Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Ég beiti manninn minn ofbeldi

„Ég veit að það sem ég geri er rangt, ósann­gjarnt og meið­andi. Ég veit að ég er að gera öðr­um það sem ég þoldi ekki að mér væri gert. En mér finnst ég ekki geta ham­ið mig,“ skrif­ar Sigga, ís­lensk kona á þrí­tugs­aldri sem hef­ur vak­ið at­hygli fyr­ir að skrifa und­ir dul­nefni um bata­ferli sitt sem ger­andi and­legs of­beld­is. Sál­fræð­ing­ur tel­ur al­geng­ara að kon­ur beiti and­legu of­beldi í ástar­sam­bönd­um, en fá­ir tali um það vegna skamm­ar og ótta við við­brögð annarra. Þá sé of­beldi sem karl­ar beita maka sinn yf­ir­leitt mun áþreif­an­legra og sýni­legra. Karl­ar geri sér ekki alltaf grein fyr­ir and­lega of­beld­inu.

Sakleysisleg ágreiningsefni á borð við hvernig eigi að ganga frá þvottaburstanum geta orðið til þess að Sigga missir stjórn á skapi sínu. Hún hækkar róminn, notar niðrandi orð um maka sinn og kallar hann öllum illum nöfnum fyrir það eitt að gera eitthvað með öðrum hætti en hún hefði sjálf gert það. Allt þarf að vera eftir hennar höfði. Hún stjórnar. Stundum lætur hún óánægju sína í ljós með því að fara afsíðis í fýlu, hún hafnar honum og neitar að virða hann viðlits.  

Það vakti talsverða athygli þegar Sigga hóf að skrifa opinskátt, en undir dulnefni, um eigin bresti sem gerandi andlegs ofbeldis í síðasta mánuði. Henni finnst vanta almenna umræðu um konur sem gerendur í ofbeldismálum og hún bindur vonir við að bloggið muni hjálpa öðrum, bæði gerendum og þolendum. „Með því að gera þetta undir nafnleynd get ég verið algjörlega heiðarleg, því ég get það ekki ef ég opinbera mig. Það er bara minn karakter. Ég gæti aldrei verið jafn einlæg. Þetta er mín leið til að segja allt og útskýra allt þetta dót sem ég hef aldrei sagt neinum,“ segir hún í samtali við Stundina. 

Opinberuð og berskjölduð

Röð atburða réði því að Sigga áttaði sig á því að hún væri gerandi í ofbeldissambandi. Fyrsta kveikjan var sjónvarpsviðtal við Dofra Hermannsson leikara, sem steig fram í Stundinni í desember síðastliðnum og sagðist hafa verið beittur ofbeldi af hálfu fyrrverandi eiginkonu sinnar. „Það viðtal stakk mig,“ segir Sigga. „Ég gat aðeins horft á hluta af viðtalinu og þá varð ég að slökkva á sjónvarpinu. Þetta kom svo djúpt við mig.“

Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár