Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Víkurgarður

            Fólk skiptist nokkuð í fylkingar vegna deilu um Víkurgarð, eða kirkjugarðinn í kringum Víkurkirkju. Víkurkirkja var kölluð svo, vegna þess að hún var kirkjan í Vík, það er að segja í Reykjavík. Þessi kirkja stóð frá öndverðu fyrir framan bæjarstæði frá landnámsöld þar sem nú er hótel við Aðalstræti í Reykjavík. Síðast var byggð kirkja þar árið 1724, hana byggði Brandur Bjarnhéðinsson bóndi í Vík. Til er mynd af þeirri kirkju, sem stóð, eftir endurbætur, allt þar til hún var rifin 1798 eftir að dómkirkjan í Reykjavík hafði verið reist þar rétt hjá. En fyrir þann tíma eru engar myndir, og að því er virðist er hvergi greint nákvæmlega frá staðsetningu kirkjunnar, né heldur frá því að hún hafi verið færð, frá því að Brandur byggði sína kirkju árið 1724. Þetta var allt saman löngu fyrir daga gps tækninnar. Kirkjunnar í Vík er fyrst getið í kirknatali Páls Jónssonar biskups (1155-1211). Líklega hefur verið kirkjugarður í kringum kirkjuna frá upphafi. [1]

            Á sjöunda áratugnum byggði Landssíminn svolítið inn í kirkjugarðinn og þá fundust mannabein sem að sögn var gengið hirðuleysislega um. Einnig var Miðbæjarmarkaðurinn síðar byggður upp að garðinum á aðra hlið hans. Þá var sett upp stytta af Skúla fógeta í Víkurgarði miðjum árið 1954, en grunnur standsins sem styttan stendur á mun standa þar sem einn útveggur hinnar fornu Víkurkirkju stóð.

            Deilur standa nú um það, að búið er að rífa gömlu viðbygginguna við Landssímahúsið, og grafa upp fjölmörg mannabein sem fundust undir bílastæðinu fyrir framan Landssímahúsið og í grunni Landssímahússins. En fyrirhugað er að byggja stórt hótel í þessum húsum og á þessum grunni og gamla bílastæðinu. Ef úr þessu verður mun hið nýja hótel að hluta til standa ofan á gamla kirkjugarðinum. Gamli kirkjugarðurinn hefur þannig breyst í hótellóð.

            Alls kyns háðsglósur dynja á þeim, sem vernda vilja gamla kirkjugarðinn, og bent er á að búið sé að fjarlægja gömlu beinin, og setja í vörslu Þjóðminjasafnsins. Vilja verndarsinnar ef til vill að þessu brottfluttu bein verði jarðsett aftur í Víkurgarð?

            Þá er bent á það, að þeir sem nú gangi um götur Reykjavíkur muni ekki eftir þeim formæðrum og forfeðrum sem hvíli í Víkurgarði, svo langt sé síðan síðast var jarðsett þar.

            En það má með ýmsum hætti færa rök fyrir því að vernda Víkurgarð - og þann hluta garðsins sem nú er fyrirhugað að byggja hótel á. Hér eru fáeinir punktar:

            1) Fornminjar og minnismerki um liðna tíð eru verðmæt í samfélögum jafnvel í þeim tilvikum þegar fólk er hirðulaust um þá sögu sem minnismerkin segja frá. Minnismerki og minnisvarðar eru ábendingar, efnislegar ábendingar inni í borgarlandslaginu, sem koma sínum skilaboðum áleiðis í framtíðinni. Það er til þess að koma slíkum ábendingum til skila í framtíðinni sem minnismerki eru reist. Þó að fólk sé hirðulaust á einhverjum tilteknum tíma, breytir það engu um erindi og tilgang minnismerkja, öðru nær. Því að engin þörf er á minnismerkjum um það sem allir vita vel af og hugsa til. Minnismerki eru áminningar.

            2) Leiði fólks eru einmitt að vissu leyti ekki aðeins leiði og legstaður, heldur einnig minnismerki. Gamlir kirkjugarðar eru þannig í raun og veru að nokkru leyti minnisvarðar um gamla tíma og gamla sögu. Þó að í einstöku tilvikum hafi fólk lifað svo ógæfusömu lífi að ekki þykir ráðlegt að legstaður þeirra sé þekktur eftir á, á slíkt alls ekki við um leiðin í Víkurgarði, sem ekki bera með sér nein ógeðfelld skilaboð til samtímans.

            3) Kirkjugarðar eru friðhelgir samkvæmt lögum. Þó að búið sé að raska grafarró þeirra sem hvíldu í þeim hluta kirkjugarðsins sem síðar varð bílastæði eða húsgrunnur, mælir það ekki gegn því að þeim verði aftur búið leg þar á sínum fyrra legstað.

            4) Meðvitund um sögu landsins og sögu ættar sinnar er hverjum manni holl. Rækt við einn elsta kirkjugarð á landinu - á núllpunkti íslenskrar sögu ef svo má segja, við enda Aðalstrætis, þar sem margir ætla að Ingólfur og Hallveig hafi búið, er mjög vel til þess fallin að efla meðvitund um sögu lands og þjóðar.

            5) Fyrirhuguð hótelbygging ofan á grunni kirkjugarðsins skyggir á Alþingi og er innan eðlilegrar þinghelgi í kringum þingstað Íslendinga.

            6) Fyrirhuguð bygging ofan á grunni kirkjugarðsins skyggir einnig á Austurvöll, einn ástsælasta almenningsgarð í höfuðborginni og þar með landinu öllu.

            Vonandi ber menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, gæfu til að taka góða ákvörðun í þessu máli nú síðar í dag.

*                       *                        *

[1] Í  Sögu Reykjavíkur í þúsund ár, 870 - 1870 eftir Þorleif Óskarsson, bls. 24-25.( Iðunn, 2002) er sagt frá elstu heimildum um kirkuna í Vík. Mér hefur því miður ekki unnist tími til að kynna mér efni þess mikla ritverks um kirkjuna og kirkjugarðinn til hlítar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni