Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

SÉRSTAKT SÉRTILBOÐ

Á dögunum skrifaði ég hugleiðingu um sérkennilegan verðmun á mínútugrilli í búðum sem heyra undir Elgiganten raftækjasamtæðuna.   Þar var langdýrasta grillið að finna á Íslandi sem er svolítið sérstakt.

Þess má m.a geta að í upphafi þá stærði Elkó sig af því að geta í krafti magninnkaupa, boðið upp á mun lægra verð á raftækjum en aðrir.  Ætla má að Elkó á Íslandi hafi aðgang að sömu vörum og aðrar verslanir í Elgiganten keðjunni.

Eða hvað?

Ég er á póstlista Elkó og fæ stundum tilboð sem maður gæti ætlað að væru sérstaklega góð því þau eru jú bara fyrir okkur sem erum í netklúbbi Elkó. Hér fyrir neðan er hið glæsilega tilboð.

 

Tæpur 70 þúsund kall fyrir glæsilegan tölvuskjá og 30 þúsund kall í afslátt. Geri aðrir betur.

-Eða hvað?

Jú.  Skjárinn var sannarlega skráður á 99.995.- á heimasíðu Elkó.

Ég ákvað að prufa að setja inn vörunúmerið inn i leitarvélarnar hjá hinum norrænu Elkó búðunum.

 

Hérna er Noregur:   Þar var verðið 42.136.- krónum lægra en á Íslandi  og 12.137.- krónum ódýrara en sértilboðið sem mér var sent í tölvupósti.

 

Hérna er Svíþjóð:   Þar var verðið 47.971.- krónum lægra en á Íslandi  og 17.972.- krónum ódýrara en sértilboðið sem mér var sent í tölvupósti.

 

Hérna er Finnland:   Þar var verðið 45.069.- krónum lægra en á Íslandi  og 15.070.- krónum ódýrara en sértilboðið sem mér var sent í tölvupósti.

 

Hérna er Danmörk:   Þar var verðið 45.069.- krónum lægra en á Íslandi  og 15.070.- krónum ódýrara en sértilboðið sem mér var sent í tölvupósti.

Þennan skjá er ekki að finna í Færeyjum (elding.fo) og grænlenska útgáfan af Elkó er nokkuð ruglingsleg og ég kannaði ekki hvort téður skjár væri í boði þarlendis.

Þetta er allt svolítið sorglegt.

Það er sorlegt að innan sömu keðju sé svona mikill munur milli landa.  Ekki er hægt að útskýra þennan mun með vísun í vörugjöld eða skatta sem leggjast bara á vörur á Íslandi.  Sama kerfið er meira og minna í öllum löndunum.

Ekki er hægt að álykta að meðlimir ESB séu betur settir en meðlimir utan ESB (eins og Ísland) því verðið í Noregi er á pari við verðin í búðunum sem eru í ESB.

Ef leita á skýringa á háum flutningskostnaði til Íslands þá dugar það heldur ekki til útskýringar því skv rannsóknum þá má í mesta falli reikna með 5% hærra verði vegna flutningskostnaðar til Íslands miðað við nágrannalöndin okkar.  Flestir sögðu á bilinu 2.5 til 4 % verðmunur.

Meðalverð fyrir skjáinn er krónur 55.116.-  í viðmiðunarlöndunum.

Skjárinn er s.s 44.8% dýrari á Íslandi miðað við verð út úr búð.

Skjárinn er 21.2% dýrari á Íslandi miðað við sértilboðið sem mér var sent en í löndunum í kringum okkur.

Mér finnst þetta orðið þreytandi.  Verðlag á Íslandi ætti ekki að vera mikið hærra en verðlag í löndunum í kringum okkur.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni