Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Einkafyrirtæki í sjálfboðastarfi andspænis ráðherraræði

Mál Kára Stefánssonar, Íslenskrar erfðagreiningar og forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur er forvitnilegt. Íslensk erfðagreining hefur skimað tugþúsundir Íslendinga íslenska ríkinu að kostnaðarlausu, en forsætisráðherra lætur eins og það sé bara sjálfsagt mál að einkafyrirtækið sinni þessu verkefni áfram. En þar kom að þolinmæði einkafyrirtækisins brast. Kári sendi ráðherranum bréf þann 1. júlí sl. og hvatti til þess að ríkisvaldið tæki sig til og kæmi sér upp almennilegri veirurannsóknaraðstöðu og stofnaði jafnframt sóttvarnarstofnun fyrir Íslendinga. Kári gerði meira, og bauðst til að hýsa sóttvarnarstofnunina til að byrja með og aðstoða við að byggja starfsemina upp og að Íslensk erfðagreining yrði einskonar varalið fyrir hana. Í bréfinu sagði Kári þetta: „ÍE fer fram á að ríkisstjórnin gefi út yfirlýsingu á næstu dögum um að það verði strax ráðist í að setja saman svona apparat. Ef það verður ekki gert neyðumst við til þess að hætta allri aðkomu að skimun og öðrum þáttum sóttvarna, vegna þess að án þess verðum við að halda áfram að vanrækja þá vinnu sem okkur er ætluð.“

            Forsætisráðherra brást við með því að senda Kára bréf, dags. 4. júlí sl. um að málið væri komið í ferli. Ríkisstjórnin hefði ákveðið að ráða verkefnisstjóra. Þessi verkefnastjóri ætti helst að skila tillögum fyrir þann 15 september nk., eða eftir rúmlega tvo mánuði, um það hvernig takast eigi á við faraldra framtíðarinnar og hvernig efla megi innviði heilbrigðisþjónustunnar í því skyni. Einnig ætti þessi verkefnastjóri að vinna með sóttvarnalækni, „í nánu samstarfi við þig og fyrirtæki þitt“, við að ná tökum á faraldrinum sem nú geisar.

            Þetta svar forsætisráðherrans sker í augu af þremur ástæðum.

            Í fyrsta lagi er hér um að ræða langan frest til að móta hugmyndir um viðbrögð við bráðsmitandi, stórhættulegri og áður óþekktri farsótt sem nú leikur lausum hala um heimsbyggðina.

            Í öðru lagi skýtur skökku við, að það eigi að ráða verkefnastjóra til að móta hugmyndir um viðbrögð við þessum faraldri og faröldrum framtíðarinnar vegna þess að það er vandséð að einhverjir aðrir en Íslensk erfðagreining hafi betri tök á því að móta slíkar hugmyndir í samstarfi við sóttvarnarlækni. Þegar allt kemur til alls er Íslensk erfðagreining öflugt fyrirtæki sem á stóran þátt í því hvernig tekist hefur til við farsóttarvarnir í landinu undanfarna mánuði.

            Í þriðja lagi skýtur skökku við að forsætisráðherra svaraði ekki beint þeirri spurningu, hvort farið yrði í að útbúa „svona apparat“ eins og Kári lagði til. Hún lýsti því hins vegar yfir að verkefnastjórinn, sem hún ætlaði að ráða, ætti einnig að fást við að ná tökum á þeim faraldri sem nú geisar, en ekki bara að fást við að móta tillögur um framtíðina. Þetta, sagði forsætisráðherra, ætti verkefnastjórinn að gera „í nánu samstarfi við þig og fyrirtæki þitt.“ Það er að segja, verkefnastjórinn átti að vinna í nánu samstarfi við Kára og Íslenska erfðagreiningu.

            Forsætisráðherra svaraði þannig tillögu Kára ekki almennilega. Hún lét auk þess þau orð hans sem vind um eyru þjóta, að Íslensk erfðagreining myndi hætta þessu skimunarstarfi ef ekki yrði farið strax í að stofna sóttvarnarstofnun eins og lagt var til í bréfinu. Nú má auðvitað vel skilja stjórnmálamenn sem ekki vilja fá fyrirmæli frá einkaaðilum úti í bæ. Það er á forræði Alþingis og stjórnmálanna að stofna ríkisstofnanir og setja lög, hvað sem neyðarástandi líður á hverjum tíma.

            En þegar forsætisráðherra lýsti því yfir að verkefnastjórinn sem hún ætlaði að ráða, myndi aðstoða sóttvarnalækni „í nánu samstarfi við þig og fyrirtæki þitt“ við íslenskar sóttvarnir, í bréfi sem var svarbréf við tilkynningu um að Íslensk erfðagreining myndi hætta þessu starfi, þá lét hún eins og hún hefði ekki lesið bréfið. Hún lét auk þess eins og Íslensk erfðagreining væri ríkisstofnun á forræði forsætisráðuneytisins. Þannig væri það á forræði hennar sem ráðherra málaflokksins hvaða fólk Kári, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, kysi að eiga samstarf við og hvaða verk hann ynni.

            Ég er ekki hissa á að Kári hafi misst þolinmæðina.

                                         -                               -                          -

Bréfaskipti Kára Stefánssonar og forsætisráðherra má lesa hér. https://www.visir.is/g/20201988634d

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni