæti. Frá þessu sprettur þá þessi mikla þörf fyrir aðdáun og viðurkenningu annarra.

Þegar við önnumst ungbörn þá spyrjum við lítið út í þarfir þeirra. Við fæðum þau og klæðum, knúsum þau og elskum og reynum að uppfylla allar þeirra þarfir án þess að gera kröfur um nokkuð til baka frá þeim. Þegar barnið þroskast lærir það að aðrir í kringum það hafa þarfir og áttar sig á að mikilvægt er að taka tillit til annarra og skilja ólíkar aðstæður fólks eða láta af eigin þörfum á stundum. Barn sem þróar með sér narsissisma lærir þetta ekki eða illa og hefur því kröfur til umhverfis síns um að sínum þörfum sé mætt án skilnings á þörfum annarra eða tilfinningum. Oft er um að ræða veikt fjölskylduumhverfi þar sem foreldrar og aðrir nákomnir hafa ekki burði eða tíma til að sinna barninu og grunnþörfum þess. Þetta á fyrst og fremst við um tilfinningalegar grunnþarfir eins og hlýju og umhyggju, alúð, knús, samtöl um tilfinningar og nánd eins og að fá að kúra hjá mömmu eða pabba. Einnig, ef fái barnið allt sem hugurinn girnist lærir barnið litla streitustjórnun, þolinmæði eða þrautseigju í erfiðum aðstæðum. Það má því segja að narsissistinn sé í raun vanrækt og einmana barn sem hefur gripið til innri úrræða til að auka eigið mikilvægi og ágæti. Það er þó ýmislegt sem bendir til einhvers erfðaþáttar þar sem heilu fjölskyldurnar geta verið með sterk narsissísk einkenni og jafnvel siðblindu. Þó siðblinda sé oft einkenni hjá einstaklingum með sjálfsdýrkun þá heyrir siðblinda undir enn aðra af 10 tegundum persónuleikaraskana eða andfélagslega persónuleikaröskun. Einstaklingar geta oft verið með einkenni tveggja eða fleiri ólíkra raskana sem gerir greiningu og meðferð oft flóknari. 

„Það má því segja að narsissistinn sé í raun vanrækt og einmana barn sem hefur gripið til innri úrræða til að auka eigið mikilvægi og ágæti“

Ef sjálfsdýrkandinn er endurtekið ásakaður um tillitsleysi, skort á samkennd, yfirgang eða annað getur hann lært hvernig gott sé að bregðast við þrátt fyrir að hann upplifi ekki skömm eða sekt. Þeir geta því verið ágætir í að segja hluti eins og „ég vil bara gera það sem er best fyrir alla“, „ég set sjálfan mig aldrei í forgang“ eða aðrar svipaðar setningar sem hafa það að markmiði að leiða umhverfið á villigötur. Á sama tíma upplifa einstaklingarnir í kring að gengið sé yfir þá, lítið tillit tekið til þeirra, ósanngjarnar kröfur settar fram og upplifa því oft ákveðna „ringulreið“ í tilfinningalífi og hugsunum. 

Sjálfsdýrkandinn er einstaklega slyngur í að spila hlutverk fórnarlambsins og næla sér í stuðning úr nærumhverfinu. Til að ná því fram svífst hann ekki neins og segir það sem honum dettur í hug til að ná í samkennd. Afar mikilvægt er að biðja fólk sem þig grunar að gætu verið sjálfsdýrkendur um staðreyndir. Þeir segja setningar eins og „hún er búin að senda mér fullt af ljótum skilaboðum ...“; „hún er búin að hafa af mér allar eigur ...“; „ég er bara á götunni ...“. Biðjið um að fá að sjá gögn eða aðra haldbæra hluti sem ekki er hægt að hrekja en fyrst og fremst skulið þið biðja um hina hlið málsins nema þú kjósir að vera eins og korktappi í ólgusjó narsissistans. Staðreyndir eru gjarnan í hrópandi ósamræmi við orðin. Hann bregst oftast ekki vel við slíkri bón og ásakar þig um að standa með hinum aðilanum og fær þig þannig til að draga þig í hlé, gjarnan með því að vekja hjá þér sektarkennd, til að halda friðinn. Hann kemst því oft langt í ásökunum sínum án þess að fólk sjái nokkurn tíma haldbær gögn. Þessar upplýsingar eru einstaklega mikilvægar í heimi lögmennskunnar þar sem narsissískir einstaklingar geta keyrt upp lögmannskostnað einungis byggt á orðum sínum og komast oft upp með það í lengri tíma að leggja ekki fram haldbær gögn máli sínu til stuðnings og mála sig sem fórnarlamb.

Er kynjamunur á narsissískri hegðun karla og kvenna? 

Félagsmótun kynjanna getur orðið til þess að karlkyns og kvenkyns sjálfsdýrkendur þróa með sér ólík sálfræðileg kænskubrögð. Kvenkyns narsissistar virðast hafa tilhneigingu til að aðlagast samfélagslegum viðhorfum að konur séu blíðar, góðar, umhyggjusamar, góðar mæður og svo framvegis. Narsissískar konur eru því líklegri til að hegða sér á meira óbeinan hátt en karlkyns narsissistar. Því eru þær ekki eins líklegar til að vera viðurkenndar sem sjálfsdýrkendur í samfélaginu og er oft fjallað um hinn hefðbundna narsissista sem karlmann. 

Það er algengur misskilningur að karlkyns sjálfsdýrkendur séu almennt árásargjarnari en kvenkyns sjálfsdýrkendur, í reynd eru bæði kynin jafn árásargjörn en láta það í ljós með ólíkum hætti. Hann er líklegri til að láta í ljós ógnandi líkamleg tjáskipti (svo sem slá, öskra, ógna) en kvenkyns narsissistinn er líklegri til að nota  „tengslaárásargirni“. Þá er um að ræða dulda fyrirætlun um að skaða þolandann með því að koma höggi á félagsleg tengsl og vinatengsl. Þetta gerist mest í gegnum tilfinningalegt ofbeldi (baktjaldamakk, hótanir, dreifa sögusögnum, halda fólki aðskildu, segja öðrum að tengjast ekki einhverjum, illt umtal við aðra) og nær þannig að gera makann óöruggan og ringlaðan. 

„Þá er um að ræða dulda fyrirætlun um að skaða þolandann með því að koma höggi á félagsleg tengsl og vinatengsl“

Þessi lúmska list tilfinninglegrar eyðileggingar er iðkuð daglega af narsissískum konum alls staðar. Eineltishegðunin gegnsýrir öll sambönd kvenkyns sjálfsdýrkandans án tillits til hvort það er á heimilinu, stórfjölskyldunni, vinnustaðnum eða í félagasamtökum. Í þessari tegund árásar er hótunin um einhvers konar útskúfun notuð til að skaða þolandann og ávinningurinn liggur í því virði sem fórnarlambið setur í að tilheyra fjölskyldu, skóla, vinnustað eða öðrum hópi. 

Oft er erfitt fyrir þolandann að tala um þessa tegund ofbeldis. Augljós líkamleg árásargirni karla er auðþekkjanleg af öllum og þolandanum sjálfum en oft er mjög erfitt að þekkja og útskýra duldu tengslaárásargirnina. Fórnarlambið er því oft ráðvillt gagnvart því að bera kennsl á sálfræðilega ofbeldið sem það upplifir. Narsissíska konan er líka mjög snjöll í að reiðast ekki í viðurvist vitna en þegar hún nær þolandanum einum blasir harðgerð refsing við.

GaslýsingEinstaklingar sem verða fyrir mikilli gaslýsingu í samböndum fara að upplifa mikla ringulreið, efast um geðheilsu sína og minni.

Hvað er gaslýsing (gaslighting) eða villuljós?

Hugtakið gaslýsing er byggt á kvikmyndinni „Gaslighting“ frá 5. áratugnum þar sem eiginmaður reynir að telja konu sinni trú um að hún sé að missa vitið til að geta lagt hana inn á geðsjúkrahús og tekið yfir arf hennar. Er þetta algeng aðferð narsissistans til að fá sínu fram og snýst hún um það að fá þig til að efast um upplifanir þínar eða raunveruleika og hefur því stundum einnig verið nefnd „villuljós“. Einstaklingar sem verða fyrir mikilli gaslýsingu í samböndum sínum við sjálfsdýrkendur fara að upplifa mikla ringulreið, efast um geðheilsu sína og minni og geta verið komnir í mikla vanlíðan og óöryggi ef ekki er gripið inn í. 

Gaslýsing hefur verið skilgreind á ýmsan hátt en góða samantekt er að finna hjá National Domestic Hotline í Bandaríkjunum þar sem framsetningin er eftirfarandi:

  • Að halda aftur af samskiptum (neita að hlusta eða segjast ekki skilja eitthvað sem ætti að vera flestum auðskiljanlegt).

  • Þegar reynt er að telja þér trú um að minning þín af ákveðnu atviki sé röng.

  • Þegar reynt er ítrekað að skipta um umræðuefni eða gagnrýna það hvernig þú hugsar um hluti. 

  • Þegar gert er lítið úr tilfinningum þínum eða þörfum.

  • Þegar viðkomandi þykist hafa gleymt því hvað gerðist eða neitar einhverju sem hann hafði áður viðurkennt að átti sér stað. 

Gaslýsing er versta form andlegs ofbeldis og fer afar illa með sálarlíf fólks og er fólki því almennt ráðlagt að komast undan þessum samböndum um leið og það áttar sig á stöðunni. Að lenda í því að efast um raunveruleika sinn er eitthvað sem skilur á endanum á milli góðrar eða slæmrar geðheilsu. Góð geðheilsa á grunn sinn í sterkum raunveruleikatengslum.

„Mikilvægt er að vernda sjálfan sig og aðra nákomna frá þessum eitruðu samskiptum“

Mikilvægt er að vernda sjálfan sig og aðra nákomna frá þessum eitruðu samskiptum. Ef fólk er búið að vera lengi í samskiptum við narsissíska einstaklinga er það stundum búið að þróa með sér áfallatengsl (traumatic bonding) sem er skilgreint innan sálfræðinnar sem óheilbrigð tengsl sem myndast á milli einstaklings sem beittur er ofbeldi og þess sem því beitir. Þetta er betur þekkt sem „narsissískt fórnarlambsheilkenni“ og stundum verið kallað „Stokkhólmsheilkenni“. Án umtalsverðrar þekkingar á sjálfsupphafningar-persónuleikaröskun er erfitt fyrir meðferðaraðila að skilja hin yfirþyrmandi áhrif narsissíska ofbeldisins á þolandann, áhrif sem eru svo máttug að þau geta endað í narsissísku fórnarlambsheilkenni. Þolandinn lærir fljótt að hótunum er framfylgt svo hann upplifir sig í raunverulegri hættu. En á ruglingslegan hátt getur hann einnig hlotið svolitla góðvild frá narsissistanum svo hann skynjar sig tengdan aftur og tengingin færir honum öryggistilfinningu á ný. Hann fer að finna til samúðar með honum, verja hann og sætta sig við aðstæður sínar því hann trúir því að það auki líkur á því að hann komist klakklaust frá erfiðum aðstæðum eða „ef ég hlýði þá á ég betri möguleika“.

Hvernig þekkjum við gaslýsingu?

Ef þú ert fastur/föst í neti narsissistans vegna fjölskyldutengsla þarf mesta vinnan að fara fram innra með þér. Ekki leyfa honum að beita þig gaslýsingu. Þegar setningar eins og „það er bara ekki rétt hjá þér, ég hef aldrei sagt það ...“, „þetta er bara algjör ímyndun í þér, þú ert bara eitthvað óeðlilega viðkvæm ...“, „ég skil bara alls ekki hvers vegna þú ert að gera svona mikið mál úr engu ...“, „það er með ólíkindum hvað þú ert sjálfselsk ...“, „ertu að verða eitthvað geðveik“ eru orðnar algengar í lífi þínu (eða aðrar svipaðar) skaltu hugsa vandlega hvort verið sé að beita þig gaslýsingu. Narsissistar nota þetta í alls kyns samhengi, í ástarsambandi, vinnusambandi eða jafnvel gagnvart hópi fólks eins og Robin Stern, höfundur bókarinnar „The gaslight effect“, hefur ásakað Donald Trump um að gera með setningum eins og „I never said that ...“ þó svo að fyrir liggi harðar staðreyndir fyrir hinu gagnstæða. 

Þolandinn fer því oft á öfgakenndan hátt að leita staðfestinga á því að upplifun sé rétt, svo sem að skoða síma maka síns til að reyna að sýna fram á að upplifun hans sé rétt og ekki sé um ímyndun að ræða og þannig sýna af sér hegðun sem hann myndi annars aldrei hafa sýnt. Þannig nær sjálfsdýrkandinn yfirhöndinni, þú hefur nú gert eitthvað gagnrýnivert og nú er hægt að halda því yfir höfði þér. „Sálfræðingurinn minn segir að þú sért klikkuð ...“, „vinir mínir segja að þú beitir mig ofbeldi ...“, og á endanum er ekkert eftir annað en að leggjast á grúfu í vanlíðan þar sem þú átt orðið erfitt með að skilja á milli raunveruleika og ímyndunar og láta allt yfir þig ganga sem er að gerast í kringum þig, samþykkja frásagnir og réttlætingar sjálfsdýrkandans sem raunveruleika þinn eða koma þér hið fyrsta í burtu hljóðlega og varlega. 

„Sálfræðingurinn minn segir að þú sért klikkuð“

Það er þó því miður oft þannig að margir bregðast við með því að samþykkja að upplifun þeirra sé röng, aðlaga hana að frásögn narsissistans, þrátt fyrir að vita betur, allt til að forðast átök og láta sambandið ganga – dæmigerð áfallatengsl. Narsissistinn er þó gjarn á að láta sér leiðast og fer fljótt að leita eftir einhverju meira spennandi og finnur sér oft viðhald til að gera lífið litríkara. Athyglin og viðurkenningin sem makinn fékk í upphafi fjarar út. Oft endar framhjáhaldið ekki í skilnaði því sjálfsdýrkandinn nær að sannfæra makann um að framhjáhaldið hefði aldrei átt sér stað ef makinn hefði bara staðið sig betur eða að þetta hafi á einhvern hátt verið makanum að kenna. Óttinn, þjáningin, ruglingurinn, innra umrótið og ringulreiðin sem þolandinn upplifir veldur því að hann „tiplar á tánum“ til að forðast frekari átök við narsissistann. Ofbeldið er oft mjög lúmskt, lævískt og  óbeint þar sem sjálfsdýrkandinn leggur mikið á sig til að forðast að vera álitinn ofbeldisfullur opinberlega. 

Narsissistinn getur lifað eins og fræ innra með þolandanum jafnvel eftir að honum hefur tekist að forða sér og hann getur verið mörg ár að jafna sig á svona samskiptum og getur stundum ekki gert það nema með góðri aðstoð fagmanna. 

Það sem er erfitt við gaslýsinguna er að sá sem henni beitir er snillingur í tækninni og því oft knár að láta vera sannleikskorn í ásökuninni. Þú gætir hafa í eitt skipti sagt að þú værir þreytt/ur og vildir helst ekki fá gesti og þá er líklegt að dregið sé fram síðar að „þú viljir aldrei fá gesti og það sé stórt vandamál í ykkar lífi ...“. Þegar búið er að skapa ringulreiðina í huga þér ferðu í að biðjast afsökunar á að hafa verið svona tillitslaus.

En hver eru einkenni þess að einstaklingur sé beittur gaslýsingu? 

Viðkomandi er farinn að:

  • Efast um ákvarðanir sínar og á orðið erfitt með að taka ákvörðun.

  • Hugsa mikið og endurtekið um einhvern „galla“ sem hann hafi, svo sem að vera of viðkvæmur eða ekki nógu þolinmóður.

  • Efast um samband sitt með hugsunum eins og „mér fannst hann/hún alltaf svo yndisleg/ur og frábær en núna líður mér eins og ég sé ómöguleg/ur og hálf rugluð/aður bara ...“. 

  • Upplifa að vera endurtekið í rifrildi, sem ekki var umbeðið og alveg sama hvað gert er til að reyna að enda það, ber það ekki árangur. Umræðan virðist fara í hringi, sannleikanum er snúið á hvolf, alveg sama hversu margar leiðir farið er að því að útskýra – er engin áheyrn. Það leysist sjaldan nokkuð nema þú gefir eftir og biðjist fyrirgefningar.

  • Finna fyrir þokukenndum og óskýrum hugsunum sem stundum er erfitt að ná almennilega utan um. 

  • Endurtekið að biðjast afsökunar og fyrirgefningar og vita stundum ekki lengur fyrir hvað.

  • Afsaka hegðun makans við vini og vandamenn sem taka eftir ósiðsamlegri, stjórnandi eða hömlulausri hegðun. 

  • Eiga erfitt með að skilja hvers vegna narsissistinn er ekki hamingjusamur þegar allt er gott í umhverfinu.

  • Átta sig á því að eitthvað er verulegt rangt í þessu sambandi en eiga erfitt með að setja fingur á hvað það er.

Þó svo sjálfsdýrkandinn hafi ekki alltaf þína bestu hagsmuni í huga, þá getur hann elskað þig. Ást þeirra er þó oft upplifuð sem fallvölt. Makinn fer fljótt að upplifa að hann þurfi að „standa sig betur“ og tengingin verður óttablandin. Þetta getur gerst þó svo makinn hafi ekki áður upplifað óörugg tengsl, slíkur er sjúkleiki stjórnunarinnar. Ástarsambandið fer því gjarnan að snúast yfir í það að makinn er kominn í það hlutverk að uppfylla endalausar þarfir, hratt og vel, til að halda narsissistanum ánægðum sem hrósar svo gjarnan makanum með því að gagnrýna fyrri maka og notar þann samanburð, svo sem: „Þú ert eini makinn minn sem hefur gert þetta fyrir mig ... þú ættir að vita hvernig þetta var í síðasta sambandi ...“. Þú vilt því gjarnan gera betur og jafnvel bæta upp fyrir þessa bitru hegðun sem síðasti maki hafði sýnt. 

Ástin sem sjálfsdýrkandinn upplifir snýst þó gjarnan um að þú hafir eitthvað sem hann vill fá, eitthvað sem getur gert hann stærri og meiri, svo sem að þú sért afreksmanneskja eða sért í góðri stöðu. Hægt og rólega vill hann þó hafa yfirburði og hafa stjórn á því sem þú gerir. Ef honum finnst hann ekki hafa stjórn, verður hann argur og refsandi og byrjar þá gjarnan að safna „liði“ gegn þér. Þú skalt finna fyrir því að þú hafir ekki gert það sem narsisisstinn vildi og hann ásakar þig gjarnan um stjórnsemi látir þú ekki í blindni að vilja hans. Enginn vill vera ómögulegur eða stjórnandi í ástarsambandi og makinn dregur þá gjarnan úr kröfum sínum eða vilja til að þurfa ekki að sitja undir ásökunum narsisisstans og þannig nær hann smám saman fullkomnum yfirburðum í sambandinu. 

Til að gera þetta fyrirbæri enn illskiljanlegra þá getur sjálfsdýrkandinn stundum haft stjórn á því hvernig hegðun hans birtist gagnvart öðrum. Einstaklingur getur til dæmis sýnt af sér mjög narsissíska hegðun í einkalífi og vinnu en ekki í vinasamböndum og notar gjarnan það umhverfi til að beita maka sinn ofbeldi. „Vinum mínum finnst þú vera ...“, „besta vinkona mín telur þig vera ...“ og þannig hefur narsissistinn eignast enn eitt vopnið. Í sálfræðinni kallast þetta „triangulation“ (draga inn þriðja aðila) og er þekkt stjórnunaraðferð raskaðra einstaklinga. Narsissistinn getur þá jafnvel gengið svo langt að nálgast einstaklinga í innsta hring maka síns og reynt að hafa áhrif á þá, rægja makann og snúa þeim gegn honum. Makinn getur lent í því að vinir narsissistans vilji lítið eða ekkert af honum vita, jafnvel vinir sem hann hefur aldrei hitt því búið er að tryggja með slæmu umtali að engin samskipti verði þarna á milli og hann hefur skapað sér nýjan vettvang fyrir fórnarlambshlutverkið og tryggt sér þannig stöðu sína. Saklaust fólk verður því í raun gerendur í því ofbeldi sem narsissistinn er að sýna maka sínum. 

Er hægt að hjálpa fólki með mikil einkenni?

Í raun er meðferðarsamband draumasamband narsissistans, því þar fær hann sinn tíma til að ræða og beina allri athyglinni að sjálfum sér og þarf ekki að vita neitt um eða taka tillit til meðferðaraðilans. Þeir gætu því einmitt haldið „meðferð“ lengi út, jafnvel árum saman, sjái meðferðaraðilinn ekki í gegnum þá. Hann greiðir fyrir viðtalið og er tíminn því fullkomlega á hans forsendum. Það getur verið mjög erfitt bæði fyrir meðferðaraðila að átta sig á narsissismanum og fyrir nærumhverfið að takast á við hann því hann er háll sem áll og snillingur í að spila á umhverfi sitt. 

„Það getur verið mjög erfitt bæði fyrir meðferðaraðila að átta sig á narsissismanum“

Meðferðaraðilar fá oft ekki raunverulegt tækifæri til að vinna með þessar persónuleikaraskanir því oft sækja þessir einstaklingar ekki „meðferð“ en geta verið slyngir í að leita „stuðnings“ hjá meðferðaraðilum hafi þeir ekki mikla þekkingu á persónuleikaröskunum, átta sig ekki á vandanum og veita þeim endurgjöf á eigið ágæti. Slíkt meðferðarsamband byggir þá á ímynd sem sjálfsdýrkandinn hefur dregið upp af sjálfum sér, gjarnan byggða á umkvörtunum um að vera misskilinn og vanmetinn af fólki, vera einlæg og góð manneskja sem umhverfið einhvern veginn kemur illa fram við. Þarna getur verið um að ræða persónuleg sambönd eða viðskipti og rekstur þar sem narsissistinn ber aldrei ábyrgð, það sem úrskeiðis fór var öðrum að kenna og hann tekur á sig hlutverk fórnarlambsins. Frásagnirnar eru frá sjónarhóli sjálfsdýrkandans, þar sem raunveruleikinn er gjarnan viðsnúinn, illa bjagaður eða frásagnir hreinlega ósannar. Hafi meðferðaraðilinn ekki næga þjálfun og biður ekki um staðreyndir frekar en frásagnir, getur hann auðveldlega sogast inn í hlutverk stuðningsaðila sem lætur vinnuna snúast um að styrkja narsissistann til að standa með sjálfum sér. Þannig styrkir hann óafvitandi og nærir narsissíska hegðun og hefur nú gefið sjálfsdýrkandanum enn eitt vopnið til að nota á nærumhverfi sitt s.s. „sálfræðingurinn minn segir að ...“. 

Leiti þolandi til meðferðaraðila með líðan sína eru það oft tiltölulega hversdagslegar umkvartanir, svo sem að þeir finni fyrir þunglyndi, finni fyrir óöryggi og kjarkleysi, fái kvíðaköst eða þeim finnist þeir ekki vera að standa sig, ómeðvitaðir um að þeir hafi lifað á „stríðssvæði“ þar sem narsísískur persónuleiki hefur stjórnað. Þolendur virðast oft spenntir og taugaveiklaðir og óttastig þeirra getur verið hátt á sama tíma og sjálfsvirðing þeirra er lág. Oft tjá þeir ringulreið í hugsun og getur raunverulega fundist eins og þeir séu að missa vitið, gráta gjarnan stjórnlaust í viðtali. Þeir eru líklegir til að láta í ljós tilfinningar um skömm. Þeir hafa einnig tilhneigingu til að vera ofurábyrgðarfullir og hneigðir til sjálfsásökunar vegna þess að þeir taka ábyrgð á narsissísku hegðuninni. Í hvert sinn sem narsissískri reiði er hrint af stað er þolandanum kennt um (til dæmis „þetta er þér að kenna, þú máttir vita að þetta mundi koma mér í uppnám, sjáðu nú hvað þú hefur gert“). Þolandinn getur virkað valdalaus eða minni máttar og fundið fyrir mikilli sektarkennd þegar hann talar um geranda sinn, jafnvel upp að því marki að vilja vernda hann. Meðferðaraðili með þekkingu á narsissísku ofbeldi og hagnýtri sérkunnáttu í vinnu með áföll mun verða líflína sérhvers þolanda narsissísks ofbeldis. Nauðsynlegt er að átta sig á narsissíska fórnarlambsheilkenninu til að skilja af hverju þolandinn vill enn verja, styðja og jafnvel elska gerandann eftir allt það sem hann hefur gengið í gegnum. 

Þegar unnið er með einstakling sem sýnir einkenni narsissísks fórnarlambsheilkennis upplifir hann sig gjarnan sundurtættan og skilur illa hvað hvað hefur hent hann. Fræðsla um narsissíska persónuleikaröskun er því mikilvæg til að styðja einstaklinginn í að koma sér út úr ringulreiðinni. Án slíkra upplýsinga getur einstaklingurinn verið varnarlausari fyrir frekari misnotkun og neti annarra narsissista í framtíðinni. Þegar einstaklingur hefur áður orðið fórnarlamb narsissista (hvort sem það gerist í barnæsku eða síðar á lífsleiðinni) gerir hann sér síður grein fyrir „margslungnum dansi“ sjálfsdýrkandans sem gerir hann móttækilegan fyrir þessari tegund ofbeldis.

Hvernig tökumst við á við narsissíska persónuleikaröskun?

Mikilvægt er að forðast að leggja greiningar á fólk séum við ekki fagfólk á sviði geðheilbrigðis. Gott er hins vegar að lesa sér til um þessa eiginleika, átta sig á þeim og læra hvernig best er að takast á við þá og þau sjúku samskipti sem einkenna þessa einstaklinga. Margir gera heiðarlega tilraun til að ræða þau atriði sem valda vanlíðan í sambandi en oftast er það ekki líklegt til árangurs og sjálfsdýrkandinn líklegur til að bregðast illa við. Allt miðar að því að forðast gagnrýni og viðhalda sjálfsmyndinni og allt sem ógnar henni er túlkað sem árás og stjórnun utan frá. Sé narsissistinn í lífi þínu með augljósa yfirburði svo sem yfirmaður eða kennari er alls ekki skynsamlegt að benda á einhverja vankanta því sá aðili er líklegur til að grípa til refsandi aðgerða á einhvern hátt jafnvel með því að reka þig eða finna leið til að fella þig á mikilvægu verkefni eða loka á viðskiptatengsl, tölvupósta eða aðra þjónustu á þínum vegum.

Áttir þú þig á því að þú hafir verið fórnarlamb narsissista sem hafi einsett sér að ná þér í net sitt skaltu koma þér í burtu hið fyrsta. Ráðlegast er að gera það hljóðlega og varlega því narsissistinn getur annars ráðist gegn þér og reynt hvað hann getur til að hefna sín á þér til að refsa þér fyrir að hafa hafnað honum. Þetta gerir hann með því að snúa umhverfi þínu gegn þér, hringir jafnvel og heimsækir fjölskyldumeðlimi þína til að segja þeim hvað þú sért í miklu ójafnvægi eða jafnvel hversu lasin þú sért, snýr vinahópnum gegn þér með sögum um stjórnsemi þína eða sjálfhverfu, því narsissistinn er góður í því að snúa raunveruleikanum á hvolf. Hann er einnig líklegur til að gera skilnaðinn að mjög erfiðu ferli. 

„Sjálfsdýrkandinn mun leita allra leiða til að viðhalda stjórn og fá þig til að breyta mörkum þínum með því að ásaka þig“

Sértu í samskiptum við narsissista sem eru þess eðlis að þú getir ekki farið í burtu, ef þetta er til dæmis fjölskyldumeðlimur, er eina leiðin að setja mjög skýr mörk í samskiptum ykkar. Mörk sem hvergi er vikið frá. Sjálfsdýrkandinn mun leita allra leiða til að viðhalda stjórn og fá þig til að breyta mörkum þínum með því að ásaka þig eða jafnvel maka þinn um stjórnsemi, ofbeldi eða órétti. Ofbeldi er mjög vinsælt orð í orðabók narsissistans því þannig fær hann þig til að gefa eftir eða aðra til að standa með sér. Það vill jú enginn sitja undir því að beita ofbeldi eða standa hljóður hjá slíku. Einnig getur hann gripið til þess að reyna að heilla þig og umvefja þig jákvæðri endurgjöf, svo sem hversu betri þú sért en aðrir eða hvað narsissistinn sjái nú eftir því hversu mikið hann særði þig (í fyrra ástarsambandi) eða brást þér (í uppeldi) – allt er sagt til að reyna að komast á milli þín og núverandi maka (eða annarra mikilvægra tengsla) og ná stjórn yfir þér aftur. Sjálfsdýrkandinn er sérfræðingur í að halda fólki aðskildu og passar það vel að fólk hittist ekki til að bera saman frásagnir, reynslu sína eða upplifanir. Það er mikið í húfi fyrir narsissistann að slíkt gerist ekki og þannig getur hann jafnvel beitt þig tálmun sem foreldri (sé um skilnað að ræða) sé hann í aðstöðu til slíks. Hann leggur sig fram um að reyna að sverta fyrrverandi maka svo vinir eða fjölskylda leiti ekki frásagnar hinum megin frá heldur fylki liði um narsissistann sem upplifir sig þá máttugri en nokkru sinni áður. Það er ekki fyrr en samböndum lýkur og fólk talar hugsanlega saman að lygavefurinn kemur í ljós. Sjálfsdýrkandinn er þó góður í því að viðhalda þögn á milli aðila með óbeinum eða beinum hótunum um afleiðingar af slíkum samskiptum. 

Einnig má nefna að foreldri, oft móðir, vinnur gegn eðlilegum tilfinninga- og félagsþroska með því að koma fram við barn eins og smábarn þó það sé komið á annað þroskastig. Það er auðveldara að stjórna smábarni en eldra barni. Það má því oft sjá eldra barn meðhöndlað eins og sér yngra barn. 

Ef þú telur að þú sért mögulega að upplifa ofbeldi eins og gaslýsingu í þínu sambandi við maka, foreldri, vinnufélaga eða aðra sem gegna mikilvægu hlutverki í lífi þínu skaltu leita þér aðstoðar hjá sálfræðingi sem hefur mikla þekkingu á þessari stjórnunartækni. Stattu fastur/föst á því að þú getir vel borið kennsl á raunveruleika þinn, ekki láta sannfæra þig um annað. Þú þarft ekki að reyna að „kenna þeim eða breyta“ láttu af því hlutverki, það er oftast til einskis hvort sem er. Sambönd við narsissíska einstaklinga geta farið illa með sálarlíf fólks og skaðað orðspor þess. Það skal tekið fram að þó frásögn þessi fjalli um narsissistann í karlkyni og þolandann í kvenkyni má setja hvaða kyn sem er inn í textann. Sjálfsdýrkandinn getur auðveldlega verið kona. Leitaðu þér aðstoðar hjá þeim úrræðum sem eru í boði fyrir þolendur ofbeldis. Gott er að hefja þá göngu hjá Bjarkarhlíð, Miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, á höfuðborgarsvæðinu eða í Bjarmahlíð á Norðurlandi. Þar fer fram faglega unnið mat á vandanum og aðstoð er veitt við að leita þá frekari stuðnings.  


Höfundur er doktor í sálfræði og starfsmaður í Bjarkarhlíð.

Hluti greinarinnar byggir á þýðingu Írisar G. Stefánsdóttur á greinunum Narcissistic Victim Syndrome: What the heck is that? og Can women be narcissistic? eftir Christine Louis De Canonville. 

Kjósa
4
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Milljarðar kvenna sem passa ekki inn í útlitsboxið
4
Fréttir

Millj­arð­ar kvenna sem passa ekki inn í út­lits­box­ið

Þó svo að hættu­lega grannt „heróín-lúkk“ sé ekki leng­ur í tísku og að Bridget Jo­nes sé ekki leng­ur tal­in feit, eru út­lit­s­kröf­ur til nú­tíma­kvenna enn óraun­hæf­ar, seg­ir pró­fess­or í fé­lags­sál­fræði. Hún er þó bjart­sýn: „Ég þekki ekki dæmi um að áð­ur hafi ver­ið kyn­slóð sem er vís­vit­andi að berj­ast gegn því að fólk sé smán­að út af út­liti.“
Birgir segir mistök að ekki sé gert ráð fyrir nýrri kvennadeild á nýja Landspítalanum
6
Fréttir

Birg­ir seg­ir mis­tök að ekki sé gert ráð fyr­ir nýrri kvenna­deild á nýja Land­spít­al­an­um

Í störf­um þings­ins ræddu þing­menn ým­is mál. Diljá Mist Ein­ars­dótt­ir gagn­rýndi Sam­fylk­ing­una, Birg­ir Þór­ar­ins­son benti á myglu­vanda­mál Land­spít­al­ans og sér­stak­lega þá stöðu sem er kom­in upp á kvenna­deild­inni. Gagn­rýndi hann að ekki væri gert ráð fyr­ir nýrri kvenna­deild í bygg­ingu nýja Land­spít­al­ans. Jó­hann Páll Jó­hann­es­son benti á að eins og stað­an er í dag geti smá­lána­fyr­ir­tæki not­fært sér neyð fólks og grætt á þeirra stöðu.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Ráðning stjórnanda til MAST vekur athygli: „Ég er fagmaður"
2
FréttirLaxeldi

Ráðn­ing stjórn­anda til MAST vek­ur at­hygli: „Ég er fag­mað­ur"

MAST til­kynnti starfs­mönn­um sín­um um það á mið­viku­dag­inn að bú­ið væri að ráða Þor­leif Ág­ústs­son sem nýj­an sviðs­stjóra yf­ir með­al ann­ars fisk­eld­is­deild­ina hjá stofn­un­ina. Þor­leif­ur hef­ur skrif­að grein­ar þar sem hann tal­ar fyr­ir lax­eldi í sjókví­um. Þor­leif­ur seg­ist vera vís­inda­mað­ur og að hann taki ekki af­stöðu. For­stjóri MAST, Hrönn Jó­hann­es­dótt­ir vill ekki ræða um ráðn­ing­una þeg­ar eft­ir því er leit­að.
Ríkisstjórnin vill gefa kvótann í laxeldinu um aldur og ævi
4
FréttirLaxeldi

Rík­is­stjórn­in vill gefa kvót­ann í lax­eld­inu um ald­ur og ævi

Í frum­varpi mat­væla­ráð­herra um lagar­eldi er kveð­ið á um að lax­eld­is­fyr­ir­tæk­in í land­inu hafi „ótíma­bund­in“ rekstr­ar­leyfi til að stunda sjókvía­eldi í ís­lensk­um fjörð­um. Hing­að til hafa rekstr­ar­leyf­in ver­ið tíma­bund­in í 16 ár. Með þessu ákvæði munu stjórn­völd á Ís­landi ekki geta bann­að sjókvía­eldi án þess að baka sér skaða­bóta­skyldu gagn­vart lax­eld­is­fyr­ir­tækj­un­um.
Þórður Snær Júlíusson
5
Leiðari

Þórður Snær Júlíusson

Hand­bók um leið­ir til að þykj­ast sið­leg­ur ráð­herra

Á Ís­landi er við lýði reglu­verk sem á að koma í veg fyr­ir spill­ingu ráð­herra og auka traust á stjórn­sýslu. Ný­lega var gef­in út hand­bók með út­skýr­ing­um á regl­un­um með raun­hæf­um dæm­um. Raun­veru­leik­inn sýn­ir hins veg­ar að ráð­herr­ar láta þetta ekki hafa áhrif á hegð­un sína. Regl­urn­ar gilda bara þeg­ar það reyn­ir ekki á þær.
Sleppti máltíðum til þess að komast frá Ásbrú
6
Greining

Sleppti mál­tíð­um til þess að kom­ast frá Ás­brú

„Stans­laust von­leysi vakn­ar um leið og þú mæt­ir,“ seg­ir ung­ur venesú­elsk­ur hæl­is­leit­andi um Ás­brú. Þar hafi ver­ið ómögu­legt fyr­ir hann, eða nokk­urn mann, að að­lag­ast ís­lensku sam­fé­lagi – sem er at­riði sem stjórn­mála­menn þvert á flokka hafa sagt mik­il­vægt. Fé­lags- og vinnu­mark­aðs­ráð­herra hef­ur sagst vilja fleiri bú­setu­úr­ræði á borð við Ás­brú.
Fyrirtækið sem Kvika keypti kom að lánum til félags konu Ármanns
7
ViðskiptiKvika og Ortus

Fyr­ir­tæk­ið sem Kvika keypti kom að lán­um til fé­lags konu Ár­manns

Breska fyr­ir­tæk­ið Ort­us Capital, sem Ár­mann Þor­valds­son, nú­ver­andi for­stjóri al­menn­ings­hluta­fé­lags­ins Kviku, var hlut­hafi í var einn af lán­veit­end­um breska kráar­fyr­ir­tæk­is­ins Red Oak Taverns, sem eig­in­kona Ár­manns á hlut í. Þetta fyr­ir­tæki varð síð­ar að Kviku Secu­rities í Bretlandi og keypti það breskt lána­fyr­ir­tæki af við­skipta­fé­lög­um fyr­ir tveim­ur ár­um fyr­ir millj­arða króna.
Öryrkjar borga fyrir kjarasamninga og tugir milljarða settir í borgarlínu
8
GreiningFjármálaáætlun 2025-2029

Ör­yrkj­ar borga fyr­ir kjara­samn­inga og tug­ir millj­arða sett­ir í borg­ar­línu

Rík­is­sjóð­ur verð­ur rek­inn í halla í næst­um ára­tug sam­fleytt áð­ur en við­snún­ing­ur næst. Til að fjár­magna tug­millj­arða króna út­gjöld vegna Grinda­vík­ur og kjara­samn­inga á með­al ann­ars að fresta greiðsl­um til ör­orku­líf­eyri­s­kerf­is­ins, selja eign­ir fyr­ir tugi millj­arða króna og lækka fram­lög í vara­sjóð. Fram­kvæmd­um sem áð­ur hef­ur ver­ið frest­að er frest­að á ný en pen­ing­ar sett­ir í nýja þjóð­ar­höll og tug­ir millj­arða króna verða til­tæk­ir í borg­ar­línu og tengd verk­efni. Vaxta­byrð­in á rík­is­sjóði verð­ur þó þung. Á næsta ári mun hann borga 121 millj­arð króna í slíka.
Umsækjandi hjá MAST vill rökstuðning: „Ég er vonsvikinn“
9
FréttirLaxeldi

Um­sækj­andi hjá MAST vill rök­stuðn­ing: „Ég er von­svik­inn“

Eg­ill Stein­gríms­son dýra­lækn­ir var ann­ar af um­sækj­end­un­um um sviðs­stjórastarf hjá Mat­væla­stofn­un sem með­al ann­ars snýst um eft­ir­lit með lax­eldi. Fiska­líf­eðl­is­fræð­ing­ur­inn Þor­leif­ur Ág­ústs­son var ráð­inn fram yf­ir hann og vakti ráðn­ing­in at­hygli inn­an MAST vegna já­kvæðra skrifa hans um lax­eldi hér á landi.

Mest lesið í mánuðinum

Læstur inni í íbúðinni sinni í fimmtán ár
1
Viðtal

Læst­ur inni í íbúð­inni sinni í fimmtán ár

Sveinn Bjarna­son bjó í fimmtán ár í læstri íbúð á veg­um Ak­ur­eyr­ar­bæj­ar. Hann bank­aði oft ít­rek­að og grét áð­ur en starfs­fólk opn­aði fyr­ir hon­um. Móð­ir hans gerði end­ur­tekn­ar at­huga­semd­ir við að hann væri læst­ur inni og seg­ir son sinn hafa ver­ið van­rækt­an. Fyrr á þessu ári greip hún til þess ör­þrifa­ráðs að flytja hann bú­ferl­um í ann­an lands­hluta til að fá mann­sæm­andi að­bún­að fyr­ir hann. Mál Sveins varp­ar ljósi á al­var­leg­ar brota­lam­ir í þjón­ustu við fatl­að fólk á Ís­landi og sýn­ir hvernig mann­rétt­indi hafa ver­ið virt að vett­ugi ár­um sam­an.
Eina leiðin til að halda lífinu áfram var að koma út
4
ViðtalForsetakosningar 2024

Eina leið­in til að halda líf­inu áfram var að koma út

Bald­ur Þór­halls­son bældi nið­ur eig­in kyn­hneigð frá barns­aldri og fannst hann ekki geta ver­ið hann sjálf­ur. Fyr­ir 28 ár­um tók hann ákvörð­un um að koma út úr skápn­um, það var ekki ann­að í boði ef hann ætl­aði að halda áfram með líf­ið. Nú stefna þeir Fel­ix Bergs­son á Bessastaði. „Við eig­um 28 ára ást­ríkt sam­band að baki og höf­um ekk­ert að fela,“ seg­ir Fel­ix.
„Ég ætla ekki að kinka kolli framan í einhver illmenni án þess að segja neitt“
6
ViðtalForsetakosningar 2024

„Ég ætla ekki að kinka kolli fram­an í ein­hver ill­menni án þess að segja neitt“

Jón Gn­arr er kom­inn í for­setafram­boð. Hann seg­ir meiri þörf á gleði og húm­or í lýð­ræð­inu og sam­fé­lag­inu þar sem of­fram­boð sé á leið­ind­um og er sann­færð­ur um að þjóð­in sé að leita sér að mann­eskju sem hún geti séð sjálfa sig í. Jón ætl­ar sér að mýkja freka kall­inn með kær­leik­ann að vopni og lof­ar að vera hvorki of­stopa­mann­eskja né lydda, nái hann kjöri. Svo hef­ur hann alltaf dreymt um að búa í Garða­bæ.
Hjúkrunarheimilið Sóltún fékk 20 milljarða frá íslenska ríkinu
7
Fréttir

Hjúkr­un­ar­heim­il­ið Sól­tún fékk 20 millj­arða frá ís­lenska rík­inu

Frá ár­inu 2009 hef­ur hjúkr­un­ar­heim­il­ið Sól­tún feng­ið tæp­lega 20 millj­arða króna frá ís­lenskra rík­inu. Um 90 pró­sent af tekj­um Sól­túns koma frá rík­inu. Eig­end­urn­ir hafa tek­ið á þriðja millj­arð króna út úr rekstr­in­um með því að selja fast­eign­ir og lóð­ir og lækka hluta­fé fyr­ir­tæk­is­ins. All­ur rekst­ur­inn bygg­ir hins veg­ar á um­deild­um samn­ingi við ís­lenska rík­ið sem gerð­ur var ár­ið 2000.
Risar í landbúnaði orðnir að fríríki og geta stýrt verði eins og þeim sýnist
8
Rannsókn

Ris­ar í land­bún­aði orðn­ir að fríríki og geta stýrt verði eins og þeim sýn­ist

Laga­breyt­ing sem var fyr­ir einu og hálfu ári köll­uð „að­för að neyt­end­um“ var sam­þykkt á Al­þingi í lok síð­ustu viku með at­kvæð­um minni­hluta þing­manna. Um er að ræða af­nám á ólög­mætu sam­ráði stærstu land­bún­að­ar­fyr­ir­tækja lands­ins. Laga­breyt­ing­unni var laum­að inn í frum­varp á loka­metr­um af­greiðslu þess með mik­illi að­komu þeirra sem mest græða á henni.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár