Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Uppgjöfin reyndist stærsti sigurinn

Fimm ára vissi Sig­trygg­ur Ari Jó­hanns­son hvernig hann vildi haga lífi sínu. Í dag ger­ir hann ná­kvæm­lega það sem hann ætl­aði sér en í milli­tíð­inni henti líf­ið hon­um í ýms­ar átt­ir. Á há­tindi alkó­hól­ism­ans ákvað hann að binda endi á það, þar sem hann var stadd­ur í lít­illi íbúð í Dublin, á með­an kona hans barð­ist fyr­ir lífi sínu hér heima.

Sigtryggur Ari átti mynd ársins 2014. Myndin var af ungum hælisleitanda sem lá örmagna í rúmi sínu í hungurverkfalli. Starfið krefst þess að Sigtryggur Ari sé sífellt í leit að sögum sem hann fangar í mynd. Oft hefur hann aðeins örskamma stund til að ná kjarnanum og aðeins einn ramma til að segja söguna. Til þess þarf næmni og hæfileikann til að komast að fólki, eitthvað sem Sigtryggur Ari hefur. Hann getur gengið inn í nánast hvaða aðstæður sem er og tengst fólki á vettvangi.

Kannski af því að hann hefur sjálfur lifað hátt og sokkið djúpt. Fyrstu einkenni depurðar og kvíða birtust strax í æsku en hann horfðist ekki í augu við sjúkdóminn fyrr en hann var við dauðans dyr. „Þunglyndi og alkóhólismi eru lífshættulegir sjúkdómar því það reynist oft erfitt að viðurkenna tilvist þeirra. Þú reynir ekki að afneita kvillum eins og gigt eða magapínu, en þetta eru verstu sjúkdómarnir hvað það varðar. Afneitunin er svo sterk að þú vilt ekkert kannast við sjúkdóminn í sjálfum þér.“

Hann situr með nýfædda dóttur sína í fanginu, kraftaverkabarnið sem kom af sjálfsdáðum eftir áralanga baráttu foreldranna fyrir öðru barni. Hann er enn á bleiku skýi eftir nýafstaðið brúðkaup, sem fór fram samhliða skírninni, þar sem stúlkan fékk nafnið Ingibjörg Lára. Á meðan leikur eldri dóttir hans, Þórdís Anna, sér inni í herbergi en kíkir af og til inn í eldús, þar sem hann segir sögu sína.

„Afneitunin svo sterk að þú vilt ekkert kannast við sjúkdóminn í sjálfum þér.“

Alkóhólismi á heimilinu

Auðvitað er það ekki sjúkdómurinn sem skilgreinir hver hann er. Almennt hefur Sigtryggur Ari átt gott líf sem einkennist af ævintýrum og gleði. Sögurnar eru óþrjótandi. Nú erum við hins vegar að tala um kvíða, sem hefur verið förunautur hans frá æsku, gert vart við sig af og til, mismikið eftir tímabilum. 

Fyrstu einkenni kvíða birtust strax í æsku. Sjö ára og nýbyrjaður í skóla var hann strax farinn að ýta heimalærdómnum á undan sér og safna upp verkefnum þar til þau virtust óyfirstíganleg. Samhliða því byggði hann upp neikvæðar tilfinningar gagnvart sjálfum sér. Þegar hann hugsar til baka segist hann ekki vita hvort kvíðinn sé einfaldlega tilkominn vegna þess að hann sé svona samsettur eða hvort þetta hafi einnig verið einhvers konar viðbrögð við umhverfinu.

Amma hans og afi bjuggu í næsta húsi og Sigtryggur Ari var mikið þar. Eins indæll og afi hans var glímdi hann við sjúkdóm sem hafði mikil áhrif á alla fjölskylduna. „Alkóhólisminn hafði auðvitað meiri áhrif á ömmu og mömmu en ég var engu að síður barn í fjölskyldu þar sem alkinn, sjúkdómur hans og hegðun aftur í tímann, réði því að allt einkenndist af meðvirkni.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu