Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Ferskir fróðleiksmolar um faraldurinn

  • Færeyingar eiga nú aftur metið: þeir hafa nú prófað kórónuveirusmit í hærra hlutfalli heimamanna en gert hefur verið í nokkru öðru landi eða 18% mannfjöldans. Í Færeyjum (mannfjöldi 49 þús.) hafa greinzt 187 smit borið saman við 185 fyrir þrem vikum og enginn hefur látizt af völdum veirunnar. Annað sætið á listanum með næstflest smitpróf miðað við mannfjölda, 16%, skipa Íslendingar. Hér heima hafa greinzt 1801 smit og tíu hafa látizt. Íslensk erfðagreining sem er einkafyrirtæki í erlendri eigu verðskuldar virðingu og þökk fyrir að hafa gert meiri hluta smitprófanna og það ókeypis.
  • Tíu efstu sæti listans yfir flest smitpróf miðað við mannfjölda skipa smáríki með milljón íbúa eða færri. Löndin eru, auk Færeyja og Íslands, Gíbraltar (mannfjöldi 34 þús.), Sameinuðu furstadæmin (9,9 milljónir), Falklandseyjar (3,500), Barein (1,7 milljónir), Malta (442 þús.), San Marínó (34 þús.), Lúxemborg (626 þús.) og Bermúda (62 þús.). Upptalningin sýnir að Sameinuðu furstadæmin og Barein eru einu milljónaríkin í hópnum. Í Bermúda sem skipar 10. sæti listans hafa 7% landsmanna verið prófuð. Danir hafa prófað 6%, Norðmenn 4% eins og Rússar, Bandaríkin 3% eins og Þjóðverjar og Svíar innan við 2%.
  • Trump Bandaríkjaforseti barði sér á brjóst í gær og sagði land sitt standa jafnfætis Þjóðverjum í baráttunni gegn veirunni. Hann virðist hafa farið dálkavillt í töflunni. Bandaríkjamenn hafa prófað svipað hlutfall síns fólks og Þjóðverjar eins og áður sagði, en dauðsföll af völdum veirunnar eru nú orðin þrisvar sinnum fleiri í Bandaríkjunum en í Þýzkalandi miðað við mannfjölda. Það segir okkur að prófin og meðfylgjandi smitrakning og einangrun smitaðra eru markvissari í Þýzkalandi.
  • Bandaríkjastjórn hefur vanrækt smitpróf og smitrakningu enda þrætti hún fyrir faraldurinn vikum saman líkt og hún hefur þrætt fyrir loftslagsbreytingar. Forsetinn ber ekki skynbragð á vísindi og hefur umkringt sig með óhæfum ráðgjöfum. Efnahagsráðgjafar hans eru afleitir (ég þekki til þeirra) og þá er varla mikils að vænta af öðrum ráðgjöfum þótt Anthony Fauci sóttvarnalæknir sé að sönnu traustur. Enda vantreystir forsetinn Fauci og bannaði honum beinínis að bera vitni í fulltrúadeild þingsins um daginn. Fyrrum forstjóri leyniþjónustunnar CIA lýsti vandanum svo í hittiðfyrra að ríkisstjórn Trumps væri ekki skipuð „the best and the brightest“ heldur þveröfugt.
  • Á listanum yfir fjölda dauðsfalla sem hlutfall af mannfjölda skipa Bandaríkin nú 13. sætið og þokast æ hærra upp eftir listanum. Fullyrðingar Trumps forseta um að smitpróf séu engin fyrirstaða eru rangar. Veiran æðir nú milli herbergja í Hvíta húsinu þótt þar séu menn að vísu prófaðir kvölds og morgna.
  • Heiminum stafar nú umtalsverður háski af skorti á úthaldi við varnir gegn veirunni í Bandaríkjunum og annars staðar. Faraldurinn getur blossað upp aftur ef menn gá ekki að sér.
  • Efnahagsafleiðingar faraldursins eru nú þegar orðnar grafalvarlegar. Atvinnuleysi í Bandaríkjunum mælist nú 15% af mannafla sem er meira en nokkurn tímann áður síðan í kreppunni miklu 1929-1939. Viðbrögð Bandaríkjastjórnar eru fumkennd og virðast taka frekar mið af fyrirtækjum en fólki.
  • Efnahagsafleiðingar faraldursins hér heima eru einnig orðnar grafalvarlegar þótt nýjasta atvinnuleysistala Hagstofu Íslands sé 2,7% fyrir marz. Hvort næsta mæling fer upp fyrir 15% eins og í Bandaríkjunum vitum við ekki enn (atvinnuleysið hélzt innan við 10% eftir hrun) né heldur vitum við hvernig fara mun fyrir bönkum og lífeyrissjóðum sem mokuðu lánsfé í hótelbyggingar og annað eins og enginn væri morgundagurinn.
  • Enn er of lítið vitað. Eitt er þó ljóst: Nú kæmi sér vel að hafa safnað rentunni af sameiginlegum náttúruauðlindum þjóðarinnar í gildan varasjóð líkt og Norðmenn hafa gert undangengin 30 ár og nýja stjórnarskráin sem 67% kjósenda lýstu stuðningi við í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 mælir fyrir um frekar en að leyfa rentunni að renna mestmegnis inn á einkareikninga, suma í skattaskjólum.
  • Norska ríkisstjórnin fékk hæft fólk strax í febrúar til að kortleggja líklegar efnahagsafleiðingar faraldurins fyrir Noreg. Það gerði Trump forseti auðvitað ekki og þá ekki heldur ríkisstjórn Íslands svo vitað sé.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni