Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Fóstrum með Downs hvergi eins markvisst eytt og hér

Downs-heil­kenn­ið er hvorki sjúk­dóm­ur né van­sköp­un, þrátt fyr­ir að vera sett und­ir þá skil­grein­ingu í lög­um um fóst­ur­eyð­ing­ar. Þetta árétt­ar Þór­dís Inga­dótt­ir, formað­ur Fé­lags áhuga­fólks um Downs-heil­kenn­ið, sem seg­ir að auk­inn­ar um­ræðu sé þörf í sam­fé­lag­inu og á vett­vangi stjórn­mála um þá stað­reynd að nær öll­um fóstr­um sem grein­ast með Downs-heil­kenni sé eytt hér á landi.

Þórdís Ingadóttir er lögfræðingur og formaður Félags áhugafólks um Downs-heilkennið en hún er jafnframt móðir sjö ára stúlku með Downs-heilkennið. Sjálf var hún komin yfir fertugt þegar hún eignaðist hana. Líkt og flestar konur á Íslandi hafði hún farið í samhæft líkindapróf en ekkert kom út úr því sem benti til þess að auknar líkur væru á litningafráviki hjá barninu sem hún bar undir belti. „Eins og margar aðrar konur var ég lítið að velta þessu fyrir mér.“

Eftir að hún varð móðir barns með Downs hefur hún hins vegar heldur betur velt hlutunum fyrir sér, meðal annar sem formaður félagsins. Margt er varðar framkvæmdina á fósturskimun hefur komið henni mjög á óvart.

Óvenju mörg börn með Downs fædd í fyrra

Sex börn með Downs-heilkenni fæddust hér á landi í fyrra en þau voru fjögur árið 2015. Það er talsverð fjölgun frá síðustu árum en að jafnaði hafa fæðst um tvö börn með Downs frá því að skipulögð skimun hófst árið 2000. Þórdís segist vona að einhver barnanna hafi fengið að fæðast vegna aukinnar umræðu, vandaðri aðkomu heilbrigðisstarfsfólks og upplýstari ákvörðunum foreldra. Hins vegar sé of snemmt að segja til um hvort sú sé raunin, enda séu ekki enn aðgengilegar tölur um það hversu margar af mæðrunum sem gengu með þau börn vissu að þau væru með Downs-heilkennið, né heldur hvort þær gengust undir líkindaprófið eða ekki.

Á undanförnum árum, allt frá aldamótum, hefur hins vegar öllum fóstrum sem greinst hafa með Downs-heilkenni verið eytt. Um 90% þungaðra kvenna í Reykjavík fara í samhæfða líkindaprófið. Ef það sýnir auknar líkur á litningarfráviki gangast um 85 prósent undir legvatnsástungu, sem getur valdið fósturláti. Á undanförnum árum hefur öllum fóstrum sem fæst staðfest að séu með Downs-heilkennið verið eytt í kjölfarið. Nýjustu tölurnar sem tiltækar eru á vef Landspítalans eru frá árinu 2014. Þar sést að allar konur sem fengu staðfest að þær gengju með barn með Downs-heilkenni létu eyða fóstrinu það ár en alls voru fóstrin 11. Á árinu 2013 greindust 15 fóstur með Downs-heilkenni í kjölfar skimunar, þeim var einnig öllum eytt.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu