Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Sagan á bakvið lands­liðs­mennina

Ís­lenska karla­lands­lið­ið í knatt­spyrnu er sam­sett af leik­mönn­um sem hafa þurft að yf­ir­stíga margt áð­ur en þeir mynd­uðu sam­eig­in­lega eitt eft­ir­tekt­ar­verð­asta lands­l­ið heims­ins. Sölvi Tryggva­son tók sam­an sögu ein­stak­ling­anna sem fram­köll­uðu ís­lenska eld­gos­ið í Frakklandi.

Ísland féll úr leik á Evrópu­mótinu í knattspyrnu í fimmta síðasta leik mótsins, átta liða úrslitum gegn einu sterkasta liði heims á þeirra eigin heimavelli. Fyrir aðeins örfáum árum hefðu ekki einu sinni allra mestu fótbolta-pollýönnur látið sig dreyma um brot af þeim árangri sem íslenska landsliðið hefur nú náð, hvað þá þetta. Á tveimur árum hefur liðið unnið Holland, England, Tékkland, Austurríki og Tyrkland í alvöru mótsleikjum þar sem allt er undir. Sé haft í huga að knattspyrna er stærsta og vinsælasta íþróttin í öllum þessum löndum, sem telja allt frá tugföldum upp í nærri tvö hundruð faldan fólksfjölda Íslands, er ljóst hversu fáránlegum árangri liðið okkar hefur náð. 

Þegar undirritaður réðist í það verkefni að fylgja landsliðinu eftir í gegnum undankeppni EM töldu flestir nær útilokað að Ísland færi áfram. Riðillinn var enda gríðarlega sterkur og á pappírunum voru þrjú liðanna mun sterkari. 

Ég man nákvæmlega hvenær ég áttaði mig á því að eitthvað virkilega sérstakt væri í vændum. Eftir sigurleiki gegn Tyrkjum og Lettum haustið 2014 var komið að leik gegn sterkasta liði riðilsins, Hollandi, sem hafði nýlega lent í þriðja sæti á HM í Brasilíu. Þegar ég mætti á hótel liðsins þremur dögum fyrir leikinn til að taka upp fyrsta liðsfundinn gekk í flasið á mér einn af sjúkraþjálfurum liðsins og sagði umsvifalaust: „Við erum að fara að vinna þennan leik!“ Korteri síðar sat ég inni á fundinum, þar sem ítrekað var farið yfir hvernig ætti að ná í þrjú stig. Allir leikmenn og allir starfsmenn trúðu því inn að beini að sigur væri í vændum. Það er nákvæmlega þetta hugarfar sem hefur skilað liðinu þangað sem það er. Ísland vann leikinn örugglega, 2-0, og eftirleikinn þekkja allir. Ísland er ef til vill ekki nema númer 40–50 á heimslistanum ef horft er á getu einstakra leikmanna, en þegar kemur að hugarfari, baráttugleði, samvinnu og liðsanda erum við í fyrsta sæti.

Hér á eftir fer samantekt um leikmennina sem spiluðu á lokamóti EM fyrir Íslands hönd. Hún byggir að hluta til á viðtölum sem tekin voru við leikmenn íslenska landsliðsins við gerð heimildarmyndarinnar „Jökullinn logar“. 

Ljóst er að Heimis Hallgrímssonar bíður erfitt verkefni í haust, þegar landsliðið hefur leik í undankeppni fyrir HM í Rússlandi árið 2018. Eins og í undankeppni EM verður Ísland í gífurlega sterkum riðli með Króatíu, Tyrklandi, Úkraínu, Finnlandi og Kosovo. Ekki aðeins verður erfitt að halda við þeim stórkostlega árangri sem náðst hefur á síðustu tveimur árum, heldur verða einnig viðbrigði að Lars Lagerback sé hættur. En Heimir hefur sýnt það og sannað að hann er starfinu fullkomlega vaxinn. Leikmenn íslenska liðsins eru hvergi nærri saddir og alla langar að spila aftur á stærsta sviði knattspyrnunnar. Ísland er búið að komast á EM og sýna þar og sanna að við getum staðið uppi í hárinu á hverjum sem er. Draumurinn um að komast á lokakeppni heimsmeistaramóts hefur enn ekki ræst, en ljóst er að nú er tíminn til að láta það gerast. Kjarninn í liðinu er á besta aldri og atburðarás undanfarinna vikna mun hvetja alla til dáða þegar kemur að næstu orrustu, haustið 2016.

Þessi grein birtist fyrst í 26. blaði Stundarinnar, sem kom út í júlí á þessu ári.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu