Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 9 árum.

Blind á ferð um heiminn

Brynja Arth­úrs­dótt­ir missti sjón­ina fyr­ir 36 ár­um en hef­ur far­ið í meira en sjö­tíu ut­an­lands­ferð­ir, þar sem hún skynj­ar heim­inn með því að hlusta, þreifa á og finna æv­in­týra­leg­an ilm.

Skýin leika sér þennan vetrardag. 
Það er hlýlegt heima hjá Brynju. Það er búið að kveikja á lömpum. Tvö hvít rafmagnskerti standa á borðstofuborðinu.

Nokkur falleg málverk hanga á veggjunum. Eitt þeirra sýnir hús við fjörð; sólarlagið er í aðalhlutverki.

„Bróðir minn og mágkona fóru með mig á sýningu hjá Sigurbirni Jónssyni myndlistarmanni og ég féll alveg fyrir þessu málverki þegar þau lýstu því fyrir mér. Ég man svo vel eftir sólarlaginu; ég man eftir fallegu litunum – appelsínugulum, gulum og rauðum. Ég sé alveg litina þegar ég hugsa um það.“

Missti heyrnina á öðru eyranu

Brynja fæddist og ólst upp í Reykjavík og á unglingsárunum dreymdi hana um að verða hjúkrunarfræðingur, gifta sig og eignast börn. 
Hún var 12 ára þegar hún fékk augnbólgur og 16 ára fór hún að fá verki í liðum, sinum og vöðvum. „Ég fékk heiftarlegt gigtarkast þegar ég var að verða 17 ára og lá á Landspítalanum í hálft ár.“ Hún segir að læknar hafi haldið að hún væri með liðagigt. Hún var hins vegar greind með sjaldgæfan bandvefssjúkdóm, Ehlers-Danlos, í Bretlandi um 10 árum síðar.

Brynja vaknaði á 18 ára afmælisdaginn og var skyndilega orðin heyrnarlaus á vinstra eyra. „Það var bara óheppni. Ég fékk kvefvírus og missti auk þess allt jafnvægisskyn. Heyrnin á vinstra eyra kom ekki aftur en jafnvægisskynið kom eftir tvær vikur. Heyrnin á hægra eyra er í lagi en þetta hefur háð mér dálítið eftir að ég missti sjónina af því að mig vantar stereóið; það kallar kannski einhver í mig og ég veit ekkert hvort viðkomandi er fyrir aftan mig, framan mig eða hvorum megin hann er. Ég er stundum eins og álfur út úr hól.“Hræðsla og reiði

Brynja segist hafa verið með góða sjón á æsku- og unglingsárunum en hún þurfti að fá sín fyrstu gleraugu þegar hún var rúmlega tvítug. Sjúkdómurinn hafði áhrif á sjónina.

Slys olli því að hún missti sjónina á hægra auganu þegar hún var 23 ára. Hún datt með þeim afleiðingum að gleraugun brotnuðu og stakkst gler inn í hægra augað. 

„Ég missti síðan sjónina alveg í nokkra daga þegar ég lá á Landakoti þegar ég var 25 ára en þá var ég búin að vera mjög slæm í vinstra auganu vegna bólgu. Það hvarflaði ekki að mér að ég ætti eftir að verða blind. Mér fannst það geta komið fyrir aðra en ekki mig.“

Brynja þegir.

„Vökvi fór að renna úr auganu og sjónin bara hvarf. Þá greip mig heiftarleg hræðsla og reiði. Reiðin beindist að augnlækninum af því að mér fannst hann ekki hafa sinnt mér nóg. Hann reyndist mér hins vegar vel – þetta voru bara sorgarviðbrögð. Ég gekk þarna í gegnum mesta áfallið; þetta var skólabókardæmi um sorgarviðbrögð, sem ég gekk í gegnum.“
Fimm dagar liðu þar til hún fékk sjónina aftur.

Þorði ekki að gráta

Vegna sjúkdómsins slitnuðu sinar í höndunum á Brynju frá því hún var 23 ára. Einn morguninn, þegar hún var 27 ára, vaknaði hún á spítala eftir aðgerð og sá allt í þoku.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár