Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Ísland hitar upp fyrir loftslagsbreytingar

Ís­lend­ing­ar menga meira en nokkru sinni fyrr og ekk­ert lát virð­ist vera á um­hverf­is­sóða­skapn­um. Ráð­herra um­hverf­is­mála seg­ir ný­leg­ar nið­ur­stöð­ur um los­un gróð­ur­húsaloft­teg­unda hafa kom­ið öll­um á óvart. Áhrifa- og at­hafna­menn á Ís­landi hafa síð­asta ára­tug­inn lagt áherslu á tæki­fær­in sem lofts­lags­breyt­ing­ar munu færa okk­ur. Tal­að er um að „nýtt Mið­jarð­ar­haf“ muni rísa á norð­ur­slóð­um.

Íslendingar losa þrefalt meira af gróðurhúsalofttegundum heldur en meðal jarðarbúinn. Þá er losun gróðurhúsalofttegunda á hvern íbúa hér á landi tvöfalt meiri en á hvern íbúa í Evrópu. Losunin hefur aukist um 26 prósent á síðustu 25 árum og allt útlit er fyrir að hún muni aukast um tugi ef ekki hundruð prósent á næstu árum og áratugum. Fá eða engin dæmi eru um slíka aukningu í öðrum þróuðum ríkjum. Að öllu óbreyttu mun Ísland ekki ná markmiðum sínum innan Kyoto-bókunarinnar fyrir árið 2020 né standa við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamningnum til ársins 2030. Langmest af aukningu losunar fram til þessa og í fyrirliggjandi spám er frá stóriðju, eða um 45 prósent af heildarlosun Íslands. 

Á sama tíma er stefnt á enn frekari uppbyggingu kísilvera í Helguvík sem og á Grundartanga auk þess sem hugmyndir eru uppi á borðinu um stækkanir álvera. Ekki nóg með það heldur eru íslensk stjórnvöld ennþá að gera sér vonir um að jarðgas og olía finnist á Drekasvæðinu í nánustu framtíð. Ljóst er að með slíkum fundi myndi Ísland leggja enn meira af mörkum til hlýnunar lofthjúpsins, hvort sem það væri með beinum eða óbeinum hætti. Svæðið í kringum norðurheimskautið hlýnar nú þegar tvöfalt hraðar en aðrir heimshlutar vegna loftslagsbreytinga og vetrarísar á svæðinu hafa rýrnað um álíka landsvæði og Frakkland og Þýskaland til samans.

Líkt og rakið verður hér á eftir þá birtast þessar róttæku og afturkræfu breytingar á náttúru okkar og umhverfi helst sem ný tækifæri í augum margra þeirra sem ræða þessi mál á vettvangi íslensks stjórnmála- og viðskiptalífs. Hröð bráðnun íss á norðurslóðum mun þýða aukið aðgengi fyrirtækja að verðmætum auðlindum norðurslóða og vilja ýmsir áhrifamenn að Ísland verði eins konar þjónustumiðstöð fyrir olíu- og gasvinnslu svæðisins. Þá sjá margir fyrir sér að hér geti risið stórskipahöfn sem sinna mun flutningum á milli Asíu og Evrópu þegar nýjar skipaleiðir opnast yfir Norður-Íshaf. Þjóðin sem er með buxurnar á hælunum í umhverfismálunum er löngu farin að hita upp fyrir gullæðið á norðurslóðum.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár