Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Flugfreyjur Icelandair skikkaðar í háa hæla

Strang­ar regl­ur ríkja um út­lit og klæða­burð starfs­manna hjá Icelanda­ir en mis­mun­andi kröf­ur eru gerð­ar eft­ir því hvaða stöðu fólk gegn­ir. Flug­freyj­ur eiga að mæta til vinnu í há­um hæl­um og vera með varalit alla vakt­ina. Lækn­ir seg­ir of mikla notk­un á hæla­skóm geta ver­ið heilsu­spill­andi og flug­freyja seg­ist oft hafa ósk­að þess að hafa val um að klæð­ast lág­botna skóm eft­ir erf­iða vakt.

Flugfreyjum Icelandair er skylt að mæta til vinnu í hælaskóm. Hælarnir mega ekki vera lægri en fjórir sentímetrar eða hærri en tíu sentímetrar. Sýnt hefur verið fram á að stöðug notkun á hælaskóm geti verið heilsuspillandi, auk þess sem konur eiga misauðvelt með að ganga á háum hælum og það getur valdið verkjum. Flugfreyja, sem Stundin ræddi við, segist margoft hafa þurft að fara úr skónum og setja fæturna á kalt eldhúsgólfið í vélinni til þess að lina verki. Hún er ósátt við að hafa ekki val um að klæðast flatbotna skóm. „Ég væri til í að hafa val um það þegar ég er þreytt eða ekki í stuði til þess að ganga á háum hælum,“ segir hún. „Í gegnum tíðina hef ég oft óskað þess að geta gengið út úr flugvélinni í flatbotna skóm, í stað þess að þurfa að fara á háum hælum út úr vélinni eftir erfitt flug, í gegnum flugstöðina og inn í rútu,“ þar sem henni er loks heimilt að fara úr hælaskónum.

Aukið álag á fæturna 

Rannsóknir hafa sýnt fram á að háir hælar geta valdið margvíslegum kvillum. Spurningakönnun meðal meðlima Samtaka bandarískra bæklunarlækna frá árinu 2014 leiddi í ljós að háir hælar væru langalgengasta orsök fótaverkja hjá konum. Hælaskór valda því að kálfar og vöðvar í mjöðmum og baki spennast upp til að vega upp á móti skekkjunni á líkamsstöðunni sem þeir valda. Þannig geta þeir valdið því að vöðvar styttast, hásin herðist og hreyfigeta ökklans minnkar, með auknum líkum á meinum. Aðrar rannsóknir sýna fram á að háir hælar leggja aukið álag á hnéskeljarnar, auk þess sem gera má ráð fyrir því að 5 sentímetra hælaskór auki álag á tábergið um 57% og 7,5 sentímetra háir hælar auki álagið um 76%.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu