Fréttir

Ráðherra staðinn að ósannindum: Fékk skýrsluna mánuði fyrir þingslit

Bjarni Benediktsson fór með rangt mál í viðtali við fréttastofu RÚV í gærkvöldi. Hann viðurkennir „ónákvæmni“ en segist ekki vita hvers vegna upplýsingar um dagsetningu skýrslunnar voru hvíttaðar. „Ég hef ekki hugmynd um það hvers vegna eitthvað slíkt kann að hafa átt sér stað.“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fór með rangt mál í viðtali við RÚV í gærkvöldi þegar hann sagðist ekki hafa fengið skýrslu starfshóps um umfang aflandseigna Íslendinga inn í ráðuneyti sitt fyrr en eftir að þingi var slitið í október. Í sama viðtali sakaði hann pólitíska andstæðinga um „þvætting“, „fyrirslátt“ og „pólitík“.  

Hið rétta er að umrædd skýrsla var afhent fjármála- og efnahagsráðuneytinu þann 13. september þegar um mánuður var eftir af þingstörfum. Þetta hefur ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytisins staðfest við fréttastofu RÚV. Samdægurs fékk starfshópurinn tilkynningu frá ráðuneytinu um að störfum hans væri lokið og voru engar efnislegar breytingar gerðar á skýrslunni eftir þetta. Þingi var slitið þann 13. október, en þá hafði ráðuneytið ekki aðeins fengið skýrsluna afhenta heldur hafði ráðherra einnig fengið kynningu á efni hennar. 

„Ónákvæm tímalína“ 

Bjarni fullyrti þrisvar sinnum í gær að hann hefði ekki fengið skýrsluna fyrr en eftir að þingi var slitið:

1. „Skýrslan er í raun og veru ekki komin til okkar svona í endanlegri mynd fyrr en eftir að þing er farið heim.“

2. „Þegar skýrslan var í raun og veru endanlega tilbúin þá var þing farið heim og kosningar framundan, engin nefnd að störfum í þinginu til þess að taka við henni og svo framvegis.“

3. „Hún kemur inn í ráðuneytið einhvern tímann í október… svona í sinni endanlegu mynd.“

Þegar RÚV ræddi aftur við Bjarna í kvöld sagði hann að tímalína sín hefði ekki verið nákvæm: „Þetta var nú kannski ekki alveg nákvæm tímalína hjá mér eins og ég fór yfir þetta í gær. En það sem ég átti við, og það sem var í huga mér, var það, þegar þessi skýrsla er kynnt fyrir mér sem er þarna í fyrstu vikunni í október þá standa yfir samningar um þinglok. […] Í huga mínum í gær þá hugsaði ég með mér, mér leið eins og þingið hefði bara verið farið heim, en þetta var kannski ekki nákvæm tímalína hjá mér og ég biðst nú velvirðingar á því.“

Kann engar skýringar á ósýnilegu dagsetningunni

Eins og bent hefur verið á má finna orðin „september 2016“ á forsíðu skýrslunnar, en þau eru hvíttuð og ósýnileg nema tekið sé utan um textann. RÚV fullyrðir að dagsetningin hafi verið greinanleg á forsíðu upprunalegu skýrslunnar sem starfshópurinn skilaði ráðuneytinu. Þannig virðist sem litnum hafi verið breytt áður en skýrslan var birt opinberlega á ráðuneytisvefnum. 

Aðspurður hvort hann hefði sjálfur látið hvítta textann sagði Bjarni: „Nei, það gerði ég svo sannarlega ekki. Ég hef ekki hugmynd um það hvers vegna eitthvað slíkt kann að hafa átt sér stað.“ Í viðtalinu sagðist einnig hafa sjálfur ákveðið að birta ekki skýrsluna opinberlega fyrr en eftir kosningar kosningar, enda hefði hann ekki viljað „setja skýrsluna í kosningasamhengi“. 

Stjórnarmyndunarviðræður standa nú yfir milli Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins og útlit fyrir að Bjarni Benediktsson taki við embætti forsætisráðherra á næstu dögum. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Gagnrýnir að Íslandsbanki „steli“ hluta af áheitum á hana

Fréttir

Ung kona fær Íslandsbanka til að afnema frádrátt af söfnunarfé í Reykjavíkurmaraþoninu

Viðtal

Dreymdi alltaf um að búa í Danmörku

Fréttir

Thomas vísar á félaga sinn með hvarfið á Birnu Brjánsdóttur

Fréttir

„Reykjavík útbíuð af skrauti“

Fréttir

Tröllvaxin auglýsing H&M í gangveginum á Lækjartorgi

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Gagnrýnir að Íslandsbanki „steli“ hluta af áheitum á hana

Fréttir

Ung kona fær Íslandsbanka til að afnema frádrátt af söfnunarfé í Reykjavíkurmaraþoninu

Fréttir

Robert Downey og Brynjar Níelsson lögmenn sama nektardansstaðar

Pistill

Kennari svarar ummælum Áslaugar Örnu

Fréttir

Brynjar þrætti fyrir að hafa verið lögmaður Bóhems en sendi bréf sem slíkur

Fréttir

Hann vildi leggja Ísland í eyði