Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 3 árum.

Dagbækur úr útgöngubanni: „Ekkert verður aftur eins og það var“

Rót­tæk­ar breyt­ing­ar á dag­legu lífi eru nú veru­leiki fólks um heim all­an. Sökn­uð­ur eft­ir hvers­dags­lífi, vin­um og fjöl­skyldu, ótti við hið ókunna, at­vinnuóör­yggi og tor­tryggni í garð yf­ir­valda er með­al þess sem lesa má úr dag­bókar­færsl­um sex jarð­ar­búa, skrif­að­ar á sjö dög­um. All­ir búa þeir við út­göngu­bann á sín­um bletti jarð­ar­kúl­unn­ar. En þrátt fyr­ir að all­ir lifi þeir nú tíma sem eiga sér enga hlið­stæðu í sög­unni njóta þeir í aukn­um mæli feg­urð­ar þess ein­falda, finna til djúp­stæðs ná­ungakær­leika og vilja síð­ur snúa aft­ur til þess mynst­urs sem ein­kenndi líf þeirra áð­ur en veir­an tók það yf­ir.

Dagbækur úr útgöngubanni: „Ekkert verður aftur eins og það var“
Sól í Barcelona Íbúar í Barcelona hafa ekki mátt fara út fyrir hússins dyr síðan 14. mars. Judit, Jesus og börnin þeirra tvö mega teljast heppin, því að í íbúðinni þeirra eru svalir, þar sem koma má fyrir einum stól, svo njóta megi geisla sólarinnar. Mynd: Úr einkasafni

Búdapest, Ungverjalandi

Miðvikudagurinn 25. mars 2020 

„Stjórnvöld í Ungverjalandi hafa sett lýðræðið í sóttkví.“ Einhvern veginn á þá leið hljómuðu fyrirsagnir fjölmiðla, í kjölfar þess að þing landsins, með Viktor Urban í stóli forsætisráðherra, samþykkti lög sem veita honum stóraukin völd og gera honum meðal annars kleift að stjórna með tilskipunum. Margir hafa lýst yfir áhyggjum af þessu, þeirra á meðal Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Sagðist hún óttast að Ungverjar væru að ganga of langt í að taka til sín völd, sem viðbrögð við faraldrinum. Mikil óvissa ríkir hjá íbúum landsins, um hvað þessi lagabreyting hefur í för með sér. Einn af þeim sem býr við hana er Herald Magyar, rithöfundur, þýðandi, leikari og listamaður frá Ungverjalandi, sem býr ásamt eiginkonu sinni í litlu húsi í útjaðri smábæjar í norðurhluta Ungverjalands.

Hér á eftir fara brot úr dagbókum sex jarðarbúa sem allir eiga það sameiginlegt að hafa verið í útgöngubanni í lengri eða skemmri tíma. Aðeins einn þeirra, Herald, skrifar dagbók sína undir dulnefni og birtir ekki mynd af andliti sínu. Það er vegna þess að hann er hræddur við refsingar stjórnvalda, sem geta eftir lagabreytinguna dæmt fólk í allt að fimm ára fangelsi, dreifi það „lygum“ um ástandið í landinu. Herald er þegar farinn að finna verulega fyrir áhrifum kórónavírussins, andlega, samfélagslega og efnahagslega. 

GarðurinnHörð viðurlög eru nú við því að brjóta gegn skyldusóttkví í Ungverjalandi. Hjónin eru heppin að hafa garð sem þau mega nota, því hann telst til heimilis þeirra.

„Ég bý í útjaðri smábæjar sem er í klukkustundar fjarlægð frá höfuðborg Ungverjalands, ekki langt frá slóvensku landamærunum. Undanfarna áratugi hafa þessi landamæri milli tveggja landa í Evrópusambandinu ekki haft mikla þýðingu. Nú eru þau allt í einu næstum áþreifanleg. Við konan mín erum bæði sjálfstætt starfandi. Tekjur okkar koma að mestu leyti úr kvikmyndaiðnaðinum sem hefur farið hratt vaxandi í landinu. Við vorum fullbókuð í hin ýmsu verkefni fyrir kvikmyndir þegar útgöngubannið skall á. Fyrst fannst okkur ofsahræðslan sem var að brjótast út vegna COVID-19 bæði yfirdrifin og ýkt.

Þau hugrökku myndu halda áfram að vinna á meðan hinir færu í felur. Skilningur okkar jókst smám saman, nokkuð hratt í rauninni. Vonandi nógu hratt til að bjarga mannslífum. Svo kom að því að upptökum kvikmyndanna var frestað einni af annarri. Í dag átti ég að vera í hlutverki þýsks hermanns í hollenskri kvikmynd um Önnu Frank. Konan mín átti að leika gyðingakonu í útrýmingarbúðum. Við vorum búin að klippa okkur og búningarnir voru tilbúnir. Tökum hefur nú verið frestað, ef það verður nú einhvern tímann af þeim. Meðan á óvissunni stendur þurfa einstaklingar að standast prófraunina um það hvort þeir geti borið ábyrgð á sjálfum sér og öðrum. Foreldrar eiga að loka sig af með börnum sínum. Búðir eru enn opnar en afgreiðslutíminn er takmarkaður. Fjöldi þeirra sem mega dvelja á sama stað er verulega takmarkaður. Fólk stendur í röðum á götunni, fyrir framan apótekið eða verslun slátrarans. Ef fólk væri ekki farið að hamstra nauðsynjar væri enginn skortur á mat eða vítamínum. Ekki þó af grímum og öðrum varnarbúnaði. Það er ekki einu sinni til nóg af slíkum vörum fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Við reynum að sýna skynsemi og söfnum dálitlum birgðum. Það eru sögusagnir um að brátt skelli á strangt útivistarbann.

Herinn er þegar orðinn mjög sjáanlegur í sumum hlutum landsins. Við búum í litlum bæ sem hefur lítið hernaðarlegt mikilvægi. Í höfuðborginni er lögreglan og herinn sjáanleg á götunum. Það er ekki hughreystandi, heldur gerir það flesta órólega.

Konan mín kennir þunguðum konum hugleiðslu. Augljóslega getur hún ekki hitt þær núna. Hún kennir sinn fyrsta tíma í gegnum fjarfundabúnað í dag. Mömmunni tilvonandi virðist þykja það þægileg leið. Ég kenni konunni minni hvernig hún geti betur notað myndavélina í símanum sínum. Svona aðlögumst við.

Ég reyni að sannfæra mömmu mína um að fara ekki út að kaupa í matinn, heldur biðja einhvern að gera það fyrir hana. Hún býr langt í burtu, í suðurhluta Ungverjalands. Hún fékk einu sinni krabbamein. Hún jafnaði sig á því en hún er viðkvæm. Allir sem eru eldri en við eru á okkar ábyrgð núna. Fyrir nokkrum dögum var lagt fram frumvarp á þinginu um að ríkisstjórnin fái verulega aukið vald í ótakmarkaðan tíma. Það fór ekki í gegn en sumir, eins og samtök og stofnanir Evrópusambandsins, hafa lýst yfir áhyggjum. Á tímum útgöngubanns getur fólk ekki hópast saman úti á götu og sagt hug sinn í mótmælum. Ég held þetta væri auðveldara ef það ríkti traust á milli almennings og stjórnvalda. Það reynir á andlega þegar heimsfaraldri og pólitískum óróa er skellt saman. Suma daga er þetta óbærilegt. Aðra daga virðist ástandið óraunverulegt, eins og þegar við gleymum okkur í nýjum daglegum rútínum. Það hafa aldrei fleiri greinst sýktir af veirunni en í dag. Það var áfall. Ungur breskur diplómati léstu úr COVID-19. Hann var yngri en ég. Tálsýnin um að ungur aldur verji okkur gegn vírusnum er að leysast upp. Þeir sögðu að aðeins gamla fólkið væri í hættu. Nú er ungt og sterkt fólk að gefa eftir. Sorgin vegna allra þeirra sem láta lífið liggur á hjarta mínu. Við konan mín umgöngumst ekki annað fólk. Við reynum að faðma hvert annað oftar en venjulega. Í dag föðmuðumst við átta sinnum.“





Chennai, Indlandi

Fimmtudagurinn 26. mars 2020

Grænmetisbúð í ChennaiÞær eru alla jafna sneisafullar af fólki en nú er enginn á ferli enda strangt útgöngubann í gildi.
Priya Desikan

Þann 24. mars var algjört útgöngubann sett á alla íbúa Indlands, eins fjölmennasta ríkis heims þar sem 1,3 milljarðar manna búa. Útgöngubannið tók gildi samstundis, sem leiddi til öngþveitis, þar sem gríðarmikill fjöldi fólks sem starfað hefur fjarri heimabæjum sínum var nú orðið atvinnulaust og þurfti jafnvel að fara fótgangandi nokkrar dagleiðir heim til sín. Aðgerðir indverskra stjórnvalda voru sagðar fyrirbyggjandi, þar sem ákvörðun um þær voru teknar áður en fóru að berast staðfestar fréttir af smitum innanlands. Fljótlega fóru þó fréttir af slíkum smitum að berast og ferðast vírusinn nú hratt milli héraða. Í borginni Chennai í suðurhluta Indlands, sem er fjórða stærsta borg landsins, býr ljóðskáldið og baráttukonan fyrir hreinu vatni, Priya Desikan, ásamt syni sínum og eiginmanni. 

„Ég fór út fyrir hússins dyr í fyrsta sinn í dag eftir langan tíma og í fyrsta sinn eftir að útivistarbannið var sett á. Það var undarlegt að vera úti. Algjörlega yfirgefnar götur.

Næstum hver einasta manneskja sem var á ferli var með grímu fyrir andlitinu. Ekki ég. Allar verslanir lokaðar, nema þær sem selja algjörar nauðsynjavörur, eins og stórar matvöruverslanir og grænmetisbúðir, apótek, bensínsjoppur og örfáir veitingastaðir, sem voru með hálfdregið fyrir hjá sér. Allir nema KFC. Í öllum verslunum var handspritt áberandi.

Í sumum þeirra var meira að segja manneskja fyrir utan sem sprautaði í lófana á öllum sem gengu inn. Við máttum vera tvö eða þrjú á sama tíma innan í verslununum. Það eru merkingar á götunum sem sýna hvernig við eigum að standa í röð og halda fjarlægð hvert við annað. Hillur matvöruverslunarinnar sem ég fór í voru næstum tómar.

Ekkert brauð til. Ég hafði ekki farið af stað til að kaupa matvöru, þegar allir hinir ruku til. Mér tókst að fá næstum allt á listanum mínum í dag. Ég vil ekki hamstra mat. Keypti bara nóg til að duga okkur í viku eða tvær. Frá og með morgundeginum verða verslanir aðeins opnar í þrjár klukkustundir á morgnana, á meðan birgðir endast. Enginn virðist vita hvenær vörur taka aftur að berast. Ég stóð í röð með hinum og lék rólega tónlist í símanum mínum, bara til að bæta svolítilli fegurð og friði við líf okkar allra. Þegar ég var að keyra heim sá ég nokkra götuhunda með tungurnar lafandi út um munninn. Þyrsta. Hungraða. Enginn til að gefa þeim að borða. Meira að segja götusalarnir voru hvergi sjáanlegir. Einn heimilislaus maður að fara í gegnum rusl. Eflaust svangur. Ég veit ekki hvað verður um þau. Ég veit ekki hvað þau eru að ganga í gegnum.

Ég get aðeins ímyndað mér það. Hluta af mér langar að loka augunum fyrir raunveruleikanum og ganga í burtu. Mér finnst ég hjálparvana og örvingluð, því ég finn að mig langar ekki að finna sársauka þeirra að fullu. Sársauka þeirra sem eru að svelta til dauða. Fólks og dýra sem hafa verið skilin eftir. En samt finn ég ekki til hræðslu, aðeins til þögullar rósemdar, vitandi að svona hefur náttúran alltaf virkað. Eitt högg og hún er búin að afgreiða allar hindranir og vandamál heimsins: Mengun, óheftar langanir, jafnvægisleysi, annríki, að langa ekki til að vera heima hjá sér, hræðsluna við einsemd, hræðsluna við að vera iðjulaus, að finna til óróleika í þögninni, óttann við að eiga ekki nóg, að láta aðra sjá um alla hluti, að vera ofurupptekinn af landamærum, markaleysi og svo margt annað. Svona sé ég þetta. Svona er náttúran afkastamikil. Og ég hvíli í vissunni um að allt verði í lagi, sama hvað gerist. Það eina sem ég get gert fyrir sjálfa mig og samfélagið er að halda í trúna, dvelja róleg í núinu.“





Marrakech, Marokkó

Föstudagurinn 27. mars 2020

FjölskyldanOthman er eiginmaður íslenskrar konu og saman eiga þau fjórar ungar dætur. Samt sem áður hefur honum reynst erfitt að fá útgefið ferðaleyfi, svo þau geti verið á Íslandi á meðan á faraldrinum stendur.

Mikil óvissa ríkir um raunverulega útbreiðslu COVID-19 í Afríku, þar sem heilbrigðiskerfi landanna í álfunni eru flest illa í stakk búin til að takast á við faraldur. Mun færri sýni hafa verið tekin í velflestum Afríkuríkjum en víða annars staðar. Opinberar tölur gefa því til kynna að aðeins fáeinar manneskjur hafi smitast af veirunni í sumum þeirra, sem sýnir að lítið er í raun vitað um útbreiðsluna. Staðan er skárri í Norður-Afríkuríkinu Marrokkó, þar sem yfirvöld brugðust hraðar við vánni en mörg nágrannaríkjanna. Þar var útgöngubann sett á og settar verulegar hömlur á samgöngur, jafnvel þó að fá sýni hefðu greinst jákvæð. Þrátt fyrir aðgerðirnar hefur tilfellum kórónaveirunnar fjölgað þar hratt á undanförnum dögum. Í smábæ í útjaðri Marrakech býr Birta Ár­dal Nóra Berg­steins­dótt­ir, ásamt marrokkóskum eiginmanni sínum, móðursystur sinni og fjórum ungum dætrum. Fjölskyldan hafði hug á að koma sér heim til Íslands þegar útbreiðsla veirunnar var að taka flugið, en það hefur ekki gengið hingað til. Það kann því að vera að fjölskyldan þurfi að halda sig innan dyra í Marokkó,  þar til faraldurinn gengur yfir.

„Getum við farið? Við skelltum okkur í ágætan tilfinningarússíbana í dag og himnarnir héldu áfram að gefa af sér. Það rigndi og rigndi. Við fórum yfir stöðuna. Getum við farið? Getum við bara hoppað upp í flugvél með tveggja daga fyrirvara? Við erum hér með íbúð í leigu, starfsemi í gangi. Getum við bara labbað í burtu frá þessu án þess að skilja við allt eins og við viljum?

Helst þyrftum við að skila af okkur íbúðinni, flytja búslóðina til tengdó, binda fyrir ýmsa lausa enda en við getum ekki gert neitt í þessu útgöngubanni til þess að undirbúa brottför. Othman stakk aftur upp á því að ég myndi fara með stelpurnar og hann yrði eftir til þess að binda fyrir lausa enda. Ég tek fyrir það vegna þess að ég vil alls ekki slíta fjölskylduna í sundur á þessum óvissutímum.

Ef guð lofar fer allt á besta veg en óvissan er sannarlega mikil. Ég íhugaði að draga til baka ósk um hjálp frá borgaraþjónustunni á Íslandi, vegna þess að við gætum ekki farið. Á milli spennuþrunginna samræðna gerðum við leikfimi með stelpunum inni í stofu, stóðum á haus, fífluðumst og hlógum saman. Það létti lundina umtalsvert. Seinni parturinn var rólegur. Litlu stelpurnar lögðu sig í fyrsta skipti í nokkra daga. Það er búið að vera mikil slagsmál að fá þær til að leggja sig þessa dagana, en í dag fengum við smá frið og stóru stelpurnar fengu að horfa á mynd.

Á meðan sátum við Berglind úti í garði í fuglasöng innan um kattahjörð sem hefur ákveðið að búa í garðinum vegna þess að þær fá alltaf eitthvað gott að borða hér. Við áttum fallegar samræður um lífið, traustið og trúna. Það var eins og að samræðurnar löðuðu að okkur dýrin vegna þess að þegar við skiptum um umræðuefni færðu allir kettirnir sig.

Við fengum póst frá sænska sendiráðinu í Marokkó þess efnis að það væri ekki víst hvort þau gætu skrifað út vísa fyrir Othman til þess að ferðast til Íslands. Þau bentu aftur á Útlendingastofnun. Við höfum verið send í ótal hringi. Það er eins og enginn vilji taka ábyrgð á því að gefa út þetta ferðaleyfi þrátt fyrir það að lögunum hafi verið breytt tímabundið hjá íslenskum yfirvöldum. Þar segir: „All foreign nationals with immigration status in Iceland or another Schengen State, or those who have family members in the same countries, are allowed to enter Iceland.“ Við erum svo langþreytt á þessari vísaflækju. Othman eldaði dýrindis kvöldmat en ég hafði enga lyst. Leið mjög skringilega, með höfðuverk og beinverki. Ég fer alltaf að hugsa um kórónavírusinn þegar ég er ekki alveg með sjálfri mér.“





Barcelona, Spáni

Laugardagurinn 27. mars 2020

Eina útivistin í boðiJudit hefur ekki stigið fæti niður á götu í á þriðju viku. Hún nýtur þess þó að sitja á svölunum þegar sólin skín.

Spánn er eitt þeirra landa sem hefur farið hvað verst út úr kórónaveirufaraldrinum. Dag eftir dag berast fréttir þaðan um að metið í gær hafi verið slegið í dag, aldrei hafi fleiri látist af völdum veirunnar. Þegar þetta er skrifað nálgast tala látinna 11 þúsund. Í Katalóníu, sjálfsstjórnarhéraði í norðurhluta landsins, hefur verið strangt útivistarbann í gildi frá því um miðjan mars. Þar, eins og víðar í landinu, standast heilbrigðisstofnanir álagið illa, meðal annars vegna þess að sjúkragögn skortir. Í Barcelona býr Judit Porta, blaðamaður og menningarmiðlari, með eiginmanni og tveimur börnum. Þau búa í lítilli íbúð í Gracia-hverfinu og hafa ekki stigið út fyrir hússins dyr svo vikum skiptir.

„Loksins hefur ríkisstjórn Spánar tekið ákvörðun um að stöðva alla starfsemi sem ekki er bráðnauðsynleg í landinu, frá og með mánudegi. Þannig hefur það verið hér í Katalóníu frá því að formlega var lýst yfir heimsfaraldri. Líkt og ég geri alla daga hringdi ég í pabba. Hann er 79 ára og býr einn. Hann er verkfræðingur en er mikill heimspekingur í sér, meðal annars vegna aðdáunar sinnar á löngum göngutúrum, sem hann klárar nú samviskusamlega inni í 90 fermetra íbúðinni sinni. Í dag spurði hann mig: „Af hverju tölum við um innilokun fyrst núna, þegar við erum í raun og veru alltaf innilokuð? Í íbúðum okkar, í vinnunni, í borgunum.

Ginebra, dóttir mín sem er sjö ára, er búin að finna geisladiskasafnið mitt. Hún bað mig að hlusta á tónlist með sér. Sem betur fer á ég ennþá geisladiskaspilarann minn. Við dönsuðum af krafti við Radiohead, Pixies, The Cardigans. Ég deildi líka með henni undarlegri aðdáun minni á söngleikjum Andrew Lloyd Webber. Ég skemmti mér stórkostlega. Klukkan átta um kvöldið fórum við upp á þaksvalirnar og klöppuðum fyrir heilbrigðisstarfsfólki. Þetta er orðin helgiathöfn sem við endurtökum á hverjum degi, alltaf á sama tíma. Við klöppum í samhljómi með hundruðum annarra sem frá þökum sínum, svölum og bakgörðum stappa stálinu í læknana, hjúkrunarfræðingana og hitt heilbrigðisstarfsfólkið, svo það geti haldið áfram baráttunni gegn þessum ósýnilega, litlausa og þögla óvini. Þetta er allt svo undarlegt.“





Cordóba, Argentínu

Sunnudagurinn 28. mars 2020

HeimaskrifstofanLucia býr ein lítilli íbúð í tíu hæða blokk í Kordóba.

Fyrsta tilfelli kórónaveirunnar í Suður-Ameríku kom upp í febrúarlok, þegar smit var staðfest í São Paulo í Brasilíu. Það var hins vegar í Argentínu sem tilkynnt var um fyrsta dauðsfallið hennar vegna. Þann 7. mars tilkynntu stjórnvöld þar að 64 ára karlmaður hefði látist í kjölfar sýkingar af völdum COVID-19. Nú, skömmu eftir mánaðamót, er tala látinna að nálgast 40. Stjórnvöld í Argentínu hafa stært sig af því að hafa brugðist hratt við ástandinu. Viku eftir að fyrsta dauðsfallið var staðfest var búið að setja á strangar ferðatakmarkanir, loka landamærunum og skella í lás í öllum menntastofnunum. Frá því 19. mars hefur svo útgöngubann verið í gildi. Lucia Maina Waisman er blaðamaður, samfélagsmiðlari, kennari og baráttukona fyrir mannréttindum, sem er búsett í borginni Kordóba í Argentínu.

Lucia Maina Waisman

„Þrátt fyrir að það sé sunnudagur afreka ég að gera líkamsæfingarnar sem ég hef einsett mér að gera á hverjum degi en stend sjaldan við. Dálítið jóga á þaksvölunum, hlaupa upp og niður tröppurnar þær tíu hæðir sem eru á milli íbúðarinnar minnar og útidyrahurðar fjölbýlishússins.  Á netinu gengur myndband sem sýnir lögreglumann skjóta á manneskju úti á miðri götu í annarri borga sýslunnar, fyrir að hafa brotið gegn sóttkví. Sem betur fer fann skotið sér ekki leið inn í líkama hennar. Ég vel mér bíómynd til að horfa á af lista sem stjórnandi kvikmyndaklúbbs í borginni minni setti á samfélagsmiðla. Að ég skuli vera ein að horfa á bíómynd heima hjá mér í miðjum heimsfaraldri kallar á gamanmynd. Forsetinn tilkynnir að útgöngubannið sem átti að ljúka eftir tvo daga verði framlengt til 13. apríl, eftir páska. Það þýðir að við erum ekki einu sinni hálfnuð. Eftir lófatak kvöldsins ríkir algjör þögn. Klukkan 1 eftir miðnætti vakna ég við hávaða og fer út á svalir: Tveir karlmenn hlaupa eftir yfirgefinni götunni og kasta ruslapokunum okkar upp í vörubíl í lausagangi.





Los Angeles, Bandaríkjunum

Mánudagurinn 30. mars 2020

Siobhan MurphyHún býr í Los Angeles og óttast að staðan þar verði svipuð og í New York eftir nokkrar vikur.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum fóru hægt af stað með aðgerðir til að hefta faraldurinn og lengi vel virtist Donald Trump Bandaríkjaforseti ekki ætla að horfast í augu við að hann ætti eftir að hafa djúpstæð áhrif þar líkt og víðar. Landsmenn súpa nú seyðið af því, þegar útbreiðsla vírussins virðist stjórnlaus. Þar hafa nær 7000 manns látist og 266 þúsund greinst með veiruna. New York borg hefur hingað til farið verst út úr faraldrinum en tilfellunum fjölgar hins vegar hratt í fleiri ríkjum, meðal annars í Los Angeles þar sem Siobhan Murphy, rithöfundur og framleiðandi býr.

„Það er aftur kominn mánudagur. Fréttirnar verða verri og verri hér í Bandaríkjunum, eftir því sem tölurnar ná brjáluðum hæðum. Vinir mínir geta sumir hverjir ennþá unnið heiman frá sér á meðan aðrir reyna að komast að því hvernig þeir geti sótt um atvinnuleysisbætur og ræða við leigusalana sína og bankana.

Þeir eru smám saman að átta sig á því að þetta er langt því frá að klárast. Borgarstjórinn okkar hefur ákveðið að framlengja fyrirskipunina um að fólk eigi að halda sig heima til loka aprílmánaðar að minnsta kosti, en undirbýr fólk samt sem áður fyrir að þetta geti tekið að minnsta kosti tvo mánuði í viðbót. Spítalaskip hefur lagt að bryggju og er tilbúið að taka á móti sjúklingum. Ráðstefnuhallir og íþróttaleikvangar breytast í forgangsspítala og búa sig undir að taka á móti sjúklingum.

Spár benda til þess að hér verði jafnmörg tilfelli og í New York innan nokkurra vikna. Lögregluyfirvöld eru farin að sekta fólk sem hlýðir því ekki að halda sig heima. Almenningsgarðar, baðstrandir, engi, göngustígar, leikvellir og nú bændamarkaðir hafa verið lokuð af. Ég ákveð að búa til beef bourguignon frá grunni og búa til nokkurs konar kássu. Hún þarf að malla í marga klukkutíma. Það er fallegt að einbeita sér að matseld. Mér verður hugsað til veitingastaða og hversu margir þeirra eigi ekki eftir að lifa þetta af. Eftir því sem David Chang fullyrðir munu 90% veitingastaða fara á hausinn til frambúðar. Ég hugsa um hvað matur er okkur mikilvægur, að svo mörgu leyti. Hann nærir okkur en við sækjum veitingastaði til að fagna, til að koma saman, til að verða ástfangin, til að hughreysta hvert annað. Hvað gerist þegar þessu er öllu lokið og við höfum misst okkar fallega, ljúffenga og fjölbreytta matarsamfélag í Los Angeles? Kássan er tilbúin. Hún er svo gómsæt. Ég deili mynd af henni á samfélagsmiðlum, ekki til þess að grobba mig, heldur til að segja fólki að það geti leitað til mín ef því vantar hjálp við að elda úr þeim fáu innihaldsefnum sem til eru. Margir svara mér til baka og óska eftir hjálp, svo þetta var til góðs. Klukkan 8 á hverju kvöldi heyrast hróp í hverfinu mínu, fólk stendur úti, klappar og ber á potta og pönnur til heiðurs heilbrigðisstarfsfólki okkar. Við höfum verið að gera þetta í heila í viku og hávaðinn eykst með hverjum deginum. Þetta er útrás fyrir okkur líka. Við söknum hvert annars.“





Búdapest, Ungverjalandi

Þriðjudagur 31. mars 2020

Áhyggjurnar fara vaxandiRými til að hugleiða kemur sér vel fyrir Herald þegar þörf er á að hemja kvíðann sem lætur á sér kræla um þessar mundir.

Í þessari síðustu viku marsmánaðar stytti Herald Magyar sér stundir í útgöngubanninu með því að halda dagbók fyrir lesendur Stundarinnar á Íslandi. Þegar hann byrjaði skrifin var það enn í hans huga bara fjarlægur möguleiki að ríkisstjórn Ungverjalands ætti eftir að breyta lögum og taka sér því sem næst alræðisvald um óákveðinn tíma.Það gerðist hins vegar með lagabreytingu sem tók gildi á síðasta degi mánaðarins. Hann segist strax vera farinn að aðlagast ástandinu. Segir hugann ekki geta verið á stöðugum verði, heldur sætti hann sig við hið óásættanlega, ef engu er hægt að breyta. „Fram að þessu var ekki ólöglegt að vera á annarri skoðun. Nú er það það,“ segir hann.

„Við erum öll í þessu saman. Kórónavírusinn kennir okkur að það kemur okkur við hvað er að gerast hjá fólki í öðrum heimshlutum. Eða í næsta húsi. Það sem við gerum hefur bein áhrif á líf annarra. Ég get bjargað mannslífum með því að halda mig heima. Ég get sett sjálfan mig og aðra í hættu með því að hitta þá. Heilbrigðisstarfsfólk berst fyrir einhvern sem gæti verið ég sjálf eftir nokkrar vikur. Eldri borgari lætur lífið. Gæti hafa verið annað foreldra minna. Það er erfitt að halda sig heima. Þannig er það líka fyrir milljónir annarra um allan heim. Við göngum gegnum fjárhagslega erfiðleika. Það gerir líka milljarður manna um allan heim. Hver þeirra er einstaklingur, manneskja. Þetta er ekkert venjulegt vandamál. Það er í senn alþjóðlegt og persónulegt. Mér líður illa en það er forvitnilegt að vita að tilfinningar mínar eru þær sömu og svo margra annarra. Þjáning mín er sú sama og þeirra. Nú er ekki erfitt að ímynda sér hvernig þeim líður eða hvað þau eru að gera. Ég finn til nándar með svo mörgum og ég veit að þeim líður eins, að þeir geta ímyndað sér sársauka minn og erfiðleika, því hann er samtímis og sambærilegur þeirra. Við erum saman. Aðskilin líkamlega og samfélagslega en sameinumst í lífsreynslunni. Ég finn sterkt fyrir orku augnablikanna. Hún er yfirþyrmandi. Á sama tíma einstök. Við erum að vakna. Ég býst ekki við að gleyma þessu nokkurn tímann. Né að ég vilji gleyma því. 

Lagabreytingin sem gefur ríkisstjórninni völd til að stjórna með tilskipunum hefur verið samþykkt og hafa þegar tekið gildi. Það er áhugavert hvað ég vandist hugmyndinni hratt, því það er ekkert sem hægt er að gera til að sporna við þessu strax. Ég hef ekki fundið til kvíða vegna þessa síðustu daga en fyrir viku var ég í uppnámi og virkilega hræddur. Svo hætti ég því. Hugurinn aðlagast ástandinu. Hann getur ekki verið stöðugt á verði, sættir sig við hið óásættanlega ef engu er hægt að breyta. En ég get ekki sýnt andlit mitt né gefið upp rétt nafn. Fram að þessu var ekki ólöglegt að vera á annarri skoðun. Nú er það það. Við lærum að lifa með þessu og sjáum til hvort ríkisstjórnin gefur völdin aftur þegar ástandinu lýkur. Því miður hefur hún ekki haft tilhneigingu til þess að gefa eftir völd hingað til. Ég fæ skyndilegt kvíðakast. Hausverkur, kaldur sviti, einbeitingarleysi, spenna. Ég get ekki andað eðlilega, pirringur og skapsveiflur. Það er ógnandi skuggi yfir öllu. Látbragðsleikur er lausnin. Í dýraríkinu reynir bráðin að blanda sér í hóp rándýranna þegar hún er í hættu. Ég er ekki frelsisbaráttumaður. Ég er friðarsinni. Ég mun blanda mér í hópinn og lúta höfði. Ég lýk þessari dagbók með andvarpi. Það er góð tilfinning að vita að ég geti deilt sannleika mínum með öðrum. Að vera ein rödd í kór ólíkra radda á einmitt þessu augnabliki. Að þeir sem heyra raddir okkar finni fyrir okkur, þekki okkur og tengi við okkur. Sögur okkar eru eins. Þeirra, okkar.“

Dagbækur frá sex löndum

Smelltu á manneskju til að lesa dagbókarfærslu hennar í heild.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Dagbók í útgöngubanni

Býst ekki við að börnin snúi aftur í skólann á þessu ári
VettvangurDagbók í útgöngubanni

Býst ekki við að börn­in snúi aft­ur í skól­ann á þessu ári

Í Katalón­íu hef­ur ver­ið strangt úti­vist­ar­bann í gildi frá því um miðj­an mars. Þar, eins og víð­ar í land­inu, eru íbú­ar ugg­andi enda stand­ast heil­brigð­is­stofn­an­ir álag­ið vegna kór­óna­veirunn­ar illa. Í Barcelona býr Judit Porta, blaða­mað­ur og menn­ing­ar­miðl­ari, með eig­in­manni og tveim­ur börn­um. Þau búa í lít­illi íbúð í Gracia-hverf­inu og hafa ekki stig­ið út fyr­ir húss­ins dyr svo vik­um skipt­ir. Hún deil­ir hér dag­bók sinni með les­end­um Stund­ar­inn­ar.
„Það er svo mikil þögn þarna úti“
VettvangurDagbók í útgöngubanni

„Það er svo mik­il þögn þarna úti“

Stjórn­völd í Banda­ríkj­un­um fóru hægt af stað með að­gerð­ir til að hefta COVID-19 far­ald­ur­inn og lands­menn virð­ast nú súpa nú seyð­ið af því, þeg­ar út­breiðsla hans virð­ist stjórn­laus. New York-ríki hef­ur hing­að til far­ið verst út úr far­aldr­in­um en til­fell­un­um fjölg­ar hins veg­ar hratt í fleiri ríkj­um, með­al ann­ars í Los Ang­eles þar sem Si­obh­an Murp­hy, rit­höf­und­ur og fram­leið­andi, býr.
Straujar peningaseðlana til að drepa veiruna
VettvangurDagbók í útgöngubanni

Strauj­ar pen­inga­seðl­ana til að drepa veiruna

Mik­il óvissa rík­ir hjá íbú­um Ung­verja­lands um það hvað stór­auk­in völd stjórn­valda í kjöl­far laga­breyt­ing­ar hafi í för með sér. Einn þeirra er Her­ald Magy­ar, rit­höf­und­ur, þýð­andi, leik­ari og lista­mað­ur frá Ung­verjalandi, sem býr ásamt eig­in­konu sinni í litlu húsi í út­jaðri smá­bæj­ar í norð­ur­hluta Ung­verja­lands. Líf þeirra hef­ur koll­varp­ast á skömm­um tíma. Her­ald er einn sex jarð­ar­búa sem deila dag­bók­um sín­um úr út­göngu­banni með les­end­um Stund­ar­inn­ar.
„Getum við farið?“
VettvangurDagbók í útgöngubanni

„Get­um við far­ið?“

Í Marra­kesh í Marrokkó búa hjón­in Birta og Ot­hm­an með dæt­ur sín­ar fjór­ar. Þar­lend yf­ir­völd brugð­ust hrað­ar við COVID-vánni en mörg ná­granna­rík­in, settu með­al ann­ars á strangt út­göngu­bann og aðr­ar höml­ur á dag­legt líf. Þrátt fyr­ir að­gerð­irn­ar hef­ur til­fell­um kór­óna­veirunn­ar fjölg­að þar hratt á und­an­förn­um dög­um. Birta Ár­dal Nóra Berg­steins­dótt­ir deil­ir dag­bók sinni með les­end­um Stund­ar­inn­ar. Í henni má með­al ann­ars lesa að fjöl­skyld­an hafði hug á að koma til Ís­lands á með­an á heims­far­aldr­in­um stend­ur, sem hef­ur reynst erfitt hing­að til.
Óttast hungrið meira en veiruna
VettvangurDagbók í útgöngubanni

Ótt­ast hungr­ið meira en veiruna

Stjórn­völd í Arg­entínu hafa stært sig af því að hafa brugð­ist hratt við ógn­inni sem staf­ar af COVID-19. Frá því 19. mars hef­ur út­göngu­bann ver­ið í gildi þar. Lucia Maina Wa­ism­an er blaða­mað­ur, sam­fé­lags­miðl­ari, kenn­ari og bar­áttu­kona fyr­ir mann­rétt­ind­um, sem er bú­sett í borg­inni Kor­dóba í Arg­entínu. Hún deil­ir dag­bókar­færsl­um sín­um með les­end­um Stund­ar­inn­ar.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár