Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 9 árum.

„Hrein og góð sorg“

Ver­öld Þór­unn­ar Erlu Valdi­mars­dótt­ur breytt­ist þeg­ar eig­in­mað­ur henn­ar, Eggert Þór Bern­harðs­son, lést á síð­asta degi síð­asta árs. Sjálf lif­ir hún á að skapa og skrifa, rétt eins og Eggert, sem lífg­aði við horfna heima í bók­um sín­um. Þau byrj­uðu hvern dag á því að faðm­ast. Nú vinn­ur hún úr „hreinni sorg“.

Þegar skyndilegir og voveiflegir atburðir eiga sér stað í lífi fólks greypist minningin um minnstu smáatriði inn í hugann. Þannig var það þegar Þórunn Erlu Valdimarsdóttir rithöfundur og sagnfræðingur vaknaði að morgni gamlársdags og ástkær eiginmaður hennar til 34 ára lá á baðherbergisgólfinu eftir banvænt hjartaáfall. Yngri sonur þeirra heyrði hann falla og var búin að hringja í 112 og saman reyndu þau að lífga hann við.

Hann var búinn að setja uppþvottavélina í gang. „Hún hélt áfram að syngja,“ segir Þórunn. Bráðaliðar komu strax og reyndu að pumpa í hann lífi og gáfu þeim von að hanga í. „Í kringum svona hrylling man maður allt. Allt brennir sig inn í minnið.“

Var á leiðinni til læknis

Eggert Þór Bernharðsson, eiginmaður Þórunnar, hafði frestað því að fara til læknis vegna þess að hann var upptekinn.
„Fyrir jólin 2011 gaf ég honum gjafabréf Hjartaverndar í jólagjöf, átján þúsund krónur, með mín litlu laun. Bréfið rann út og mér var tjáð í síma að ekki væri hægt að fá það framlengt,“ segir Þórunn. Ég rakst á gjafabréfið í pappírstiltekt í gær og hringdi í Hjartavernd, sem lofaði mér að þetta myndi ekki koma fyrir oftar, að gjafabréf óþekkra sem vilja ekki fara til læknis rynnu út. Þau buðust til að endurgreiða upphæðina. Það er kaldhæðnislegt. Eggert Þór var fyrir löngu á leiðinni að fara til læknis, því ég lá á honum með það, þar sem hann var hjartaáfallstýpan í vaxtarlagi. Hann á bæði vin og mág sem eru læknar, svo hæg voru heimatökin. Ég fór sjálf í vor til bróður míns að láta hann skoða lífsmörk mín, í þeirri von að hann gerði það líka. Eggert Þór var hamhleypa til verka, alltaf svo duglegur og varð fyrst að klára jólabókina, Sveitin í sálinni. Svo þurfti að kynna hana. Síðan var fyrirslátturinn sá að jólin væru alveg að koma, þegar ég spurði hvort hann ætlaði ekki til vinar síns í skoðun. Þeir höfðu þá rætt það sín á milli. Eggert fékk andnauð annan í jólum, ég var ekki viðstödd en sá í sjónvarpsmynd að andnauð getur tengst hjarta, en hann var með lungnakvef og það gat líka verið sökudólgurinn. Ég sagði við hann þriðja í jólum: Ætlarðu ekki að fara til læknis núna? Hann sagði nei, og mér féll ketill í eld, hann þurfti að fara að undirbúa kennslu næsta misseris. En hann var alveg að fara og hefði ekki sloppið eftir áramót. Hann var meira að segja búinn að segja við aðra en mig að hann ætlaði strax eftir áramót til læknis. Það munaði mjóu. Fornmenn kölluðu þetta feigð, til að hugga sig.

Kjósa
2
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár