Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 3 árum.

„Við vorum sprengikraftur“

Fimm­tíu ár eru í dag lið­in síð­an rót­tæk­ar bar­áttu­kon­ur á rauð­um sokk­um tóku þátt í kröfu­göng­unni á bar­áttu­degi verka­lýðs­ins og stálu þar sen­unni, þótt þær gengju aft­ast. Á milli sín báru þær stærð­ar­líkn­eski af konu – Lýs­iströtustytt­una – og höfðu strengt borða um hana miðja sem á stóð: „Mann­eskja en ekki mark­aðsvara“. Gjörn­ing­ur­inn mark­aði upp­haf rauðsokka­hreyf­ing­ar­inn­ar sem átti eft­ir að hrista ræki­lega upp í fast­mót­uðu sam­fé­lagi næstu ár­in. Hér ræða fimm kon­ur að­drag­anda gjörn­ings­ins, áhrif­um hreyf­ing­ar­inn­ar og rauðsokkustimp­il­inn, sem þær bera enn í dag með stolti.

„Við vorum sprengikraftur“
Lýsiströtustyttan Konur á rauðum sokkum báru hana aftast í göngunni þann 1. maí árið 1970. Það vakti mikla athygli, undran og jafnvel reiði sumra. Mynd: Jón Þorleifsson

Fyrir fimmtíu árum gátu aðeins einstæðar mæður fengið pláss fyrir börnin sín á dagheimilum, eins og leikskólar voru þá kallaðir. Á þeim tíma töldu giftar konur ekki sjálfar fram til skatts, heldur voru tekjur þeirra færðar á skattframtal eiginmannanna. Fátítt var að konur stunduðu háskólanám og fastmótaðar venjur og hefðir stjórnuðu samfélaginu öllu. Hér eru aðeins nefndar nokkrar af þeim hömlum sem lífi kvenna voru settar. En þetta voru umbrotatímar í heiminum öllum og hingað til lands bárust sögur af róttækum hreyfingum kvenna, beggja vegna Atlantshafsins, sem kröfðust breytinga. Ein þeirra sem hafði drauma sem rúmuðust ekki innan veggja heimilisins var Gerður Óskarsdóttir, sem árið 1970 var gift, vann sem kennari og átti ung börn.

GerðurHún var alin upp á hefðbundnu heimi og átti lengi fram eftir ævinni ekki von á öðru en að hún yrði heimavinnandi húsmóðir eins og mamma hennar.

Hún hafði snemma rekið sig á misréttið, svo sem eins og þegar hún fékk sumarvinnu í frystihúsi þar sem hún fékk greidd talsvert lægri laun en karlmennirnir sem unnu svipuð störf og hún. Í kvennahópum sem hún tilheyrði, bæði vinkonuhópnum úr Menntaskólanum í Reykjavík og á kennarastofunni, ræddu konur sín á milli að breytinga væri þörf. „Við vorum farnar að að spá í þetta, allar komnar með börn að vesenast með þessa pössun og einmitt kannski að vinna fyrir eiginmönnunum sem voru í lengra námi.“

Svo var það einn daginn að vinkona hennar sem kenndi við Austurbæjarskóla hafði samband og sagði Gerði frá því að hópur kvenna vildi skipuleggja kröfugöngu, í ætt við þær sem höfðu átt sér stað víða í Evrópu og í Bandaríkjunum. Hvort hún vildi ekki vera með. Hún þurfti ekki að hugsa sig um lengi. Tekin var ákvörðun um að bera Lýsiströtustyttuna niður Laugaveg í 1. maí göngu verkalýðsins. „Ég var í þessum hópi sem kom saman í kjallara norræna hússins á vormánuðum 1970 og ákváðum að ganga í göngu verkalýðsins 1. maí. Það kom upp þessu brilljant hugmynd að bera þessa stóru styttu af Lýsiströtu úr leikriti frá Menntaskólanum í Reykjavík og vera með einhver spjöld. Það var rætt á þessum fundi í kjallaranum hvað ætti að standa á þessum spjöldum. Við ákváðum að vera með þrennt. Manneskja, ekki markaðsvara, sem var þvert á þessa stóru styttu. Svo var það: Konur nýtið réttindi ykkar! og Vaknaðu, kona.“

Það var ljóðskáldið Vilborg Dagbjartsdóttir sem átti hugmyndina að því að nota styttuna og setti líka auglýsingu í útvarpið: „Konur á rauðum sokkum, söfnumst saman á Hlemmi klukkan 12.30.“ Og það gerði fjöldi kvenna, mun fleiri en þær sem höfðu tekið þátt í undirbúningnum. Uppúr þessu varð Rauðsokkuhreyfingin til. „Það bara steymdu til okkar konur – og einstaka karl.“

Litin hornauga í stórfjölskyldunni

Það voru ekki allir hrifnir af Rauðsokkunum og framtíðarsýn þeirra. Margar kvennanna fengu meira að segja bágt fyrir þátttöku sína hjá sínum nánustu. Þáverandi eiginmaður Gerðar tók þátt í hreyfingunni en það voru ekki allir jafn hrifnir. „Ég var alin upp mjög hefðbundið á þeim tíma. Móðir mín var heimavinnandi húsmóðir og hafði alla tíð verið, faðir minn vann fyrir fjölskyldunni, var höfuð fjölskyldunnar og réði því sem hann vildi ráða. Bara hans nafn á bjöllunni, bara hans nafn í símaskránni og bara hann sem keyrði bílinn. Ég bjóst við að ég yrði líka heimavinnandi húsmóðir, lengi fram eftir aldri. Þannig var mitt umhverfi. Þetta var ekkert róttæk fjölskylda, þannig að þetta þótti mjög sérkennilegt hjá mér. Pabbi og mamma voru ekkert að fetta fingur út í þetta en ég fann í stærri fjölskylduboðum að þá var ég bara litin miklu hornauga og allt mögulegt var sagt upp í opið geðið á manni. Það var sagt að við værum frekar, eigingjarnar, nenntum ekki að hugsa um börnin okkar og heimilið.“

Róttæk hugmynd um heilsdagsvistun

Sú hugmynd rauðsokkanna, að konur ættu að vera jafnar körlum á öllum sviðum, þótti verulega róttæk að sögn Gerðar. Að giftar konur með börn gætu unnið fulla vinnu, tekið þátt í stjórnmálum og mótun samfélagsins hafi þótt fáránleg. „Ég var nú mikið í þessum dagheimilismálum. Við gerðum könnun í Kópavogi á þörfinni, flotta könnun þar sem við bárum spurningalista í hús. Það kom náttúrlega upp upp mikil þörf. Við kynntum þetta á opnum fundi í félagsheimili Kópavogs og bæjarstjórn var boðið. Þeim fannst þetta alveg fáránlegt. Við sögðum: „Það þarf að byggja eitt dagheimili á ári til aldamóta.“ Það var hlegið, sko. En svo var það gert. En það var ekki fyrr en uppúr síðustu aldamótum sem að öll börn komust á leikskóla hér á landi og í mörgum löndum er þetta bara útópía.“

Konur og börn í sama flokki

Eitt af því sem rauðsokkurnar börðust fyrir var að giftar konur yrðu skattlagðar sérstaklega, sem mörgum þótti mesti óþarfi. „Ég fyllti ekki út skattskýrslu. Við börðumst fyrir því að allir yrðu skattlagðir. Ég var kennari og svo fóru bara mínar tekjur á skattframtal mannsins míns. Ég þurfti ekki einu sinni að skrifa undir. Þetta þótti rosalega róttækt, að fara að heimta þetta.“

Stjórnmálaþátttaka kvenna var lítil þegar rauðsokkurnar komu fram, aðeins 3 konur í borgarstjórn og ein kona á þingi. Þær áttu þátt í að breyta því. Virðing fyrir störfum kvenna var hins vegar mismikil. Nokkru seinna, þegar Gerður var orðin virk í Alþýðubandalaginu og gegndi starfi skólastjóra í Neskaupstað átti hún fund með nokkrum flokksmönnum. „Þá var einn karlinn, framámaður, sem sagði: „Þetta er alveg hræðilegt, það eru ekkert nema konur og börn orðið í þessari framkvæmdastjórn.“ Þannig að konur voru flokkaðar eins og börn, enda var oft litið á konur eins og börn. Mér fannst ég upplifa það oft í mínum störfum í gegnum ævina að maður þótti ekki hafa vit á málunum, af því að maður var kona, og jafnvel talað við mann svona eins og barn: „Já, já, þið þarna konurnar“ – ekki nefndar með nafni. Ég var oft í hópum þar sem voru eintómar karlar, nefndum eða eitthvað. Þeir mundu ekki hvað maður hét.“

Baráttan gott veganesti

Oft var baráttan hörð og þá fengu þær rauðsokkur stundum að heyra það. „Stundum var hellt yfir okkur skömmum og gífuryrðum. En af því við vorum saman var svo mikill stuðningur að það beit ekki svo á okkur. Mér finnst að ég hafi lært svo mikið á þessum árum. Ég lærði að taka við þessu og svara fyrir mig. Maður lærði mikið um samstöðu og samvinnu sem var dýrmætt. Mér finnst ég hafa lært þetta og nýtt mér í minni stjórnun, því ég hef verið stjórnandi meira og minna. Þetta var svo góður skóli.“ 

„Konur voru flokkaðar eins og börn, enda var oft litið á konur eins og börn“

Þrátt fyrir að margt hafi breyst á fimmtíu árum finnst Gerði sumt breytast óþarflega hægt. „Maður var svo bjartsýnn á þessum tíma. Ef maður sá einhver skref fram á við hélt maður að þetta myndi ganga miklu hraðar. Ég hefði ekki trúað því að við þyrftum að bíða í 30 ár eftir heilsdagsleikskóladvöl fyrir börn, eða því að grunnskólarnir yrðu einsetnir með mat í hádeginu, til dæmis. Og launamunurinn. Það er ótrúlegt hvað hann er lífseigur og er enn. Lægst launuðu stéttirnar eru kvennastéttir, alveg eins og þá. Það er ótrúlega hægt sem það gengur.“ 

Ófullnægðar mussukerlingar 

Ein þeirra sem bar Lýsiströtustyttuna á þessum degi fyrir 50 árum var Guðrún Hallgrímsdóttir. Hún segir frá því að það hafi verið lífseigur misskilningur að rauðsokkurnar vildu gera lítið úr því sem kvenlegt væri. Sú mynd hafi hins vegar markvisst verið dregin upp af þeim.

GuðrúnMeð tímanum er henni farið að finnast að þær rauðsokkur hefðu mátt sýna heimavinnandi húsmæðrum meiri virðingu. Þær vildu að konur hefðu val en heimavinnandi húsmæðrum fannst mörgum að sér sótt, í málflutningi rauðsokkanna.

„Karlarnir drógu upp mynd af okkur sem ófullnægðum mussukerlingum, sem varð til þess að fræðimennirnir fóru af stað og drógu upp þessa mynd líka. Við hefðum viljað vera eins og karlmenn, samsamað okkur karlmönnum og trampað á öllu sem er kvenlegt. Það var alls ekki rétt. Ég skal játa það að þegar ég varð aðeins eldri og skynsamari, að mér fannst við kannski ekki hafa sýnt heimavinnandi húsmæðrum nægilega mikla virðingu. Við sögðum jú alltaf að konur eigi að hafa val en við hefðum kannski átt að hampa þeim svolítið meira, segja: „Þetta er ykkar val“ og „þið gerið alla þessu stórkostlegu hluti“, því þeim fannst virkilega að það væri sótt að þeim. Þær voru algjörlega í vörn. Þeim fannst við vera að draga þær niður, gera lítið úr þeim og þeirra starfi. En það vissi auðvitað enginn betur en þessar vesalings vinkonur mínar með öll börnin sín og allar útivinnandi hvað húsmóðurstörf voru.“

Hún man vel eftir því að margar af rauðsokkunum áttu í erfiðum samskiptum við sína nánustu vegna þátttökunnar í baráttunni, þó ekki hafi það átt við um hana, sem sjálf var alin upp af róttækri móður. „Margar þarna áttu i miklum erfiðleikum í samskiptum við sína fjölskyldu. Þær komu úr afskaplega borgaralegum aðstæðum og ruddu róttæka braut og áttu þá kannski bara í erfiðleikum í samskiptum við foreldra og frændfólk.“ 

Og kannski eiginmenn líka? „Já, alveg áreiðanlega. Það var nú reyndar haldið því fram að þær hafi allar skilið en það var alls ekki rétt og margir eiginmenn voru með okkur. Maður Gerðar þáverandi var með okkur í byrjun og Þór Vigfússon, maður Hildar Hákonardóttur. Nú Flosi var með okkur, Ólafs. Það voru margir með okkur.“

Mömmurnar breyta heiminum

Rauðsokkahreyfingin leysti sjálfa sig upp árið 1982 en margar úr hópnum voru viðriðnar pólitík, flestar í Kvennalistanum. Guðrún starfaði um tíma í stjórnarráðinu, þar sem kom í hennar hlut að tilnefna fólk í nefndir. „.Án þeirra [kvennanna í Kvennalistanum] hefði þetta verið vonlaust að standa við það að hafa alltaf konur með og konur til jafns við karla. Þær voru þá virkar og maður gat leitað til þeirra. Ég var þeim þakklát fyrir allt en starfaði ekki með þeim. Margar okkar hafa síðan verið með öllum þeim bylgjum sem hafa riðið yfir þjóðina. Við margar úr Rauðsokkahreyfingunni stóðum að stofnun Kvennaathvarfsins og ýmsum þeim stofnunum sem kvenfrelsisbaráttan hefur komið á laggirnar.“ 

Hún telur samfélagsleg áhrif rauðsokkanna ótvíræð. „Hann Mörður Árnason, sonur einnar okkar, þeirra skeleggustu sem því miður er fallin frá, Vilborgar Harðardóttur, sagði við útgáfuhófið þegar við gáfum út bókina: „Meðan við róttæklingarnir þóttumst vera að breyta heiminum þá gerðu mömmur okkar það án þess að við tækjum eftir því.“ 

Skemmtiatriði fyrir karlasamtökin

Spurð að því að lokum hvaða ráð Guðrún geti gefið ungu baráttufólki í dag segir hún nauðsynlegt að vera svolítið skemmtilegur og taka sig ekki of hátíðlega. Það hafi hún reynt að gera, til að mynda þegar hún tókst á við þau verkefni að mæta á fundi félagasamtaka karla og segja frá baráttumálunum. Þær rauðsokkur voru gríðarlega vinsælar á slíkum fundum og voru þar nánast eins og skemmtiatriði. „Við fórum alltaf á fundi félagasamtaka. Karlasamtökin voru náttúrlega öll á móti okkur, Lions, Rótarý og Oddfellow og hvað þetta allt saman hét. Við hötuðum þá alveg út af lífinu. En þeir voru alltaf að fá okkur til að koma á fundi hjá sér og það var svo gaman, því þeir voru svo æstir og við gátum svarað þeim svo fullum hálsi. Það var svo ofsalega gaman.“ 

 „Við hötuðum þá alveg útaf lífinu“

Og hún er ekki í vafa um að lengi enn þurfi konur að berjast fyrir sínu. „Það mun ævinlega vera þörf fyrir baráttu, heimurinn breytist, fólkið breytist, maður arf alltaf að vera á vaðbergi og það þarf alltaf að berjast fyrir öllu. Ég eygi það ekki nú hvað verður efst á baugi eftir tíu ár en ég efa það ekki að það verður hatrömm barátta fyrir einhverju sem við myndum svo seinna telja sjálfsögð réttindi.“

Samfélagið þéttofið net af reglum

Hildur Hákonardóttir og Edda Óskarsdóttir voru á meðal margra listhneigðra rauðsokka, en þær  eru báðar myndlistarmenn. Raunar segir Hildur að margt skapandi fólk og þá sérstaklega leikhúsfólk hafi verið næmt fyrir hreyfingunni. Hún hefur sína skýringu á því. „Ég útskýri það þannig að þarna voru stelpur sem voru vanar að skipta um hlutverk. Samfélagið var svo niðurnjörvað í ákveðinn farveg. Það mátti til dæmis ekki vera í fötum þar sem var brúnt og svart, ekki blátt og grænt, aldrei í fjólubláu ef þú varst rauðhærð. Það voru ákveðnar reglur og samfélagið var þéttofið af fínlegum reglum. En ég held að leikhússtelpurnar hafi verið svolítið frjálslegri, því þær voru vanar að skipta um hlutverk.“

HildurHún skildi karlana í 1. maí göngunni vel að vera reiðir. Með aðgerðum sínum hafi þær rauðsokkur brotið gegn hefðinni og margir hafi verið hræddir við það.

Styttan sem notuð var í gjörningnum 1. maí var úr uppsetningu Menntaskólans í Reykjavík á Lýsiströtu. Hún minnti á kvenlegan búdda eða frjósemisgyðju og þótti tilvalin til að vekja athygli á þætti kvenna í samfélaginu. „Ég held að þessi leikræna aðkoma hafi gefið okkur fóður sem við vorum að vinna úr. Þetta var eins og gjöf sem við tókum með okkur í gegnum alla vinnuna.“

Andlitið datt af fólki

Þær Hildur og Edda skemmta sér augljóslega yfir minningunni af því þegar þær sóttu styttuna í bílskúr í Kópavogi og fluttu hana niður á Rauðarárstíg, þar sem henni var loks komið fyrir ofan á listum og borin uppi af konunum í göngunni. Styttan bar áletrunina Manneskja en ekki markaðsvara og konurnar báru spjöld sem á stóð Vaknaðu, kona og Kona, nýttu réttinn þinn. „Mér finnst þessi stikkorð lýsa svo vel um hvað þetta var, hver var meiningin með þessu. Alveg eins og að á kvennafrídaginn var meiningin að sýna fram á að konur voru ómissandi á vinnumarkaðnum og hvað þær skiptu miklu máli. Þarna var verið að reyna að vekja okkur sjálfar og aðrar konur til meðvitundar um að það væri nú alveg óhætt að hrista af sér menningardoðann. Við höfðum möguleika og rétt á ýmsu sem við nýttum okkur ekki. Við höfðum gott af því að víkka sjóndeildarhringinn og skerpa svolítið á vitundinni. En það var engin krafa um eitt eða neitt,“ segir Hildur. 

En hvernig voru viðbrögð fólksins í göngunni? „Ég held að fólk hafi aðallega verið hissa. Það datt bara af því andlitið,“ segir Edda. Karlarnir hafi margir hverjir verið reiðir. „Ég skil þá alveg,“ segir Hildur. „Fólk var ekki vant svona. Það var allt hefðbundið. Það voru óskrifaðar reglur í samfélaginu um hvernig eiginlega allir hlutir áttu að vera. Þetta braut hefðina.“

„Við brutum múr hins hefðbundna“

Þær hafi hins vegar strax náði í gegn, því þetta hafi verið skemmtilegt og vakið svo mikla athygli. „Við brutum múr hins hefðbundna. En það var svo langt því frá að við værum að gera grín að hinni hefðbundnu verkalýðsgöngu. Það var fáránleiki,“ segir Hildur en bætir svo við: „En þeim fannst það. Það var búið eitthvað að kalla til lögreglu. En þeir urðu eiginlega að sættast á það að við gengjum á eftir göngunni. Þá langaði voðalega mikið að hafa svolítið bil á milli en það er ekki hægt að stjórna göngum. Þær flæða áfram.“

Settu kröfurnar fram myndrænt

Edda segir að eftir að gangan með Lýsiströtu-styttuna vakti mikla eftirtekt hafi hópurinn setti alltaf meiningar sínar fram með myndrænum hætti, samhliða orðræðunni. Það hafi þótt nútímalegt á þeim tíma. Þá hafi þær notað húmor til að koma á framfæri ádeilu á gömlu hefðirnar. Hildur er sammála því að þetta hafi verið mikilvægt. „Þetta er alveg á þeim tíma þegar við erum að fara úr þessu skrifræna, vinstri heilahvels samfélagsgerð, yfir í þennan myndræna heim sem við erum staddar í núna. Þetta er eins og að fá byr í seglin þegar þú ætlar að leggja af stað í ferðalag eða ætlar að fara að hjóla og það er allt í einu meðvindur. Við hittum akkúrat á rétta aðferð á réttum tíma.“ 

EddaHún er myndlistarkona og átti sinn þátt í því að rauðsokkurnar settu sínar kröfur alla jafna fram á myndrænan hátt.

Annað sem einkenndi hreyfinguna var að hún hafði ekki formlega uppbyggingu, heldur var hún „lífrænt form“ og andstætt hinu hefðbundna pýramidaskipulagi, eins og Hildur lýsir því, en það var hún sem átti hugmyndina að því og setti fram myndrænt. Þetta flæðandi skipulag hafi verið liður í því að dreifa álaginu og gera konum kleift að taka þátt þegar þær vildu og draga sig í hlé þegar þær þurftu. „Það er gífurlegt verk að vera rauðsokka. Þetta var svo mikið sálarlegt álag að reyna að brjótast úr úr ákveðnum hefðbundnum ramma, þó að það væri milt. Ramminn var alls staðar. Hann var í öllu sem gerðist í samfélaginu. Ég stóð svolítið fyrir þessu kerfi og prédikaði það að þú þarft ekki að vera rauðsokka allan daginn, dag og nótt og alla vikuna. En þú reynir að vakna til vitundar, það er alveg prýðilegt að þú ert rauðsokka í svolítinn tíma, undir vissum kringumstæðum.“

Af þessum sökum hafi engin félagaskrá verið, svo að konur gætu stigið inn, tekið þátt og stigið svo aftur út eftir hentugleika. „Ég held að þetta hafi orðið til þess að það hafi verið miklu meiri þátttaka og meiri vitund fyrir því sem við vorum að gera. Svo fór maður heim, bakaði sínar kökur og féll í gamla farið. Þetta var alveg nauðsynlegt. Þetta var dálítið eins og skæruliðahernaður. Þú gast skipt – og þarna vísa ég aftur í leikhúsið – um hlutverk þegar þú vildir.“

Smart en börðust gegn hégóma

Allar konurnar sem hér er rætt við kannast vel við umræðuna um að rauðsokkur væru ómyndarlegri en aðrar konur, hugsuðu ekki vel um heimili sín eða fjölskylduna og hefðu ekki fyrir því að vera huggulegar. „Við værum bara brussur í mussum. En tískan var bara þannig, þetta var hippatímabilið og þá voru mussur í tísku, fólk gekk í tréskóm, klossum og fótlagaskóm. Við vorum náttúrlega blankar og allt þetta, þannig að við lituðum léréftspoka og saumuðum okkur flíkur úr þessu og lituðum bleyjur sem við vorum með sem höfuðföt. Við þóttum eitthvað púkalegar, eða ég veit það ekki. Við vorum bara smart. En við börðumst náttúrlega gegn hégóma. Þess vegna vorum við á móti fegurðarsamkeppnum og öðru slíku. Ef þú komst inn á bílaverkstæði voru flennistórar auglýsingar af brjóstakonum. Þú gast ekki selt bíl án þess að það sæti kona ofan á húddinu. Þannig var þetta bara.“

Nú ráða konur lífi sínu sjálfar

Þær Hildur og Edda minnast þessa tíma með mikilli ánægju og stolti. „Við værum ekki að minnast þessara atburða fyrir 50 árum nema af því við erum óskaplega stoltar. Mér finnst alveg mega minna á að að Ísland trónir efst á lista yfir lönd þar sem er kvennajafnrétti,“ segir Hildur og bætir því við að flestar byltingar mistakist, en ekki þessi. 

Edda segir að stærsta breytingin sem átt hafi sér stað sé að konur ráði nú lífi sínu sjálfar. „Það sem breytti öllu var að konur fengu sjálfræði yfir eigin lífi. Við gátum stjórnað barneignum og komist til mennta. Það var búið að halda helmingi þjóðarinnar niðri menntalega áratugum saman, eða öldum saman. Nú eru konur í miklum meirihluta í háskólum og konur geta valið sér störf þar sem hugur og hæfileikar fá að njóta sín. Konur eru búnar að sanna það að þær geta alveg hreint sinnt öllum störfum eins og karlar, alveg sama hvort það er í valdastöðum eða ekki, en launajafnréttinu er nú ekki náð ennþá, nema í stöku tilfellum. Almennt eru konur ennþá á lægri launum en karlar. Svo það er mikið óunnið,“ segir Edda og bætir því við að nóg sé af ungum og róttækum konum í nútímanum, sem hún hafi fulla trú á að eigi eftir að halda áfram að breyta heiminum. Hildur segir þeirra bíða það verkefni að skapa nýja menningu: „Við gátum ýtt út mörkunum á þeirri menningu sem samfélagið er í en ég hugsa að við eigum ennþá eftir að sjá menningu sem byggir líka á kvenlegum gildum. Það er þeirra yngri að finna leiðina. Nú ertu allt í einu komin með hóp af fólki, konum með gífurlega góða menntun á óskaplega víðu sviði. Við eigum eftir að skapa þessa menningu þar sem karllæg og kvenlæg gildi vega jafnt í uppbyggingu samfélagsins. Við eigum svolítið langt í land þar.“

Krossfesting þreyttu húsmóðurinnar

Baráttumál rauðsokkanna voru mörg og misjafnlega erfið. Hér rifjar önnur rauðsokka, Elísabet Gunnarsdóttir, upp helstu gagnrýnina sem þær fengu og atvik sem skildi óþægilega mikið eftir sig, hjá sumum þeirra.

ElísabetÞegar rauðsokkur krossfestu tuskudúkku á jólatré á þorláksmessu og kölluðu hana hina þreyttu húsmóður urðu sumir öskureiðir.

„Stundum skarst í odda. Við vorum til dæmis með aðgerð fyrir jól. Við tókum hina þreyttu húsmóður, hún var tuskudúkka í fullri stærð, krossfestum hana á jólatré, fórum með hana niður í Austurstræti og vorum með dreifibréf: „Eru þetta okkar jól, er það þetta sem við viljum?“ Það er næst því sem ég hef komist að verða fyrir líkamlegri árás á almannafæri. Þetta var á þorláksmessu svo það voru sumir slompaðir. Það voru konur í þessu sem veigruðu sér við að taka þátt í demonstrasjónum eftir þetta.“

Það mál sem hún segir að hafi reynt langmest á hreyfinguna og hinar konurnar nefndu allar líka var baráttan fyrir rétti kvenna til að gangast undir þungunarrof, eða fóstureyðingu eins og það var kallað þá. Samkvæmt löggjöfinni sem var í gildi gátu konur farið í fóstureyðingu svo fremi sem líf móður eða barns var í hættu. Rauðsokkurnar tóku þátt í því að aðstoða konur við að fara til útlanda til að gangast undir fóstureyðingu, ef þær féllu ekki undir þá skilgreiningu en þurftu á því að halda. Þær vildu að konum yrði treyst fyrir því að taka ákvörðunina sjálfar. Það varð ekki raunin fyrr en tæpum 50 árum seinna, árið 2018, þegar heiftúðug umræðan blossaði raunar upp á ný. En aftur til áttunda áratugarins. „Þar var mjög mikil harka. Það var bara hryllilegt oft á tíðum. Við höfðum það fyrir reglu að fara alltaf tvær eða fleiri á fund. Í þessu máli sendum við aldrei konur til að vera talsmenn, nema þær ættu börn.“ Hver var hugsunin á bakvið það? Nú, svo þarna væri ekki einhver gála sem ástundaði það að fara í fóstureyðingar, því hugsunarhátturinn var oft þannig. Enda voru konur sakaðar um að vera barnamorðingjar. Ég man eftir því að einu sinni var kona sökuð um það. Hún var með börnin sín þarna og þau heyrðu þetta. Og svo var skrifað í blöðin.“

Ærslakennd samvera

Þrátt fyrir að málin hafi sum hver verið þung er það sem Elísabetu er efst í huga hins vegar hversu skemmtilegt starfið með rauðsokkunum var. „Þetta var ofboðsleg gaman. Þetta voru ekki leiðinlegir, þurrir fundir. Þetta var mjög oft ærslakennt,“ segir hún og lýsir hreyfingunni þannig að hún hafi búið yfir anarkískum sprengikrafti.

„Það þarf að hafa félög eins og Rauða krossinn, eins og Kvenréttindafélag Íslands, samtök eins og Kvennaathvarfið, sem eru skipulögð með fundargerðir, peninga í lagi og verða eins konar stofnanir. Það þarf. En svo þarf líka, þegar það koma svona ólgutímar eins og voru þarna, fyrirbæri eins og rauðsokkurnar, sem eru eins og sprengikraftur. Við vorum það og sprengingar standa ekkert sérstaklega lengi. Þess vegna gerðum við þann skynsamlega hlut að leggja bara formlega niður rauðsokkahreyfinguna,“ segir hún, sem þær gerðu líkt og fyrr segir árið 1982. Þá höfðu þær að mati Elísabetar breytt lífsviðhorfi margra kvenna og sýnt Íslendingum, bæði körlum og konum, að vel er mögulegt að breyta þéttofnum venjum og hefðum samfélaga, þó það geti vissulega tekið langan tíma og kostað mikla baráttu.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu