Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Gjáin milli þings og þjóðar

Í dag fer fram hátíðarfundur Alþingis á Þingvöllum vegna 100 ára afmælis samnings um fullveldi Íslands. Fundurinn er aðeins einn liður í hátíðarhöldum vegna fullveldisafmælis okkar Íslendinga, en kostnaður við hann nemur allt að 80 milljónum króna samkvæmt áætlunum skrifstofustjóra Alþingis. Til samanburðar var ljósmæðrum boðin að hámarki 60 milljóna króna launaleiðrétting, en þær eru enn samningslausar.

Það er ekki aðeins kostnaðurinn við þennan fund sem kemur á óvart. Þó verið sé að fagna fullveldi þjóðarinnar, virðist þjóðin sjálf ekki vera neitt sérstaklega velkomin á sjálfan hátíðarfundinn á Þingvöllum. Þannig var veginum inn að gestastofu að Haki lokað fyrir almennri umferð strax í morgun og Almannagjá var einnig lokað svo að valdastéttin og erlendir boðsgestir gætu gengið niður gjána án þess að eiga á hættu að rekast á sauðsvartan almúgann.

Mesta vanvirðingin við þjóðina og fullveldið var þó eftir. Í gær var greint frá því í fréttum að einn helsti talsmaður útlendingaandúðar á Norðurlöndum myndi halda ávarp á hátíðarfundinum. Af einhverjum ástæðum þótti viðeigandi að bjóða forseta danska þingins að halda ávarp á þessum tímamótum, þrátt fyrir þá staðreynd að einn frægasti útlendingahatari Norðurlanda, Pia Kjærsgaard, hafi gegnt því embætti undanfarin ár. Kjærsgaard er einn af stofnendum Danska þjóðarflokksins, en sá flokkur hefur einbeitt sér að baráttu gegn innflytjendum og þá sérstaklega gegn múslimum. 

Danski þjóðarflokkurinn er þekktur fyrir hugmyndir eins og þær að vilja banna arabískumælandi börnum að tala móðurmál sitt í dönskum skólum, bæði í kennslustundum og frímínútum. Flokkurinn var tilbúinn til þess að refsa foreldrum tvítyngdra barna með því að svipta þá barnabótum, ef börnin töluðu arabísku í skólanum. Í fyrra setti flokkurinn fram þá hugmynd að setja upp gaddavírsgirðingar á landamærum Danmerkur og Þýskalands. Þá var þingmaður flokksins dæmdur fyrir rasisma vegna ummæla sinna um að múslimar í Evrópu ættu að fá sömu meðhöndlun og Hitler. 

Pia Kjærsgaard sjálf hefur ekki verið spör á yfirlýsingarnar um innflytjendur og útlendinga. Hún hefur sagt opinberlega að útlendingar fjölgi sér eins og kanínur, að útlendingar í Danmörku eigi ekki kröfu til eins eða neins, og að múslimar væru lygarar og svikarar. Hún var formaður danska þjóðarflokksins í nærri tvo áratugi, en flokkurinn hefur haft mikil áhrif í dönskum stjórnmálum og sveigt umræðuna í átt að sífellt meiri útlendingaandúð. Nýlega voru samþykkt svokölluð gettólög í Danmörku, sem fela í sér margskonar mismunun gagnvart fólki sem býr í hverfum þar sem innflytjendur eru fjölmennir.

Írinn Fintan O'Toole skrifaði í síðasta mánuði í Irish Times að um þessar mundir væri verið að prufukeyra fasismann um allan heim. Börn innflytjenda í búrum í Bandaríkjunum væru ekki nein tilviljun, skrifaði hann, heldur meðvituð tilraun til þess að má út siðferðislegar markalínur. Það sama mætti segja um það þegar öfgahægrimenn á Ítalíu neituðu um tíma að leyfa skipum fullum af flóttafólki að leggjast að bryggju. Lögleiðing mismununar gegn innflytjendum í Danmörku er enn eitt dæmið. Fasisminn er á uppleið í heiminum og ógnar lýðræðinu. Og á aldarafmæli íslenska fullveldisins þótti Alþingi viðeigandi að bjóða fulltrúa hans að halda ávarp. Gjáin á milli þings og þjóðar hefur sjaldan verið meira áberandi.

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni