Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Með hauskúpur á bakinu og fjölskylduna í faðminum

Vít­isengl­arn­ir til­heyra Hells Ang­els, sem eru skil­greind sem skipu­lögð glæpa­sam­tök víða um heim, þar á með­al af ís­lensk­um yf­ir­völd­um. Með­lim­ir Vít­isengla segj­ast hins veg­ar of­sótt­ir af yf­ir­völd­um að ósekju og að margt sem sagt er um klúbb­inn eigi ekki við rök að styðj­ast. Atli Már Gylfa­son fór á fund Vít­isengla á af­skekkt­um stað í Borg­ar­firð­in­um, þar sem þeir voru sam­an­komn­ir með fjöl­skyld­um sín­um og út­skýrðu af hverju þeir leit­uðu til þess­ara sam­taka.

Íslensk stjórnvöld líta á mótorhjólaklúbbinn Hells Angels sem skipulögð glæpasamtök. Á okkar móðurmáli hafa meðlimir samtakanna verið kallaðir Vítisenglar: vélhjólamenn sem fylgja hvorki lögum né reglum, fjármagna sig með fjárkúgunum og fíkniefnasölu og vekja ótta meðal almennings. Íslensku Vítisenglarnir fagna fimm ára afmæli í ár en það var í mars árið 2011 sem þeir fengu opinberlega inngöngu inn í móðursamtökin sem stofnuð voru árið 1948 í Fontana í Kaliforníu. Hingað til hafa þeir neitað öllum fyrirspurnum fjölmiðla um viðtöl eða umfjöllun um íslensku deild samtakanna en í byrjun september á þessu ári komst á samband milli blaðamanns Stundarinnar og meðlima Hells Angels á Íslandi. Eftir nokkrar viðræður buðu samtökin blaðamanni að vera viðstaddan fund meðlima Hells Angels sem átti að fara fram utan höfuðborgarsvæðisins. Eina ósk Hells Angels var að ekki yrði gefin upp nákvæm staðsetning á fundinum. Blaðamaður gekkst við því enda fáheyrt að fjölmiðill fái slíkt boð og þá skiptir engu hvort litið er á íslensku deild Hells Angels eða á heimsvísu. Blaðamaður getur þó sagt að fundurinn fór fram í Borgarfirði laugardaginn 1. október síðastliðinn.
 
Um er að ræða einu rótgrónustu vélhjólasamtök í heiminum með meðlimi og deildir í yfir þrjátíu löndum. Eins og áður segir voru Hells Angels stofnuð í Kaliforníu árið 1948 af fyrrverandi hermönnum í bandaríska flughernum. Sjálft nafnið er sagt fengið frá hópi flugmanna sem flugu orrustuþotum í fyrri og seinni heimsstyrjöldinni og voru kallaðir Hells Angels, eða „Vítisenglar“. Síðan þá hefur klúbburinn vaxið hratt en hans varð fyrst vart í Evrópu í kringum 1969 en þá voru tvær deildir stofnaðar í London. Samkvæmt sögu Hells Angels, sem hefur verið rakin í fjölmörgum heimildarmyndum, sjálfsævisögum og umfjöllunum, þá bauð Bítillinn George Harrison meðlimum Hells Angels í Kaliforníu í Apple Records stúdíóið árið 1968 en samkvæmt Chris O‘Dell, einum af starfsmönnum Bítlanna á þessum árum, þáðu tveir þekktir meðlimir samtakanna boðið og kíktu í heimsókn. Saga samtakanna er gríðarlega áhugaverð en á sama tíma er hún blóði drifin og því ekki að ástæðulausu sem yfirvöld líta á Hells Angels sem skipulögð glæpasamtök. Meðlimir samtakanna hér á landi vilja þó taka fram að Hells Angels hafi aldrei, hvorki sem samtök eða klúbbur, verið dæmd fyrir lögbrot. Sömu menn viðurkenna þó að hafa brotið lögin en það hafi ekki verið í nafni klúbbsins, þau lögbrot séu mistök sem þeir sjálfir eru persónulega ábyrgir fyrir og tengist ekki þátttöku þeirra í starfi Hells Angels.
 
Það verður að viðurkennast að það fylgdi því dálítið stress að hitta íslensku Vítisenglanna. Ef við lítum til baka þá hafa samskipti fjölmiðlamanna við meðlimi vélhjólasamtaka hér á landi, sem kenna sig við 1% klúbbanna (þá klúbba sem gefa sig út fyrir að fara ekki að lögum og reglum), ekki alltaf endað vel. Þannig braut Jón Trausti Lúthersson, einn af þeim sem fyrst var kenndur við Hells Angels hér á landi, sér leið inn á ritstjórnarskrifstofur DV ásamt félögum sínum í október árið 2004 og tók einn af fyrrverandi ritstjórum blaðsins hálstaki auk þess að valda skemmdum á sjálfri skrifstofunni. Meðlimur samtakanna sem blaðamaður ræddi við ítrekaði þó að ekkert væri að óttast í þetta skiptið, þetta væru fjölskyldumenn sem ætluðu að hittast, borða saman og ræða það sem næst væri á dagskrá. Ótti blaðamanns væri byggður á sömu ranghugmyndum og ofsóknir yfirvalda væru byggðar á. Sömu ranghugmyndir og urðu til þess að hópurinn hafi ákveðið að tjá sig um mál klúbbsins í fjölmiðlum. Eitthvað sem gerist í raun og veru aldrei. Sama hvert litið er í heiminum.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Vélhjólagengi

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár