Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Dreifir gleði til að takast á við óttann

Leik­kon­an Edda Björg­vins­dótt­ir er ein þeirra fjöl­mörgu sem hafa skráð sig í bakvarða­sveit und­an­farna daga. Í dag mæt­ir hún til starfa á dval­ar- og hjúkr­un­ar­heim­il­ið Lund á Hellu, ekki þó sem heil­brigð­is­starfs­mað­ur held­ur sem gleði­dreifari. Fað­ir Eddu, 97 ára, dvel­ur á Lundi. Þau feðg­in hafa ekki sést svo vik­um skipt­ir, öðru­vísi en í gegn­um gler, svo bú­ast má við fagn­að­ar­fund­um.

Dreifir gleði til að takast á við óttann
Feðginin Undanfarnar vikur segist Edda hafa hangið á gluggunum á Lundi, þar sem pabbi hennar dvelur, til þess að geta horft á hann meðan hún talar við hann í síma. Hún hittir hann í dag og hlakkar mikið til. Mynd: Úr einkasafni

Um síðustu helgi bókaði Edda Björgvinsdóttir leikkona sig inn á Hótel Stracta á Hellu. Þar hefur hún verið í einangrun í góðu yfirlæti, lifað heilnæmu lífi og umfram allt haldið sig fjarri öllu fólki, í því miði að geta hafið störf á hjúkrunarheimilinu Lundi sem allra fyrst sem meðlimur bakvarðasveitar heimilisins. „Ég get fúslega játað að það er af mjög eigingjörnum forsendum sem ég vil vera einmitt þarna, en auðvitað langar mig líka til að hjálpa við þessar aðstæður. Ég er með skátahjarta eins og pabbi minn og við tökum það mjög alvarlega að gera góðverk einu sinni á dag. Ég slæ tvær flugur í einu höggi með þessu, geri góðverk og fæ að vera nálægt fjölskyldu minni líka. Pabbi minn er nefnilega á þessu hjúkrunarheimili og dóttir mín er þar hjúkrunarforstjóri,“ segir Edda. 

„Ég er með skátahjarta eins og pabbi minn“

Frá því einangrun Eddu hófst á hótelinu hefur hún verið í beinu sambandi við covid-teymi Landspítalans og sparar ekki hrósyrðin um starfsfólk þess. „Ég er svo aðdáunarfull yfir vinnu þessa teymis, sem ég hef verið í stöðugu sambandi við,“ segir Edda. Áður en hún fór í einangrun hafði hún verið í sjálfskipaðri sóttkví svo vikum skipti og meðal annars ekki hitt stóran hluta afkomenda sinna. Nú hafi hún fengið grænt ljós hjá teyminu um að henni sé óhætt að hefja störf. „Nú er ég orðin alveg örugg og hlakka bara alveg ofboðslega til. Fyrsta verk mitt verður að lesa fyrir fólkið á Lundi uppúr bókinni sem ég var byrjuð á áður en heimilið lokaði fyrir heimsóknir – hrikalega skemmtileg bók um hana Guðrúnu Ásmunds, gleðigjafa og vinkonu mína,“ segir hún. 

Lok, lok og læs

Í venjulegu árferði gæti Edda eflaust ekki dvalið langdvölum fyrir austan, enda hefur hún haft mikið að gera í starfi sínu sem leikkona undanfarin ár og mánuði. Hún hefur einmitt nýlokið tökum á bíómynd gerðri eftir bók Auðar Jónsdóttur, Skjálfta, í leikstjórn Tinnu Hrafnsdóttur. „Tökum lauk akkúrat þegar allt fór í lás – lok, lok og læs. Fram að því hafði ég verið í tökum hálfa vikuna og hjá pabba á þessu yndislega hjúkrunarheimili, þar sem hann var í hvíldarinnlögn, hinn helming vikunnar. Þá hvarflaði að mér að það væri stórsnjallt hjá mér að semja við Stracta-hótelið á Hellu um að fá að setja mig þar í einangrun í dálítinn tíma, svo að ég geti nú komið á hverjum degi á hjúkrunarheimilið, gert þar eitthvert gagn og dreift gleði til að takast á við óttann. Ég myndi hvort sem er helst vilja hanga þar öllum stundum sem ég hef fríar, til að vera nálægt honum pabba. Það eru allir svo örlátir og fullir af vilja til að hjálpa, þannig að við komumst að dásamlegu samkomulagi, frábæra fólkið á Stracta og ég.“ 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Covid-19

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu