Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

„Ég hef verið lánsamur í lífinu sjálfur“

Þor­steinn Víg­lunds­son tel­ur að störf hans í hags­muna­gæslu fyr­ir fyr­ir­tæki muni nýt­ast hon­um í starfi fé­lags- og jafn­rétt­is­mála­ráð­herra. Hann hyggst end­ur­reisa fæð­ing­ar­or­lofs­kerf­ið en er enn á móti leng­ingu fæð­ing­ar­or­lofs. Þá tel­ur hann nafn­launa­hækk­an­ir ekki rétta leið í vinnu­mark­aðs­mál­um.

„Ég hef verið lánsamur í lífinu sjálfur“
Á kafi í flutningum Þorsteinn Víglundsson tók á móti blaðamönnum og ljósmyndara Stundarinnar í hálftómri skrifstofu sinní í Tryggvagötu. Hann hafði stutta viðdvöl í húsinu en velferðarráðuneytið er nú flutt þaðan vegna myglusvepps. Mynd: Heiða Helgadóttir

Ys og læti eru í velferðarráðuneytinu þegar blaðamenn og ljósmyndara Stundarinnar ber að garði. Vinnumenn eru í óða önn að flytja kassa og tölvuskjái, skrifstofustóla og möppur, út úr ráðuneytinu. Ástæðan er sú að öll fjórða hæðin í húsinu, þar sem velferðarráðuneytið hefur verið með starfsemi sína undanfarin ár, hefur verið metin ónýt sökum myglusvepps. Þorsteinn og aðstoðarmenn hans, Karl Pétur Jónsson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, taka á móti okkur á skrifstofu sinni í norðurenda hússins. Þau segjast munu sakna útsýnisins yfir höfnina, en ekki hausverkjanna sem myglan veldur.

Þorsteinn hefur á orði að fyrstu vikurnar í ráðherrastól leggist vel í hann. Fyrstu dagarnir hafi farið í að hitta allt forystufólk í málaflokkum þessa viðamikla ráðuneytis; allt frá Gylfa Arnbjörnssyni hjá ASÍ til Braga Guðbrandssonar hjá Barnaverndarstofu. Þorsteinn játar því að það sé mikil breyting á högum hans, að verða ráðherra. Hann hafi hins vegar alltaf haft mikinn áhuga á pólitík, sé stjórnmálafræðingur að mennt og hafi raunar ætlað að skrifa um pólitík á árum sínum á Morgunblaðinu. Einhvern veginn hafi hann hins vegar leiðst inn á að skrifa um viðskipti og þannig hófst starfsferil hans á viðskiptabrautinni.

„En þetta blundaði alltaf í mér, þannig að þegar þetta tækifæri gafst, að taka þátt í þessu verkefni að koma að nýjum flokki þá hellti ég mér að fullu í þennan slag. Og hef ekki séð eftir því.“

Telur bakgrunninn nýtast í starfi

Þorsteinn hefur á undanförnum árum fyrst og fremst einbeitt sér að hagsmunagæslu fyrir fyrirtæki og atvinnulífið og þaðan er mestöll starfsreynsla hans. Hann var lengi framkvæmdastjóri BM Vallár, þá var hann framkvæmdastjóri Samtaka álframleiðenda, sat í stjórn Samtaka iðnaðarins og var framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins þangað til hann settist á þing. Það liggur því beint við að spyrja: Eru þessi miklu tengsl og reynsla úr atvinnulífinu nægilega góður undirbúningur fyrir starf félagsmálaráðherra?

„Margt nýtist mér mjög vel inn í þetta ráðuneyti. Í þessum störfum hef ég kynnst vinnumarkaðnum einstaklega vel og náð miklum og góðum tengslum, sérstaklega við verkalýðshreyfinguna. Ég þekki báðar hliðar máls þar orðið ágætlega og bý mjög vel að þeirri reynslu og þeirri tengingu sem ég hef við báðar hliðar, sem ég tel að muni gagnast mjög vel í þessu starfi. Ég þekki mjög vel inn á aðra þætti, eins og húsnæðismálin. Ég hef haft mjög mikinn áhuga á þeim málum mjög lengi og kynntist þeim mjög vel í BM Vallá á sínum tíma og síðan í gegnum stjórn hjá Samtökum iðnaðarins. Ég kynntist auðvitað vel umgjörð vinnumarkaðarins, atvinnuleysistryggingum, fæðingarorlofi, sat í stjórn VIRK starfsendurhæfingarsjóðs um þriggja ára skeið og fékk þar ágæta innsýn í starfsendurhæfingu, örorkumálin og atvinnuleysismálin. Þá hef ég tekið þátt í endurskoðun á almannatryggingakerfinu, þar sem ég fékk ágæta innsýn. En síðan eru aðrir þættir í starfi ráðuneytisins sem ég hef komið minna að í gegnum tíðina og hef verið á fullu að setja mig betur inn í. Þar eru fjölskyldumálin, málefni fatlaðra og önnur mjög mikilvæg mál sem ég þarf að kynna mér betur.“

Enn á móti nafnlaunahækkunum

Sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins talaðir þú meðal annars fyrir því að launþegar fái sem minnstar launahækkanir, svo tryggja megi stöðugleika í hagkerfinu. Breytist sú skoðun þín, nú þegar þú ert ekki lengur í hagsmunagæslu fyrir atvinnulífið?

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár