Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Daginn sem ég næstum því dó

Daginn sem ég næstum því dó

Daginn sem ég næstum því dó var frekar fallegt úti, notalegt veður í kyrrlátri borg. Sem er frekar óviðeigandi þegar dauðann (næstum því) ber að dyrum. Þetta var á föstudagskvöldi, strembin vinnuvikan var að baki og ég sat eins og klessa í sófanum ásamt manni og barni. Þrátt fyrir afslappelsið fann ég fyrir smá stressi, var mikið að hugsa um vinnuna og ákvað í bríaríi að mæla í mér blóðþrýstinginn. Vá. Talan kom mér á óvart: 155 á móti 96. Almáttugur minn, ég fékk sjokk. Manninum mínum brá líka. Hann teygði sig í bæklinginn sem fylgdi blóðþrýstingsmælinum og signdi sig þegar hann sá hvað í honum stóð. Þessar tölur þínar, Nína mín, er alveg út úr korti. Samkvæmt þessu ættir þú að leita læknishjálpar strax. Síðan mældi hann sjálfan sig og fékk þessa fínu niðurstöðu, 133 á móti 80. 

Þrátt fyrir hættumerkin ákvað ég að láta þetta eiga sig um stund. Reyndi að horfa jákvæðum augum á lífið og fór í rúmið. Klukkan hálf tvö um nóttina vaknaði ég upp með andköfum. Hjartslátturinn var á milljón og mér leið ekki sérlega vel. Það var einhver ónotatilfinning í mér og mér fannst ég finna fyrir hjartanu, hversu mikið það þurfti að vinna fyrir lífinu. Á endanum tók ég svefntöflu til að sofna og svaf eins og steinn þar til klukkan tíu um morguninn. 

Yfir morgunmatnum sagði ég manninum mínum frá svefnleysi næturinnar. Svefnleysi? hváði hann við. Þetta var ekkert svefnleysi, þetta var klassískt kvíðakast. Flettu því bara upp ef þú trúir mér ekki. 

Mig setti hljóða. Kvíðakast? Er þetta framtíðin sem blasti við mér? Að verða miðaldra, hjartabiluð kona í kvíðakasti?

Omg. Omg. OMG. 

Á einu augabragði missti ég allan húmor og allan kynþokka. Konan sem eftir stóð var meyr, alvörugefin og fór sér að engu óðslega. Ég mældi blóðþrýstinginn aftur og það var eins og við manninn mælt. Hann hafði hækkað í 160 á móti 97. Nú voru góð ráð dýr. Ég rauk beint í tölvuna og gúgglaði blood pressure. Það lá við að það kviknaði í internetinu, svo mikil var geðshræringin. Um það bil helmingur mannkyns virðist hafa sömu áhyggjur og ég. Of hár blóðþrýstingur er mannmorðingi mikill, snöggur, grimmur og gerir ekki boð á undan sér.

Það eru barasta allir að deyja.

Fyrsta niðurstaðan sem ég fann var sagan af Matt. Hann vann 60 stundir á viku sem endurskoðandi. Hamingjusamlega kvæntur þriggja barna faðir sem eldaði kvöldmat fyrir fjölskyldu sína alla miðvikudaga. Þar til einn örlagaríkan miðvikudag þegar kona hans og börn komu heim í kalt, kvöldverðarlaust hús og sáu húsbóndann liggja í kuðli á stofugólfinu, örendan. Fram að þessu hafði maðurinn aldrei kennt sér meins. Hann var hress og glaður og kvartaði sjaldan en hreyfði sig sennilega alltof lítið. 

Mér varð fljótt ljóst að ég lá við dauðans dyr. Öll læknabloggin, öll heilsubloggin og allar reynslusögurnar sögðu mér að blóðþrýstingur ætti hvorki að sjást né heyrast. Það sem einu sinni var í lagi er ekki í lagi í dag. Þekkingunni fleygir fram á ljóshraða og færir öll blóðþrýstingsviðmið neðar og neðar. Lengi fram eftir 20. öldinni sluppu menn fyrir horn ef efri mörk blóðþrýstingsins væru 100 plús lífaldur þeirra. Seinna var þröskuldurinn lækkaður í efri mörk 120 og neðri mörk 80. Í dag er nýungin sú að blóðþrýstingur ætti helst að staðnæmast við 115:75.   

Sjittur. 

Næstu daga hætti ég að drekka kaffi og barðist við að temja mér núvitund. Andaði með nefinu og hreyfði mig hægt um eins og tindáti.  Ég mældi blóðþrýstinginn reglulega, pantaði tíma hjá heimilislækninum og hugsaði heimspekilega um lífið. Til þess að enda ekki eins og endurskoðandinn Matt fór ég út að hlaupa. Það reyndi á hjartað, ég fann það berjast um í brjóstinu og ég fékk smá áhyggjur, en ef ég ætlaði að lifa þetta af var engin undankomuleið. Þegar heim var komið leið mér betur. Ég var rólegri og ákvað að skella í eitt stykki baðherbergisþrif. Hvað er betra fyrir sálina en skínandi hreint baðherbergi?

Í miðjum þrifnaðarklíðum upplifði ég mína fyrstu hamingjutilfinningu þessa fjóra daga sem ég lá fyrir dauðanum.  Við vorum nýbúin að skipta um klósettsetu (mér til brjálæðislega vandræðalegrar ánægju), kítta meðfram klósettbotninum og kaupa krúttlega körfu fyrir handklæðin. Þar sem ég stóð og virti dýrðina fyrir mér, með hreinlætislykt í vitum, fylltist ég gleði og hugsaði með mér að kannski væri það ekki svo slæmt að eiga bara fimm ár eftir. Ég gæti planlagt tímann framundan og tekið skynsamlegri ákvarðanir. Jafnvel orðið marktækt betri manneskja, móðir og sambýliskona. Er ekki margt verra til í lífinu en dauðinn? 

Við þetta settist ég niður, afar ánægð með mitt þroskaða sjálf. Ég fletti blaðinu í rólegheitunum og ákvað svo að mæla á mér blóðþrýstinginn, alveg salíróleg. Og viti menn, niðurstaðan var 127:80.

127:80!!!!!!

Ég ætlaði varla að trúa eigin augum. Ég gerði tvær tilraunir í viðbót en allt kom á sama stað niður. 125-128:78-80. Þvílík gleði. 

Þá um kvöldið var ég hressari, fyndnari og skemmtilegri en ég hef verið lengi. Ég eldaði með tilþrifum, aðstoðaði soninn við stærðfræðina og var hverri manneskju til yndisauka. Morguninn eftir átti ég tíma hjá heimilislækninum og vippaði mér glöð fram úr rúminu. Mældi blóðþrýstinginn aftur og rak upp fagnaðaróp: 115:75 takk fyrir. 

Ég fór hróðug til læknisins með blóðþrýstingsloggbókina með mér. Mér til undrunar varð hann ekki imponeraður yfir bókinni og mælingunum, útihlaupinu og kaffileysinu. 

"Hvað er manneskja eins og þú að gera með blóðþrýstingsmæli?", spurði hann ákveðinn. Uuu, bara til að bera ábyrgð á eigin heilsu, svaraði ég tafsandi.  "Það er alger vitleysa," sagði hann svo. "Að hafa áhyggjur af blóðþrýstingi gerir hann háan. Plain and simple. Við höfum ekki áhuga á blóðþrýstingi í miðju streitukasti. Við viljum vita hvort hann fari niður. Fólk á að slaka á, jafnvel leggja sig og mæla blóðþrýstinginn áreynslulaust. Ef það virkar ekki, þarf að slaka enn betur á og endurtaka leikinn seinna, jafnvel eftir nokkra daga." 

Jahá. Þú segir tíðindi. 

Svo hélt hann áfram. "Blóðþrýstingsmælingar geta gert fólk alveg stjörnuvitlaust af áhyggjum og valdið kvíða, eins og í þínu tilviki. Það er nákvæmlega ekkert að þér. Í slökun ertu með lágan blóðþrýsting, þú getur skokkað án þess að standa á öndinni og átt sennilega 100 ár eftir ólifað"(djók).  

Lúpulega ég fór heim, setti blóðþrýstingsmæliskvikindið í geymslu og hugsaði ráð mitt. Þessari upplýsingaöld er, ósköp einfaldlega, ekki treystandi. Á internetinu eru upplýsingar gjaldmiðillinn. Þeir sem reyna sem mest að selja þér þekkingu nánast berja á trumbur til að ná athygli þinni. við vitum að hófsemi selst illa og því hoppar hún ekki framan í mann. Það eru ekki heimilislæknarnir sem skrifa ábúðarmikil blogg um dauðann heldur einstaklingar og fyrirtæki sem græða á óttanum. Lyfjaframleiðendur, lyfsalar, heilsuráðgjafar og framleiðendur fæðubótarefna græða ekki á hlédrægninni. Ónei. Því fleiri sem óttast um líf sitt, því meiri verður gróðinn.

Mottó aðventunnar er því þetta: stundum er einfaldlega best að vita ekki neitt. 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni