Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Shakespeare á íslensku

Ég kom við í Kolaportinu um helgina. Ég var þar á ferð með vini mínum sem ætlaði að kaupa gamlar bækur. Á meðan hann spjallaði við bóksalann leit ég í bókaskápana. Þar rak ég augun í heildarútgáfu af þýðingum Helga Hálfdanarsonar á leikritum Shakespeares. 

Ég leitaði talsvert að þessari útgáfu fyrir fáeinum árum og frétti að lokum af góðum manni sem ætti þessar bækur og vildi láta af hendi. Þessi heildarútgáfa leikrita Shakespeares á íslensku hefur verið ófáanleg í bókabúðum um margra ára skeið og er löngu uppseld hjá forlaginu. Hún kom út í átta bindum hjá Almenna bókafélaginu og Máli og menningu á tímabilinu 1982 - 1991. Ég var búinn að vera á höttunum eftir þessum bókum í nokkur ár þegar ég var svo heppinn að eignast þær.

Helgi var ekki fyrsti maðurinn til að þýða leikrit Shakespeares á íslensku, það gerðu þeir Matthías Jochumson og Steingrímur Thorsteinsson. En enginn annar hefur þýtt öll leikrit Shakespeares á íslensku. 

Enskumælandi fólk á í engum vandræðum með að nálgast leikrit Shakespeares. Þau eru til sölu í flestum bókabúðum, oft öll leikritin saman í stóru og þykku bindi. Mörgum finnst nú orðið erfitt að lesa texta Shakespeares á frummálinu, jafnvel þó að enska sé móðurmál þeirra, enda er nokkuð um liðið síðan Shakespeare skrifaði leikritin. Orðsnilldin er mikil, hugsunin oft óvænt og djúp, tungumálið orðið nokkuð gamalt og samfélagið hefur að ýmsu leyti breyst frá því leiktextinn var skrifaður.

Margar þjóðir eiga þessi leikrit í þýðingum á þjóðtungu sinni, eins og við Íslendingar, og hafa þannig þægilegan lykil að frumtextanum sjálfum. 

Það er á hinn bóginn dapurlegt til þess að hugsa, að við eigum þessi leikrit í þessum ljómandi fínu þýðingum - en að bækurnar séu bara löngu uppseldar. Þetta er einn ókosturinn við smæð samfélagsins okkar, að bækur sem mikið er búið að hafa fyrir að þýða yfir á íslensku, verða svo uppseldar og óvíst er um hvort endurútgáfa borgar sig. 

Íslenskar bókabúðir eru fáar og smáar. Þær bjóða því miður flestar upp á tiltölulega lítið úrval af bókum. Bókaúrvalið í þeim er nánar tiltekið tiltölulega lítið ef maður horfir á bókabúðirnar sem bókabúðir, en tekur ekki tillit til fólksfjöldans í landinu. 

Það er sérlega ergilegt til þess að vita, að úrvalið í bókabúðunum er ekki meira en það er, þegar haft er í huga að það eru þrátt fyrir allt til miklu fleiri góðar bækur á íslensku, en finnast í þessum ágætu búðum. Þýðingar Helga Hálfdanarsonar á leikritum Shakespeares eru prýðilegt dæmi um góðar bækur sem eru til á íslensku, en vantar samt sárlega í hillurnar í bókabúðunum.

Eftir fáeinar vikur, eða þann 23. apríl næstkomandi, verða 400 ár liðin frá því að Shakespeare dó, 52 ára gamall að aldri.

Gaman væri nú ef hinar frábæru þýðingar Helga Hálfdanarsonar á leikritum hans yrðu allar prentaðar upp á nýtt af þessu tilefni og gerðar aðgengilegar almenningi í bókaverslunum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu