Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Stjórnmálamenn, kvittanir og kostaðar auglýsingar

            Á þeim umbrotatímum sem við lifum núna hafa orðið margvíslegar breytingar á mörkum einkalífs og opinbers lífs. Félagsmiðlar eru eitt dæmi um slíkt. Nú getur hver sem er á vissan hátt rekið sinn eigin fjölmiðil og greint þar frá einkamálum sínum eða fjallað um stjórnmál, allt eftir sínu höfði. Og þar blandar fólk á stundum saman einkamálum og opinberum málum eins og ekkert sé eðlilegra. Annað dæmi er hin nýja stétt áhrifavalda svonefndra, fólks sem segir frá einkalífi sínu opinberlega en hefur gjarna vörur með tiltekin vörumerki á áberandi stað í frásögninni. Eigendur þessara vörumerkja borga svo áhrifavaldinum fyrir greiðasemina. Áhrifavaldurinn blandar þannig einkalífi sínu saman við opinbert líf sem persóna í auglýsingu.

            Á dögunum tók Þórdís Gylfadóttir ferðamálaráðherra þátt í gleðskap með vinkonum sínum, en ein þeirra mun vera áhrifavaldur.[1] Þær tóku sig til vinkonurnar og fóru út að skemmta sér saman. Áhrifavaldurinn í hópnum birti fjölmargar myndir frá skemmtun þeirra, sumar með ráðherranum brosandi í hópnum, aðrar án hans, en þær myndir sem ekki voru með ráðherranum á, munu hafa verið auglýsingamyndir áhrifavaldsins.[2] Engin tveggja metra regla var viðhöfð þarna, heldur stóðu ungu konurnar glaðar og kátar í þéttum hnappi á myndunum og veifuðu vínglösum sínum. Í framhaldinu blossaði upp umræða um að ráðherrann hefði brotið tveggja metra regluna sem hún sjálf hefði nýlega boðað á opinberum vettvangi, og auglýst væri á covid.is síðunni. Þessi umræða var snarlega slegin niður við fyrsta tækifæri á fundi þríeykisins góða, og þar kom fram að 2 metra reglan sem þríeykið hefur boðað um margra mánaða skeið væri ekki alveg eins og allir hefðu skilið hana í baráttu þjóðarinnar gegn covid til þessa.

            Fram til þessa hafði tveggja metra reglan verið skýr og einföld í huga þjóðarinnar. Segja má að hún hafi verið þungamiðjan í sóttvörnum hér á landi þangað til þessir atburðir gerðust. Hún hljóðaði svona á upplýsingasíðu stjórnvalda, covid.is:  „Hvar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi þarf að hafa hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki deila heimili.“ Eftir að Þórdís ráðherra varð uppvís að því að brjóta þessa einföldu reglu virðist svo sem upplýsingum á covid síðunni hafi verið breytt og hinni gömlu góðu 2 metra reglu sé ekki gert eins hátt undir höfði þar og áður. Að minnsta kosti finn ég hana ekki svona framsetta þar núna.[3]

            Á þessum kynningarfundi þríeykisins var því haldið fram að Þórdís ráðherra hefði enga reglu brotið, þó að hún hefði „mátt fara varlegar“, eins og einhver úr hópi þríeykisins sagði við þetta tækifæri. Bent var á misræmi milli auglýstrar reglugerðar og upplýsinga á síðunni covid.is, en fólk sem hefur lært lögfræði veit að réttilega auglýstar reglugerðir gilda framar öðrum tilkynningum stjórnvalda.

            Á þessu stigi málsins var lítið talað um þann þátt málsins sem felst í þátttöku ráðherra í ríkisstjórn í kostuðum viðburði á vegum Icelandair Hotels. En fljótlega vöknuðu spurningar. Hafði ráðherrann borgað sjálfur fyrir veitingar sínar? Þórdís ráðherra svaraði þeirri spurningu skýrt og afdráttarlaust, hún hafði borgað fyrir sig. Aðspurð vildi hún hins vegar ekki sýna reikninga því til stuðnings. Hún fékk svo skömmu seinna stuðning innan úr ráðuneytinu sem gaf út að hún hefði ekki brotið siðareglur, og Jón Ólafsson, prófessor í mála- og menningardeild Háskóla Íslands gaf út þá yfirlýsingu að Þórdís þyrfti ekki að framvísa kvittunum, því að sjálfsagt væri að trúa stjórnmálamönnum um svona lagað.[4] Um svona efni taka margir meira mark á Jóni Ólafssyni en öðrum, enda hefur hann verið stjórnvöldum til ráðgjafar um siðferðismál.

            Ég er að nokkru leyti sammála Jóni Ólafssyni um þau sjónarmið sem höfð eru eftir honum í blaðagreininni, nefnilega um það, að það er sjálfsögð meginregla að treysta fólki, einkum og sér í lagi þegar fólk hefur ekki gefið neitt tilefni til annars. Þá varðar almenning ekkert um einkamál Þórdísar Gylfadóttur. Auk þess er ég Jóni sammála um einstaklinginn Þórdísi Gylfadóttir, nefnilega að ég trúi henni, alveg eins og Jón gerir. Auðvitað hefur Þórdís borgað reikninga sína, fyrst hún segir það sjálf.

            En svo skilur leiðir. Mér sýnist Jón vilja gera það að reglu að við trúum stjórnmálamönnum við aðstæður sem þessar. Það finnst mér vafasöm regla. Ég trúi ráðherranum í þessu tilviki, vegna þess að ég hef nægilega mikið álit á þeim einstaklingi sem í þessu tilviki gegnir ráðherrastöðu og flæktist inn í þessa óheppilegu atburðarás. En ég hef alls ekki svona mikla tiltrú á öllum stjórnmálamönnum. Þannig má til dæmis nefna að einn fyrrum þingmaður þess flokks sem Þórdís situr á þingi fyrir var dæmdur í Hæstarétti til tveggja ára fangelsisvistar fyrir þjófnað árið 2003. Sá maður hafði verið um langt árabil þingmaður Sjálfstæðisflokkinn og var svo aftur kjörinn á þing fyrir þann flokk árið 2007 og var þingmaður flokksins fram til ársins 2013. Það blasir við að stjórnmálamönnum er misjafnlega vel treystandi eins og öðru fólki.

            Þá er rétt að hafa í huga að þær aðstæður sem Þórdís ráðherra kom sér þarna í eru óvenjulegar fyrir íslenska stjórnmálamenn og ef til vill einstæðar. Hún tók þátt í kostaðri skemmtun á vegum einkafyrirtækis, þó að hún vildi eðlilega ekki koma fram í opinberum auglýsingum tengdum skemmtuninni. En sú nýbreytni, að ráðherra lýðveldisins tengist kostuðu skemmtanahaldi og meðfylgjandi auglýsingum á félagsmiðlum, hlýtur að hafa áhrif á mat okkar hvað telst vera einkamál í þessu samhengi, og hvað ekki.

            Enn fremur er rétt að líta til þess, að það er eðlilegt í lýðræðissamfélagi, að ekki ríki einhugur í samfélaginu um traust til stjórnmálamanna. Það er vissulega æskilegt að stjórnmálamenn verðskuldi traust og njóti þess trausts sem þeir verðskulda. En í löndum þar sem fjölmargar fylkingar takast á um völdin í stjórnmálunum, er eðlilegt að einstaklingar í framvarðarsveitum stjórnmálanna njóti misjafnlega mikils trausts, eftir því hvar menn standa. Þannig má búast við að þeir sem fylgja tiltekinni fylkingu að málum beri meira traust til manna í forystusveit sinnar fylkingar, heldur en til annarra. Það er heppilegt fyrir alla, að framganga stjórnmálamanna sé þannig, að sem sjaldnast vakni upp efasemdir um löghlýðni þeirra eða hugsanlega spillingu, óháð því hvar í flokki þeir standa og óháð stjórnmálaskoðunum þeirra sem leggja mat á málið í huga sér hverju sinni. En um leið er ekki hægt að undrast það eða jafnvel fordæma að fólk ali með sér nokkra tortryggni í brjósti gagnvart forystufólki í andstæðum stjórnmálafylkingum. Satt að segja virðast tilefnin til þess stundum vera ærin. Stjórnmálabarátta snýst öðrum þræði um svona hluti, ekki satt: Hverjum er treystandi. Og fólk fer misvel með það traust sem til þess er borið.

            Og í þessu máli er það ekki eins og grunsemdir séu gersamlega út í bláinn, þó að tilefnið sé kannski lítilvægt. Hér er um það að ræða, að ráðherra tók óbeinan þátt í kostuðum viðburði og auglýsingastarfi á vegum einkaaðila, sem virðist óvenjulegt. Ráðherrann fór út að skemmta sér með vinkonum sínum, sem fengu borgað frá einkafyrirtæki, að því tilskildu að þær birtu myndir af sér í skemmtanalífinu í auglýsingum fyrir einkafyrirtækið. Það verður að líta svo á að fólki sé heimilt að spyrja sig, hvort ráðherrann hafi í raun og veru borgað reikninga sína, við aðstæður sem þessar.  Hér breytir engu þó að tilteknir einstaklingar, eins og ég eða Jón Ólafsson, teljum að svarið við þeirri spurningu sé augljóst og ekki þurfi að spyrja. Ég er viss um að Jón myndi eins og ég efast um svör eins og svör Þórdísar, ef þau kæmu frá sumum öðrum stjórnmálamönnum, að ég tali nú ekki um frá dæmdum þjófum í stjórnmálastétt.

            Og hvaða ályktun drögum við af þessu? Ég held að vegna þess að það er ekki hægt að ætlast til þess að allur almenningur trúi yfirlýsingum stjórnmálamanna í svona stöðu skilyrðislaust, verðum við þvert á móti að ætlast til þess að stjórnmálamenn bregðist vel við sanngjarnri beiðni fjölmiðla um að fá að sjá kvittanir og færslur. Það ætti sem betur fer að reynast ráðherranum sem hér um ræðir leikur einn að uppfylla þá ósk og afgreiða málið um leið.

                               ~                                       ~                                      ~

[1] Sjá grein á miðlinum Vísir.is : „Hefði verið ein­faldara að hitta ekki vin­konurnar.“ Sylvía Hall skrifar 16. ágúst 2020 12:28       https://www.visir.is/g/20202001561d/hefdi-verid-ein-faldara-ad-hitta-ekki-vin-konurnar?fbclid=IwAR0jvRIv9AjIcFxO1UAMlKs8v4qlUtYasEdwxaH9f_ak9p50p1mcRxVqxC0

[2]  Sjá grein á Stundinni um málið: Steindór Grétar Jónsson. „Vinafagnaður ráðherra merktur samstarf: „Þetta er viðskiptadíll“.“ Fréttir 17. ágúst 2020 kl. 16:30.

https://stundin.is/grein/11742/vinafagnadur-radherra-merktur-samstarf-thetta-er-vidskiptadill/

[3] Um þessa atburði má fræðast í fínni grein Þóris Guðmundssonar fyrrum fréttamanns á vefmiðlinum Vísir.is. Þaðan er líka tilvitnunin í upplýsingasíðu stjórnvalda, covid.is, fengin, en ekki verður betur séð en að upplýsingum á þeirri síðu hafi verið breytt eftir að ráðherrann var uppvís að því að brjóta gegn þeim reglum sem þar höfðu staðið og hann sjálfur boðað. „Skýrar reglur sem gilda fyrir alla eru forsenda árangurs.“ Þórir Guðmundsson skrifar 18. ágúst 2020 11:57.  https://www.visir.is/g/20202002202d?fbclid=IwAR1evt_ekeoBg_b59yvw4DjOzeCQ1G-mhZausJlrUlsrSNLQGU0aTSD4f-c .

[4]Vefmiðillinn Vísir.is. „Almenningur geti ekki krafist kvittana Þórdísar“ Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar, 19. ágúst 2020  kl.14:57. https://www.visir.is/g/20202002663d/almenningur-geti-ekki-krafist-kvittana-thordisar .

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu