Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Minningin um mömmu

Minningin um mömmu

Í gær kvöddum við systkinin móður okkar, Guðmundu Kristínu Þorsteinsdóttur. Það sem er sárast við missinn er eftirsjáin og treginn yfir því hversu litað líf hennar var af erfiðum geðsjúkdómi. Hvernig á að minnast móður sem var sjaldan með sjálfri sér? Sem lifði í skugga baneitraðs geðsjúkdóms sem át sig inn í frumur líkamans og líffæri? Við gætum sagt ykkur frá öllum vonbrigðunum og erfiðleikunum. Við gætum sagt ykkur frá baráttunum sem hún háði og hremmingunum sem hún upplifði í hortugu heilbrigðiskerfi sem gerir ekki ráð fyrir fárveiku fólki.

En við ætlum ekki að gera það. Við viljum frekar segja frá konunni sem var hulin á bak við sjúkdóminn og við sáum bregða fyrir endrum og eins.  Konunni sem var persóna, en ekki sjúklingur. Í dauðanum viljum við gefa mömmu okkar tækifæri til að lifa lífinu sem meðfæddir hæfileikar hennar ætluðu henni, án bagga sjúkdómsins. Í því skyni söfnuðum við systkinin ýmsum minningabrotum frá ættingjum okkar ásamt rituðu efni eftir hana sjálfa, m.a. ræður sem hún hélt í stórafmælum, ritgerðir og ljóð, og drógum upp litríka mynd af konu án sjúkdóms.  Í ljós kom stórfengleg manneskja, hæfileikarík, vel gefin, söngelsk og einstaklega barngóð. Hún orti vísur, skrifaði ritgerðir og pistla um þjóðfélagsmál sem hún birti í dagblöðum. Það sem kom okkur á óvart var hin merka fjölskyldusaga sem heimildavinnan leiddi af sér. Aldrei óraði okkur systkinin fyrir hinum ævintýralega bakgrunni mömmu og systra hennar, ömmu okkar og langömmu. Um er að ræða stórfenglega kvennasögu sem slær svo sannarlega út hversdagsleg æskuár okkar systkinanna í Breiðholtinu.

Hefjum nú söguna.

Á meðan heimsstyrjöldin síðari lék sinn tryllingsdans í heimsbyggðinni fæddist mamma okkar á Njálsgötunni í Reykjavík. Hún ólst upp í konuríki sem langamma okkar, Jónína Jónsdóttir, stýrði með styrkri hendi. Lífsbaráttan var hörð á þessum tíma, sérstaklega fyrir ekkjur með smábörn. Eftir lát eiginmanns síns gerðist langamma okkar frumkvöðull í miðri fátæktinni og steypti skjólhúsi yfir ungar, ófrískar konur og mæður sem höfðu ekki í nein hús að venda. Langömmu hafði lengi sviðið meðferðin á „vegalausum“ stúlkum, eins og hún kallaði þær, og varð þannig fyrsta konan í Reykjavík til að starfrækja „sængurkvennaheimili“ í eigin húsi á Baldursgötu 20.  Í þessum kvennafansi ólst móðuramma okkar upp ásamt dætrum sínum þremur. Ys og þys, gleði og sorgir voru daglegt brauð á Baldursgötunni. Langamma og amma leitaðu ýmissa leiða til að ná endum saman. Þær seldu verkamönnum kaffi og fæði ásamt því að hjúkra einstaka sjúklingum og gamalmennum. Öllu var tjaldað til þess að halda fjölskyldunni saman og hvikuðu þær hvergi þó í hana bættust ungar mæður og börn þeirra.

En verkið var ekki auðvelt og leitaði langamma fanga víða. Í heimildum frá þessum tíma er þess  meðal annars getið að langamma hafi í nokkur skipti leitað til borgarstjóra eftir styrktarfé til reksturins en ekki haft erindi sem erfiði. Því fór svo að eftir nokkurra ára rekstur missti langamma húseignina á Baldursgötunni til okurlánara í Reykjavík.  

En langamma var ekki af baki dottin.  Sendi hún þáverandi borgarstjóra tóninn í Alþýðublaðinu 24. janúar 1930 með þessum orðum:

 ,,Að endingu vildi ég mega óska borgarstjóranum þess, að hvort sem hann skipar það háa sæti lengur eða skemur, megi hann forðast sem mest að særa annarra tilfinningar, sem eru svo óhamingjusamir, að verða að leita á náðir hans.“

Við svo búið dró langamma úr umfangi starfseminnar og færði hana yfir á heimili þeirra mæðgna að Njálsgötu 108. Þar héldu þær áfram að styðja við bakið á ungum mæðrum ásamt því að ala upp í sameiningu dætur ömmu (m.a. móður okkar) sem einnig voru nánast föðurlausar.  Þó aðstæður hafi verið erfiðar á Njálsgötunni herma sögusagnir að fjörið hafi sjaldan verið langt undan. Í þriggja herbergja íbúðinni sat lærdómshesturinn móðir okkar klukkustundum saman yfir skólabókunum, án efa með fingur í eyrum vegna hávaða frá barnahópnum. Nám skipti hana gríðarlega miklu máli og sagði hún okkur eitt sinn frá því að þarna hafi hún tekið ákvörðun um að verða alltaf besti námsmaðurinn í jafnaldrahópnum. Eins og hún sagði sjálf frá var hún hvorki mjó né fyndin og taldi sig því þurfa að jafna metin með gáfum og þekkingu.

Þetta stóð hún við og sat síðan marga skólabekki. Þó mamma hafi verið einstaklega barngóð og elskað okkur heitt þótti henni móðurhlutverkið stundum íþyngja konum. Reynsluheimur hennar á Njálsgötunni hefur vafalaust gert henni það ljóst að fyrir frelsinu þurfa konur að berjast, ef þær ætla að sjá fyrir sér og sínum. Þó mamma hafi gengið í hjónaband með föður okkar og eignast okkur systkinin lét hún aðstæður sínar ekki aftra sér frá löngu og ströngu skólanámi langt fram á fullorðinsár. Okkur systkinunum þótti námsáhugi mömmu dálítið þreytandi á köflum og óskuðum þess stundum að allir framhaldsskólar sykkju djúpt í sæ. Í dag skiljum við hana betur og sjáum að í þekkingunni fann hún áður óþekkt frelsi. 

Eitt sinn gerði hún sér lítið fyrir og skellti sér í gítarskóla Ólafs Gauks með börnin þrjú hangandi yfir sér.  Seinna varð gítarleikur mömmu vitnisburður um góða daga. Þegar vel lá á henni dró hún fram gítarinn og spilaði og söng klukkustundum saman án þess að kæra sig kollótta. Sjaldan sáum við jafnmikið líf í henni og þá. Við hvern tón og hvert grip óx blikið í augum hennar jafnt og þétt og við sátum grafkyrr í okkar eigin þögn.

Nú sitjum við systkinin eftir án mömmu okkar og óskum þess heitt að við hefðum reynt að njóta hennar örlítið betur. Hin síðari ár voru áhyggjurnar af heilsu hennar svo miklar að erfitt reyndist að koma auga á konuna sem spilaði og söng á góðum dögum og faðmaði okkur svo fast að við náðum varla andanum. Því kveðjum við hana með fallegri veislu, söng og tónlist því minningin um móður okkar er rétt að hefjast. Við ljúkum kveðjunni með eftirlætis orðum mömmu, sem við vitum ekki enn hvort hún hafi sett saman sjálf eða fengið að láni hjá ókunnugum höfundi: 

Geislinn er hlýjan og

kærleikurinn sem býr

Í manninum.

Sólarbirtan er vonin.

Mennirnir geta gefið hver

öðrum von með orðum og eða

athöfnum sínum.

Svandís Nína, Rakel og Gummi 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu