Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Hallarbylting og hreinsanir í fíkniefnadeild

Lög­reglu­menn sem höfðu lög­reglu­full­trúa í fíkni­efna­deild fyr­ir rangri sök hafa ver­ið hækk­að­ir í tign, feng­ið óaug­lýsta stöðu og hlot­ið ann­ars kon­ar fram­gang í starfi. Þeir sem stóðu með lög­reglu­full­trú­an­um fengu hins veg­ar að kenna á því. Í skýrslu­tök­um hjá hér­aðssak­sókn­ara lýstu lög­reglu­menn ólgu, ósætti og flokka­drátt­um og haft var á orði að „smákónga­stríð“ geis­aði inn­an fíkni­efna­deild­ar. En um hvað snýst smákónga­stríð­ið?

Um helmingur þeirra lögreglumanna sem sökuðu lögreglufulltrúa í fíkniefnadeild um lögbrot hefur verið hækkaður í tign eða hlotið framgang í starfi eftir að lögreglufulltrúanum var vikið úr deildinni. Einn þeirra gegnir nú stöðunni sem lögreglufulltrúinn gegndi áður og annar hefur verið settur í stöðu lögreglufulltrúa á höfuðborgarsvæðinu án auglýsingar. 

Aldís Hilmarsdóttir, fyrrverandi yfirmaður fíkniefnadeildar, var færð til og svipt öllum mannaforráðum skömmu eftir að mál lögreglufulltrúans rataði í fjölmiðla. Þá hafa tveir lögreglumenn, sem töldu ásakanir á hendur lögreglufulltrúanum tilhæfulausar og gagnrýndu framgönguna gagnvart honum, verið reknir af vettvangi fíkniefnarannsókna.

Að mati héraðssaksóknara liggur nú fyrir að umræddur lögreglufulltrúi var hafður fyrir rangri sök. Samkvæmt rökstuðningi embættisins fyrir niðurfellingu málsins kom ekkert fram við rannsókn þess sem rennir stoðum undir ásakanir um að maðurinn – sem hér eftir verður kallaður lögreglufulltrúi x – hafi átt í óeðlilegum samskiptum við fíkniefnaheiminn eða brotið af sér í starfi.

Í skýrslutökum lýstu lögreglumenn ólgu, ósætti og flokkadráttum og haft var á orði að „smákóngastríð“ geisaði innan deildarinnar.

Ólga vegna leynihóps

Sú deild sem hér er fjallað um er yfirleitt kölluð fíkniefnadeild í fjölmiðlum en fæst við rannsóknir á skipulagðri brotastarfsemi almennt.

Á meðal þess sem skapað hefur sundrung innan deildarinnar er sú tilhögun að einungis fáeinir lögreglumenn tilheyri sérstöku upplýsingateymi; leynihópi sem sinnir utanumhaldi og samskiptum við uppljóstrara lögreglu innan úr fíkniefnaheiminum. Leynd ríkir yfir störfum þessa hóps af öryggisástæðum og til að fyrirbyggja hagsmunaárekstra. 

Lögreglufulltrúi x var um árabil yfirmaður hópsins og samkvæmt heimildum Stundarinnar bakaði hann sér óvild meðal nokkurra starfsmanna fíkniefnadeildar, einkum þeirra sem töldu borðleggjandi að þeir fengju að tilheyra upplýsingateyminu vegna reynslu sinnar og starfsaldurs. 

„Hann fékk menn upp á móti sér,“ segir fyrrverandi lögreglumaður í samtali við Stundina. Hann vandar lögreglufulltrúa x ekki kveðjurnar og segist telja að hann hafi komið illa fram við nokkra kollega sína. Aðspurður hvort hann telji þetta skýra ásakanirnar á hendur manninum segir að hann að svo megi vel vera.   

Mynd tengist frétt ekki beint.

Annar viðmælandi Stundarinnar úr lögreglu segir að lögreglufulltrúi x hafi einfaldlega oft verið „pirraður á starfsmönnum sem ekki nenntu að vinna vinnuna sína“ og bætir við: „Í lögreglunni er nóg af mönnum sem eru hálfgerðir áskrifendur að laununum sínum því þeir eru löngu hættir að nenna þessu. Það fór í pirrurnar á [lögreglufulltrúa x] og hann var stundum ekkert að fela það.“ 

Í skýrslutökum hjá embætti héraðssaksóknara fullyrti fjöldi lögreglumanna að lögreglufulltrúi x væri vandaður og ekki þekktur fyrir annað en fagleg vinnubrögð. Þá var haft á orði að óánægju í fíkniefnadeild mætti rekja til þess að mönnum hugnuðust ekki breytingar sem gerðar voru á utanumhaldi með uppljóstrurum lögreglu innan fíkniefnaheimsins. Þeir sem ekki hefðu fengið að vera í upplýsingateyminu væru óánægðir með að upplýsingum teymisins væri haldið frá þeim. 

Forsaga málsins

Árið 2011 kvörtuðu þrír lögreglumenn, sem ekki tilheyrðu upplýsingateymi fíkniefnadeildar, undan því sem þeir töldu óeðlileg samskipti lögreglufulltrúa x við aðila úr undirheimum. Karl Steinar Valsson, þáverandi yfirmaður fíkniefnadeildar, gerði athugun á ásökununum, bar þær saman við gögn lögreglu og útbjó greinargerð sem send var Friðriki Smára Björgvinssyni, yfirlögregluþjóni á höfuðborgarsvæðinu og Jóni H. B. Snorrasyni varalögreglustjóra. Í ljósi þess að enginn rökstuddur grunur var um refsiverða háttsemi þótti ekki ástæða til að vísa málinu til ríkissaksóknara. 

Um tveimur árum síðar, í apríl 2014, setti Stefán Eiríksson, þáverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, Aldísi Hilmarsdóttur í stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns og yfirmanns rannsóknardeildar fíkniefnamála og skipulagðrar brotastarfsemi. Áður hafði Aldís meðal annars starfað í efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, fjármunabrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og hjá sérstökum saksóknara.

Með tilkomu Aldísar urðu áherslubreytingar innan fíkniefnadeildar. „Follow the money“ varð allt í einu aðalatriðið, frekar en að eltast við smákrimma,“ segir einn af heimildarmönnum Stundarinnar. Lögreglufulltrúi x var á meðal þeirra sem fögnuðu breytingunum en nokkrum úr deildinni hugnuðust þær ekki. 

Um sumarið sagði Stefán Eiríksson starfi sínu lausu í kjölfar þrýstings og ítrekaðra afskipta þáverandi innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, af störfum hans. Sigríður Björk Guðjónsdóttir var þá flutt frá Suðurnesjum og skipuð í starf lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu án auglýsingar. Ráðist var í umfangsmiklar skipulagsbreytingar hjá lögreglunni, meðal annars starfsmannaskipti milli lögreglustjóraembættisins á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóra. Skömmu eftir að Aldís var skipuð í stöðu yfirmanns R-2 til fimm ára á vormánuðum 2015 kastaðist í kekki á milli þeirra Sigríðar. Að því er fram kemur í stefnu, sem Aldís hefur lagt fram gegn íslenska ríkinu vegna framgöngu Sigríðar Bjarkar gagnvart sér, þurfti hún til að mynda að ganga sérstaklega á eftir því að fá skipunarbréf sitt afhent.

„Innanhússskoðun“ lögreglu

Um sumarið leituðu átta lögreglumenn til Ásgeirs Karlssonar, yfirmanns greiningardeildar ríkislögreglustjóra, og komu á framfæri ábendingum um hugsanleg brot lögreglufulltrúa x. Áður höfðu þrír þeirra, starfsmenn fíkniefnadeildar, farið á fund Friðriks Smára Björgvinssonar yfirlögregluþjóns. „Erindi eins þeirra var að benda á óeiningu innan deildarinnar en hinna tveggja að koma á framfæri upplýsingum, byggðum á sögusögnum, um hugsanleg brot lögreglufulltrúans í starfi,“ segir í fréttatilkynningu sem Friðrik Smári sendi út þegar Vísir.is fjallaði um málið. Eftir að málið var komið á borð ríkislögreglustjóra var það unnið í samráði við Sigríði Björk og ákveðið að vísa því áfram til ríkissaksóknara. 

Þann 15. maí upplýsti Ásgeir Karlsson ríkissaksóknara um ábendingar lögreglumannanna og í framhaldinu óskaði saksóknaraembættið eftir frekari upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þegar hér er komið sögu setti lögreglan af stað „innanhússskoðun“ eins og það er kallað í styttri útgáfu af niðurfellingarbréfi héraðssaksóknara og var tveimur lögreglumönnum falið að annast hana. 

Lögreglufulltrúi x
Lögreglufulltrúi x var sakaður um óeðlileg samskipti við aðila úr fíkniefnaheiminum en hefur verið hreinsaður af þeim ásökunum.

Í innanhússskoðun lögreglunnar var einungis rætt við þá sem sakað höfðu lögreglufulltrúa x um refsiverða háttsemi. Hvorki honum sjálfum né yfirmönnum hans var gefinn kostur á að svara ásökununum né koma athugasemdum á framfæri. Samkvæmt heimildum Stundarinnar voru margar þeirra ávirðinga og ágiskana sem skráðar voru niður við innanhússrannsókn lögreglu þess eðlis að einfaldar skýringar hefði verið hægt að nálgast í gagnagrunnum og tölvukerfum, hjá yfirmönnum lögreglufulltrúans og öðrum, sem ekki var rætt við þegar skoðunin var framkvæmd. 

„Sigríði var bent á þetta af þeim sem framkvæmdu skoðunina, að hægt væri að ræða við þá sem stjórnuðu og spyrja þá út í einstök atriði en hún bannaði það,“ segir einn af heimildarmönnum Stundarinnar úr lögreglu. „Aðeins skyldi talað við menn sem töldu sig hafa yfir einhverju að kvarta hjá [lögreglufulltrúa x] og engan annan mátti tala við.“ 

Fjórmenningar úr fíknó

Af þeim átta mönnum sem kvörtuðu til ríkislögreglustjóra voru aðeins fjórir starfandi í fíkniefnadeild. 

Einn fjórmenninganna var Jens Gunnarsson, rannsóknarlögreglumaðurinn sem sat í gæsluvarðhaldi yfir síðustu áramót vegna gruns um að hafa átt í óeðlilegum samskiptum við brotamenn og þegið frá þeim peningagreiðslur. 

Annar fjórmenninganna hafði lengi starfað sem rannsóknarlögreglumaður í fíkniefnadeild, meðal annars sótt um stöðu yfirmanns en lotið í lægra haldi fyrir Aldísi. Í fyrra sótti hann um lögreglufulltrúastöðu sem lögreglufulltrúi x hafði sótt um og flestum þótti augljóst að sá síðarnefndi myndi fá. Lögreglufulltrúi x dró umsókn sína til baka þegar fjölmiðlar hófu að fjalla um ásakanir á hendur honum. Eftir að lögreglufulltrúa x var vikið úr fíkniefnadeild var umræddur rannsóknarlögreglumaður hækkaður í tign og gerður að lögreglufulltrúa. 

Sá þriðji úr fjögurra manna hópnum hafði lengi starfað sem rannsóknarlögreglumaður í fíkniefnadeild og sóst eftir inngöngu í upplýsingateymið án árangurs. Í dag er hann orðinn einn af meðlimum teymisins.

Fjórði maðurinn hafði sótt um stöðu yfirmanns í fíkniefnadeild á sínum tíma en ekki fengið. Samkvæmt heimildum Stundarinnar var hann einn þeirra sem höfðu býsnast yfir því að innan deildarinnar starfaði upplýsingateymi, einhvers konar leyniklúbbur, sem vissi meira en hann og jafnvel eldri starfsmenn. Maðurinn gegnir í dag stöðu yfirmanns upplýsingateymisins, stöðunni sem lögreglufulltrúi x gegndi áður. 

Samstarfsmenn færðir til

Í millitíðinni hafði hins vegar annar maður, náinn samstarfsfélagi lögreglufulltrúa x til margra ára, tekið við yfirmannsstöðu upplýsingateymisins og sinnt henni í um mánuð. Eftir að lögreglumaður úr fíkniefnadeild, einn þeirra sem sakað hafði lögreglufulltrúa x um ólöglega háttsemi, kom að máli við nýja yfirmanninn og vildi komast inn í upplýsingateymið vöknuðu deilur milli þeirra um málefni lögreglufulltrúa x. Hinn nýi yfirmaður upplýsingateymisins sakaði kollega sinn um að hafa tekið þátt í rógsherferð gegn lögreglufulltrúa x; framin hefði verið hallarbylting innan fíkniefnadeildar með það að markmiði að bola burt lögreglufulltrúanum og Aldísi Hilmarsdóttur. 

Eftir þetta fór umræddur starfsmaður og klagaði yfirmann upplýsingateymisins til Sigríðar Bjarkar lögreglustjóra. Hún boðaði yfirmann teymisins á fund og krafðist þess að hann drægi ummæli sín til baka. Það vildi hann ekki gera. Í kjölfarið var maðurinn sviptur tign lögreglufulltrúa og fluttur úr hinni miðlægu rannsóknardeild sem fæst við fíkniefnarannsóknir og skipulagða brotastarfsemi. Eftir því sem Stundin kemst næst hefur hann starfað þar til nú nýverið á lögreglustöðinni í Hafnarfirði og rannsakað minniháttar sakamál. 

Í kjölfar þess að manninum var vikið úr fíkniefnadeild tók einn fjórmenninganna við stöðu yfirmanns upplýsingateymisins. Samkvæmt heimildum blaðsins hefur sá maður ekki reynslu eða þjálfun í að vinna með upplýsingagjöfum lögreglu, enda tilheyrði hann ekki upplýsingateymi fíkniefnadeildar meðan lögreglufulltrúi x var yfirmaður þess. 

Hinn maðurinn sem vikið var úr fíkniefnadeild vegna vinskapar við lögreglufulltrúa x hafði lengi starfað í upplýsingateyminu og notið virðingar innan lögreglunnar. Hafði hann annast skipulag og stjórnun umfangsmikilla aðgerða á sviði fíkniefnarannsókna. Fljótlega eftir að lögreglufulltrúa x var vikið úr deildinni frétti maðurinn að hann væri ekki lengur í náðinni hjá Sigríði Björk lögreglustjóra. Hann var færður til, vikið úr upplýsingateyminu og sinnir nú rannsóknum ofbeldisbrota, málum sem hann hefur enga sérstaka reynslu af eða þekkingu á. 

„Það var engin fagleg, málefnaleg eða skynsamleg ástæða fyrir þessari breytingu,
þetta var augljóslega vegna þess að hann var náinn [lögreglufulltrúa x]“

„Það var engin fagleg, málefnaleg eða skynsamleg ástæða fyrir þessari breytingu, þetta var augljóslega vegna þess að hann var náinn [lögreglufulltrúa x],“ segir einn af viðmælendum Stundarinnar. Annar tekur í sama streng og segir: „Auðvitað fengu menn á tilfinninguna að það væru farnar af stað einhvers konar hreinsanir; það ætti að setja þá út í horn sem höfðu unnið náið með [lögreglufulltrúa x]. Núna þegar sannleikurinn liggur fyrir eftir rannsókn héraðssaksóknara sést auðvitað hvers konar klikkun þetta var.“

Orðinn lögreglufulltrúi án auglýsingar

Hinir fjórir sem leituðu til Ásgeirs Karlssonar og sökuðu lögreglufulltrúa x um refsiverða háttsemi voru á þeim tíma ekki starfsmenn fíkniefnadeildar.  

Einn þeirra starfaði áður hjá embætti sérstaks saksóknara og hefur nú verið settur í stöðu lögreglufulltrúa án auglýsingar. 

Annar er núverandi starfsmaður lögreglunnar á Selfossi en vann áður sem lögreglufulltrúi á lögreglustöðinni í Reykjavík. Þar áður hafði hann starfað sem lögreglufulltrúi yfir aðgerðahópi fíkniefnadeildar en verið rekinn. „[Lögreglufulltrúi x] hrakti [umræddan mann] úr starfi og hirti svo vinnuna hans,“ segir fyrrverandi starfsmaður lögreglunnar í samtali við Stundina. Annar viðmælandi segir að það sé fráleitt að kenna [lögreglufulltrúa x] um brottrekstur umrædds manns úr fíkniefnadeild.  

Þriðji maðurinn utan fíkniefnadeildar sem sakaði lögreglufulltrúa x um ólöglega háttsemi er núverandi varðstjóri hjá lögreglunni á Vík í Mýrdal og fyrrverandi starfsmaður fíkniefnadeildar. Fjórði maðurinn átti minni aðkomu að málinu en hinir. Hann staðfesti einungis að hafa orðið vitni að tilteknu samtali sem hinum mönnunum fannst grunsamlegt. Sjálfur mun hann ekki hafa hallað orði á lögreglufulltrúa x.  

Sigríður Björk Guðjónsdóttir
Sigríður Björk Guðjónsdóttir var skipuð í stöðu lögreglustjóra án auglýsingar í ráðherratíð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.

Aldís kölluð á teppið

Eftir að rætt hafði verið við áttmenningana í því sem kallað var „innanhússskoðun“ lögreglu, sendi Sigríður Björk ríkissaksóknara bréf, dagsett 8. júní 2015, þar sem ásakanir mannanna voru teknar saman og embættinu greint frá því að uppi væri orðrómur um að tiltekinn aðili úr fíkniefnaheiminum hefði um langa hríð notið sérstakrar verndar lögreglufulltrúa x, hugsanlega gegn peningagreiðslum. 

Í kjölfarið fundaði Sigríður Björk með ríkissaksóknara. Þær komust að þeirri niðurstöðu að kanna þyrfti málið betur. Á grundvelli frásagna áttmenninganna voru 22 tilvik um meint brot lögreglufulltrúa x skráð niður og gögnum úr LÖKE-kerfinu, upplýsingakerfi upplýsingateymis lögreglunnar og upplýsingaveitu fíkniefnadeildar safnað saman. 

Þann 14. desember 2015 – þegar innanhússkoðuninni var lokið án þess að lögreglufulltrúi x og yfirmenn hans hefðu fengið að koma athugasemdum á framfæri – var Aldís Hilmarsdóttir boðuð á fund Sigríðar Bjarkar lögreglustjóra með skömmum fyrirvara og fundarefnis ekki getið.

„Á fundinum, þar sem einnig var viðstaddur aðallögfræðingur embættisins, kom lögreglustjóri á framfæri ýmsum órökstuddum ásökunum á hendur stefnanda,“ segir í stefnu Aldísar á hendur íslenska ríkinu. Í lok fundar var Aldísi boðið að flytja sig til embættis héraðssaksóknara en hún hafnaði boðinu.

Sigríður Friðjónsdóttir
Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari

Lögfræðingur hefur samband

Daginn eftir fundinn, þann 15. desember 2015, afhenti Sigríður Björk ríkissaksóknara skjalamöppu með gögnum innanhússskoðunarinnar. Sama dag barst ríkissaksóknara dularfullur tölvupóstur frá lögfræðingi og fyrrverandi starfsmanni fíkniefnadeildar. Saksóknari hringdi í manninn sem sagðist vera umboðsmaður aðila úr fíkniefnaheiminum sem byggi yfir upplýsingum um meint brot lögreglufulltrúa x. Lögreglufulltrúinn hefði um árabil veitt umbjóðanda hans upplýsingar um fíkniefnarannsóknir og þegið greiðslur frá honum upp á margar milljónir. Samskiptin hefðu byrjað með þeim hætti að lögreglufulltrúi x hótaði undirheimamanninum ofsóknum ef hann veitti sér ekki upplýsingar um aðra aðila úr fíkniefnaheiminum. Með tímanum hefði nokkurs konar viðskiptasamband komist á milli þeirra. Sagði lögfræðingurinn að umbjóðandi sinn væri reiðubúinn að upplýsa um málið með því skilyrði að hann yrði sjálfur ekki ákærður.

Eftir þetta ákvað ríkissaksóknari að hefja sakamálarannsókn á lögreglufulltrúa x og var málið sent nýstofnuðu embætti héraðssaksóknara 8. janúar 2016. Undirheimamaðurinn sem átti að hafa leitað til lögfræðingsins var tekinn í skýrslutöku og kom af fjöllum þegar hann var spurður um málið. „Sagðist hann aldrei hafa leitað til [lögfræðingsins] í þessu skyni og ekkert skilja hvað fyrir honum vakti,“ segir í niðurfellingarbréfi saksóknara. 

Þá sagði undirheimamaðurinn að umræddum lögfræðingi væri illa við lögreglufulltrúa x og kenndi honum um að hafa verið rekinn úr fíkniefnadeild á sínum tíma. Þetta fékk Stundin staðfest þegar rætt var við lögfræðinginn, en hann hefur nú verið kærður fyrir rangar sakargiftir. Lögfræðingurinn segir í samtali við Stundina að hann sé bundinn trúnaði um mál skjólstæðings síns en sé þess fullviss að með tíð og tíma komi sannleikurinn í ljós. 

Undirheimamaðurinn hefur þverneitað fyrir að hafa átt í óeðlilegum samskiptum við lögreglufulltrúa x. Samkvæmt heimildum Stundarinnar mætti hann með öðrum lögmanni í skýrslutöku til héraðssaksóknara og hefur ekki viljað kannast við að lögfræðingurinn sem hér er fjallað um sé umboðsmaður sinn.

„Algjör tilviljun“

Aðspurður hvort hann hafi leitað til ríkissaksóknara í samráði við embætti lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu segir lögfræðingurinn: „Nei, ég starfa ekki fyrir lögregluna, bara fyrir minn skjólstæðing.“ Aðspurður hvort það sé þá tilviljun að hann hafði samband við ríkissaksóknara sama dag og Sigríður Björk sendi embættinu skjalamöppu um innanhússskoðun lögreglunnar segir hann að engin tengsl séu þarna á milli. „Þetta er algjör tilviljun. Það var nú meira að segja þannig að ég var ekki boðaður í skýrslutöku þegar innanhússskoðunin hjá lögreglunni fór fram.“ Lögfræðingurinn sótti nýverið um stöðu lögreglufulltrúa en fékk ekki. Hins vegar hefur hann verið ráðinn sem lögreglumaður í afleysingum á Vík í Mýrdal næstu vikurnar. 

Þann 14. janúar síðastliðinn, skömmu eftir að ríkissaksóknari áframsendi málið til héraðssaksóknara, ákvað Sigríður Björk að víkja lögreglufulltrúa x tímabundið frá störfum. Var honum tjáð að með brottvikningunni væri yfirstjórn lögreglu að bregðast við fjölmiðlaumfjöllun um meinta spillingu í fíkniefnadeild. Að mati innanríkisráðuneytisins fól ákvörðun Sigríðar Bjarkar í sér brot á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, enda byggði hún á orðrómi en ekki rannsóknargögnum. 

Ólöf Nordal
Ólöf Nordal innanríkisráðherra

Daginn eftir hélt Aldís Hilmarsdóttir á fund Ólafar Nordal innanríkisráðherra og lýsti fyrir henni því umhverfi sem hún og aðrir starfsmenn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafa búið við undir stjórn Sigríðar Bjarkar. „Fyrir liggur að lögreglustjóri vissi af fundi stefnanda og innanríkisráðherra, en í lok dags þennan sama föstudag kom lögreglustjóri við á skrifstofu stefnanda í því skyni að ræða hvað fram hefði farið á fundinum,“ segir í stefnu Aldísar. 

Á mánudeginum eftir helgina var Aldís rekin úr valnefnd sem sér um ráðningu nýrra lögreglufulltrúa í hinni miðlægu deild fíkniefnadeildar. „Nokkrum mínútum síðar barst stefnanda svo fundarboð í tölvupósti frá lögreglustjóra. Kom þar fram að tilefni fundarins væri að ræða fyrirhugaðar breytingar á verkefnum núverandi stjórnanda í miðlægri rannsóknardeild.“ Á fundinum var Aldísi kynnt sú ákvörðun að hún yrði færð til í starfi og svipt öllum mannaforráðum. Þetta var gert á þeim grundvelli að „tveir undirmenn stefnanda sættu rannsókn vegna gruns um spillingu, ástandið í deild stefnanda væri slæmt og að „breytingin“ væri gerð í þágu trúverðugleika deildarinnar“ en lögreglustjórinn neitaði að gefa upp hvort ákvörðunin hefði verið tekin með samþykki eða vitneskju yfirstjórnar embættisins.

Karl Steinar Valsson
Karl Steinar Valsson fyrrverandi yfirmaður fíkniefnadeildar

Samskipti í samráði við yfirmann

Þegar héraðssaksóknari rannsakaði mál lögreglufulltrúa x voru teknar skýrslur af 29 vitnum auk sakborninganna tveggja; lögreglumanni x og undirheimamanninum sem var sakaður um að hafa átt í óeðlilegum samskiptum við. Sakborningar og vitni voru yfirheyrð um öll þau 22 tilvik sem tekin höfðu verið saman í innanhússskoðun lögreglu. Í engu tilvikinu taldist lögreglufulltrúi x hafa átt í óeðlilegum samskiptum við manninn. Þótti vel skjalfest að hvers kyns samskipti við undirheimamanninn hefðu farið fram í samráði við Karl Steinar Valsson, þáverandi yfirmann fíkniefnadeildar auk annars af þeim tveimur samstarfsmönnum lögreglufulltrúa x sem síðar voru reknir af vettvangi fíkniefnarannsókna. 

Eins og Vísir hefur fjallað talsvert um var lögreglufulltrúi x á tímabili bæði í upplýsingateymi fíkniefnadeildar og í rannsóknum. Fram kom í skýrslutökum, bæði yfir honum sjálfum og öðrum, að honum hefði þótt þetta óeðlileg staða og kvartað undan fyrirkomulaginu við yfirmenn sína en talsverður tími liðið þar til því var breytt. 

Listinn reyndist ekki vera til

Fyrr á árinu fullyrti Vísir.is að meirihluti fíkniefnadeildar hefði í sameiningu gert alvarlegar athugasemdir við störf lögreglufulltrúa x. Samkvæmt heimildum Stundarinnar hefur Sigríður Björk ítrekað vísað til þessa í umræðum um málefni fíkniefnadeildar. „Hún var alltaf að veifa þessu, að níu starfsmenn – meirihluti fíkniefnadeildar – hefðu skilað til sín undirritaðri vantrauststillögu eða einhverju slíku,“ segir einn af heimildarmönnum Stundarinnar.

Fleiri viðmælendur taka í sama streng. „Ég held að enginn trúi því lengur að þessi listi, eða þessi vantraustsyfirlýsing eða hvað þetta nú átti að vera, sé til,“ segir einn þeirra. Kristján B. Thorlacius, lögmaður lögreglufulltrúa x, staðfestir í samtali við Stundina að nýlega hafi hann sent lögreglustjóra formlegt erindi, fyrir hönd skjólstæðings síns, og óskað eftir því að fá listann afhentan. Þá hafi honum borist skriflegt svar þar sem fram kemur að listinn sé ekki til.

Eins og Stundin hefur áður fjallað um telur Aldís Hilmarsdóttir að Sigríður Björk hafi með ámælisverðum og endurteknum hætti valdið henni vanlíðan, lagt hana í einelti og framið ólögmæta meingerð gegn friði hennar, æru og persónu. Hefur hún verið óvinnufær síðan og stefnt íslenska ríkinu vegna málsins. Fyrr í sumar greindi RÚV frá því að Aldís ætti ekki afturkvæmt í sína fyrri stöðu, enda hefði nýr yfirmaður tekið við keflinu og frekari breytingar væru ekki í sjónmáli. Í viðtali við Aldísi sagðist hún fyrst hafa heyrt af þessari ákvörðun í fréttum. 

Lögreglufulltrúi x er kominn aftur til starfa en vinnur í tölvurannsóknardeild á Vínlandsleið við Grafarholt. Í ljósi eindreginnar niðurstöðu innanríkisráðuneytisins og héraðssaksóknara ætlar hann að stefna lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu til greiðslu miskabóta. Fram hefur komið fleiri íhugi að grípa til sams konar úrræða, svo líklega er of snemmt að lýsa því yfir að „smákóngastríðinu“ í fíkniefnadeild sé lokið. 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Lögregla og valdstjórn

Lögreglan mælir aukna ógn á hryðjuverkum í nýju áhættumati
FréttirLögregla og valdstjórn

Lög­regl­an mæl­ir aukna ógn á hryðju­verk­um í nýju áhættumati

Grein­ing­ar­deild rík­is­lög­reglu­stjóra kynnti fyr­ir skömmu til sög­unn­ar nýtt áhættumat sem legg­ur mat á ógn sem staf­ar af hryðju­verk­um hér á landi. Sam­kvæmt nýju áhættumati er hættu­stig­ið hér á landi met­ið á þriðja stigi af fimm sem þýð­ir að til stað­ar sé ásetn­ing­ur og geta til þess að skipu­leggja hryðju­verk hér á landi.
Lögreglan segir að gildandi lög hafi heft rannsókn á meintum ISIS-liða
FréttirLögregla og valdstjórn

Lög­regl­an seg­ir að gild­andi lög hafi heft rann­sókn á meint­um IS­IS-liða

Þrír menn voru hand­tekn­ir 12. janú­ar síð­ast­lið­inn í um­fangs­mik­illi lög­reglu­að­gerð á Ak­ur­eyri. Tveim­ur var sleppt en sá þriðji, sem var grun­að­ur um að­ild að IS­IS-hryðju­verka­sam­tök­un­um, var send­ur úr landi ásamt fjöl­skyldu sinni. Lög­regla hef­ur lít­ið tjáð sig um mál­ið vegna rann­sókn­ar­hags­muna. Í svör­um lög­reglu við fyr­ir­spurn Heim­ild­ar­inn­ar er þess þó get­ið að lög­regla hafi ekki ver­ið heim­iilt að nota all­ar upp­lýs­ing­arn­ar sem var miðl­að til henn­ar við rann­sókn máls­ins vegna gild­andi lagaum­hverf­is.
Helmingur yfirstjórnenda lögreglunnar fékk stöðuna án auglýsingar
FréttirLögregla og valdstjórn

Helm­ing­ur yf­ir­stjórn­enda lög­regl­unn­ar fékk stöð­una án aug­lýs­ing­ar

Ít­rek­að er vikist und­an meg­in­regl­unni um aug­lýs­inga­skyldu þeg­ar ráð­ið er í yf­ir­manns­stöð­ur hjá lög­regl­unni á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. „Eins og þið þekk­ið eru breyt­ing­ar og aug­lýs­ing­ar á yf­ir­manna­stöð­um sér­stak­lega vel til þess falln­ar að stuðla að óró­leika hjá embætt­inu,“ sagði lög­reglu­stjóri í bréfi til starfs­manna. GRECO hef­ur gagn­rýnt verklag­ið.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár