Þessi grein er meira en 5 ára gömul.

Panama-skjölin: Systkinin fjögur með félög í skattaskjóli

Skatta­yf­ir­völd á Tor­tóla reyndu að fá upp­lýs­ing­ar um fjár­hags­stöðu fé­lags Karls Werners­son­ar á Tor­tólu. Karl seg­ir skatta­yf­ir­völd á Ís­landi hafa skoð­að skatt­skil fyr­ir­tæk­is­ins án frek­ari að­gerða. Þrjú af systkin­um Karls stofn­uðu fyr­ir­tæki í gegn­um Mossack Fon­seca en eitt þeirra, Ing­unn Werners­dótt­ir, fékk tæpa fimm millj­arða króna þeg­ar hún seldi Karli og Stein­grími Werners­son­um hlut sinn í Milest­one ár­ið 2005. Skúli Eggert Þórð­ar­son rík­is­skatt­stjóri seg­ir upp­lýs­inga­skipta­samn­inga við lág­skatta­ríki hafa gert mik­ið gagn.

Panama-skjölin: Systkinin fjögur með félög í skattaskjóli
Nýr samningur við Tortóla hafði áhrif Nýr upplýsingaskiptasamningur á milli Íslands og Tortólu hafði þau áhrif að skattayfirvöld á Tortólu leituðu eftir upplýsingum um fyrirtæki Karls Wernerssonar. Karl segist hafa veitt íslenskum skattayfirvöldum þessar upplýsingar beint. Karl sést hér á mynd með bróður sínum Steingrími og forstjóra fjárfestingarbankans Askar Capital, Tryggva Þór Herbertssyni, sem var hluti af Milestone-samstæðunni.

Fjögur systkini, flest búsett á Íslandi og með skattalegt heimilisfesti hér á landi, stofnuðu aflandsfélög utan um viðskipti sín. Ingunn, Anna Margrét, Steingrímur og Karl Wernersbörn koma öll, hvert með sínu lagi, fyrir í Panama-skjölunum svokölluðu, en mest áberandi er Karl Wernersson, fjárfestir og eigandi Lyfja og heilsu. Karl segir í samtali við Stundina að með því að stofna aflandsfélag hafi hann náð, með fullkomlega löglegum hætti, að komast í þá stöðu að sleppa við að borga fjármagnstekjuskatt af einu félagi sem hann átti á Tortólu. Systir hans, Ingunn, á miklar eignir eftir hlutabréfaviðskipti við bræður sína, sem Hæstiréttur dæmdi ólögleg á dögunum, og á hún að minnsta kosti tvö félög í skattaskjóli. Hún virðist meðal annars hafa stofnað félög til að sýsla með fé sem fékkst úr viðskiptum við bræður hennar.

Þetta kemur fram í upplýsingum í Panama-skjölunum svokölluðu frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca sem lekið var til þýska blaðsins Süddeutsche Zeitung. Stundin vinnur fréttir upp úr Panama-skjölunum í samstarfi við fjölmiðlafyrirtækið Reykjavík Media ehf. 

Skattayfirvöld gátu ekki fengið upplýsingar

Í Panama-skjölunum er að finna fjölþættar upplýsingar um skattaskjólsviðskipti Werners-systkinanna. Þar kemur meðal annars fram að skattayfirvöld á eyjunni Tortólu á Bresku Jómfrúareyjum reyndu að fá upplýsingar frá panamísku lögmannsstofunni Mossack Fonseca í árslok 2013 um fjárhagsstöðu og skattskil fyrirtækis á Tortólu sem er í eigu Karls Wernerssonar. Þetta gekk hins vegar ekki þar sem Mossack Fonseca bjó ekki yfir neinum upplýsingum um fjárhagsmálefni fyrirtækis Karls, Nordic Pharma Investments, þrátt fyir að hafa stofnað fyrirtækið fyrir hann og þrátt fyrir að stjórnarmenn þess væru á vegum lögmannsstofunnar. Skattayfirvöld á Tortólu sendu beiðnina vegna spurninga frá íslenskum skattayfirvöldum og reyndi Mossack Fonseca bæði að fá upplýsingar frá Karli sjálfum og frá eignastýringarfyrirtækinu Arena Wealth Managment í Lúxemborg sem unnið hefur fyrir Karl. 

Karl segist hafa svarað skattayfirvöldum

Í samtali við Stundina segir Karl Wernersson að skattayfirvöld á Íslandi hafi á þessum tíma, síðla árs 2013 og í byrjun árs 2014, verið að skoða skattaskil Nordic Pharma Investments en að þeirri skoðun hafi síðan lokið án aðgerða af hálfu íslenskra skattayfirvalda. Í skriflegu svari til blaðsins segir hann nánar um þetta atriði:  „Fyrirspurn skattayfirvalda á Tortóla sem þú minntist á er væntanlega tilkomin vegna fyrirspurnar íslenskra skattayfirvalda. Ákvörðun var tekin um að svara íslenskum skattayfirvöldum beint og hefur það verið gert á fullnægjandi hátt. Á einhverjum tímapunkti var Nordic Pharma til skoðunar hjá íslenskum skattayfirvöldum, en með bréfi hefur þeirri skoðun formlega verið lokið.“

Stundin getur ekki fengið staðfestingu frá embætti ríkisskattstjóra um hvort þessi orð Karls eru sönn eða ekki þar sem trúnaður ríkir um slíkar upplýsingar. Þetta kemur fram í svari frá Skúla Eggert Þórðarsyni ríkisskattstjóra.

Stór vandamál á Íslandi og víða um heim 

Í fjölmiðlum hefur komið fram að Skúli Eggert Þórðarson hafi óskað eftir því að embætti hans fái aðgang að Panama-skjölunum til að athuga hvort upplýsingar þar geti nýst skattinum við að hafa uppi á földum eignum í skattaskjólum. Í svari Skúla Eggerts er ljóst að skattaskjólsvæðingin á Íslandi, sem hófst upp úr síðustu aldamótum í gegnum íslenska banka eins og Landsbankann og Kaupþing, hefur verið stórt vandamál fyrir skattayfirvöld og leitt til fjárhagslegs tjóns fyrir ríkið sem erfitt er að meta til fulls. „Sú lenska sem byrjaði hérna í kringum síðustu aldamót þegar fjármálafyrirtæki byrjuðu að bjóða upp á þessa þjónustu hefur leitt til mikils tekjustaps hjá hinu opinbera. Það er enginn vafi á því,“ segir Skúli Eggert. 

Á þessum tímapunkti er ekki ljóst hvort og hvernig embætti hans getur nýtt sér Panama-skjölin við skattheimtu og/eða rannsóknir á skattalagabrotum. Alþjóðlegu blaðamannasamtökin ICIJ sem halda utan um gögnin hafa hins vegar gefið það út að hluti gagnanna verði gerður opinber þann 9. maí.

Annað dæmi um afleiðingar Panama-skjalana er að fjármálaeftirlitið í New York-fylki í Bandaríkjunum hóf í lok apríl rannsókn á þrettán erlendum bönkum sem notuðu lögmannsstofuna Mossack Fonseca til að stofna skúffufyrirtæki fyrir viðskiptavini sína í skattaskjólum. Landsbanki Íslands er ekki þar á meðal þar sem bankinn var ekki með starfsemi í New York-fylki og stofnaði aðallega skattaskjólsfélög fyrir viðskiptavini sína í gegnum dótturfélag sitt í Lúxemborg. Landsbankinn var hins vegar einn af þeim tíu bönkum í heiminum sem notaði Mossack Fonseca hvað mest til að stofna skattaskjólsfyrirtæki fyrir viðskiptavini sína. Fjármálaeftirlitið í New York rannsakar hins vegar sænsku stórbankanna fjóra, Nordea, Handelsbanken, SEB og Swedbank, meðal annarra. Margir Íslendingar hafa verið viðskiptavinir Nordea-bankans eftir bankahrunið 2008 og stofnað félög í skattaskjólum í gegnum hann, meðal annars Ingunn Wernersdóttir. 

Stofnanalegar afleiðingar Panama-skjalanna gætu því orðið mjög miklar á heimsvísu og leitt til rannsókna skattayfirvalda og eftir atvikum ákæruvaldsins á skattaundanskotum. 

„Á einhverjum tíma var Nordic Pharma til skoðunar hjá íslenskum skattayfirvöldum.“

Tengist mörgum félögum á lágskattasvæðum

Áðurnefnt félag Karls Wernerssonar á Tortólu, Nordic Pharma Investments, er hins vegar bara eitt af nokkrum sem hann á eða tengist á lágskattasvæðum. Stundin hefur áður greint frá fyrirtækjum eins og Dialog Holdings Global Limited, Leiftra ltd. á Tortólu, Leiftra ltd. á Seychelles-eyjum og Milestone Import&Export á Tortólu.

Í Panama-skjölunum er einnig að finna fyrirtæki sem heita nöfnum eins og Inglewood Corporate Holdings Limited, Stockel Investments Limited og Viscount Consultants Limited. Nordic Pharma var hins vegar umsvifameira en flest hinna aflandsfélaga Karls Wernerssonar og er í gögnunum meðal annars að finna lánasamninga á milli félagsins og Landsbankans í Lúxemborg. Þá kemur fram í gögnunum að Nordic Pharma Investments er ennþá starfandi og fékk Karl endurnýjað prókúruumboð fyrir félagið til fimm ára árið 2012.  

Beiðnin um upplýsingar um félag Karls byggði á nýjum samningi

Upplýsingarnar um tilraunir skattayfirvalda á Íslandi og Tortólu sýna hvað það getur verið erfitt fyrir skattayfirvöld að fá upplýsingar um fyrirtæki í skattaskjólum jafnvel þó að í gildi séu upplýsingaskiptasamningar á milli Íslands og viðkomandi ríkis, líkt og til dæmis gildi um Tortólu. Ísland gerði um 40 upplýsingasamninga við lágaskattaríki á árunum eftir hrunið 2008 líkt og raunar fjölmörg önnur ríki gerðu fyrir tilstuðlan Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Eins og sagði á vefsvæði fjármálaráðuneytisins um vorið 2013 þá bættust þessir samningar við tvísköttunarsamninga og aðra alþjóðasamninga þar sem einnig var kveðið á um upplýsingaskipti í skattamálum.  Upplýsingarnar sýna að á endanum gátu skattayfirvöld á Tortólu bara reynt að fá upplýsingarnar frá Mossack Fonseca sem sá um umsýslu félags Karls Wernerssonar en vegna þess að panamíska lögfræðistofan var ekki með þessar upplýsingar undir höndum þá þurfti Karl að veita þær sjálfur. 

Í bréfi skattayfirvalda á Tortóla var beðið um fjárhagsupplýsingar um Nordic Pharma Investments á árunum 2005 til 2008. Beðið var um ársreikninga og staðfestingu á skattgreiðslum og eins staðfestingu á millifærslum frá og til félagsins. Í bréfinu kom fram að ef ekki yrði orðið við beiðninni gæti það leitt til sektar upp á 100 þúsund dollara, tæplega 20 milljóna króna.

Í lok árs 2013, þegar Mossack Fonseca átti að skila upplýsingum um fjárhagsstöðu félags Karls til skattayfirvalda, hafði starfsmönnum á lögfræðiskrifstofunni hins vegar ekki tekist að ná tali af Karli Wernerssyni eða starfsmönnum Arena Wealth Management til að fá upplýsingar um félagið frá þeim eins og sagði í tölvupóstinum: „Viðskiptavinurinn svarar ekki tölvupóstum okkar og skrifstofu hans hefur verið  lokað yfir hátíðarnar. Ég mun reyna að ná þeim í síma. […] Ég fór á skrifstofu þeirra í gær en hvorki Þorsteinn né Guðjón [starfsmenn Arena Wealth Management] voru þar. Ég ætla að reyna að hringja í farsímana þeirra þar sem skrifstofur þeirra verða ekki opnar í dag.“ 

Í samtali við Stundina, sem lesa má í heild sinni með greininni, segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri að upplýsingaskiptasamningarnir hafi hjálpað íslenskum skattayfirvöldum mikið á síðustu árum. Skúli Eggert getur hins vegar ekki tjáð sig um mál einstaka skattgreiðenda eins og áður segir. 

Tvö félög í skattaskjóli
Tvö félög í skattaskjóli Ingunn Wernersdóttir stofnaði tvö félög í gegnum Mossack Fonseca og á hún í dag í viðskiptum við Nordea-bankann í Lúxemborg og sér sá banki um eignastýringu fyrir hana. Þá var hún líka skráður hluthafi í Tortólafélaginu Milestone Import Export ltd. til ársins 2005 þegar hún seldi bræðrum sínum sinn hlut í félaginu.

Föðurarfur í skattaskjóli

Þrjú af systkinum Karls eiga eignarhaldsfélag í skattaskjólum sem koma fram í Panama-skjölunum, eins og áður segir. Komið hefur fram áður í mörgum fjölmiðlum að Karl Wernersson og Steingrímur Wernersson áttu fyrirtæki í skattaskjólum. Meðal annars fyrirtækið Leiftra ltd. og Milestone Import Export ltd. á Tortólaeyju. Leiftra ltd. var meðal annars móðurfélag tryggingafélagsins Sjóvár á Íslandi á árunum fyrir hrunið. Þá áttu bræðurnir líka sitt félagið hvort á Seychelles-eyjum en þessi fyrirtæki komu fyrir í Panama-skjölunum. Karl átt félag sem heitir Dialog Holding ltd. og Steingrímur Wernersson fyrirækið Fargo Holding. Þessi fyrirtæki bræðranna voru stofnuð á árunum fyrir hrunið 2008.

Werners-systkinin eru börn apótekarans Werners Rasmussonar sem var einn af eigendum Pharmaco og Delta auk Ingólfsapóteks, sem síðar varð Lyf og heilsa. Pharmaco og Delta urðu síðar að samheitalyfjafyrirtækinu Actavis og efnaðist Werner mjög á viðskiptum sínum með hlutabréf í lyfjafyrirtækjum. Wernersbörnin eru því erfingjar fjöskylduauðæva. Ekki þarf að koma á óvart að nöfn félaga sem tengjast Karli Wernerssyni koma oftast fyrir í skjölunum af nöfnum þeirra systkina þar sem hann er lang umsvifamestur þeirra í viðskiptum.

Öll systkinin, fyrir utan Steingrím, eru búsett á Íslandi og með skattalega heimilisfesti þar. 

Vegabréf Karls og Önnu
Vegabréf Karls og Önnu Myndir af vegabréfum Karls og Önnur Wernersbarna sjást hér en þau er að finna í Panamaskjölunum. Af lestri gagnanna að dæma eru vegabréfin notuð til að sýna fram á að viðkomandi einstaklingar séu eigendur aflandsfélaga, til að mynda í samskiptum við skattayfirvöld.

Ingunn stofnaði fyrirtæki í skattaskjóli eftir hrun

Panama-skjölin opinbera líka að bæði Ingunn Wernersdóttir og Anna Margrét Wernersdóttir stofnuðu skúffufyrirtæki í skattaskjólum í gegnum Mossack Fonseca. Ingunn stofnaði tvö skúffufyrirtæki í gengum Mossack Fonseca um vorið 2010 og fékk prókúruumboð yfir þeim báðum. Þessi félög heita Birchfield Properties S.A. og Zaniskari Corp. Bæði fyrirtækin voru skráð í Panama. 

Anna Margrét Wernersdóttir átti hins vegar fyrirtækið Unza Capital S.A. sem stofnað var árið 2006 og fékk prókúruumboð yfir fyrirtækinu í júní árið 2006.  Eignarhald Önnur Margrétar á félagi í skattaskjóli vekur sérstaka athygli þar sem hún hefur ekki verið þekkt fyrir að stunda fjárfestingar í gegnum tíðina, öfugt við systkini sín þrjú. Anna Margrét starfar sem kennari. Í samtali við Stundina vill hún ekki ræða fjárfestingar sínar í Unzu Capital S.A. „Ég hef ekkert um þetta að segja. Takk fyrir. Bless,“ sagði Anna Margrét þegar Stundin hafði samband við hana. 

Átti í viðskiptum við bræður sína fyrir 4,8 milljarða

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum átti Ingunn Wernersdóttir í rúmlega 4,8 milljarða króna viðskiptum við bræður sína Karl og Steingrím í árslok 2005 vegna kaupa þeirra hlutabréfum hennar  í Tortóla-félögunum Leiftra ltd. og Milestone Import Export ltd. Þessi félög héldu utan um hlutabréf í fjölskyldufyrirtækinu Milestone ehf. á íslandi.

Viðskiptin gengu í stuttu máli út á það að bræðurnir voru að kaupa  upp hlutabréf hennar í fjárfestingarfélaginu Milestone og skyldum félögum sem stofnuð höfðu verið utan um föðurarf þeirra. Ingunn vildi hins vegar ekki vera með í fjárfestingum Milestone enda gat hún fengið gott verð fyrir hlutabréf sín.

Karl og Steingrímur létu Milestone ehf. hins vegar greiða 4,8 milljarða fyrir þessi hlutabréf Ingunnar og voru þeir ákærðir ásamt nokkrum aðilum vegna þessara viðskipta um sumarið 2013. Meginefni ákærunnar er grunur um umboðssvik þar sem Karli og Steingrími hafi ekki verið heimilt að láta Milestone borga fyrir hlutabréf sem þeir voru sjálfir að kaupa persónulega. Héraðsdómur sýknaði þá í lok árs 2014 en embætti sérstaks saksóknara áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar Íslands. Málflutningur var í málinu í Hæstarétti Íslands í apríl síðastliðnum og féll dómur í því þann 28. apríl þar sem niðurstöðu héraðsdóms var snúið.

Fengu langa fangelsisdóma

Karl Wernersson fékk þriggja og hálfs árs dóm í málinu og Steingrímur Wernersson tveggja ára dóm. Guðmundur Ólason, fyrrverandi forstjóri Milestone, var einnig dæmdur. Í dómi Hæstaréttar Íslands voru brot þeirra sögð „óskammfeilin“:  „Við ákvörðun refsingar ákærðu Karls, Steingríms og Guðmundar er til þess að líta að brot þeirra samkvæmt I. kafla ákæru snerust um mjög háar fjárhæðir, sem lánardrottnar Milestone ehf. fóru þegar upp var staðið á mis við að fá notið til greiðslu krafna sinna. Brot þessi voru skipulögð og drýgð í samverknaði af óskammfeilni.“

Ingunn Wernersdóttir á því verulega fjármuni eftir þessi viðskipti við bræður sína og virðist hún hafa stofnað fyrirtækin tvö í Panama til að koma að eignaumsýslu með að minnsta kosti hluta þessara eigna sinna. Tekið skal fram að rannsókn sérstaks saksóknara og málaferlin gegn Karli og Steingrími snéru ekki með neinum hætti að Ingunni Wernersdóttur og heldur hún þeim fjármunum sem hún fékk í viðskiptunum.

Umboð systkinanna
Umboð systkinanna Karl Wernersson var, og er líklega enn, með prókúruumboð fyrir félagið Nordic Pharma Investments, líkt og sést hér. Systkini hans þrjú voru einnig með prókúruumboð fyrir félög sem stofnuð voru í gegnum Mossack Fonseca.

Á í viðskiptum við Nordea í Lúxemborg og fékk endurnýjað prókúruumboð

Engar fjárhagsupplýsingar um félög Ingunnar Wernersdóttur í Panama koma hins vegar fram í skjölunum. Þó er ljóst að hún er ennþá með prókúruumboð fyrir Birchfield Properties S.A. og ekkert í gögnunum bendir til að prókúruumboð hennar fyrir Zaniskari Corp. hafi verið afturkallað. 

Ingunn Wernersdóttir er orðin viðskiptavinur sænska Nordea-bankans í Lúxemborg sem sér um eignastýringu fyrir hana og bað starfsmaður bankans, Sveinn Helgason, um að prókúruumboð Ingunnar fyrir félagið yrði endurnýjað í mars í fyrra. Þá voru fimm ár liðin frá því að Ingunn hafði síðast fengið prókúruumboð fyrir félagið og þurfti að endurnýja umboðið. Þetta er nýjasti skjalið í gögnum Mossack Fonseca sem snertir Ingunni Wernersdóttur. 

Í tölvupósti frá Mossack Fonseca til Sveins í fyrra sagði: „Ég er ekki viss um hvort þú sért sá sem sér um viðskipti neðangreindra félaga þannig að ég myndi kunna að meta það ef þú gætir skoðað málið og sent það þá til viðeigandi aðila ef svo ber undir.“

Sveinn svaraði því til að tvö þeirra fyrirtækja sem Mossack Fonseca spurði um væru viðskiptavinir hans en eitt þeirra félaga er Birchfield Properties S.A. „Tvö þeirra eru viðskiptavinir mínir en þessir tölvupóstar eiga að fara til Lars Lindveds og hans fólks,“ en Lars þessi er yfirmaður í eignastýringardeild Nordea bankans í Lúxemborg. 

Sveinn segist ekki mega tjá sig

Í samtali við Stundina segir Sveinn Helgason að hann megi ekki tjá sig um vinnu sína fyrir Nordea-bankann í Lúxemborg. Einn stærsti fréttapunkturinn í Svíþjóð úr Panama-skjölunum hefur verið hvernig Nordea-bankinn í Lúxemborg hefur aðstoðað viðskiptavini sína við að stofna skúffufyrirtæki á aflandssvæðum í gegnum Mossack Fonseca. Bankinn hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir þetta í Svíþjóð en til samanburðar má nefna að Landsbankinn á Íslandi segist ekki hafa komið að því að stofna slíkt aflandsfélög fyrir viðskiptavini sína eftir hrunið árið 2008. „Landsbankinn hf. hefur ekki stofnað slík félög eða átt þátt í að stofna slík félög,“ sagði í svari frá bankanum til Stundarinnar í apríl. Stofnun slíkra aflandsfélaga virðist því tilheyra fortíðinni hjá íslenskum bönkum, miðað við fyrirliggjandi upplýsingar. 

Sveinn Helgason segist hins vegar ekki getað gefið upp fyrir hversu marga Íslendinga hann vinnur nú um stundir. „Ég er því miður þannig í sveit settur að ég get ekki svarað neinum spurningum varðandi mín viðskipti hér. Hvort sem þau eru eða eru ekki þá er ég bara bundinn þannig vinnureglum í starfi mínu fyrir bankann. Mér er ekki heimilt að ræða við aðra aðila utan bankans,“ segir Sveinn en af tölvupósti hans að dæma er ljóst að hann sinnir viðskiptum í gegnum aflandsfélag Ingunnar Wernersdóttur í Panama. Nordea-bankinn sænski er því ekki hættur umsýslu með félög og eignir í skattaskjólum líkt og upplýsingar benda til að íslenskir bankar hafi gert. 

„Þetta er auðvitað eitt stærsta vandamálið sem verið hefur í skattframkvæmdinni hér á landi.“

Þurfti að endurnýja prókúru sína til að lýsa kröfu í bú Landsbankans

Ingunn hefur því flutt sig til Nordea-bankans en systir hennar Anna Wernersdóttir sinnti sínum viðskiptum í Panama í gegnum lögfræðinginn Lindu Bentsdóttir í Hamraborg í Kópavogi. Linda hefur í gegnum árin unnið náið með Ingunni Wernersdóttur eins og komið hefur fram í fjölmiðlum. Linda Björk var meðal annars framkvæmdastjóri fjárfestingarfélags Ingunnar, Inn fjárfestingar ehf., en það félag átti meðal annars 1500 milljóna króna innistæður í Lúxemborg árið 2009, líkt og kom fram í DV árið 2011. Á móti þeim innistæðum voru skuldir upp á álíka háa upphæð.

Í Panama-skjölunum kemur fram að Linda Bentsdóttir hlutaðist til um að Anna Wernersdóttir fengi skjöl frá Mossack Fonseca um félagið UNZA Capital S.A. í Panama árið 2011 vegna þess að hún þurfti þau til að lýsa kröfu í bú Landsbankans í Lúxemborg fyrir hönd félagsins. „Viðskiptavinur minn, Anna Wernersdóttir, eigandi UNZA Capital S.A. mun ekki halda áfram að nota fyrirtækið. Hún þarf þessi skjöl fyrir Landsbankann í Lúxemborg. Getur þú útvegað henni stimplað upprunalegt afrit af vottun um stöðu félagsins  og prókúruumboðið eða þarf hún að senda bankanum upprunalegu skjölin?,“ segir í tölvupósti frá Lindu til Mossack Fonseca árið 2011. Eftir að Anna Margrét hafði fengið þessi gögn frá Mossack Fonseca var félag hennar lagt niður. 

Linda Bentsdóttir neitar að upplýsa um viðskipti UNZA Capital S.A. í samtali við Stundina. „Þetta eru náttúrulega bara trúnaðarupplýsingar sem ég get ekki svarað. Ég get ekkert verið að ræða um hvað ég geri í mínu starfi. Þú hlýtur að skilja það.“ Í tölvupóstum Lindu til Mossack Fonseca kemur fram að Anna vissi ekki hvert hún ætti að snúa sér varðandi málefni UNZA Capital S.A. þar sem Landsbankinn í Lúxemborg hefði séð um fjárfestingar fyrir hana í gegnum félagið en sá banki er sem kunnugt er í slitameðferð og býður ekki lengur upp á eignastýringu. Lögmanni Önnu var því bent á að hafa samband beint við Mossack Fonseca. 

Steingrímur keypti bát af Tortólafélagi

Í Panama-skjölunum kemur fram að Steingrímur Wernersson var með að minnsta kosti tvö félög í skattaskjólum. Annars vegar Pargo Inc. á Tortóla og hins vegar Fargo Holdings sem skráð var á Seychelles-eyjum. Steingrímur virðist hins vegar hafa hætt að nota félögin fyrir um tíu árum síðan, öfugt við bróður sinn Karl sem notaðist við slík félög að minnsta kosti svo seint sem árið 2014 samkvæmt Panama-gögnunum.

Engar fjárhagsupplýsingar koma fram um félög Steingríms í Panama-skjölunum fyrir utan það að Steingrímur keypti bát af gerðinni Sealine F34 Almira af Pargo Inc. fyrir rúmlega 135 þúsund pund, eða 15 milljónir króna,  í september árið 2005. 

Steingrímur hefur dregið sig alfarið út úr íslensku viðskiptalífi, öfugt við Karl sem er forstjóri og eigandi Lyfja og heilsu í dag, og hefur hann verið búsettur í London síðastliðin ár. Stundin náði ekki í sambandi við Steingrím í gegnum breskan farsíma hans. 

Skilaboðum var komið til Ingunnar Wernersdóttur um að Stundin hefði áhuga á að ræða við hana um félög hennar í Panama-skjölunum en hún hafði ekki samband við blaðamann til að ræða málið. 

Eins og sést af þessari grein eru flestir sem tengjast þeim félögum sem fjallað er um hér ekki viljugir til að ræða um félög sín í skattaskjólum eða tengsl sín við slíkt félög - fyrir utan Karl Wernersson.

 

Svör Karls Wernerssonar við spurningum Stundarinnar um félög hans í Panama-skjölunum:

„Inglewood.

Stofnað árið 2001. (Fyrir 15 árum síðan). Eignarhald á skráðum og óskráðum hlutabréfum flutt þangað. Þessi ákvörðun var endurskoðuð 2005. Allar eignir Inglewood fluttar til Íslands inn í Milestone ehf. 2005. Engin starfsemi í Inglewood frá þeim tíma.

Nordic Pharma Investment.

Stofnað árið 2002 (að mig minnir) fyrir 14 árum síðan. Megin starfsemi ávöxtun fjár á hávaxtareikningum og afleiðuviðskipti í formi framvirkra samninga. Íslensk skattalög fram til 1. september 2009 voru á þann veg að slíkar fjármagnstekjur erlendra félaga voru undanþegnar skatti. Fyrirspurn skattayfirvalda á Tortola sem þú minntist á er væntanlega tilkomin vegna fyrirspurnar íslenskra skattayfirvalda.  Ákvörðun var tekin um að svara íslenskum skattayfirvöldum beint og hefur það verið gert á fullnægjandi hátt. Á einhverjum tímapunkti var Nordic Pharma til skoðunar hjá íslenskum skattayfirvöldum, en með bréfi hefur þeirri skoðun formlega verið lokið.

Pargo hefur ekki verið í minni eigu.

Viscount kannast ég ekki við.

Löggjafinn setur skattalög bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Lög um skattskil fyrirtækja eru bæði umfangsmikil og flókin. Í þeim er að finna alls konar heimildir um skattfrelsi og heimildir til frestunar skattgreiðslna. Ef vilji löggjafans stæði til annars en þess sem lögin heimila, væru lögin væntanlega með öðru sniði.

Vinna við endurskoðun, gerð ársreikninga og gerð skattframtala fyrirtækja er unnin af löggiltum endurskoðendum. Nær undantekningarlaust þegar skattframtöl eru frágengin, leitast löggiltir endurskoðendur fyrirtækja við að lágmarka skattgreiðslur innan ramma skattalaga. Hingað til hafa þessi vinnubrögð ekki sætt alvarlegri gagnrýni.“

 

„Þetta hefur skapað gríðarleg vandamál“

„Þetta er töluvert breytt landslag miðað við það sem áður var fyrir áratug eða svo. Nú eru komnir þessir upplýsingaskiptasamningar, “ segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri aðspurður um hversu mikil áhrif upplýsingaskiptasamningarnir við skattaskjól og lágskattasvæði hafa haft á liðnum árum. Hann segir að auk hinna formlegu breytinga sem gerðar hafa verið um upplýsingaskipti á milli landa þá hafi einnig átt sér stað viðhorfsbreyting í löndum Evrópu. „En það sem skiptir kannski meira máli fyrir utan hina formlegu hlið er sú afstöðubreyting sem orðið hefur í þessum málum í Evrópu. 26 lönd héldu fund París í apríl þar sem eina fundarefnið var Panama-skjölin og skattaskjól. Það sem skiptir langmestu máli er þessi viðhorfsbreyting um að þetta sé ekki í lagi. Síðan erum við komin með fullt af samningum og OECD-löndin líta þessi skattaskjól miklu alvarlegri augum en áður og ekki bara OECD-löndin. Þannig að landslagið er mjög breytt. Þetta er auðvitað eitt stærsta vandamálið sem verið hefur í skattframkvæmdinni hér á landi og víðast hvar erlendis, þessi aflandsvæðing. Þetta hefur skapað gríðarleg vandamál í skattframkvæmdinni hérna. Sú lenska sem byrjaði hérna í kringum síðustu aldamót þegar fjármálafyrirtæki byrjuðu að bjóða upp á þessa þjónustu hefur leitt til mikils tekjustaps hjá hinu opinbera. Það er enginn vafi á því.“

Skúli Eggert segir að þó að upplýsingaskiptasamningarnir hafi hjálpað íslenskum skattayfirvöldum að fá upplýsingar frá löndum eins og Tortóla þá sé nokkuð mismunandi á milli landa hversu auðvelt sé að fá upplýsingar frá þeim. „Upplýsingaskiptasamningarnir hafa hjálpað okkur töluvert á liðnum árum já. Það er hins vegar miserfitt á milli landa að fá upplýsingar frá þeim löndum sem um ræðir. Það fer svolítið eftir þeim hefðum sem eru ríkjandi í hverju landi fyrir sig. Ég vil ekki nefna einstök lönd í þessu samhengi og skapa milliríkjavandamál,“ segir Skúli Eggert í léttum dúr.

Skúli Eggert getur ekki tjáð sig um mál einstakra fjárfesta eða athafnamanna en hann segir að oft geti verið erfitt fyrir íslensk skattayfirvöld að fá gögn um starfsemi aflandsfélaga frá eigendum þeirra. Skúli Eggert segir að oft bíði menn með að skila gögnum um fyrirtæki sín og félög þar til mál þeirra eru komin til yfirskattanefndar til meðferðar. Hann segir að til greina komi að hans mati að breyta skattalögum þannig að menn megi ekki skila gögnum svo seint. „Þegar verið er að kalla eftir einstaklingsbundnum upplýsingum þá er það vegna þess að mál viðkomandi eru komin í skoðun. Þetta snýst allt um það að ef aðilinn leggur ekki fram gögnin þá getur það verið túlkað með þeim hætti að beita þurfi áætlunarheimildum skattalaga. Það segir svo í skattalögum að ef gögn berast ekki þá þurfi skattstjóri að áætla skatta viðkomandi svo ríflega að það leiði ekki til lægri skattgreiðslna. Við þessar aðstæður gerist það oft að gögn eru lögð fram á síðasta stigi, það er að segja þegar mál viðkomandi er komið til kasta yfirskattanefndar. Það er alveg til athugunar að setja ákvæði í lög sem sporna við þessu. Það er að segja að menn hafi bara ákveðinn tíma til að skila gögnum þannig að menn geti ekki lagt fram gögn einhverjum árum síðar þegar mál eru komin á síðasta stig. Þegar gögn eru lögð fram á síðasta stigi þá eru málunum oft vísað aftur til meðferðar hjá ríkisskattstjóra þannig að þetta er ákveðin tvíverknaður. Þarna er framteljandinn að kanna hvað hann kemst upp með og svo þegar hann áttar sig á því, þegar málið er komið á síðasta stig, að þetta horfir ekki vel þá er gripið til þess ráðs að draga fram gögn. Það eru þó nokkur dæmi um þetta og þá skapast alltaf grunsemdir um hvort gögnin séu tilbúin. Þetta er einn af þessum punktum sem gott væri að fá umræðu um hvort ekki sé ástæða til að breyta.“

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt á Stundinni

461. spurningaþraut: Að spila á píanó fyrir fjóra syngjandi karla
Þrautir10 af öllu tagi

461. spurn­inga­þraut: Að spila á pí­anó fyr­ir fjóra syngj­andi karla

Fyrri auka­spurn­ing: Hver er kon­an sem sit­ur hér og leik­ur á pí­anó und­ir fögr­um söng fjög­urra karla? (Kannski sjást þeir ekki all­ir í sum­um tækj­um, en treyst­ið mér: þeir eru fjór­ir. Aft­ur á móti er hrein ágisk­un hjá mér að söng­ur­inn sé fag­ur.) * Að­al­spurn­ing­ar: 1.  „Compu­ter says no“ eða „tölv­an seg­ir nei“ er núorð­ið al­kunn­ur frasi sem fel­ur í...
Myndlist á Ísafirði, músík fyrir mannréttindi og flugeldasýning
Stundarskráin

Mynd­list á Ísa­firði, mús­ík fyr­ir mann­rétt­indi og flug­elda­sýn­ing

Tón­leik­ar, við­burð­ir og sýn­ing­ar sem eru á döf­inni dag­ana 30. júlí til 19. ág­úst
Telur stjórnvöld firra sig ábyrgð með því að færa hana á sóttvarnalækni
FréttirCovid-19

Tel­ur stjórn­völd firra sig ábyrgð með því að færa hana á sótt­varna­lækni

Björn Leví Gunn­ars­son, þing­mað­ur Pírata, seg­ir á ábyrgð stjórn­valda að pota meira í til­lög­ur Þórólfs sem að mati hans stóð sig ekki þeg­ar tak­mörk­un­um var aflétt 1. júlí.
Nýtt Covid – ný hugsun
Jón Trausti Reynisson
Leiðari

Jón Trausti Reynisson

Nýtt Covid – ný hugs­un

Covid er ekki leng­ur það sama og Covid. Nú er kom­inn tími til að end­ur­hugsa við­brögð­in.
Bára undirbýr framboð sem fulltrúi fatlaðs fólks á þingi
Viðtal

Bára und­ir­býr fram­boð sem full­trúi fatl­aðs fólks á þingi

Aktív­ist­inn og upp­ljóstr­ar­inn Bára Hall­dórs­dótt­ir vill hefja stjórn­mála­fer­il með Sósí­al­ista­flokkn­um.
460. spurningaþraut: Tíu spurningar og lárviðarstig um Halldór Laxness!
Þrautir10 af öllu tagi

460. spurn­inga­þraut: Tíu spurn­ing­ar og lár­við­arstig um Hall­dór Lax­ness!

Að þessu er þema þraut­ar­inn­ar Hall­dór Lax­ness, verk hans og um­hverfi. * Fyrri auka­spurn­ing: Hvað er að ger­ast á mynd­inni hér að of­an? * Að­al­spurn­ing­ar: 1.  Hvað hét fað­ir Hall­dórs? Skírn­ar­nafn hans dug­ar. 2.  En móð­ir hans? Aft­ur dug­ar skírn­ar­nafn­ið. 3.  Hvað hét fyrsta skáld­saga hans, sem Hall­dór gaf út að­eins 17 ára gam­all? 4.  Hvað heit­ir skáld­sag­an þar sem...
Dómari líkir framtíð óbólusettra við gyðinga á tíma nasista
FréttirCovid-19

Dóm­ari lík­ir fram­tíð óbólu­settra við gyð­inga á tíma nas­ista

Hér­aðs­dóm­ar­inn Arn­ar Þór Jóns­son, sem býð­ur sig fram til Al­þing­is fyr­ir Sjálf­stæð­is­flokk­inn, spyr hvort ein­kenna eigi óbólu­setta með gulri stjörnu í Þýskalandi.
„Galopin landamæri eru ekki skammaryrði“
Fréttir

„Gal­op­in landa­mæri eru ekki skamm­ar­yrði“

Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir dóms­mála­ráð­herra vill end­ur­meta að­stæð­ur þar sem flest­ir eru bólu­sett­ir og seg­ir stjórn­ar­and­stöð­una vilja „loka land­inu“ og tak­marka frelsi al­menn­ings til fram­tíð­ar.
459. spurningaþraut: Bíómynd á Cannes og hvar bjuggu Olmecar?
Þrautir10 af öllu tagi

459. spurn­inga­þraut: Bíó­mynd á Cann­es og hvar bjuggu Ol­mecar?

Fyrri auka­spurn­ing: Hver er á mynd­inni hér að of­an, ung að ár­um? * Að­al­spurn­ing­ar: 1.  Hvað heit­ir bíó­mynd Valdi­mars Jó­hanns­son­ar sem frum­sýnd var á Cann­es-há­tíð­inni fyr­ir skömmu? 2.  Cann­es er smá­borg í Frakk­land, eig­in­lega út­borg fimmtu fjöl­menn­ustu borg­ar Frakk­lands, sem heit­ir ...? 3.  Hvaða er­lenda ríki er næst Cann­es? 4.  Skaft­ár­jök­ull er skrið­jök­ull sem fell­ur úr hvaða stærra jökli? 5. ...
Ísland fékk Lagerbäck, Svíar vilja Þórólf
FréttirCovid-19

Ís­land fékk Lag­er­bäck, Sví­ar vilja Þórólf

Pistla­höf­und­ur í Sví­þjóð seg­ir að ár­ið 2016 og 18 hafi Sví­ar hafi lán­að Ís­lend­ing­um lands­liðs­þjálf­ara og nú vilji þeir sótt­varna­lækni í stað­inn.
Metaðsókn hjá tjaldsvæðum í júlí þrátt fyrir faraldur
FréttirCovid-19

Metað­sókn hjá tjald­svæð­um í júlí þrátt fyr­ir far­ald­ur

Tjald­svæði um land allt hafa þurft að fækka gest­um með litl­um fyr­ir­vara vegna nýrra sótt­varn­ar­að­gerða. Kröf­ur um upp­lýs­inga­gjöf geta ver­ið íþyngj­andi að sögn að­stand­enda tjald­svæð­anna.
458. spurningaþraut: Hér eigiði til dæmis að þekkja afar glæsilegt hús
Þrautir10 af öllu tagi

458. spurn­inga­þraut: Hér eig­iði til dæm­is að þekkja af­ar glæsi­legt hús

Fyrri auka­spurn­ing: Hvað heit­ir sá með bláa hár­ið á mynd­inni hér að of­an? * Að­al­spurn­ing­ar: 1.  Mikl­ar manna­breyt­ing­ar voru af ýms­um ástæð­um í síð­ari rík­is­stjórn Jó­hönnu Sig­urð­ar­dótt­ur sem sat frá sumri 2009 og fram á sum­ar 2013. Fyr­ir ut­an Jó­hönnu sjálfa sátu að­eins tveir ráð­herr­ar óslit­ið í sama embætt­inu öll fjög­ur ár­in. Ann­ar þess­ara ráð­herra var karl­kyns. Hver var það...