Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Fréttir

Bjarni vill ekki rannsaka einkavæðingu bankanna

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra vill draga lærdóm af blekkingum við einkavæðingu bankanna en ekki rannsaka hana nánar. Meðlimur einkavæðingarnefndar sagði af sér vegna óásættanlegra vinnubragða við sölu ríkisins á Landsbankanum og taldi formenn flokkanna hafa handvalið kaupendur bankanna. Ólafur Ólafsson afsalaði Framsóknarflokknum húsi mánuði áður en hann keypti Búnaðarbankann af ríkinu á fölskum forsendum.

Þrátt fyrir að rannsókn á einkavæðingu Búnaðarbankans hafi leitt í ljós umfangsmikla blekkingu kaupenda bankans, vill Bjarni Benediktsson forsætisráðherra ekki rannsaka einkavæðingu bankanna.

Þetta kemur fram í viðtali Bjarna við Sjónvarpið. „Við þurfum að reyna að draga lærdóm af því sem þarna gerðist,“ sagði Bjarni. Spurður hvort fara þurfi í ítarlegri greiningu á því sem fór afvega í einkavæðingu bankanna segir Bjarni þó svo ekki vera. „Í mínum huga er búið að skoða það margoft og nægilega vel og við síðan bættist rannsóknarskýrsla Alþingis í hruninu, þar sem menn höfðu heimildir til að kalla eftir upplýsingum langt umfram það sem við höfum áður fest í lög. Ég skal ekki segja, ef einhver getur bent mér á þætti í þessum málum sem væri skynsamlegt að fara ofan í enn frekar skal ég ekkert fyrirfram vera á móti því. En fyrir mína parta er ekkert aðkallandi að skoða varðandi sölu bankanna sem átti sér stað fyrir nærri fimmtán árum.“

Þá sagði Bjarni að ekki lægi á þar sem „það er ekki beint á dagskrá um næstu helgi að selja Íslandsbanka.“

Niðurstaða rannsóknarskýrslunnar er að Ólafur Ólafsson fjárfestir og hópur tengdur honum beitti blekkingum í aðdraganda kaupa S-hópsins á Búnaðarbankanum 2003. Forveri Bjarna á formannsstóli í Sjálfstæðisflokknum, Geir H. Haarde, undirritaði söluna fyrir hönd ríkisins og var því lýst yfir að þýskur banki væri aðili að kaupunum, en það byggði á blekkingu Ólafs. 

Skrifstofur Framsóknar fengust frá Ólafi

Tengsl Ólafs Ólafssonar við Framsóknarflokkinn hafa verið til umræðu allt frá einkavæðingu bankans í hendur S-hópsins. Ólafur afsalaði sér húsi til Framsóknarflokksins mánuði fyrir einkavæðinguna á Búnaðarbankanum. Í húsinu, við Hverfisgötu 33, eru skrifstofur flokksins nú staðsettar. Í viðskiptunum við flokkinn, sem fjallað var um í DV árið 2012, veitti Ólafur þau kjör að kaupverðið yrði greitt með yfirtöku skulda sem voru töluvert undir fasteignamati. Afsalið er dagsett 19. desember 2002, en tæpum mánuði síðar, 16. janúar 2003, var tilkynnt um kaup hóps undir forystu Ólafs á Búnaðarbankanum. Valgerður Sverrisdóttir, þá viðskiptaráðherra úr Framsóknarflokknum, skrifaði undir söluna fyrir hönd ríkisins ásamt Geir Haarde. Einn af forsprökkum kaupendahópsins með Ólafi Ólafssyni var Finnur Ingólfsson, forveri Valgerðar á stóli viðskiptaráðherra. 

Einkavæðing Landsbankans óeðlileg

Samþykkt var á Alþingi árið 2012 þingsályktunartillaga um að stofna til rannsóknar á einkavæðingu bankanna sem myndi skila niðurstöðum fyrir september árið eftir. Ekki varð af rannsókninni. Rannsókn á einkavæðingu Búnaðarbanka nú var að undirlagi Umboðsmanns Alþingis, sem er sjálfstæð eftirlitsstofnun.

Bjarni Benediktsson vill ekki rannsaka einkavæðinguna nánar þrátt fyrir að komið hafi fram yfirlýsingar frá þeim sem þekktu til um að óeðlilega hafi verið staðið að verki.

Steingrímur Ari Arason sat í einkavæðingarnefnd þegar einkavæðing Landsbanka og Búnaðarbanka var undirbúin. Hann sagði af sér áður en viðskiptin voru frágengin vegna vinnubragða sem hann taldi vera óeðlileg. 

Í viðtali við morgunútvarp Rásar 2 í apríl 2010 sagði hann frá þeirri reynslu sinni að óeðlileg afskipti væru af málinu af hálfu einstakra stjórnmálamanna. „Við vildum vinna eftir reglum, þannig að það yrði hafið yfir vafa hvað við værum að gera. Smám saman voru reglurnar svo settar til hliðar.“

Hann telur að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, formenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, hafi verið búnir að ákveða hverjir fengju bankana. „Ég fékk það mjög sterklega á tilfinninguna – og það gerði Valgerður [Sverrisdóttir] líka – að það væru í raun Davíð og Halldór sem réðu ferðinni, þarna sem áður í mörgum málum. Ég tel 99,9% líkur á því að þeir hafi verið búnir að ákveða að selja þessum tveimur aðilum bankana. Það fór ekkert á milli mála að þeir höfðu ákveðnar skoðanir á þessum aðilum. Þetta var pólitísk ákvörðun hverjir fengu bankana.“

Í afsagnarbréfi sínu sagði Steingrímur Ari að hann hefði „aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum“, en hann sat í framkvæmdanefnd um einkavæðingu frá árinu 1991.

Rannsóknarnefndin hafði takmarkaðan tíma

Bjarni Benediktsson vísaði í Sjónvarpinu í kvöld til þess að rannsóknarnefnd Alþingis um orsakir og aðdraganda falls bankakerfisins á Íslandi hefði þegar rannsakað einkavæðinguna. Í rannsóknarskýrslu Alþingis kemur hins vegar fram að takmarkaður tími hafi gefist til þess að rannsaka einkavæðinguna og að úttekt á henni væri ekki heildarúttekt

„Það er ljóst að það væri umfangsmikið verk ef fjalla ætti í heild um framkvæmd einkavæðingar eignarhluta ríkisins í bönkum og fjármálafyrirtækjum á árunum 1997 til og með 2003. Rannsóknarnefndinni er ætlaður takmarkaður tími til að sinna þeim verkefnum sem henni eru fengin ... Nefndin ítrekar að hér er ekki um að ræða heildarúttekt á einkavæðingu bankanna eða tengdum málefnum,“ segir í sjötta kafla skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“

Pistill

Þorum við að vera við?

Fréttir

Sagðist sjálfur hafa greitt skuldirnar sem faðir hans yfirtók

Viðtal

Þöggunin tók á sig nýjar myndir eftir stjórnarslitin

Viðtal

„Ég treysti Íslendingum ekki lengur“

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“