Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Viskubit

Heimsk­ur, upp­runi orðs­ins er sá sem held­ur sig heima við, afl­ar sér ekki þekk­ing­ar á ferð­um sín­um. Páll Stef­áns­son held­ur áfram að deila lær­dómi í mynd­um af ferð­um sín­um um heim­inn.

Viskubit
Færí flestan sjó Þessi bíleigandi í Goldfield, Nevada, ætlar ekki að fljóta að feigðarósi, heldur komast heilu höldnu heim. Hverning sem viðrar. Mynd: Páll Stefánsson

Hangandi í millilendingu um daginn á splunkunýjum frábærum Istanbúl-flugvelli tók ég eftir að næstu sextíu flug, sýnd á fjórum stórum skjáum, voru öll á sama klukkutímanum. Það lendir eða tekur á loft flugvél á vellinum á 30 sekúndna fresti; 400 þúsund lendingar og flugtök á síðasta ári, á fyrsta starfsári flugvallarins. Ég var bara peð, einn af 68 milljón farþegum sem komu eða fóru um Istanbúl-flugvöll 2019. Og ekki er hann stærstur, það eru tveir flugvellir sem voru með yfir eitt hundrað milljón farþega í fyrra: Atlanta og Peking.

Ný flugstöðBrota brotabrot af nýju flugstöðinni í Istanbúl, sem reiknar með að taka á móti 150 milljón farþegum, eftir nokkur ár.

Hálf milljón í loftinu

Þarna á flugvellinum, sem stefnir að því að geta tekið á móti 150 milljónum farþega eftir 15 ár, fékk ég nagandi flugviskubit. Ekki bara fyrir mig, eða fyrir hönd Grétu Thunberg, heldur líka allra þeirra 6 milljóna sem líkt og ég flugu þennan dag. Um hálf milljón manna eru í loftinu á þeirri stundu sem þú lest þessa setningu. Dag hvern, allan ársins hring. 

Kolefnisfótspor flugsins er 2,4 % í heiminum í dag, og á bara eftir að stækka. Flugið á eftir að aukast umtalsvert á komandi árum, nema líklega í Þýskalandi og Svíþjóð, þar sem flug dróst saman um 4% á síðasta ári. Flugvélar, þessi risastóru faratæki, eiga ekki eins auðvelt með að rafvæðast eins og lestir eða bílaflotinn. 

Minnsta kolefnissporið í mesta hitanumLestir eru umhverfisvænasti vélknúni ferðamátinn ef lagt er á stað í langferð, hér á aðallestarstöðinni í Delí. Allir gluggar lokaðir enda 49°C hiti úti í byrjun júní í fyrra.

Kolefnisgrömm á kílómetra

En er flugið alslæmt? Nei, ekki ef maður ber það saman við aðra samgöngumáta. Einkabíllinn (bensín- eða dísilknúinn meðalbíll) er verstur með kolefnisspor upp á 171 g á hvern km, með einn farþega í bílnum. Strætó skilur eftir sig 104 g á km á mann en langflug er með minna, eða 102 g á km á farþega. Styttri flug, eins og héðan til London eða Köben, eru með mun meira spor, eða 133 g á hvern km. 

Svo sporið ofan úr Breiðholti er kíló í strætó, tæp tvö með einkabílnum. En til Köben heil 251 kíló. 

Ef hver og einn flugfarþegi þyrfti að bera kolefnisfótsporið sitt inn á flugstöð til innritunar færum við aðeins að hugsa. Jafnvel hugsa eins og Gréta, áður en það verður allt, allt of seint. 

Við erum nefnilega ekkert ógurlega heimsk. Bara pínu.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu