Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Hamingjan felst ekki í sófa

Í smekk­legu endarað­húsi á Álfta­nes­inu býr Jóna Val­borg Árna­dótt­ir, sam­skipta­stjóri Rannís og rit­höf­und­ur, ásamt manni sín­um, Vil­hjálmi Bergs, og börn­um þeirra þrem­ur, Garpi, Vikt­ori og Veru. Það er aug­ljóst um leið og inn er kom­ið að þarf­ir barn­anna eru í fyr­ir­rúmi við inn­rétt­ing­ar og fyr­ir­komu­lag, enda seg­ir Jóna Val­borg að það hafi ver­ið for­gangs­at­riði við val á hús­næði að þar færi vel um börn­in.

Þegar fjölskyldan flutti á Álftanesið hafði hún búið nokkur ár á Akureyri og þótt Jóna Valborg sé borinn og barnfæddur Reykvíkingur hafði hún heillast af rýminu og rólegheitunum á Akureyri og vildi ekki flytja í bæinn aftur.  Hún segir þau hafa verið heppin að finna þetta hús á Álftanesinu, þar sem ósnortin náttúra blasir við út um alla glugga og skjólsæll garðurinn er í mikilli rækt. „Við erum reyndar ekkert miklir garðræktendur,“ segir Jóna og hlær. „Það eru fyrri eigendur sem eiga heiðurinn af honum, en við erum að læra.“

Listaverk sem börnin hafa unnið á leikskólum og í skólum eru áberandi í húsinu og Jóna Valborg segist svo sem aldrei hafa pælt í því að einhvern veginn öðruvísi ætti það að vera. „Mér þykir svo vænt um það sem krakkarnir gefa okkur,“ segir hún. „Ég er mjög mikil barnakona. Börnin eru í miklum forgangi hjá mér, en ég er auðvitað líka karríerkona. Ég hef alltaf verið að taka skref fram á við og krakkarnir taka þátt í því með mér. Þau eru alin upp við það að vera með í öllu sem ég geri. Ég er stundum spurð að því hvernig mér takist að sameina það að vera með þrjú börn á aldrinum 7–13 ára, vera í fullu starfi og skrifa bók á hverju ári en ég veit aldrei hvernig ég á að svara því. Hef aldrei hugsað um að það sé eitthvað erfitt, maður bara skipuleggur sig vel.“

Fjórða bókin í bókaflokknum um Sólu, sem byrjaði með Brosbókinni, kemur út í byrjun september og Jóna Valborg er ákveðin í að það verði síðasta bókin í flokknum. Hún segir að sig langi til að skrifa fyrir eldri börn, en hún hafi ekki enn fundið hugmynd sem hún sé farin að vinna, það komi bara þegar tíminn verði réttur. Spurð hvort hana hafi alltaf langað til að skrifa svarar hún játandi á augabragði. „Já, mig langaði alltaf að skrifa. Var algjör lestrarhestur þegar ég var krakki og skrifaði líka heilmikið á þeim árum. Svo fór ég í Versló og fór þá að prufa mig áfram með alls konar form. Það náði samt ekkert lengra, barnastússið tók við, ég eignaðist þrjú börn á sex árum og lagði mikið upp úr því að eiga gæðastundir með þeim. Við höfum bæði alltaf lesið mikið fyrir krakkana á kvöldin og sögur hafa alltaf verið stór hluti af þeirra lífi. Svo var það í einu ferðalaginu að Viktor, sem þá var fjögurra eða fimm ára, sýndi líðan sína mjög greinilega; var bara í mjög áberandi fýlu. Ég vildi auðvitað hressa hann við og byrjaði að spyrja hvar brosið hans væri: er það á gólfinu? Er það í vasanum þínum? Fór það út um gluggann? Þá kviknaði hugmyndin að Brosbókinni. Ég fór að gramsa í töskunni minni, fann krumpaðan innkaupamiða og penna og skrifaði niður hugmyndina um brosið sem öðlast sjálfstæðan vilja.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár