Frá sameiningu til sundrungar

Molenbeek er 90 þúsund manna bæjarfélag nærri miðkjarna Brussel en þar er mikið atvinnuleysi. Hópar innan hverfisins eru taldir tengjast hryðjuverkunum sem framin voru í París í nóvember og janúar á síðasta ári, auk nokkurra annarra hryðjuverka innan Evrópu.

ritstjorn@stundin.is

Alls eru 32 látnir í kjölfar hryðjuverkanna í Brussel í gær og á þriðja hundrað slasaðir. Fórnarlömb árásanna komu frá minnst 40 löndum, en sjálfsmorðsárásirnar fóru fram á flugvellinum og á Maalbeek jarðlestarstöðinni í miðborg Brussel.

Hinna látnu verður minnst með mínútu þögn í Brussel í dag, auk þess sem þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Belgíu vegna árásanna þar sem fánar blakta í hálfa stöng. Hæsta viðbúnaðarstig er í gildi í Belgíu og víðar í Evrópu. 

Viðamiklar lögregluaðgerðir hafa staðið yfir í Belgíu í alla nótt og í morgun og húsleitir hafa verið gerðar á fjölmörgum stöðum vegna hryðjuverkaárásanna. Lögregla hefur borið kennsl á þrjá menn sem sáust ganga inn á flugvöllinn. 

Bræðurnir Khalid og Ibrahim El Bak-raoui sprengdu sig í loft upp í árásinni á flugvellinum. Áður höfðu þeir komist í kast við lögin sem smáglæpamenn. Talið er að þeir hafi tengst Salah Abdeslam, sem er talinn höfuðpaurinn í árásum íslamskra ríkisins í París í nóvember, þar sem 130 létust. Hann var handtekinn í Brussel á föstudag. 

Þriðja mannsins, Najim Laachraoui, er enn leitað en hann er talinn sprengjusérfræðingur íslamskra ríkisins, sem hefur lýst ábyrgð á árásinni. Þá er talið að hann hafi einnig komið að undirbúningi hryðjuverkanna í París og verið náinn samstarfsmaður Salah. 

„Salah Abdeslam fæddist 1989 í Belgíu. Foreldrar hans fluttu til landsins frá smábænum Bouyafar í Marokkó og komu sér fyrir í Brussel. Salah ólst þar upp og fátt benti til þess að hann væri strangtrúaður múslimi. Hann rak bar í Molenbeek ásamt bróður sínum Brahim, var fastakúnni á hommabar þar sem hann bæði drakk og neytti vímuefna. Salah var smákrimmi og aðaláhugamál hans Playstation-tölvan sem hann átti.“

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í grein sem Snæbjörn Brynjarsson skrifaði fyrr á árinu þar sem hann rakti sögu hryðjuverkuverkamanna og skoðar tengsl þeirra við París og Brussel, en talið er að um 500 manns hafi farið Belgíu til að berjast í Sýrlandi en um 184 hafa snúið til baka. 

Í kjölfar atburðanna í gær endurbirtum við grein Snæbjörns, sem birtist fyrst í 14. tölublaði Stundarinnar og á vefnum þann 7. janúar. 

Hryðjuverkamenn í Brussel
Hryðjuverkamenn í Brussel Árásarmennirnir sem sprengdu sig í loft upp í sjálfsmorðssprengjuárás í flugstöðinni við Zaventem flugvöllinn í gær hafa verið nafngreindir. Hér er skjáskot úr eftirlitsmyndavélum.

Í dag er ár síðan skotárásin á Charlie Hebdo átti sér stað þann 7. janúar 2015. Þetta hefur verið viðburðaríkt ár í franskri pólitík, með auknum uppgangi þjóðfylkingarinnar og sveiflukenndu fylgi hjá sósíalískum forseta sem hefur fært sig lengra til hægri.

Þann 7. janúar 2015 réðust tveir bræður inn á ritstjórnarskrifstofu Charlie Hebdo, myrtu ellefu manns og særðu jafnmarga. Á leiðinni út lentu þeir, Chérif og Said Kouachi, í skotbardaga við lögreglu með þeim afleiðingum að einn lögreglumaður lét lífið.

Sama dag var skokkari særður í skotárás í suðurhluta Parísar, en síðar átti eftir að koma í ljós að þar var að verki gamall kunningi bræðranna úr fangelsi, Amedy Coulibaly. Sami maður skaut lögreglukonu degi síðar og tók svo loks matvöruverslun í gíslingu. Fjórir viðskiptavinir létu lífið í matvöruversluninni sem sérhæfði sig í kosher-mat (mat sem uppfyllir trúarákvæði gyðingdóms). Amedy gerði þá kröfu að Kouachi bræður fengju að komast óáreittir úr landi en á þessum tímapunkti, 9. janúar, voru bræðurnir sjálfir búnir að taka skiltaverksmiðju í gíslingu. Þeir komu hlaupandi úr verksmiðjunni með vélbyssur á lofti og voru skotnir þann dag. Martröðinni virtist lokið.

Vettvangur árásarinnar
Vettvangur árásarinnar Skrifstofur Charlie Hebdo þar sem níu manns létu lífið í hryðjuverkaárás Kouachi-bræðra.

Charlie Hebdo lifir enn

Margir meðlima í ritstjórn Charlie Hebdo voru þjóðþekktir einstaklingar, grínistar og mestölubókahöfundar, sumir starfandi frá stofnun blaðsins á sjötta áratugnum. Frönsk skopmyndahefð er öflugri en víða annars staðar, Charlie Hebdo var til dæmis ekki eina blaðið sem sérhæfði sig í pólitískum skopmyndum, annað blað sem heldur út öflugri skopmyndaútgáfu (og rannsóknarblaðamennsku) er le Canard Enchaine sem hefur verið rekið frá árinu 1915 og kemur út í sjöhundruð þúsund eintökum vikulega.

Fyrsta blað Charlie toppaði þó öll met eftir skotárásina þegar það seldist í nærri sjö milljón eintökum á sex tungumálum. Upplag blaðsins er vanalega mun minna, um sextíu þúsund eintök mánaðarlega, sem eingöngu eru gefin út á frönsku.

Kvöldið 7. janúar er talið að um hundrað þúsund manns víðs vegar um Frakkland hafi hist á torgum til að minnast þeirra sem féllu í árásinni. Sú tala átti eftir að hækka talsvert næstu daga en í göngunni 11. janúar tóku líkast til um þrjár milljónir manna þátt með einum eða öðrum hætti. Þjóðarleiðtogar hvaðanæva að mættu til að ganga við hlið forsetans Francois Hollande sem þótti standa sig vel í viðbrögðum við árásinni.

Málfrelsi og hatursorðræða

Je suis Charlie varð á svipstundu vinsælasta slagorð í heimi. Á Íslandi nýtti pírataþingmaðurinn Helgi Hrafn Gunnarsson tækifærið til að afnema guðlastslögin. Meðbyrinn var slíkur inni á Alþingi og í þjóðfélaginu öllu að jafnvel þjóðkirkjan lagði blessun sína yfir afnám laganna. Charlie Hebdo fékk hin viðurkenndu PEN verðlaun fyrir baráttu sína fyrir málfrelsi en voru á sama tíma harkalega gagnrýndir í New Yorker og fleiri blöðum fyrir að hvetja til andúðar á minnihlutahópum.

Margir verjenda Charlie hafa bent á að tímaritið hæðist jafnt að öllum trúarbrögðum, en í Frakklandi er sterk hefð fyrir slíku háði. Baráttusamtök gegn rasisma hafa jafnvel unnið með teiknurum blaðsins sem flestir þykja afar frjálslyndir.

En á sama tíma og talað var um að árásin á Charlie hefði verið árás á málfrelsi var grínistinn Dieudonné M'bala M'bala kærður fyrir að skrifa á Twitter að honum liði eins og hann væri Charlie Coulibaly. Dieudonné sem ættaður er frá Kamerún, hóf feril sinn með samstarfi við grínistann og gyðinginn Élie Semoun. Hann hefur þrátt fyrir það verið ásakaður um gyðingahatur, meðal annars fyrir grínatriði þar sem hann líkti landnemum í Ísrael við nasista. Dieudonné var um langt skeið andstæðingur Jean Marie Le Pen en á síðustu árum hafa þeir orðið vinir og bandamenn, en afneitun Dieudonné á helförinni hefur orðið til þess að hann var dæmdur fyrir hatursáróður 2008.

Annar maður var dæmdur til fjögurra ára fangelsis fyrir að segjast styðja árásina á Charlie Hebdo, en franskir fjölmiðlar voru fullir af sögum um krakka í úthverfum sem neituðu að taka þátt í mínútuþögn til að syrgja Charlie Hebdo stuttu eftir árásina. Það reyndist erfitt að staðfesta margar af þessum greinum, en eitt frægasta tilvikið var þegar átta ára drengur í borginni Nice neitaði að taka þátt í þögninni með þeim afleiðingum að faðir hans var kallaður í lögregluyfirheyrslu.

Skammlífar vinsældir forsetans

Það hefur ríkt stjórnmálakrísa í Frakklandi lengi og hún opinberaðist í kosningum síðastliðinn desember þegar öfgahægriflokkurinn Front National náði góðri kosningu í bæði fyrri og seinni hluta fylkisstjórnarkosninga. Nicolas Sarkozy var óvinsælasti forseti í sögu landsins frá því kannanir hófust þar til arftaki hans Hollande tók við og bætti met hans í skoðanakönnunum. Það er því ljóst að Frakkar almennt vantreysta stjórnmálastéttinni og liðnir eru þeir tímar sem forseti taldist sameiningartákn. Háar atvinnuleysistölur og vandræðalegur framhjáhaldsskandall hafa einnig gert Francois Hollande erfitt fyrir. Hollande er fyrsti forseti í sögu landsins án forsetafrúar eftir að sambýliskona hans Valerié Trierweiler yfirgaf hann, en þótt margir (þar á meðal Valerié sjálf) hafi gagnrýnt það embætti sem úrelt og hallærislegt fyrirbæri, ætti enginn að vanmeta hversu stórt hlutverk góður maki getur spilað í að afla stjórnmálafólki vinsælda.

Í kjölfar hryðjuverkanna í janúar jukust þó vinsældir forsetans. Frökkum þótti hann standa sig vel þegar hann leiddi þjóðarleiðtoga á göngu um París, en þegar athöfnum og öryggisráðstöfunum lauk seig hann hægt en örugglega aftur á sama stað í könnunum. Einungis þrettán prósent Frakka voru ánægðir með störf hans og margir eru farnir að gera ráð fyrir því að næstu forsetakosningar verði á milli Sarkozy (eða íhaldsmanns úr flokki hans) og Marine Le Pen. Það væri reiðarslag fyrir sósíalista og endurtekning á sögunni 2002 þegar Jean Marie Le Pen og Chirac tókust á í seinni umferð forsetakosninganna.

Hollande tókst ekki að auka vinsældir sínar þótt hann færði sig yfir miðjuna og til hægri. Í byrjun september lýsti hann yfir áætlun um að lækka tekjuskatta og hefja sprengjuárásir yfir Sýrlandi. Þrátt fyrir vandræðagang á meðal hægrimanna út af innanflokksdeilum skrapaði fylgi forsetans enn botninn.

Þjóðarleiðtogar sameinast
Þjóðarleiðtogar sameinast Forsetinn brást hratt og örugglega við hryðjuverkunum í París. Frakkar virtust vera ánægðir með viðbrögðin eftir árásirnar á Charlie Hebdo og þá ekki síst þegar hann leiddi þjóðarleiðtoga á göngu um París.

Föstudagurinn þrettándi

Þrettánda nóvember 2015 áttu sér stað enn hrikalegri fjöldamorð. Tilraun var gerð til að sprengja áhorfendur á landsleik Frakklands og Þýskalands í Stade de France. Líklega var markmið hryðjuverkamannanna að sprengja sjálfan forsetann í beinni útsendingu þar sem hann sat í stúku sinni. Stuttu síðar voru áhorfendur á rokktónleikum í tónleikahúsinu Bataclan stráfelldir í skotárás, auk veitingahúsagesta vítt og breitt um Parísarborg.

Forsetinn var fljótur á staðinn og í þetta sinn var orðræða hans mun herskárri. „Við erum í stríði, Frakkland er í stríði,“ sagði hann í sjónvarpsmyndavélar, og stuttu síðar var búið að lýsa yfir neyðarástandi í landinu. Landamæraeftirlit var hert og þúsundir hermanna kallaðir út á götur, og því neyðarástandi hefur enn ekki verið aflýst. Í verslunarmiðstöðvum eru vopnaleitarhlið, skólatöskur eru skoðaðar við inngang menntastofnana og herlið er á varðbergi á helstu túristastöðum. Reyndar hefur herlið gætt samkomuhúsa og skóla franskra gyðinga síðan Charlie Hebdo skotárásin átti sér stað, og hefur engin breyting orðið þar á.

Stjórnarskrárbreytingar

Francois Hollande hefur frá því að seinni hryðjuverkaárásirnar áttu sér stað lagt tvær breytingartillögur fram á stjórnarskránni.

Ein gengur út á að forseti muni ekki þurfa að leita til þingsins til að framlengja neyðarástand. Önnur gengur út á að hægt verði að afturkalla ríkisborgararétt þeirra sem tengjast hryðjuverkaárásum með einum eða öðrum hætti, hafi þeir einnig ríkisborgararétt annars staðar. Umræðan um „dechéance nationale“ hefur vakið miklar tilfinningar. Margir Frakkar sem hafa tvöfaldan ríkisborgararétt hafa stigið fram og talað um að gangi þessi tillaga í gegn muni þeir líta á sig sem annars flokks ríkisborgara. Hryðjuverkamenn sem einungis hafa franskan ríkisborgararétt munu halda sínum. Gagnrýnendur hafa einnig bent á að þótt gjörðin hafi táknrænt vægi þá hafi hún lítinn sem engan fælingarmátt; hryðjuverkamennirnir einfaldlega líti ekki á sig sem Frakka. Tvær tegundir ríkisborgararéttar geti einungis gert afstöðu þeirra sem nú þegar upplifi sig útilokaða enn frekar afhuga frönsku samfélagi.

Décheance nationale er þó með vinsælli tillögum forsetans þótt hún hafi klofið flokk hans. Meirihluti Frakka, sér í lagi þeirra sem hallast til hægri styðja afturköllun ríkisborgararéttar og gagnrýnin hefur aðallega komið frá vinstri. Þó eru ekki allir pólitíkusar á hægri hliðinni stuðningsmenn. Borgarstjóri Bordeaux, Alain Juppé, sem er líklegur forsetaframbjóðandi hægri manna, hefur gagnrýnt tillöguna fyrir að vera ópraktíska.

Táknrænar grafir

Inn í þessar umræðu um eðli fransks ríkisborgararétt blandast gamlar milliríkjadeilur. Franska ríkið gerði tilraun til að senda Amedy Coulibaly til greftrunar í Malí en stjórnvöld þar í landi höfnuðu því að taka við líkama hryðjuverkamannsins. Amedy var fæddur og alinn upp í Frakklandi og hafði engar tengingar við landið aðrar en þær að hafa átt forfeður þar, en frönsk yfirvöld hafa áður reynt að fá fallna hryðjuverkamenn grafna þar sem þeir eiga ættir að rekja frekar en innanlands. Niðurstaðan var sú að Coulibaly endaði í ómerktri gröf innanlands líkt og Kouachi bræður. Mikil öryggisgæsla fór fram í kringum greftrunina til að hindra að leiði bræðranna tveggja yrðu að pílagrímsmiðstöð fyrir aðdáendur þeirra.

Eiginkona Coulibaly er enn ófundin. Hayat Boumeddiene flúði Frakkland og var slóð hennar síðast rekin til Sýrlands 10. janúar 2015, en talið er að hún hafi skipulagt ódæðisverkin ásamt eiginmanni sínum.

Forseti í leit að fylgi

Fylgi forsetans hefur sveiflast mikið til á árinu og eins og oft þá eykst það þegar hörmungar dynja á en dalar svo aftur. Það voru Francois Hollande líkast til mikil vonbrigði að þrátt fyrir vel heppnaða ráðstefnu í loftslagsmálum tapaði flokkur hans miklu fylgi. Það er þó ekki beinlínis hægt að tala um hægrisveiflu þegar fylgi hinna hefðbundnu íhaldsflokka hefur heldur ekki aukist, frekar væri hægt að tala um þjóðernissveiflu. Sósíalistum gekk vel í Bretagne sem áður kaus til hægri, en það er ekki síst því að þakka að forsetinn hefur stutt vel við kennslu á bretónsku, og tekið inn fleiri stjórnmálamenn þaðan í ríkisstjórn en fyrri forsetar hafa gert.

Á Korsíku hins vegar unnu hvorki þjóðfylking, sósíalistar né íhaldsmenn sigur heldur sjálfstæðissinnar. Í báðum fylkjum eyjarinnar eru stjórnmálamenn sem tala fyrir annað hvort sjálfstæði eða auknu sjálfræði í meirihluta en óeirðir brutust út stuttu eftir kosningar þar sem þjóðernissinnar brenndu mosku í Ajaccio stærstu borg Korsíku.

Áhrifa skotárásanna 7. janúar og 13. nóvember mun gæta lengi í franskri og alþjóðlegri pólitík. Frakkland hefur stóraukið stríðsrekstur sinn í Mið-Austurlöndum, sér í lagi sprengjuárásir yfir Sýrlandi, en Francois Hollande var langt frá því að vera óvirkur forseti á alþjóðavettvangi. Í valdatíð hans hafa Frakkar tekið þátt í sprengjuárásum yfir Líbýu til að binda enda á valdatíð Gaddaffi og sent herlið til að berjast gegn íslamistum í Malí. Innanlands talaði Hollande fyrir samstöðu og skilningi milli menningarhópa, en eftir þrettánda nóvember hefur hann fært sig lengra til hægri. Fram til þessa hafa íhaldsmenn á borð við Sarkozy keppst um and-íslamska fylgið við þjóðfylkinguna en mögulega verður núna breyting á því. Forysta sósíalista hyggur á landvinninga í þeim fylkjum sem þjóðfylking Le Pen vann kosningasigra sína í byrjun desember. 

Allir vegir liggja til Molenbeek

Molenbeek er 90 þúsund manna bæjarfélag nærri miðkjarna Brussel en þar er mikið atvinnuleysi. Hópar innan hverfisins eru taldir tengjast hryðjuverkunum sem framin voru í París í nóvember og janúar á síðasta ári, auk nokkurra annarra hryðjuverka innan Evrópu. Um það bil 500 manns hafa farið frá Belgíu til að berjast í Sýrlandi og um 184 hafa snúið til baka.

Það vakti athygli að Kouachi bræður ferðuðust til Brussel til að kaupa vopnin fyrir Charlie Hebdo skotárásina, en fimmtudaginn 15. janúar handtók belgíska lögreglan tólf manns vegna gruns um að tengjast skipulagningu á hryðjuverkum, þar af sex í Molenbeek.

Molenbeek átti síðar eftir að verða alræmt sem heimahverfi skipuleggjenda árásanna 13. nóvember. Bæjarfélagið er hluti af Brussel og liggur í göngufjarlægð frá gamla miðbæ borgarinnar. Þetta hverfi var með öflugan iðnað og stundum nefnt litla Manchester sökum þess, en á sjötta og sjöunda áratugnum hvatti belgíska ríkið innflytjendur frá Marokkó og Alsír til að flytja til Belgíu. Fjölmargir Marokkó- og Alsírbúar bitu á agnið um belgíska drauminn og komu til að vinna í kolanámum og verksmiðjum smáríkisins. Efnahagsuppgangur var mikill og ómögulegt var að finna belgíska ríkisborgara eða Evrópubúa sem vildu sinna störfunum, að minnsta kosti ekki á því kaupi sem bauðst, en stuttu eftir að samkomulag náðist milli Marokkó og Belgíu um vinnuaflsflutninga hófst olíukrísan og belgískur iðnaður hrundi.

Í dag er litla Manchester stundum uppnefnt litla Marokkó en atvinnuleysi er um 40% þar. Þrátt fyrir viðurnefnið eru Belgar af marokkóskum uppruna einungis lítill hluti íbúa. Einn fjórði þeirra sem búa í þessu 90 þúsund manna bæjarfélagi eru múslimar, en þó er það orðið frægt fyrir róttækar moskur og sem uppeldisstöð Abdelhamid Abaaoud og Salah Abdeslam.

Gengur laus
Gengur laus Salah Abdeslam ólst upp í Brussel og fátt benti til þess að hann væri strangtrúaður múslimi. Hann ætlaði að taka þátt í hryðjuverkaárásinni í París í nóvember með æskuvini sínum en guggnaði og flúði af vettvangi. Hann gengur enn laus.

Hryðjuverkamaðurinn sem hætti við

Salah Abdeslam fæddist 1989 í Belgíu. Foreldrar hans fluttu til landsins frá smábænum Bouyafar í Marokkó og komu sér fyrir í Brussel. Salah ólst þar upp og fátt benti til þess að hann væri strangtrúaður múslimi. Hann rak bar í Molenbeek ásamt bróður sínum Brahim, var fastakúnni á hommabar þar sem hann bæði drakk og neytti vímuefna. Salah var smákrimmi og aðaláhugamál hans Playstation-tölvan sem hann átti. Hann og æskuvinur hans Abdelhamid Abaaoud voru handteknir 2010 fyrir innbrot í bílakjallara.

Salah fór til Parísar 11. nóvember ásamt Abdelhamid, bróður sínum Brahim og fleirum. Í hótelherbergi, sem þeir deildu og var bókað á nafni Salah, fundust DNA-sýni úr þeim, flöskur og sprautunálar. Salah virðist hafa ætlað sér að taka þátt í árásinni á Stade De France. Bróðir hans Brahim lét lífið þegar hryðjuverkamennirnir gerðu tilraun til að komast inn á íþróttaleikvanginn og sprengja sig í beinni útsendingu. Áhorfendur á vellinum og heima í stofu heyrðu hvellina í sprengjubeltunum en Salah guggnaði á því og flúði.

Æskuvinur Salah
Æskuvinur Salah Abdelhamid Abaaoud var dæmdur fyrir barnsrán þegar hann tók litla bróður sinn, sem þá var einungis þrettán ára gamall, með sér til Sýrlands til að berjast með Íslamska ríkinu. Hann lét lífið í hryðjuverkaárásinni í París.

Sprengjubeltið sem hann bar á sér fannst í ruslafötu í Montrouge í suðurhluta Parísar. Lögregla náði að rekja farsíma hans að sama stað, en eftir það hefur Salah einnig losað sig við hann. Salah fékk far sem puttaferðalangur og var bíllinn stöðvaður af lögreglu á leið sinni frá París til Brussel þrisvar sinnum. Það varð Salah hins vegar til bjargar að á þessum tíma var ekki búið að tengja hann við árásina og lýsa eftir honum, en daginn eftir hryðjuverkaárásina var hann kominn aftur í heimahverfi sitt Molenbeek á flótta undan lögreglu, og líkast til einnig fyrrverandi félögum sínum sem kunnu honum litlar þakkir fyrir að flýja á ögurstundu.

„Áhorfendur á vellinum og heima í stofu heyrðu hvellina í sprengjubeltunum en Salah guggnaði á því og flúði.“

Höfuðpaurinn

Þann 24. maí 2014 fyrir framan gyðingasafnið í Brussel skaut grímuklæddur karlmaður fjóra ferðamenn til bana. Fjórum dögum síðar var fransk-alsírski maðurinn Mehdi Nemmouche handtekinn í Marseille í Frakklandi fyrir þann glæp. Rannsókn á símnotkun hans sýndi að hann átti í samskiptum við Abdelhamid Abaaoud sem þá var nýkominn aftur frá Sýrlandi. Abaaoud hafði verið dæmdur fyrir barnsrán því hann tók litla bróður sinn, Younes, sem þá var einungis þrettán ára gamall, með sér til Sýrlands að því er virðist til að berjast með Íslamska ríkinu.

Blaðamennirnir Étienne Huver og Guillaume Lhotellier heimsóttu sýrlensk-tyrknesku landamærin og fengu þar myndir og myndbönd sem sýndu Abaaoud taka þátt í stríðinu. Í einu myndbandinu hlóð Abaaoud líkum um borð í trukk og á Ahmedin að hafa sagt í myndavélina: „Áður hentum við sjóskíðum, mótorhjólum, fjórhjólum, og fylltum húsbíla af gjöfum til að taka til Marokkó. Núna, lof sé guði, guði að þakka, hendum við villutrúarfólki og heiðingjum sem berjast gegn okkur.“

Abaaoud var bendlaður við fjögur af sex tilræðum sem frönsk stjórnvöld töldu sig hafa komið í veg fyrir árið 2015, þar á meðal skotárásina í Thalys-lestinni sem gekk milli Brussel og Parísar í apríl 2015. Eftir heimkomuna til Molenbeek virðist hann hafa orðið milligöngumaður, tengiliður milli ólíkra vinahópa öfgamanna. Í júlí var gerð tilraun til að handtaka hann í Verviers í Belgíu en hann var dæmdur til 20 ára fangelsisvistar fyrir þátttöku í hryðjuverkum. Abdelhamid fór huldu höfði og tókst að komast hjá handtöku á meðan hann, að öllum líkindum, skipulagði hryðjuverkaárásina 13. nóvember.

Fórnarlambanna minnst
Fórnarlambanna minnst Kvöldið 7. janúar er talið að um hundrað þúsund manns víðs vegar um Frakkland hafi hist á torgum til að minnast þeirra sem féllu í árásinni. Sú tala átti eftir að hækka talsvert næstu daga en í göngunni 11. janúar tóku líkast til um þrjár milljónir manna þátt með einum eða öðrum hætti.

Skotbardaginn í St. Denis

Eftir fjöldamorðin á Bataclan hélt Abdelhamid Abaaoud sig í París. Hann gisti í húsi í miðbæ St. Denis, úthverfis í norðanverðri París, ásamt fylgismönnum sínum. Snemma morguns þann 18. nóvember réðst sérsveit lögreglu á blokkina. Fimm þúsund byssukúlum var hleypt af í skotbardaganum þar sem Abdelhamid lést ásamt tveimur fylgismönnum, þar með talið ungri konu sem sprengdi sjálfa sig. Einn vegfarandi og fimm lögreglumenn létu lífið, auk þess sem fleiri særðust.

Eftir þessa lögregluaðgerð var talið að allir þeir sem komu með beinum hætti að hryðjuverkaárásinni hefðu verið handsamaðir að undanskildum Salah Abdeslam. Lögreglan í Belgíu reyndi án árangurs að ná Salah þann 16. desember í Brussel, en herlög voru sett á borgina, allar búðir lokaðar, samkomur bannaðar og útgöngubanni lýst yfir. Þrátt fyrir hert eftirlit og fjölmargar lögregluaðgerðir hefur enn ekki tekist að handsama hann. Lögregla virðist telja að hann hafi gist hjá vini sínum Ayoub Bazarouj í Molenbeek stuttu eftir komu sína, það virðast DNA-sönnunargögn að minnsta kosti benda til. Einnig virðist Salah hafa hitt gamla félaga á kaffihúsum stuttu eftir komu sína til Brussel og rakið sögu sína fyrir þeim.

Salah er enn ófundinn og ekki hægt að útiloka að hann sé enn í Belgíu, eða að hann hafi flúið annað. Þessi áramót var flugeldasýningum aflýst og herlið var með fullan viðbúnað vegna gruns um yfirvofandi hryðjuverkaárás, sem tengist honum þó ekki beint, það ríkir mikið spennustig enn í Brussel, sem og París þar sem neyðarástandi hefur enn ekki verið aflétt.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt á Stundinni

Enn vanti sjálfstætt eftirlit með lögreglu

Enn vanti sjálfstætt eftirlit með lögreglu

·
Freud, áttatíu ára ártíð

Stefán Snævarr

Freud, áttatíu ára ártíð

·
Hvað er á seyði á Alþingi?

Illugi Jökulsson

Hvað er á seyði á Alþingi?

·
Hóteleigandi varar Íslendinga við

Hóteleigandi varar Íslendinga við

·
Vínið heim í hérað

Freyr Rögnvaldsson

Vínið heim í hérað

·
Þegar EES-samningurinn þótti þjóðhættulegur

Þegar EES-samningurinn þótti þjóðhættulegur

·
Mótmæltu niðurfellingu nauðgunarmála

Mótmæltu niðurfellingu nauðgunarmála

·
Helmingur yfirstjórnenda lögreglunnar fékk stöðuna án auglýsingar

Helmingur yfirstjórnenda lögreglunnar fékk stöðuna án auglýsingar

·
Ferskir straumar í nýrri tónleikaröð við Hlemm

Ferskir straumar í nýrri tónleikaröð við Hlemm

·
Þegar nasisminn nam land

Illugi Jökulsson

Þegar nasisminn nam land

·
Annað andlit  – sama röddin

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir

Annað andlit – sama röddin

·
Bróðir ráðherrans sem skipaði Sigríði án auglýsingar fékk stöðu án auglýsingar

Bróðir ráðherrans sem skipaði Sigríði án auglýsingar fékk stöðu án auglýsingar

·