Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Nú er nóg komið!

Nú er nóg komið!

Vorið er loksins komið eftir langan vetur og í gær var slakað á reglum samkomubanns vegna kórónaveirunnar, sem þýddi meðal annars að skólar gátu aftur starfað með hefðbundnum hætti. Nemendur á eldra stigi grunnskóla hafa flestir verið í fjarnámi undanfarnar vikur, en komust loks aftur í skólann í gær, hittu vini sína og nutu leiðsagnar kennara í skólastofum. Yngri nemendur gátu mætt í sína bekki allan daginn samkvæmt stundatöflu og umgengist bekkjarfélaga frjálslegar en verið hefur.

Skammvinn gleði

Þetta varð þó skammvinn gleði hjá mörgum grunnskólanemendum í Kópavogi, þar sem verkfall hjá starfsmönnum sveitarfélagsins sem eru í Eflingu hófst á hádegi í dag. Verkfallið er framhald af tveggja vikna verkfalli sem var frestað 24. mars sl. og nær til fjögurra sveitarfélaga í nágrenni höfuðborgarinnar, sem eru Kópavogur, Seltjarnarnes, Mosfellsbær og sveitarfélagið Ölfus. Starfsmenn Eflingar sinna meðal annars frímínútnagæslu í grunnskólum og ræstingu í grunn- og leikskólum, þannig að skólahald í mörgum skólum mun raskast verulega og einhverjir skólar þurfa væntanlega að loka alveg.

Alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins, 1. maí, var fagnað í ár í skugga heimsfaraldurs og atvinnumissis þúsunda Íslendinga, langflestra í ferðaþjónustu. Undanfarnir mánuðir hafa verið óvenjulegir hérlendis og í heiminum öllum. Eftir erfiðan vetur með ítrekaðar veðurviðvaranir breiddist ný og áður óþekkt veira um heimsbyggðina, sem breytti lífsháttum flestra þjóða. Hér á landi höfum við náð góðum árangri í baráttunni við kórónaveiruna, í það minnsta í bili, með samstilltu átaki þjóðarinnar og starfsmanna í framlínunni.

Mikilvæg starfsemi fyrir samfélagið

Öfugt við flest önnur lönd hafa grunnskólar og leikskólar verið opnir að miklu leyti á Íslandi í samkomubanni vegna heimsfaraldursins. Ráðamenn hafa ítrekað mikilvægi þess að halda grunn- og leikskólum opnun og þannig lýsti formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga því yfir í fréttaviðtali um miðjan mars að það væri „afar mikilvægt að halda starfsemi þessara stofnana gangandi”. Þá benti yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra í sama mánuði á að lokun leik- og grunnskóla hefði mjög neikvæð áhrif á samfélagið.

Starfsfólk grunn- og leikskóla hefur unnið þrekvirki til að halda skólunum opnum í samkomubanni og hefur ræstingafólk skólanna meðal annars þurft að auka þrif og sótthreinsa skólahúsnæði til að hægt væri að hafa skóla opna. Það mætti ætla að mikilvægi starfseminnar endurspeglaðist í launum starfsfólks, en því miður hefur það komið í ljós í hverri launakönnuninni á fætur annarri á undanförnum árum að lægstu heildarlaunin á íslenskum vinnumarkaði eru greidd í menntakerfinu og að laun hjá sveitarfélögunum eru almennt lægri en hjá ríkinu og á almennum vinnumarkaði. 

Lægstu launin nema hjá útvöldum

 Heildarlaun á almennum vinnumarkaði voru að meðaltali 729 þúsund krónur á mánuði árið 2018 hjá fólki í fullri vinnu. Heildarlaun ríkisstarfsmanna voru 818 þúsund krónur að meðaltali en 593 þúsund krónur hjá starfsmönnum sveitarfélaga. Dreifing heildarlauna var ólík eftir launþegahópum og þannig voru um 70% starfsmanna sveitarfélaga með heildarlaun undir 650 þúsundum króna á mánuði en það sama átti við um 35% ríkisstarfsmanna og tæplega 55% starfsmanna á almennum vinnumarkaði.

Þessi láglaunastefna sveitarfélaganna nær þó ekki yfir alla starfsmenn þeirra. Þannig eru íslenskir sveitarstjórnarmenn með töluvert hærri laun en kollegar þeirra í mörgum Evrópulöndum og þó víðar væri leitað. Í fyrra var sagt frá því í fréttum að laun nítján bæjarstjóra væru hærri en laun borgarstjórans í Reykjavík. Þar á meðal var bæjarstjórinn í Kópavogi, sem var með rúmlega 2,1 milljón króna í laun á mánuði. Forseti bæjarstjórnar á Seltjarnarnesi og bæjarstjórinn í Ölfusi voru sömuleiðis á meðal tíu launahæstu sveitarstjórnarmanna landsins með ríflega tvær milljónir í mánaðartekjur hvor.

 Hálaunafólk skammar þau lægst launuðu

Laun bæjarfulltrúa í Kópavogi voru lækkuð fyrir rúmu ári, úr rúmum 350.000 krónum á mánuði í 300.000 krónur, fyrir starf sem í flestum tilfellum er hlutastarf. Ofan á þessa upphæð koma síðan greiðslur fyrir setur í hinum ýmsu nefndum og ráðum, auk þess sem margir bæjarfulltrúar eru í öðrum launuðum störfum, jafnvel vel launuðum stjórnunarstörfum.

 Fram kom í bæjarráði Hveragerðis fyrir tveimur árum að laun bæjarstjóra Hveragerðis voru með þeim hæstu sem þekktust á landinu fyrir sveitarfélög af svipaðri stærð. Laun hennar eru samkvæmt fundagerðum bæjarins bundin launavísitölu og hafa því eflaust hækkað eitthvað síðan. Tillaga um lækkun launa bæjarstjórans var felld á sama fundi.

 Bæjarstjóri Hveragerðisbæjar, Aldís Hafsteinsdóttir, er jafnframt formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem núna neitar að semja við Eflingu í sveitarfélögum í nágrenni Reykjavíkur um sömu launahækkanir og Eflingarfólk fékk  í Reykjavík. Aldís hefur í fréttaviðtölum sakað viðsemjendur sína um að neita að nálgast raunveruleikann og sagt að það „sé útilokað“ að semja „við þennan fámenna hóp“ um meira en það sem aðrir hafa fengið í svokölluðum lífskjarasamningi. Jafnfram hefur hún viðrað þá hugmynd að hægt væri að setja lög á verkfallið.

Ábyrgð sveitarfélaga

Skólastarf er ein af grunnstoðum samfélagsins og leik- og grunnskólar hafa ekki síst það hlutverk að vernda börn, efla þroska þeirra og auka jöfnuð í samfélaginu. Verkfall Eflingar mun eflaust koma illa við mörg börn, sem missa enn einu sinni af fræðslu og samveru með jafnöldum á þessu skólaári. Verkfallið mun líka koma illa við foreldra, sem margir hafa nú þegar misst mikið úr vinnu vegna fyrri verkfalls Eflingar og samkomubanns.

Fjórir grunnskólar í Kópavogi og fjórir leikskólar þurfa að loka að mestu eða öllu leyti í verkfalli Eflingar. Þessar lokanir eru ekki á ábyrgð láglaunafólksins, sem gegnir slítandi störfum en ber lítið meira og jafnvel minna úr býtum í fullu starfi en þykir hæfilegt að borga bæjarfulltrúum í hlutastarfi. Lokanirnar eru alfarið á ábyrgð tveggja milljón króna fólksins, bæjarstjóranna og formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem neita að semja við lægst launaða fólkið um löngu tímabæra leiðréttingu.

Semjið strax

Það er ekkert náttúrulögmál að fólkið í framlínunni í menntakerfinu eigi að vera það lægst launaða á landinu. Börn og foreldrar í leik- og grunnskólum Kópavogs hafa fengið nóg af lokunum skóla í vetur. Bæjarstjórar Kópavogs, Mosfellsbæjar, Seltjarnaress og Ölfuss, bæjarstjórnir og samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga þurfa að horfast í augu við raunveruleikann og semja strax við starfsmenn Eflingar um sambærilegar kjarabætur hinna lægst launuðu eins og gert var hjá ríki og borg.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni