Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Hver verður næsti forseti Bandaríkjanna?

Margt bend­ir til þess að eft­ir rúmt ár kom­ist ann­að hvort Bush- eða Cl­int­on-fjöl­skyld­an aft­ur til valda í Banda­ríkj­un­um. Þó eru þeg­ar komn­ir fram fram­bjóð­end­ur sem geta óvænt stað­ið uppi sem valda­mesta mann­eskja heims.

Að „selja“ Bandaríkjamönnum nýjan forseta er eins og að selja morgunkorn, hvernig geturðu talað um alvarleg málefni í 30 sekúndna klippum?“ 

Þetta sagði Adlai E. Stevenson, fyrrverandi forsetaframbjóðandi og sendiherra Bandaríkjanna á sínum tíma um kosningar til eins valdamesta embættis heims, embættis forseta Bandaríkjanna. Baráttan um hugi og hjörtu bandarískra kjósenda er hafin og kosningamaskínurnar að komast á fullt. Í gegnum þær renna ógurlegar fjárhæðir.

Forsetakosningar í Bandaríkjunum eru einn mesti fjölmiðlasirkus sem um getur á jarðríkinu og yfirleitt eru það fjársterkustu aðilarnir, þeir sem hafa náð að safna flestum dollurum, sem ná að halda út alla leið að markinu. Þetta sést einnig á því að þegar heimasíður frambjóðendanna eru skoðaðar kemur orðið „donate“ oftar en ekki fyrir en það merkir að gefa peninga til málstaðarins. Og rétt eins og Stevenson bendir á er fjölmiðlaumfjöllunin oft með þeim hætti sem hann lýsir; stuttar klippur, mikill hraði og „matreiðsla“ fjölmiðla, oftar en ekki unnin í flýti.

Mikill auður þýðir ekki endilega sigur og ef til vill er besta dæmið nýverið þegar Mitt Romney, framjóðandi Repúblíkana, tapaði fyrir Barack Obama í síðustu kosningum. Hann hafði fjóra af stærstu bönkum Bandaríkjanna á bakvið sig og hafði sjálfur aðgang að miklum persónulegum fjármunum. Þegar upp var staðið dugði það ekki til, en talið er að allt að 2,6 milljörðum dollara hafa verið eytt í baráttuna, eða um 320 milljörðum íslenskra króna á núverandi gengi. Yfirleitt er það líka þannig að hver ný kosningabarátta kostar meira en sú síðasta.

Obama á spjöld sögunnar

Embættistíma Barack Obama lýkur í kjölfar næstu kosninga þegar nýr forseti sver embættiseiðinn. Um þessar mundir má segja að baráttan sé að komast á fullt og línurnar séu orðnar nokkuð skýrar um það hverjir ætli sér að keppa um Hvíta húsið. Obama, sem er fyrsti þeldökki forseti Bandaríkjanna, verður sennilega helst minnst fyrir aðgerðir á sviði heilbrigðismála (Obamacare) og að hafa leitt Bandaríkin út úr fjármálakreppunni sem skall á árið 2008. Að undanskildu árinu 2009 hefur hagvöxtur verið jákvæður á embættistíma hans og eru hagvaxtarhorfur fyrir Bandaríkin jákvæðar. Þá má einnig nefna samning Bandaríkjanna (og annarra ríkja) við Íran, en hann þýðir að viðskiptabanni verður aflétt af Íran. Samskipti Írans og Bandaríkjanna hafa verið í frosti frá byltingunni í Íran árið 1979, þegar keisara landsins (hliðhollum Bandaríkjunum) var steypt af stóli. Vesturveldin fá samkvæmt samningnum það loforð frá Íran að landið framleiði ekki kjarnorkuvopn. Þá urðu nýverið straumhvörf í samskiptum Kúbu og Bandaríkjanna þegar ríkin opnuðu sendiráð hvort hjá öðru eftir rofin samskipti frá árinu 1961.

Allt kemur forsetanum við

Segja má að ekkert í heimsmálunum sé Bandaríkjunum óviðkomandi, með beinum eða óbeinum hætti. Forsetinn þarf að glíma við allt frá loftslagsmálum til ástandsins í Úkraínu, brotthvarfs amerískra hermanna frá Afganistan og stríðsins gegn Íslamska ríkinu (ISIS). „Ég myndi sprengja olíusvæði þeirra til helvítis,“ sagði Donald Trump forsetaframbjóðandi í þætti blaðamannsins Andersson Cooper á CNN fyrir skömmu. Þar af leiðandi myndu Mið-Austurlönd loga í bókstaflegri merkingu, rétt eins og gerðist þegar Saddam Hussein, leiðtogi Íraks, lét kveikja í olíulindum í fyrra Íraksstríðinu („Bandalag hinna viljugu“ og þar á meðal Ísland) í kringum 1990. Baráttan gegn ISIS mun að öllum líkindum verða mikill höfuðverkur fyrir nýjan forseta. Þá mun nýr forseti þurfa að setja plástra á samskipti Bandaríkjanna og Ísraels en þau eru mjög köld um þessar mundir. Rússland og samskiptin við Vladimír Pútin Rússlandsforseta eru svo sér kapítuli útaf fyrir sig og er nánast um „alkul“ að ræða þar vegna innlimunar Pútíns á Krímskaga í fyrra og stríðsins í austur-Úkraínu sem kom í kjölfarið. Erfitt er að sjá hvernig greiða eigi úr þeirri flækju á meðan hermenn og saklausir borgarar falla í átökunum en nauðsynlegt er að stilla til alvörufriðar svo menn geti byrjað að tala saman. Þá er ekki ólíklegt að Afganistan taki tíma frá nýjum forseta, sem og vaxandi umsvif Kínverja í Suðaustur-Asíu og spennan á milli þeirra og nágranna sinna.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Forsetakosningar í BNA 2016

Bergmálið frá Hitler: Er Trump fasisti?
ErlentForsetakosningar í BNA 2016

Berg­mál­ið frá Hitler: Er Trump fas­isti?

Á dög­un­um sagði Ásta Guð­rún Helga­dótt­ir, þing­mað­ur Pírata, úr ræðu­stól á Al­þingi að Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti væri fas­isti. Óli Björn Kára­son þing­mað­ur Sjálf­stæð­is­flokks­ins and­mælti því, og nokkr­ir aðr­ir sömu­leið­is. En fleiri hafa velt þessu fyr­ir sér og ekki að­eins hér á landi. Ný­lega birti vef­síð­an Slate við­tal sem blaða­mað­ur­inn Isaac Chot­iner tók við breska sagn­fræð­ing­inn Rich­ard Evans, þar sem ein­mitt var fjall­að um hvort Trump væri á svip­uð­um slóð­um og fas­ist­ar eða nas­ist­ar líkt og Ad­olf Hitler.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár