Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Trúnaðarstörf fyrir almenning


Það er áreiðanlega erfitt starf að vera alvöru stjórnmálamaður. Ábyrgðin er mikil og segja má að sviðið sé stórt. Sviðið er á vissan hátt samfélagið í heild sinni, landið og miðin. Stjórnmálin snerta flest.

Ef til vill er almenningur ekki nógu duglegur að fylgjast með stjórnmálum og ræða þau og taka þátt. En ef til vill er bara of mikið að gera hjá íslenskum almenningi til þess að hann geti fylgst nógu vel með. Það hjálpar held ég ekki til að stjórnmálaumræðan hér virðist oft heldur ruglingsleg. 

Það er gjarna talinn vera einn helsti kosturinn við fulltrúalýðræðið, að kjósendur geti valið sér góða fulltrúa til að sjá um stjórnmálin að verulegu leyti fyrir sig. Þessir fulltrúar geti sinnt þessu betur heldur en almennir kjósendur, sem þannig hafa meiri tíma til að gera ýmislegt annað sem þarf að gera. En kjósendurnir verða samt að fylgjast svolítið með, þó ekki væri nema til þess að geta valið góða og skynsama fulltrúa til að sinna þessu. Til þess að geta gert þetta af einhverju viti verða kjósendur að vera upplýstir. Þess vegna gegna fjölmiðlarnir mjög mikilvægu hlutverki. Því að án góðra fjölmiðla geta kjósendur einfaldlega ekki fylgst vel með stjórnmálunum. Það er auðvitað ýmislegt fleira mikilvægt í þessu sambandi, ekki síst stjórnmálaflokkarnir og stjórnmálamennirnir, málstaður þeirra og málflutningur.

Þó að samfélög séu lítil geta verkefni þeirra verið flókin. Til dæmis hefur fólk sem býr í fámennum samfélögum alveg jafn flókin hjörtu og nýru eins og fólk sem býr í stórum samfélögum. Þess vegna er líka alveg jafn flókið mál að lækna veikt fólk í fámennum samfélögum og stórum. Það er líka jafn flókið mál að kenna fjórtán ára krökkum eðlisfræði á Ísafirði og í Reykjavík eða í stórum borgum á borð við Lundúni eða Kaupmannahöfn. Lítil samfélög þurfa sem sagt að mörgu leyti að leysa jafn flókin vandamál og stór samfélög. Í litlum samfélögum er líka færra fólk en í stóru löndunum til að halda uppi nauðsynlegri opinberri umræðu. Sumir halda að skýringin á því að stjórnvöld á Íslandi virðast stundum taka asnalegar ákvarðanir liggi einmitt í þessu allsherjar fámenni í landinu.

Sumir stjórnmálamenn tala skýrt. Um daginn heyrði ég Árna Pál Árnason formann Samfylkingarinnar tala skýrt um hluti sem vöktu athygli mína. Þetta var í fróðlegu útvarpsviðtali vegna kvikmyndarinnar um Jóhönnu Sigurðardóttur fyrrum forsætisráðherra og formanns Samfylkingarinnar og stjórnarskrármálið. Árni Páll sagði á einum stað eitthvað á þessa leið:  

"Staðan er einfaldlega þannig, að þegar þú ert formaður í flokki, að þá verður þú að þola það, að það koma til þín menn og segja við þig undir fjögur augu hvað þeir muni gera. Svo fara þeir í fjölmiðla og segja eitthvað allt annað. Þeir hafa bara leyfi til þess. Og þú verður einhvern veginn að vera maður til þess að hlusta á fólk, leggja alvöru mat á það hvernig staðan er, í ljósi þess sem þú veist sem raunverulegan sannleik, en taka ekki mark á opinberum yfirlýsingum sem eru settar fram til að þóknast þessum eða hinum." 
(Árni Páll Árnason í viðtali við RÚV um stjórnarskrármálið og kvikmyndina um Jóhönnu Sigurðardóttur, 16. október 2015.)

Einhvern veginn virtist mér þessi orð Árna Páls, sem mælt voru fram af dæmigerðri einurð hans, varpa ljósi á margt í stjórnmálunum og vekja spurningar um leið. Mér sýnist orðin lýsa því sem ef til vill mætti kalla gjá milli þings og þjóðar, ef það hugtak væri ekki eiginlega frátekið fyrir aðeins öðruvísi vanda í samfélaginu. Það sem Árni Páll lýsir þarna í fáum orðum virðist mér vera einskonar trúnaðarbrestur milli stjórnmálamanna annars vegar og kjósenda og almennings hins vegar. 

Þingmenn og stjórnmálamenn makka sín á milli. Ef til vill makka þeir stundum um hvað þeir muni segja í fjölmiðlum og hvað hver muni segja þegar einhver hefur sagt eitt, en ekki annað. Og stjórnmálamennirnir segja þjóðinni stundum eitthvað allt annað en þeir meina og um leið eitthvað allt annað en þeir segja hver við annan "undir fjögur augu". Það má því segja að trúnaðarbresturinn felist í því að stjórnmálamennirnir leyfi sér og leyfi hver öðrum að segja almenningi ósatt eftir að þeir hafa sjálfir talað saman um það sem satt er undir fjögur augu.

Að mati formannsins virðast þetta vera eðlileg vinnubrögð í stjórnmálum. Þau eru að minnsta kosti leyfileg samkvæmt þessum orðum. 

Nú má vera rétt að taka tillit til þess að þessi orð féllu í samtali sem fór fram í beinni útsendingu í útvarpinu. Og þá er líka rétt að hugsa til þess að í samtalinu er formaður Samfylkingarinnar að lýsa einskonar úlfakreppu, sem hann virtist kominn í sem nýkjörinn formaður í flokki sem var í ríkisstjórn þó að hann sjálfur hefði sem formaður ekki sæti þar. Ég vil því ekki gera því skóna að formaðurinn hafi meint þessi orð eins bókstaflega og þau féllu. Á hinn bóginn held ég að þau séu til marks um stjórnmálamenninguna í landinu. Enda finnst mér eins og ég hafi stundum séð og heyrt aðra stjórnmálaforingja tala með sama hætti og þarna var gert. Eins og almenningur sem les blöðin eða hlustar á útvarpið eigi bara að skilja þann eðlilega hlut, að stundum verði stjórnmálamenn að segja þessum sama almenningi ósatt. Stjórnmálamennirnir hafi bara leyfi til þess.

Þegar maður hugleiðir þetta vaknar sú spurning hvort það geti verið að landlæg prófkjör í íslenskum stjórnmálum hafi haft áhrif á afstöðu stjórnmálamanna til þess hversu mikilvægt það er að segja þjóðinni satt. 

Stjórnmálaflokkarnir voru upphaflega stofnaðir í kringum sameiginlegar hugsjónir. Þegar notast er við prófkjör til að velja fólk til forystustarfa þurfa þeir sem vilja láta til sín taka á þeim vettvangi að vekja athygli þeirra sem hafa kosningarétt í prófkjörinu. Til þess þurfa frambjóðendur gjarna að skera sig úr í þeirra hópi, kannski með sérsniðnum en ósönnum yfirlýsingum "til að þóknast hinum eða þessum," eins og formaðurinn lýsti.

Þessi viðurkennda nauðsyn á því að frambjóðendur geti skorið sig úr þar sem þeir standa í hópi með öðrum frambjóðendum í prófkjöri hefur kannski orðið til þess að auka umburðarlyndi gagnvart ósannindum stjórnmálamanna. En þetta veit ég nú reyndar ekki um.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni