Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Úttekt

Umdeild framtíðarsýn veldur titringi á stjórnarheimilinu: Hvað felst í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar?

Stjórnarliðar vilja að menntun og heilbrigðisþjónustu verði áfram skorinn þröngur stakkur næstu fimm árin og að fjárfestingarstig hins opinbera verði áfram jafn lágt og á tímum kreppunnar. Ekki var brugðist við viðvörunarorðum Seðlabankans, ASÍ og rektora allra háskóla á Íslandi.

Þingsályktanir um ríkisfjármálaáætlun og fjármálastefnu til næstu fimm ára voru samþykktar á Alþingi í gær með 29 atkvæðum.

Eygló Harðardóttir
Eygló Harðardóttir sat hjá þegar greidd voru atkvæði um ríkisfjármálaáætlunina

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, gat ekki hugsað sér að styðja málin. Hún sat hjá og gaf þá ástæðu að ekki væri hlúð nægilega að barnafjölskyldum, öldruðum og öryrkjum í áætluninni. Þungavigtarfólk í Sjálfstæðisflokknum ætlast til þess að Eygló segi sig úr ríkisstjórn, Brynjar Níelsson þingmaður segir hana hafa verið með súkkulaði út á báðar kinnar allt kjörtímabilið og  Bjarni Benediktsson hefur líkt framgöngu hennar við hegðun leikskólabarns. Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sat einnig hjá en allir aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem viðstaddir voru studdu málin. 

Ríkisfjármálaáætlunin er stefnuyfirlýsing og hefur ekkert lagagildi. Ólíklegt er að byggt verði á henni næstu fimm árin nema núverandi stjórnarflokkar verði áfram við stjórnvölinn.

Í áætluninni birtist hins vegar framtíðarsýn stjórnarflokkanna í ríkisfjármálum til næstu fimm ára. Og í þessu liggur upplýsingagildi hennar; ólíkt kosningabæklingum stjórnmálaflokka felur hún í sér pólitísk fyrirheit og markmiðssetningu á grunni ítarlegs rökstuðnings og tölulegra gagna. Af þessum ástæðum hefur Stundin fjallað ítarlega um ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar undanfarna mánuði.

Í atkvæðagreiðslunni í gær var áætlunin samþykkt efnislega óbreytt og ekki tekið tillit til viðvörunarorða frá aðilum á borð við Seðlabanka Íslands og Alþýðusambandið. Einu breytingarnar lúta að orðalagi þar sem tilteknu málefnasviði er lýst auk þess sem ein neðanmálsgrein féll brott.

En hvað felst í fjármálaáætluninni og hvers konar framtíðarsýn birtist þar? Stundin birtir hér uppfærða útgáfu af fréttaskýringu um ríkisfjármálaáætlunina sem birtist fyrr í sumar.

Fjárfestingarstigi hins opinbera haldið lágu

Fjárfestingarstig hins opinbera verður mjög lágt í sögulegu samhengi næstu fimm árin ef ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar verður fylgt eftir. Flest þeirra fjárfestingarverkefna sem eru á dagskrá  – til dæmis ýmis samgöngumannvirki, ný Vestmannaeyjaferja og bygging Húss íslenskra fræða – voru ráðgerð í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur en frestað þegar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við, meðal annars vegna þess tekjutaps sem ríkissjóður varð fyrir með breytingu og lækkun sérstaka veiðigjaldsins. 

Í áætluninni er fullyrt að frá árinu 2009 hafi „fjárfestingastigi ríkisins verið haldið of lágu“ og afleiðingarnar komi „víða fram, svo sem í ástandi innviða“. Sem kunnugt er stóð fjárhagur hins opinbera höllum fæti árið 2009 í kjölfar fjármálahrunsins. Þrátt fyrir að staða ríkissjóðs hafi nú stórbatnað að sjö árum liðnum er áfram gert ráð fyrir því að ríkið haldi að sér höndum í fjárfestingum og uppbyggingu innviða. 

Fjárfesting A-hluta ríkissjóðs verður áfram aðeins 1,3 prósent af vergri landsframleiðslu á fyrri hluta tímabilsins en hækkar upp í 1,5 prósent eftir því sem á líður. Allt í allt mun opinber fjárfesting vaxa aðeins lítillega á tímabilinu, eða um liðlega 3 prósent af vergri landsframleiðslu. Þetta þýðir að fjárfestingarstig hins opinbera verður mjög lágt í sögulegu samhengi og vel undir langtímameðaltali undanfarinna 20 ára. Þannig er stefnt að því að ríkið dragi sig að miklu leyti í hlé og láti einkaaðilum eftir sviðið hvað varðar fjárfestingar í innviðum. Þetta kom skýrt fram í málflutningi Bjarna Benediktssonar á Alþingi þann 3. maí síðastliðinn, þar sem hann sagði hið opinbera ekki hafa svigrúm til meiri fjárfestinga en raun ber vitni „meðal annars vegna allra þeirra fjárfestinga sem eru fyrirhugaðar í einkageiranum“. 

Tíu ára hagvaxtarskeið?

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gengið út frá viðvarandi hagvexti til ársins 2021. Eins og Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, benti á í umræðum um málið á Alþingi yrði tíu ára samfellt hagvaxtarskeið án fordæma í hagsögu Íslands. „Það verður því alveg nýtt í okkar sögu ef þetta rætist, en vonum það besta,“ sagði hann. 

Fram kom í fréttatilkynningu sem birtist á vef fjármálaráðuneytisins í lok apríl að á grunni ábyrgrar fjármálastefnu yrði unnt að „auka svigrúm fyrir áherslumál á málasviðum ráðuneytanna um 42 milljarða króna“ á því tímabili sem ríkisfjármálaáætlunin nær til. Engu að síður er stefnt að því að ríkisútgjöld lækki sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á tímabilinu.

Gerð verður árleg aðhaldskrafa upp á 1 prósent til allra málaflokka nema heilbrigðis- og menntamála þar sem krafan verður 0,5 prósent og í almanna- og atvinnuleysistryggingum þar sem engin aðhaldskrafa er gerð. Með hagræðingunni er ráðgert að ríkissjóður spari samtals 3 milljarða á ári, eða um 15 milljarða yfir tímabilið. Aðhaldskrafan er rökstudd á þá leið að Seðlabankinn hafi þurft að bregðast við aukinni þenslu með aðhaldi í peningastefnunni undanfarin misseri og mikilvægt sé að „fjármálaáætlun vinni með peningastefnunni að efnahagsstöðugleika og að aðhaldsstiginu í opinberum fjármálum verði viðhaldið á komandi árum“. 

Skattalækkanir á þenslutímum

Í bland við yfirlýsingar um að aðgerðir í ríkisfjármálum þurfi að styðja peningastefnu Seðlabankans og vera hagsveiflujafnandi frekar en hagsveiflumagnandi, boðar ríkisstjórnin áframhaldandi skattalækkanir, en slíkar ráðstafanir eru til þess fallnar að auka peningamagn í umferð og þar með þenslu í hagkerfinu. Í þessu samhengi má rifja upp að samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis frá 2010 um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna er sérstaklega fundið að því að stjórnvöld hafi ákveðið að lækka skatta á þenslutímanum fyrir hrun í trássi við ráðleggingar sérfræðinga.

Eins og Stundin hefur áður fjallað ítarlega um hafa bæði skattbreytingar og skuldaniðurfellingar sitjandi ríkisstjórnar komið best út fyrir efnuðustu hópa íslensks samfélags.

Þetta á til að mynda við um breytingu og lækkun ríkisstjórnarinnar á sérstaka veiðigjaldinu og þá ákvörðun að framlengja ekki auðlegðarskattinn á stóreignafólk og raforkuskattinn á stóriðjuna. Um 2 prósent landsmanna greiddu auðlegðarskatt þegar hann var og hét, raforkuskatturinn lagðist að mestu á fáein álfyrirtæki og þau 20 fyrirtæki sem nýta meirihluta fiskveiðikvótans hafa borið hitann og þungann af veiðigjaldinu. Sú skattbyrði sem létt hefur verið af þessum hópum á yfirstandandi kjörtímabili er álíka mikil og tekjutap ríkissjóðs af öllum öðrum skattalækkunum samanlögðum. 

Að sama skapi er ljóst að tekjuhæstu hópar samfélagsins fengu langmest út úr aðgerðum ríkisstjórnarinnar til lækkunar á höfuðstóli verðtryggðra húsnæðislána. Til að mynda fengu 1.250 heimili sem borguðu auðlegðarskatt árið 2013 skuldaleiðréttingu. Þannig var samtals um 1,5 milljörðum króna af skattfé varið til að greiða niður skuldir fámenns hóps stóreignafólks sem einnig losnaði undan auðlegðarskattinum á yfirstandandi kjörtímabili.

Um leið og allar þessar ráðstafanir hafa valdið tekjutapi fyrir ríkissjóð hafa þær einnig átt þátt í að auka eftirspurn og skapa þá þenslu sem nú veldur því að ríkisstjórnin telur nauðsynlegt að hið opinbera haldi að sér höndum í innviðafjárfestingum og fjármögnun grunnþjónustu. 

Háskólar undirfjármagnaðir
Háskólar undirfjármagnaðir Rektorar allra háskóla á Íslandi telja að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar muni hafa verulega neikvæð áhrif á háskólanám, vísindastarf, framþróun í atvinnusköpun og samkeppnisstöðu Íslands til framtíðar.

Háskólar áfram undirfjármagnaðir

Samkvæmt þeim hagvaxtarspám sem ríkisfjármálaáætlunin byggir á mun verg landsframleiðsla aukast um 11,57 prósent frá 2017 til 2021. Á sama tíma munu ríkisútgjöld aukast um 10,52 prósent. Á meðal útgjaldaliða sem ekki halda í við aukningu vergrar landsframleiðslu á tímabilinu eru málefnasvið eins og háskólastigið, framhaldsskólastigið og heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa. 

Samkvæmt skýrslum OECD eru íslenskir háskólar verulega undirfjármagnaðir í samanburði við önnur ríki og fá um helmingi lægra framlag á hvern nemanda en háskólar á Norðurlöndum. Þrátt fyrir þetta er einungis stefnt að því í ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að útgjöld til háskólamála hækki um 6,5 prósent næstu árin. 

„Þrátt fyrir að skýrt sé sagt í stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs að framlag á hvern háskólanema verði sambærilegt við Norðurlöndin árið 2020, er ekkert í tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun næstu fimm ára sem bendir til þess að nokkur breyting verði á fjármögnun háskóla hér á landi,“ segir í ályktun sem rektorar allra háskóla á Íslandi sendu frá sér á dögunum.

„Menntun er lykill að velsæld þjóða og rannsóknir eru drifkraftur framfara. Þess vegna er núverandi tillaga að fimm ára fjármálaáætlun ekki einungis vonbrigði heldur mun hún, verði hún samþykkt óbreytt, hafa verulega neikvæð áhrif á háskólanám, vísindastarf, framþróun í atvinnusköpun og samkeppnisstöðu Íslands til framtíðar.“

Í umfjöllun fjármálaáætlunarinnar um framhaldsskólastigið er sérstaklega vikið að því að fækkun nemenda hafi skapað „fjárhagslegt svigrúm“ sem notað hafi verið til að hækka framlag á hvern nemanda. Þess er hins vegar ekki getið í áætluninni að umrætt svigrúm má einna helst rekja til þeirrar ákvörðunar Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra að skerða aðgang nemenda eldri en 25 ára að bóknámi við framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir áframhaldandi fækkun framhaldsskólanema og minnst sérstaklega á jákvæð efnahagsleg áhrif styttingar framhaldsskólans vegna fjölgunar ungs fólks á vinnumarkaði. 

11 prósenta krafan hunsuð

Í fyrra greindi Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, frá því í fréttum Ríkisútvarpsins að í samanburði við OECD-ríki væri Ísland í 23. sæti hvað varðar hlutfall heilbrigðisútgjalda af landsframleiðslu. Hlutfallið væri eingöngu 8,7 prósent hér miðað við 11 prósent í Svíþjóð og 10,4 prósent í Danmörku. 

Þann 30. apríl síðastliðinn afhenti Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, stjórnvöldum rúmlega 85 þúsund undirskriftir frá Íslendingum sem kröfðust þess að ríkissjóður myndi auka framlög til reksturs heilbrigðiskerfisins upp í 11 prósent af vergri landsframleiðslu. Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar stendur til að hækka framlög til heilbrigðismála upp í tæplega 200 milljarða á ári, eða um 18 prósent að raunvirði yfir fimm ára tímabil. Þótt hækkunin sé veruleg er hún mjög fjarri því að koma til móts við þá kröfu sem hátt í 90 þúsund landsmenn hafa gert með undirskrift sinni. Munu útgjöld ríkisins til heilbrigðismála nema um 8 prósentum af vergri landsframleiðslu árið 2021 ef áætlunin gengur eftir. 

„Til þess að halda í horfinu með sömu þjónustu og viðhaldi á húsnæði þyrfti Landspítalinn 5,3 milljarða til viðbótar á næsta ári. Fjármálaáætlunin gerir eingöngu ráð fyrir 2,3 milljörðum króna, bæði til Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri, akkúrat þegar þörf Landspítalans er 5,3 milljarðar króna,“ sagði Oddný G. Harðardóttir í ræðu á Alþingi í gær. „Ef áætlun ríkisstjórnarinnar verður að veruleika er ljóst að þjónusta Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri mun dragast saman.“ 

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, svaraði á þá leið að fráleitt væri að tala eins og 5,3 milljarðar til Landspítalans skiptu sköpum þegar veltan í heilbrigðismálum væri 190 milljarðar. „Það er bara ekki eðlilegt að ræða þetta út frá þeim samanburði. Ég fullyrði það að samkvæmt áætlunum stjórnvalda, hvort sem það er í fjármálaáætlunin eða grunni að fjárlögum næsta árs, er ekki gert ráð fyrir því að þjónusta Landspítalans eða Sjúkrahússins á Akureyri muni dragast saman.“ 

Ekki komið til móts við kröfu Kára og 90 þúsundanna
Ekki komið til móts við kröfu Kára og 90 þúsundanna Útgjöld til heilbrigðismála munu lækka sem hlutfall af vergri landsframleiðslu samkvæmt ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Ekki dregið úr greiðsluþátttöku sjúklinga

Eins og fram kom í fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins þegar ríkisfjármálaáætlunin var kynnt er stefnt að því að framlög til heilbrigðismála aukist um ríflega 30 milljarða á fimm ára tímabili. Þegar launahækkanir og verðlagsuppfærslur eru teknar með í reikninginn er þetta um 60 milljarða aukning að því er fram hefur komið í máli fjármálaráðherra á Alþingi. „Það eru um 30 milljarðar sérstaklega vegna rekstrar- og stofnkostnaðar. Stór hluti af því mun fara í að fullhanna og hefja framkvæmdir við spítalann,“ sagði Bjarni Benediktsson. 

Í sömu ræðu staðfesti hann að ekki væri gert ráð fyrir sérstökum framlögum til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í ríkisfjármálaáætluninni. Umtalsvert hefur verið rætt um greiðsluþátttöku sjúklinga undanfarnar vikur vegna umdeilds frumvarps Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra sem felur í sér að kostnaður af heilbrigðisþjónustu flyst milli sjúklingahópa í stað þess að hið opinbera leggi aukið fé inn í kerfið. Fjöldi fagaðila og hagsmunasamtaka hafa varað eindregið við því að lögin verði samþykkt óbreytt. Í þeim felst að kostnaðarþátttaka flestra sjúklinga verður áfram meiri á Íslandi heldur en á hinum Norðurlöndunum. 

Fjær norræna módelinu
Fjær norræna módelinu Stefnt er að því að færri fái barnabætur og barnabótakerfið færist fjær því sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum.

Færri fái barnabætur

Stundin hefur áður greint frá því að ríkisstjórnin hyggist endurskoða íslenska barnabótakerfið í samræmi við tillögur sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vann fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Þannig er gert ráð fyrir að færri fái greiddar barnabætur en áður, og samkvæmt ríkisfjármálaáætluninni á kerfið að þjóna nær eingöngu tekjulægstu fjölskyldum landsins ólíkt til að mynda barnabótakerfum hinna Norðurlandanna þar sem bætur eru einnig mun hærri. 

Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, gagnrýnir harðlega að leitað hafi verið ráða hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem þekktur er fyrir að krefja ríki um harða niðurskurðarstefnu, frekar en að leita fyrirmynda í hinum Norðurlöndunum. „Barnabætur á Íslandi eru afar lágar fyrir alla nema einstæða foreldra. Það eru einungis afar tekjulág hjón, jafnvel undir fátæktarmörkum, sem fá einhverjar barnabætur. Fyrirmynda hefði frekar átt að leita til hinna Norðurlandanna,“ skrifar hann á Facebook. 

Framlög hins opinbera til barnabóta munu haldast óbreytt að raunvirði næstu fimm árin. Hins vegar stendur til að auka framlag til Fæðingarorlofssjóðs um 1 milljarð króna á árunum 2017 til 2018 svo unnt sé að hækka hámarksgreiðslur úr sjóðnum. Í nefndaráliti sínu um fjármálaáætlunina fagnar Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingkona Vinstri grænna, áformum um hækkun hámarksgreiðslna en bendir á að áfram verði fæðingarorlof miklu skemmra hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum. „Ætti vitaskuld að vera markmið að lengja það til jafns við það sem þar gerist ef ætlunin væri að starfrækja hér norrænt velferðarkerfi. Slíkt markmið er ekki að finna í ríkisfjármálaáætluninni,“ skrifar hún. 

Í áætluninni er gert ráð fyrir að bætur almannatrygginga hækki í samræmi við meðallaunahækkanir á vinnumarkaði. Þá kemur fram að unnið sé að breytingum á almannatryggingakerfinu til einföldunar og hagsbóta fyrir aldraða. Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, bendir á það í nefndaráliti sínu um áætlunina að samkvæmt frumvarpi sem félags- og húsnæðismálaráðherra hefur birt á vef ráðuneytisins til umsagnar kosti breytingarnar rúma 5 milljarða króna árið 2017 og alls 33 milljarða króna á næstu 10 árum. Hins vegar sé ekki gert ráð fyrir þessum kostnaði í fjármálaáætluninni. 

Gera athugasemdir við stefnumið ríkisstjórnarinnar
Gera athugasemdir við stefnumið ríkisstjórnarinnar Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri skrifar undir umsögn Seðlabankans ásamt Þórarni G. Péturssyni aðalhagfræðingi.

Sveifluaukandi regla innbyggð í áætlunina

Í umsögn Seðlabanka Íslands um ríkisfjármálaáætlunina var gerð athugasemd við það fyrirkomulag að sérstaklega er kveðið á um að frumtekjur ríkisins – það er skatttekjur og annað en vaxtatekjur og óreglulegir liðir – skuli ekki aukast umfram vöxt vergrar landsframleiðslu á tímabilinu 2017 til 2021. Fullyrðir Seðlabankinn að þetta markmið sé „sérlega bagalegt“ og til þess fallið að auka hagsveiflur fremur en milda þær.

„Stefnumiðið virðist því fyrirfram setja skorður við sjálfvirka sveiflujöfnun á tekjuhlið opinberra fjármála og fela í sér að ef hagvöxtur reynist kröftugri skuli gefa eftir tekjur. Þetta er sérlega bagalegt í ljósi þess að reynsla undanfarinna áratuga gefur vísbendingu um að hin hagsveiflutengdu áhrif séu í raun sterkari en hefðbundnar aðferðir við mat á sveifluleiðréttum jöfnuði hafa leitt í ljós og til þess fallið að ýta undir hagsveifluna fremur en milda,“ segir í umsögninni. „Frumgjöld hafa á hinn bóginn tilhneigingu til að lækka í takt við aukinn hagvöxt, en til þess að mæta sjálfvirkri slökun sem felst í ofangreindri tekjureglu yrði að skera útgjöld enn frekar niður.“

Við meðferð áætlunarinnar á Alþingi var ekki brugðist við þessari gagnrýni. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“

Pistill

Þorum við að vera við?

Fréttir

Sagðist sjálfur hafa greitt skuldirnar sem faðir hans yfirtók

Viðtal

Þöggunin tók á sig nýjar myndir eftir stjórnarslitin

Viðtal

„Ég treysti Íslendingum ekki lengur“

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“