Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Hans hátign flýgur

Þegar lýðræði á svo mjög undir högg að sækja sem raun ber vitni, ekki bara á Íslandi heldur einnig og enn frekar í Bandaríkjunum þar sem Repúblikanaflokkurinn, fyrirmynd margra íhaldsflokka um allan heim, berst fyrir skerðingu atkvæðisréttar að lokinni misheppnaðri tilraun til valdaráns, þá vill hugurinn hvarfla til Kongó. Þaðan á ég æskuminningar úr Alþýðublaðinu, Morgunblaðinu, Tímanum, Vísi og Þjóðviljanum sem fluttu lesendum sínum tíðar fréttir af skálmöldinni sem umlukti sjálfstæðistöku landsins 1960.

Mest bar í fyrstu á sjálfstæðishetjunni og forsætisráðherranum Patrice Lúmúmba, sem eftir aðeins örfáa mánuði á forsætisráðherrastóli 1960 var myrtur að undirlagi Bandaríkjastjórnar með aðstoð Belga þar eð hann var sagður hallur undir kommúnista. Heimamenn hjálpuðu til, einkum Móbútú, sem var hægri hönd hins myrta og sveik hann, Kasavúbú fyrsti forseti landsins sem vék Lúmúmba úr embætti og Tsjombe, sem útvegaði morðstaðinn í uppreisnarhéraðinu Katanga í suðurhluta þessa víðáttumikla lands. Kongó er 80 sinnum stærra land að flatarmáli en Belgía sem hafði stjórnað Kongó með harðýðgi frá 1908.

Eftir að Lúmúmba hafði verið komið fyrir kattarnef sat Jósef Kasavúbú áfram við völd sem fyrsti forseti Kongó, en Móbútú sem stýrði hernum steypti honum af stóli 1965 og sat að völdum í 32 ár, til 1997. Hann umgekkst ríkissjóð og seðlabankann eins og fundið fé. Hann sagði stundum við forsætisráðherrann: Mig vantar milljón. Forsætisráðherrann hringdi í seðlabankastjórann til að flytja honum boð forsetans. Þannig voru þrjár milljónir teknar út, ein handa hverjum þeirra. Móbútu lét myrða andstæðinga sína í hrönnum. Hann var kvæntur tvíburasystrum og hélt útsmoginn eins og hann var við eiginkonur margra ráðherra sinna og helztu embættismanna til að hafa betra tak á þeim. Margar slíkar sögur frá Kongó eru sagðar í fróðlegri kvikmynd frá 1999, Mobutu: King of Congo. Hann var óvenjulega grátgjarn í ræðustóli.

Mér er minnisstæð sagan sem vinur minn einn og samstarfsmaður í Alþjóðgjaldeyrissjóðnum sagði mér frá ferðum sínum til Kongó, sem hét þá Saír. Samningar AGS við ríkisstjórn Móbútús fóru fram í höfuðborginni Kinshasa, en Móbútu bað samninganefndirnar að hitta sig í höll í afskekktum hluta þessa víðáttumikla lands, inni í miðjum regnskógi, tveggja til þriggja tíma flug með þotu. Þangað til hallarinnar hafði hann flogið frönskum stúlknakór og kampavíni til að hafa ofan af fyrir gestum sínum. Að loknum fundi lagði Móbútu aðra risaþotu ríkisflugfélagsins undir fundarmenn til að flytja þá aftur til Kinshasa og fór þá með sjálfur. Þetta var tvílyft Boeingþota, 747. Farþegarnir um borð voru kannski tíu eða tólf. Eftir flugtak laumaðist forsetinn upp á loft. Litlu síðar barst hróðug og sigurviss rödd hans úr flugstjórnarklefa vélarinnar: „Hans hátign flýgur.“

Móbútú var að endingu hrakinn frá völdum vorið 1997 og dó hataður og fyrirlitinn í útlegð þá um haustið. Sumir sögðu að hann hefði stolið milljörðum Bandaríkjadala af landi sínu og þjóð, einkum með því að hirða auðlindarentuna sem var gríðarleg í svo stóru og ríku landi, en féð fannst ekki eftir hans dag. Aðrir sögðu, já, hann lét greipar sópa en féð stóð stutt við hjá honum því hann þurfti að múta svo mörgum. Þau voru bæði þykk og breið, brúnu umslögin. Hann rændi ríkið innan frá og kenndi forstjórunum að ræna fyrirtækin innan frá: allt var á eina bók lært.

Eftir dauða Móbútús höfðu yfirvöldin í Kongó engan áhuga á að finna faldar eignir hans þótt glæsihýsin væru að vísu auðfundin enda hefðu böndin þá getað borizt að þeim sjálfum. Við forsetaembættinu tóku feðgar tveir, fyrst Laurent Kabila 1997-2001 og síðan Jósef Kabila 2001-2019, landið logaði áfram í ófriði og svo fór að lokum að kosningar leiddu til þess að Jósef Kabila afhenti Felix Tshisekedi nv. forseta stjórnartaumana 2019 í fyrstu friðsamlegum stjórnarskiptum í landinu frá 1960.

Landið logar þó enn sem fyrr í mannréttindabrotum og spillingu sem láta Bandaríkin og fleiri lönd sem standa okkur nær líta út eins og nýfallna mjöll.

En það er engin afsökun.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu