Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Lög um Hæstarétt

Lögin í landinu, nánar tiltekið lög um Hæstarétt Íslands nr. 75/1973, geymdu lengi svohljóðandi ákvæði: „Þann einn er rétt að skipa hæstaréttardómara, sem ... [h]efur lokið embættisprófi í lögum með fyrstu einkunn.“

Þessum lögum var breytt 1998, sjá lög um dómstóla nr. 15/1998, m.a. á þann veg að þar stendur nú: „Þann einn má skipa í embætti hæstaréttardómara sem ... [h]efur lokið embættisprófi í lögfræði eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið verður því jafngilt.“

Enn var lögunum breytt 2016, sjá lög nr. 50/2016, en þar segir nú: „Þann einn má skipa í embætti hæstaréttardómara sem ... [h]efur lokið embættisprófi eða grunnnámi ásamt meistaraprófi í lögum.“

Í athugasemdum við lagabreytinguna sem lögð var fyrir Alþingi 1998 segir svo: „Í fjórða lagi felst í [frumvarpinu] tillaga um að afnema áskilnað ... um að dómari við Hæstarétt verði að hafa lokið lögfræðiprófi með fyrstu einkunn. Að baki þessari tillögu býr meðal annars að erlent próf í lögfræði verður metið jafngilt íslensku prófi sem hæfisskilyrði til að hljóta dómaraembætti ... Erlend lagapróf eru byggð upp með mjög mismunandi hætti. Af þeim sökum verður áskilnaður um tiltekinn námsárangur, sem tekur eingöngu mið af íslensku menntakerfi, ómarkviss.“ Engar athugasemdir fylgdu orðalagsbreytingu ákvæðisins 2016.

Ætla mætti að lagabreytingunum 1998 og 2016 hafi verið ætlað að efla Hæstarétt með því að fjölga dómurum með „erlent próf í lögfræði“ og laða að réttinum dómara sem lokið hafa „meistaraprófi í lögum“. Hefur það tekizt?

Nú sitja sjö dómarar í Hæstarétti og hafa allir lokið embættisprófi í lögum, allir frá Háskóla Íslands. Af þessum sjö luku a.m.k. tveir prófi með annarri einkunn og hefðu því ekki talizt hæfir til skipunar í embætti skv. eldri lögum. Meiri hluti dómaranna, fjórir dómarar af sjö, hafa engu öðru lagaprófi lokið. Aðeins tveir dómarar af sjö hafa lokið meistaraprófi og enginn doktorsprófi.

Tveir dómarar af sjö eru skráðir kennarar í lagadeild Háskóla Íslands, annar prófessor og hinn dósent, og annast þeir skv. vefsetri deildarinnar samtals átta námskeið háskólaárið 2019-2020, annar fimm, hinn þrjú. Hvorugur hefur lokið nokkru lagaprófi öðru en embættisprófi frá nefndri lagadeild. Þeir eiga nú báðir í málaferlum við fv. dómara í Hæstarétti.

Í lagadeild Háskóla Íslands eru nú skráðir þrettán prófessorar. Af þessum þrettán hafa fimm lokið doktorsprófi sem er lögbundin lágmarkskrafa sem allar aðrar deildir Háskóla Íslands og annarra háskóla innan lands og utan gera til prófessora.

Áskilnaði fyrri laga um að þann einn megi skipa í embætti hæstaréttardómara sem „[h]efur hvorki gerst sekur um refsivert athæfi sem má telja svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta“ var breytt með lögum nr. 14, 2018, en þar segir að þann einn megi skipa í embætti hæstaréttardómara sem „[h]efur hvorki hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að hann varð fullra 18 ára né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta“. Alþingi þótti sem sagt rétt að breyta lögunum á þann veg að „refsivert athæfi sem má telja svívirðilegt að almenningsáliti“ sé ekki lengur lagaleg fyrirstaða skipunar í embætti hæstaréttardómara. Eftir stendur að „háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta“ er áfram frágangssök, en þó aðeins áður en til skipunar kemur.

Fólkið í landinu ber lítið traust til dómstóla. Allar götur frá því mælingar hófust 2001 hefur innan við helmingur viðmælenda Gallups sagzt bera traust til dómstólanna og sum árin innan við þriðjungur. Það er engin furða eins og allt er í pottinn búið. Hlutdrægni við skipun í dómaraembætti hefur oftar en einu sinni bakað ríkinu skaðabótaskyldu undangengin ár og jafnvel leitt til afsagnar ráðherra. Nýja stjórnarskráin tekur á vandanum m.a. með því að kveða á um hertar kröfur við skipun dómara.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu