Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Sex fróðleiksmolar um faraldurinn

  1. Íslendingar eiga metið: við höfum nú prófað kórónuveirusmit í hærra hlutfalli landsmanna en gert hefur verið í nokkru öðru landi. Einkafyrirtækið Íslensk erfðagreining hefur gert meiri hluta prófanna, en flest smitin hafa fundizt í prófum Landspítala Háskólasjúkrahúss þar eð þeir sem finna fyrir einkennum leita helzt þangað. Prófin eru ókeypis.
  2. Færeyingar skipuðu efsta sæti listans þar til í gær en þeir skipa nú  annað sætið með næstflest smitpróf miðað við mannfjölda. Þar hafa greinzt 185 smit og er öllum þeirra sem báru smitið nú batnað nema níu. Enn hefur enginn látið lífið af völdum veirunnar í Færeyjum en tíu á Íslandi.
  3. Bandaríkjamenn hafa gert færri smitpróf en Ítalar, Spánverjar og Frakkar samanlagt og eru þó næstum tvisvar sinnum fleiri en þessar þrjár þjóðir samtals. Á listanum yfir fjölda prófa sem hlutfall af mannfjölda skipa Bandaríkin nú 42. sætið og þokast hægt upp eftir listanum. Meðal þeirra landa sem eru ofar á listanum yfir fjölda prófa á hverja milljón íbúa eru Kanada og Rússland. Fullyrðingar Trumps forseta um að próf séu engin fyrirstaða ríma ekki við staðreyndir málsins eins og margir fylkisstjórar hafa lýst.
  4. Í sumum borgum Bandaríkjanna, t.d. Chicago, eru 2/3 hlutar smitaðra blökkumenn þótt þeir séu aðeins 1/3 hluti íbúanna. Blökkumenn búa yfirleitt við lægri tekjur og lakari heilsu en hvítir. Samt eru það hvítir menn, einkum karlar sem luku ekki háskólanámi, sem hafa öðrum fremur týnt eða teflt frá sér lífinu í örvæntingu í Bandaríkjunum síðustu ár hundruðum þúsunda saman með þeirri afleiðingu að meðalævi Bandaríkjamanna styttist þrjú ár í röð 2015-2017 -- og slíkt hafði þá ekki gerzt síðan í spænsku veikinni hundrað árum fyrr.
  5. Norðmenn hafa prófað tvisvar sinnum fleira fólk en Svíar þótt Svíar séu tvisvar sinnum fleiri en Norðmenn. Það gerir fjórfaldan mun á fjölda smitprófa miðað við mannfjölda Norðmönnum í vil.
  6. Ekki er víst að svo stöddu að dauðsföll af völdum veirunnar fjölgi dauðsföllum í heild þar eð samkomubönn og útgöngubönn fækka einnig öðrum smitum, slysum, morðum o.fl. Reynslan af spænsku veikinni 1918-1920 sýnir að dauðsföllum í Bandaríkjunum fækkaði verulega eftir að fárinu slotaði þar og olli þegar upp var staðið frekar flýkkun en fjölgun dauðsfalla eins og Angus Deaton, Nóbelsverðlaunahagfræðingur i Princeton-háskóla, hefur lýst. Þetta virðist að einhverju leyti vera hugsunin á bak við mjúkhent viðbrögð Svía við faraldrinum borið saman við harðhentari viðbrögð í Danmörku, Finnlandi, Íslandi og Noregi.
  7. Ég held áfram að fjalla um málið frá ýmsum hliðum í Stundinni á föstudaginn kemur.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu