Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Hvernig land viljum við byggja?

Hvernig land viljum við byggja?

Í dag göngum við Íslendingar til forsetakosninga í níunda sinn. Kjósendur geta valið á milli tveggja karla á miðjum aldri sem báðir eru með háskólamenntun og segjast báðir vilja gera sitt besta fyrir land og þjóð. Skiptir þá nokkru máli hvor þeirra verður fyrir valinu?

 

Guðni Th. Jóhannesson hefur setið sem forseti Íslands í næstum fjögur ár. Ég kaus hann ekki í forsetakosningunum 2016, þó mér hafi litist ágætlega á hann eins og ýmsa aðra frambjóðendur. Undanfarin fjögur ár hef ég fengið ásamt þjóðinni að fylgjast með honum í embætti og hefur hann verið hófstilltur og alþýðlegur í framkomu, en mögulega full íhaldssamur fyrir þá sem vilja að forsetinn beiti sér meira eins og stjórnmálamaður á forsetastóli. 

 

Talar fyrir jöfnum rétti allra

Fyrir mér kristallast munurinn á frambjóðendunum tveimur í afstöðu þeirra til mannréttinda og fólks af erlendum uppruna. Í janúar 2017, þegar Guðni Th. Jóhannesson hafði setið á forsetastóli í um hálft ár, bauð hann fimm sýrlenskum flóttamannafjölskyldum á Bessastaði til þess að bjóða fólkið velkomið til landsins. Var þetta í fyrsta sinn sem íslenskur forseti hélt slíka móttöku fyrir flóttafólk. 

 

Skömmu áður en þetta gerðist undirritaði Donald Trump, sem tekið hafði við embætti forseta Bandaríkjanna í sama mánuði, tilskipun um ótímabundið bann við komu sýrlenskra flóttamanna til Bandaríkjanna. Trump hafði orðið tíðrætt um fólk af erlendum uppruna og flóttafólk í kosningabaráttu sinni, þar sem hann talaði meðal annars um að byggja vegg á landamærunum við Mexíkó, banna komu múslima til landsins og reka allt að 11 milljónir manna af erlendum uppruna úr landi, auk þess sem hann sakaði fólk af mexíkóskum ættum um að vera nauðgara og dópsala. 

 

Guðni Th. Jóhannesson tjáði sig ekki efnislega um tilskipun bandaríska forsetans í janúar 2017, en í heillaóskaskeytinu sem hann sendi Trump þegar sá síðarnefndi tók við embætti minnti Guðni hann á sameiginleg gildi þjóðanna, eins og tjáningarfrelsi, jafnrétti og jafnan rétt fólks óháð litarhætti og trúarbrögðum. Þetta er gott dæmi um það hvernig forseti getur beitt áhrifavaldi sínu bæði hér innanlands og í erlendum samskiptum, án þess að fara út fyrir það valdsvið sem honum er markað í stjórnarskrá. 

 

Hótanir gagnvart mótmælendum og fjölmiðlum

Undanfarnar vikur hafa einkennst af miklum mótmælum um öll Bandaríkin og víða um heim, eftir að lögreglumaður í Minneapolis drap George Floyd, 46 ára gamlan svartan mann, við handtöku svo til í beinni útsendingu. Var Floyd sá síðasti í langri röð svartra einstaklinga á öllum aldri sem drepnir hafa verið af lögreglunni þar í landi. Viðbrögð Bandaríkjaforseta við þessum mótmælum hafa meðal annars verið að ráðast gegn ríkisstjórum þeirra fylkja þar sem mótmælin hafa verið hvað öflugust, hvetja þá til að setja mótmælendur í fangelsi og kalla eftir því að herinn verði notaður gegn þeim sem mótmæla. 

 

Guðmundur Franklín Jónsson, frambjóðandi til forseta Íslands, hefur ekki farið leynt með aðdáun sína á Donald Trump undanfarin ár og hefur hann haldið áfram að mæra hann í kosningabaráttunni um íslenska forsetaembættið. Hann hefur meðal annars sagt að hann „dáist að Trump fyrir það hversu staðfastur hann er“ og bætt því við að svona vilji hann að „þingmennirnir okkar verði.“ 

 

Guðmundur Franklín hefur verið tíður gestur á Útvarpi Sögu, útvarpsstöð sem hefur meðal annars verið kærð til lögreglu fyrir hatursorðræðu. Þar hefur hann sakað vinstri sinnaða fjölmiðla mannaða „kommúnistum“ um aðför að forsetanum bandaríska, auk þess sem hann hefur kallað þingmann Pírata „þetta dýr“ og sagt að hann sé handbendi erlends auðjöfurs. Þá hefur Guðmundur lýst því yfir að hann hafi „stóra vopnageymslu af upplýsingum“ um starfsfólk Ríkisútvarpsins sem hann muni ekki hika við að nota ef þörf krefur. 

 

Tökum afstöðu

Forseti Íslands getur notað áhrifavald sitt til þess að sameina þjóðina og lyfta upp jaðarsettum hópum. Hann getur talað fyrir mannréttindum, mannúð og jöfnum rétti allra óháð uppruna, litarhætti og trúarbrögðum. En forseti getur líka sundrað, ef í embættinu situr einstaklingur sem beitir hótunum og fordómum gagnvart fólki úr minnihlutahópum eins og reyndin hefur verið í Bandaríkjunum undanfarin ár. 

 

Valið í forsetakosningunum hér á Íslandi er skýrt. Við erum í raun að kjósa um sýn okkar á þjóðina og forsetaembættið. Viljum við forseta sem sundrar eða forseta sem sameinar? Viljum við forseta sem virðir fólk af ólíkum uppruna, eða forseta sem hótar fjölmiðlum og kallar þingmenn ónefnum? Hvernig land viljum við byggja? Skilum ekki auðu í kosningunum í dag, heldur tökum afstöðu. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni