Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Yfirheyrslur, misminni og samsæriskenningar. Síðari hluti. Um samsæris-þjóðsögur í G&G málinu.

Hefjum leikinn á því að ræða ad hominem rök og almennt um samsæriskenningar. Ad hominem rök eru „rök“ sem beinast að þeim sem setur fram staðhæfingu, ekki staðhæfingunni sjálfri. Kalla má slíkt „högg undir beltisstað“.

Hvað samsæriskenningar varðar þá eru þær alþekktar  enda er Netið belgfullt af meira eða minna órökstuddum samsæriskenningum.

Spurning um hvort samsæri eigi sér stað er reyndaratriði, reynslan hlýtur að dæma.

Ég mun sýna fram á að samsæriskenningar í G&G málinu svífi í lausu lofti, engin ástæða er til að taka þær trúanlegar.

Að lokum mun ég sýna fram á að dómarnir 1977 og 1980 hafi verið í samræmi við lög og byggðir  á sönnunargögnum sem þá virtust sæmilega tæk.

Annað hefur komið í ljós síðar, dómarnir voru mistök en ekki dómsmorð og liður í samsæri. Dómarnir gerðu sér ekki grein fyrir því að rannsóknarlögreglan hefði klúðrað rannsókninni.

Ad hominem rök.

Nú kann einhver að freistast til að segja „iss þú ert bara að verja pabba þinn, Hæstaréttardómarann“. En ég gæti hafa rambað á sannleikann þrátt fyrir eða vegna frændseminnar.

Sanngildi staðhæfinga minna ræðst ekki af minni persónu heldur hvort þær eru í samræmi við staðreyndir eður ei.

Það sem máli skiptir eru tengsl staðhæfinga við staðreyndir, ekki tengsl manna við hver aðra.  Auk þess er þessi staðhæfing um mig og föður minn liður í ad hominem „rökfærslu “.

Slík rök eru eins og bjúgverplar (e. boomerangs), þau lenda á þeim sem þau setja fram. Menn grafa undan eigin staðhæfingum með slíkum „rökum“, „sér grefur gröf þá öðrum grefur“.

Ég gæti sagt: „Iss þú segir þetta bara af því öfundaðir föður minn“. Auk þess gæti ég afgreitt málflutning Sigursteins Mássonar með hliðstæðum hætti, sagt að staðhæfingar hans um G&G málið hafi bara verið afleiðing geðhvarfasýki.

Hann hafi heimfært noju sína á þetta mál og þóst sjá samsæri þar þótt engin væru.

Þeir sem ekki þekkja málið mega vita að Sigursteinn játar að hafa sýkst af geðhvarfasýki og ofsóknarbrjálæði á meðan hann vann að G&G málinu (Sigursteinn 2018, Karl 2021).

Hann segist hafa komið á fund Davíðs Oddssonar og sagst vera tilbúinn til að hætta að rannsaka G&G málið ef hann fengi far með einkaþotu til útlanda. Eins og einatt vill vera birtist ofsóknarbrjálæðið í trú á að samsæri  væri gangi honum, hann segist hafa þess vegna ekki þorað að búa heima hjá sér.

En jafnvel þótt hann hafi hugsanlega heimfært nojuna á málið þá gæti það samt verið satt að G&G málið hafi verið liður í samsæri (munið að það er tengsl staðhæfinga við staðreyndir sem máli skipta, ekki persónuleiki þeirra sem setja fram staðhæfingarnar).

Eymd samsæriskenninga.

Samsæristrúarmenn í G&G málinu halda að löggur, dómarar og stjórnmálamenn hafi tekið þátt í samsæri gegn hinum ginnhelgu sakborningum.

Þessu er fljótsvarað: Í fyrsta lagi er ENGIN ÁSTÆÐA til að trúa þessu því  fyrir þessari staðhæfingu eru engar sannanir.  

Í annan stað svífa samsæriskenningar oftast í lausu lofti eða eru sannanlega rangar. Til dæmis virðist ekki flugufótur fyrir samsæriskenningum  um kórónufaraldurinn. Hvað þá bulli QAnonmanna. 

Einnig má nefna að Joel Levy tekur þekktar samsæriskenningar á beinið í læsilegu kveri og leiðir getum að því að flestar þeirra séu út í hött (Levy 2005).

Norskir sérfræðingar í slíkum kenningum, þeir Asbjørn Dyrendal og Terje Emberland, vísa í rannsókn sem sýnir að samsæristrúarmenn séu gjarnir á að hafa mótsagnarkenndar skoðanir. Þeir sem trúa því að Diana prinsessa hafi sviðsett „dauða“ sinn, trúa því líka að hún hafi verið myrt á sama tíma og stað og sviðsetningin átti að hafa farið fram (Dyrendal og Emberland 2019, bls. 31).

Þetta bendir til þess að samsæristrúarmenn séu almennt fáfróðir, illa gefnir eða truflaðir á geði (sem útilokar  ekki að þeir geti rambað á sannleikann). Enda eru  geðveikrarhæli  full af fólki með ofsóknarbrjálæði en það sér samsæri í hverju horni.

Samsæristrúarmenn eru yfirleitt illa upplýstir, þeir skilja ekki að atburði í mannheimum megi einatt skýra út frá formgerðum og óætluðum afleiðingum gjörða manna (ég fer nánar í þessi mál og önnur í Stefán 2019a).

Eðlilegt er því að gera ráð fyrir að sönnunarbyrðin hvíli á þeim sem trúir á samsæriskenningar (það þýðir ekki að samsæri eigi sér aldrei stað, nasistar frömdu samsæri gegn lýðræðinu, fyrir því höfum við marktækar sannanir).

 Í þriðja lagi   segir Jón Daníelsson að rannsóknarlögreglan hafi falið skjöl fyrir dómurum og verjendum (Jón Daníelsson  2016, bls. 260). Sé svo er útilokað lögregla og dómarar hafi unnið saman í  samsærisgerð.

Í fjórða  lagi er ósennilegt að hægt sé að dylja svo umfangsmikið samsæri í hinu íslenska dvergríki. Miklar líkur eru að það hefði fljótlega kvisast út, ekki hefði þurft meira en eina fulla löggu til þess.

Eina mögulega samsærið er samsæri dómsmálaráðherra þáverandi til að bjarga vinum sínum í Klúbbnum úr prísundinni. Það reyndist auðvelt því þeir höfðu pottþéttar fjarvistarsannanir.

Ég hef áður rætt tilraunir Jóns Daníelssonar til að sýna fram á að Karl Schütz væri skúrkur og hefði tekið þátt í einhverju samsæri með dómsmálaráðherra (Stefán 2019b). Skemmst er frá því að segja Jón hefur engar sannanir fyrir máli sínu og má þakka fyrir að niðjar Schütz skyldu ekki fara í meiðyrðamál við hann.

Bæta má við að Sigursteinn segir að þýski lögreglumaðurinn hafi verið mjög dularfullur, fyrrverandi SS maður og viðriðinn ýmis einkennileg mál í Þýskalandi (Sigursteinn 2018).

En í fyrsta lagi athugar  Sigursteinn ekki bjúgverplaeðli þessara staðhæfinga. Hann reynir að gera Schütz totryggilegan (rétt eins og Jón) en getur uppskorið að aðrir geri hann tortryggilegan, t.d. með  því að nefna geðheilsu hans.

Í öðru lagi væri ágætt ef Sigursteinn leggi fram  sannanir fyrir máli sínu.

Í þriðja lagi væri gott að fá  skýringu á því hvers vegna hið frjálslynda tímarit Der Spiegel hrósar Schütz og tíundar afrek hans. Það tímarit hefur verið vægast sagt gagnrýnið á eitt og annað í þýsku stjórnarfari, ekki síst það að gamlir nasistar áttu innhlaup hjá hinu opinbera í gamla Vestur-Þýskalandi.

Hvað um það, kannski  Schütz hafi gengið erinda dómsmálaráðherra. Kannski dómararnir hafi fengið glýju í augun yfir frægð Schütz og kokgleypt öllu sem hann sagði.

Kannski gilti slíkt hið sama um rannsóknarlögreglumennina sem þess utan gætu hafa dansað eftir pípu dómsmálaráðherra  enda honum háðir.

En það skýrir ekki hvers vegna vinir ráðherra, Klúbbmennirnir, voru handteknir og dæmdir í langt gæsluvarðhald. Þeir sluppu ekki út fyrr en eftir dúk og disk, eftir að þeir gátu lagt fram pottþéttar fjarvistarsannanir.

Vald ráðherra yfir lögreglu og dómurum var ekki meira en þetta. Í ofan á lag hafði  hann  enga þörf fyrir að fá sakborningana dæmda eftir að búið var losa vini hans úr fangelsi.

Hæstiréttur og stjórnmálavaldið

Þess utan  er vægast sagt ósennilegt að Hæstiréttur hafi  gengið erinda ráðherrans, dómararnir voru honum ekki á neinn hátt háðir. Þeir sem dæmdu í málinu voru komnir eins langt á framabraut og þeir gátu, þess utan voru þeir nokkuð við aldur, komnir nálægt eftirlaunaaldri. Og héldu launum óskertum á þeim aldri.

Þeir höfðu enga þörf fyrir að breyta í samræmi við einhvern mögulegan vilja annarra. Þá kann einhver að  staðhæfa að Hæstiréttur sé háður Alþingi og ríkisvaldi.

Þessu er fljótsvarað: Hvers vegna hafði hann hnekkt lagasetningu Alþingis sex sinnum (fram að þessum tíma), sá danski hafði aldrei hnekkt neinni lagasetningu? Sýnir það ekki að Hæstiréttur var lítt háður löggjafarvaldinu og sennilega ekki framkvæmdarvaldinu heldur?

Það var  ekki fyrr en með Davíð Oddsyni að farið er að reyna að gera Hæstarétt verulega háðan framkvæmdavaldinu.

Svanur Kristjánsson bendir réttilega á að fyrir aldamótin  hafi Sjallar  látið Hæstarétt í friði (Svanur 2020).

Athugið að eftir þessi Sjallastjórnaða óheillaþróun hófst höfðu íslenskir dómarar manndóm í sér til að dæma 23 útrásarskunka, ekki einn einasti fjárglæframaður af sama tagi var dæmdur í Bandaríkjum Norður-Ameríku.

Sú staðreynd að Jón Ásgeir var sýknaður í Aurum málinu bendir ekki til þess að dómararnir láti Sjálfsstæðisflokkinn segja sér fyrir verkum. Ekki heldur sú staðreynd að hinn innmúraði og innvígði Baldur Guðlaugsson var dæmdur. 

Þessi tvö dæmi sýna að Sjöllum hefur guðsblessunarlega ekki tekist að ná tangarhaldi á dómurum þrátt fyrir "heiðarlegar" tilraunir. 

Athugið að hafi stjórnmálamönnum ekki tekist að koma í veg fyrir dóminn yfir Baldri og sýknun Jóns Ásgeirs má spyrja hvort líklegt sé að þeir hafi getað haft áhrif á dóma í G&G málinu. 

Sönnunarbyrðin hvílir á þeim sem halda að dómararnir í G&G málinu hafi gengið erinda dómsmálaráðherra. Mér vitanlega hefur ekki fundist snefill af sönnunum fyrir því, reyndar ekki heldur fyrir því að rannsóknarlögreglan hafi gert slíkt hið sama.

Ekki þýðir að "skýra"  rannsókn og dóma í G&G málinu með órökstuddum staðhæfingum um "gerspillt réttarkerfi" eins og Karl Birgisson gerir (Karl 2021). 

Spillt kerfi er kerfi þar sem mútur viðgangast og/eða starfsmenn kerfisins eru beittir ofbeldi eða hótunum um ofbeldi til að breyta með ákveðnum hætti.

Karl verður að leggja fram sannanir fyrir því að starfsmönnum réttarkerfisins hafi verið mútað eða hótað eða þeir beittir ofbeldi í G&G málinu  ef eitthvert vit á að vera staðhæfingu hans. 

Ég gagnrýndi Björn Bjarnason í fyrra fyrir að nota orðið "spillingu" sem innihaldslaust skammaryrði , Karl virðist feta í fótspor hans.

Bjúgverplar og samsæriskenningar.

Lítum aftur samsæriskenningar, þær hafa bjúgverplaeðli líkt og ad hominem rök sem þýðir að þau geta hæglega bitnað á þeim sem þeim halda fram.

Halda mætti því fram að samsæriskenningarsmiðir væru með kenningum sínum að taka þátt í samsæri, t.d. gegn meintri elítu. 

Er þá nokkuð að marka málflutning þeirra? Eru þeir ekki bara öfundsjúkir? Varð ekki að gera Schütz tortryggilegan af því  að velframkvæmdar rannsóknir hans bentu sterklega til sektar sakborninga í Geirfinnsmálinu?

Var ekki tillöguflutningur Samfylkingarinnar um hefndar-nefnd, úps ég meina rannsóknarnefnd,  liður í samsæri?

Málflutningur flutningsmanns var þess eðlis að það var eins og nefndinni væri ætlað að hefna sín á dómurum og lögreglumönnum, ekki leita sannleikans.

Af hverju hvarf grein Brynjars Níelssonar um málið af netsíðu Fréttablaðsins? Var það ekki bara gjörð samsærismanna sem ekki þoldu að Brynjar skyti skildi fyrir dómarana og verði þá með málefnalegum hætti (Brynjar 2019)?

  Og voru ekki réttarhöldin 2018 liður í samsæri? Var ekki framkvæmdarvaldið ákveðið í að losa sakborninga endalega úr snörunni?

Var einleikið að fulltrúi framkvæmdarvaldsins, Katrín Jakobsdóttir,  hafi beðið sakborninga afsökunar rétt eins og gerðir dómstóla kæmu framkvæmdarvaldinu við? Eða að sama stjórnmálakona skuli tala eins og æðstiprestur í G&G trúarbrögðunum? Í þeim trúarbrögðum eru sakborningarnir lömbin sem bera  syndir landsins.

Alla vega var  Davíð Þór troðið í embætti saksóknara með sérstökum bráðabirgðalögum. Var ekki ríkisvaldið þegar búið að ákveða að ekki skyldi sakfella sakborninga, sást það ekki strax í starfi endurupptökunefndar?

Voru ekki stjórnmálamenn með þessu bara að snapa atkvæði? Saksóknari og verjendurnir 5-6 voru algerlega sammála, það er ekki í  anda laganna þótt það sé löglegt. Það er löglegt en siðlaust að stuðla ekki að því að einhverjum aðila yrði  falið að verja dómana frá 1977 og 1980.

Eins og Laxnes sagði í Íslandsklukkunni „Vont er þeirra ranglæti,  verra  þeirra réttlæti“.

Trúi ég þeim samsæriskenningum sem ég set fram hér? Auðvitað ekki, fyrir þeim eru mér vitanlega engar sannanir. Þær eru soðnar saman í gamni og alvöru, settar fram fyrir sakir raka, til að sýna fram á bjúgverplaeðli samsæriskenninga.

Hitt skal sagt að  mig grunar að réttarhöldin 2018 hafi ekki verið í anda laganna. Ég vil bæta að við að það að rétta í máli sem varðar atburði sem gerðust fyrir  meira en fjörutíu árum getur tæpast talist í anda laganna.

Á svo löngum tíma eyðast sönnunargögn, minningar skekkjast og hverfa og vitni deyja. Það var vissulega rétt að taka málið upp á ný en það hefði átt að gerast miklu fyrr meðan allir  málsaðilar voru enn á lífi.   

 Hvað tillöguna um rannsóknarnefnd varðar þá verður slík nefnd að athuga hvort  það sé rétt að réttarhöldin 2018 hafi verið þessu markinu  brennd. Einnig hvort dómararnir 2018 hafi kokgleypt vitnisburði sálfræðingsins Gísla Guðjónssonar án þess að spyrja hvort hann byggði á pottþéttum rannsóknum, o.s.frv.  

Hvað um það, við höfum enga ástæðu til að trúa samsæriskenningum um G&G málið, þær eru réttnefndar „samsæris-þjóðsögur“.

Sönnunarbyrðin er þeirra sem þeim trúa. Eina mögulega samsærið  er tengt sambandi dómsmálaráðherra við Karl Schütz en fyrir því eru mér vitanlega engar sannanir.

Samsæri um játningar?

Nú hefur verið staðhæft að játningarnar hafi verið samdar af ljótum körlum, jafnvel kerlingum líka. En mér vitanlega eru engar handfastar sannanir til fyrir því enda er hér á ferðinni enn ein  samsæriskenningin sem svífur í lausu lofti.

Til handfastra, marktækra  sannana teljast í fyrsta lagi  segulbandsupptökur þar sem málsaðili játar að hafa samið játningarnar (en nóta bene bara ef öruggt er að upptökurnar séu ekki falsaðar).

Í öðru lagi skjöl þar sem málsaðilar leggja á ráðin um slíka fölsun, skjöl sem tryggt er að ófölsuð séu. 

Í þriðja lagi mjög vel staðfestar  játningar málsaðila þar sem öruggt er að minnið hafi ekki glapið  þá.  Engu slíku er til að dreifa.

Í ofan á lag voru játningarnar svo lifandi og nákvæmar að annað hvort voru þær sannar eða samdar af meiriháttar rithöfundi. Líkurnar á því síðastnefnda eru litlar sem engar (játningarnar eru raktar í Dómi 1980).  

Þrautaráð  samningarkenningarsinna kann að vera það að segja að  staðhæfingar sakborninga sjálfra  hljóti að vera  sannanir.

En þær eru ekki tækar sannanir af eftirfarandi ástæðum: Í fyrsta lagi ber ekki  að gefa mönnum sjálfdæmi, enginn getur verið dómari í sjálfs sök.

Í öðru lagi getur vel verið að viðburða-minnið glepji sakborninga, þeir hafi verið farnir að trúa því að þeir hafi aldrei játað. Reyndar eru litlar líkur á því að þeir hafi verið sekir en ekki er hægt að útiloka að þeir (eða sumir þeirra) hafi verið það en viðburða-minnið hafi blekkt þá til að trúa sakleysi sínu.

Hvað sem því líður má ekki gleyma því að rannsóknarlögreglumenn voru á þessum árum illa menntaðir og öldungis óvanir að fást við morð- og mannshvarfamál. Karl Schütz skrifaði skýrslu um rannsóknarlögregluna og gagnrýndi mjög harkalega (skv. Jóni Daníelssyni 2016, bls. 132-134).

Enda virðast vinnubrögð þeirra  hafa verið viðvaningsleg, vel má vera að þeir   hafi hreinlega klúðrað rannsókninni. Sigursteinn býsnast yfir því að skýrslur um yfirheyrslur í málinu finnist ekki (Sigursteinn Másson 2018).

En hann athugar ekki tvennt: Í fyrsta lagi að um klúður hafi verið að ræða, Jón Daníelsson kemur með ýmis dæmi um klúður og viðvaningshátt lögreglu.

Í öðru lagi leit hann á þessi skjöl rúmum tuttugu árum eftir yfirheyrslur, ekki er útilokað að skýrslur hverfi á svo löngum tíma. Haldi hann að lögreglan hafi meðvitað stungið skýrslunum  undir stól þá er sönnunarbyrðin hans. 

Af áðurnefndu  viðtali við Einar Bollason verður ekki annað séð en að hann trúi því að Erla hafi flutt sinn vitnisburð með vitund og vilja (Einar Bollason 2017). 

Hafi  Einar á réttu að standa getur vitnisburður Erlu  ekki hafa verið saminn af einhverjum öðrum.

 „Samningakenningin“ um játningarnar hvílir á leirfótum, engin ástæða er til trúa henni fremur en öðrum samsæriskenningum um G&G málið. Þær eru  tæpast annað en þjóðsögur.

Fjarvistar-„sönnun“. 

Hvað um hina meintu fjarvistarsönnun Sævars? Þremur   árum eftir hvarf Geirfinns  lýsir Sævar því allt í einu yfir að hann hafi verið heima hjá móður sinni umrætt kvöld, horft á sjónvarp og lýsir inntaki eins þáttar fremur  nákvæmlega (Dómur 1980, bls. 201, Jón Daníelsson 2016, bls. 214-218, 270). 

En af hverju sagði hann þetta ekki við fyrri réttarhöldin? Og  hver trúir því að hann hafi munað þáttinn  þremur árum síðar og munað í þokkabót hvaða kvöld hann var sýndur? Ég man ekki hvað ég sá í sjónvarpinu í fyrradag, hvað þá fyrir þremur árum.

Af hverju datt honum þetta allt í einu í hug þremur árum seinna? Kannski eftir að hann frétti að Einari Bollasyni var sleppt eftir að hann  hafði einu og hálfu ári síðar lýst sjónvarpsþætti sem sýndur var Geirfinnskvöldið.

  En mál   Einars var allt öðru vísi en mál Sævars. Hann fékk að sjá slitrur úr dagskrá og segir í viðtali að þá hafi rifjast upp fyrir honum þáttur sem hann sá þetta kvöld (Einar Bollason  2017).

Manni dettur í hug að kannski hafi Sævar beðið einhvern um að rekja inntak þáttanna fyrir sig. Hann var vissulega í einangrun en hún var alls ekki „pottþétt“, honum tókst m.a. að smygla bréfi út.

Hefði ekki mátt smygla bréfi inn með upplýsingum um dagskránna? Í bók Jóns Daníelssonar um G&G málið kemur fram að Sævar laug í a.m.k. tveimur tilvikum, í póstvikamálinu og „laug sig í sátt við Erlu“ einu sinni (Jón Daníelsson 2016, bls 14, 179).

Hann og Erla munu eins og áður segir hafa borið lognar sakir á Klúbbmennina, samanber viðtalið við Einar Bollason.  Gæti Sævar  ekki hafa bætt við enn einni lyginni þegar hann fullyrti að hann hafi horft á sjónvarpið Geirfinnskvöldið?

Gæti hann hafa reynt að blekkja dómara með dagskrártali en svo farið trúa eigin blekkingum?

En auðvitað gæti þetta verið satt, kannski var hann heima hjá móður sinni kvöldið sem Geirfinnur hvarf, hafi haft klísturheila og því munað dagskránna.

Hvað sem því líður er þessi fjarvistar-„sönnun“ engan veginn marktæk, Hæstaréttardómararnir höfðu enga ástæðu til að taka hana gilda, hefðu þeir sýknað hann á grundvelli hennar þá hefðu þeir vel mögulega brotið lög.

Ýmsar staðhæfingar geta verið sannar en samt ekki marktækar því sannanir vantar. Það kann að vera satt að til séu ofurgáfaðir kolkrabbar á reikisstjörnu í stjörnuþokunni Andrómedu en það eru ekki til neinar marktækar sannanir  fyrir því.

Það kann að vera satt að Sævar hafi horft á sjónvarpið Geirfinnskvöldið en það vantar marktækar sannanir fyrir því.

Nú gerðist að náið skyldmenni Sævars hélt því fram í athugasemdakerfi mínu við færsluna „Dómarinn og sálfræðingurinn, böðull hans“ að henni hafi verið meinað að bera vitni við réttarhöldin í Hæstarétti og það hafi verið spilling dómaranna.

Nei, alls ekki, það eru nefnilega ENGAR VITNALEIÐSLUR fyrir Hæstarétti, hann dæmir bara um dóma á lægra dómstigi. Fullyrðing konunnar jaðrar við ærumeiðingar um látna menn, niðjar Hæstaréttardómaranna (t.d. ég) gætu hugsanlega fengið hana dæmda.

Jón Daníelsson reyndar líka, hann staðhæfir án raka að dómararnir hafi ætlað að komast að „…hinni fyrirfram ákveðnu niðurstöðu“ (Jón Daníelsson 2016.bls. 210).

Hvenær var sú niðurstaða ákveðin og af hverju? Jón svarar ekki þeirri spurningu enda getur hann það ekki, þetta er ómerkileg samsæriskenning sem hann endurtekur í ýmsum myndum án raka. Hann talar eins og hann geti hugsanir dómaranna(t.d. Jón Daníelsson 2016, bls. 181, 205).

Hann er litlu betur að sér í lögum en vitnaleiðslu-konan (sjá miklu nánar um bók Jóns Stefán 2019a og b).

Hann  býsnast yfir því að Hæstiréttur 2018 hafi ekki fordæmt eldri dóma, þetta sé dæmi um samtryggingarfélag („Samsæri! Samsæri!“) (Jón  Daníelsson 2018). Meinið er að lögum samkvæmt hefur Hæstiréttur engan rétt til að dæma um fyrri Hæstaréttardóma.

Fyrri dómar í G&G málinu  voru „núllaðir“ 2018 og kveðinn  upp dómur eins og þeir fyrri hefðu ekki verið uppkveðnir. Eða átti rétturinn að dæma löngu dauða dómara og það án þess að þeir hefðu verjendur?

Átti Hæstiréttur að brjóta lögin til að þóknast Jóni Daníelssyni?

Þetta er ekki eina dæmið um vanþekkingu Jóns á lögum. Í bók sinni býsnast hann yfir því að sönnunarbyrðinni hafi verið velt á sakborningana í G&G málinu í harðræðismálinu (Jón Daníelsson  2016, bls. 184).

Hann skilur ekki að harðræðismálið er lagalega séð annað mál en G&G málin tvö, í harðræðismálinu voru lögreglumennirnir hinir ákærðu, sakborningarnir í G&G ákærendur.

Því var það lögum samkvæmt rétt að láta þá síðarnefndu bera sönnunarbyrðina.

Alltént má sjá af ofansögðu  að fjarvistar-„sönnunin“ er ekki marktæk og lítið er að marka staðhæfingar þeirra sem hæst láta um vont réttarkerfi sem níðst hafi á hinum alsaklausu sakborningum. Jón Daníelsson má þakka fyrir að sér hafi ekki verið stefnt fyrir meiðyrði.

Niðurstaða um dómana.

Lítum aftur á G&G málin í heild sinni: Dómararnir gátu ekki séð fram tímann og gátu ekki vitað að síðar myndi koma fram skynsamleg gagnrýni á einangrunarvist, játningarmiðaðar yfirheyrslur og traust á viðburðaminni.

Í ljósi þessarar gagnrýni má telja sennilegt að réttast hefði verið að vísa málinu frá en það lá ekki ljóst fyrir á þessum árum.

Á nítjándu öldinni benti allt til þess að ljósið væri bylgjufyrirbæri en svo kom Albert Einstein og hressti upp á gömlu kenninguna um að það væri eindafyrirbæri (reyndar að það væri bæði bylgju- og eindafyrirbæri). Það er ekki hægt að ásaka eðlisfræðinga nítjándu aldarinnar fyrir að spá ekki fyrir um kenningu Einsteins.

Með sama hætti er ekki hægt að ásaka dómarana í G&G málinu fyrir að hafa ekki séð fyrir að ýmsar viðurkenndar kenningar um yfirheyrslur, einangrunarvist og viðburðaminni yrðu í framtíðinni gagnrýndar með gildum rökum.

 Gagnstætt því sem Karl Birgison telur sér trú um voru löggilt  sönnunargögn í Guðmundar og Geirfinnsmálinu (Karl 2021). Um er ræða játningarnar og framburður ýmissa vitna, þ.á.m. Erlu Bolladóttur sem hafði borið fram vitni um hið meinta dráp á Guðmundi og hafði ekki dregið þann vitnisburð tilbaka þegar dómur féll (Dómur 1980, bls. 6).

Einnig vitna, til dæmis vitna  sem sögðust hafa séð Guðmund í slagtogi við Kristján Viðar nóttina sem hann hvarf. Auk þess sögðust önnur vitni hafa séð Erlu fara á puttanum til Keflavíkur  (Dómur 1980, bls. 5 og víðar).

Sú staðreynd að sumir sakborninga   höfðu tekið játningarnar  aftur  breytti engu.  Í ofan á lag hafði verjandi  Sævars, Jón Oddsson, hrósað rannsókn málsins (skv. Jóni Daníelssyni  2016, bls. 255). Þar eð  verjendur gagnrýndu ekki rannsóknina var eðlilegt að dómararnir teldu hana hafa verið í lagi.

Ekki síst vegna þess að virtur erlendur rannsóknarlögreglumaður hafði haft forstöðu í rannsókninni á Geirfinnsmálinu.

Þess utan má samkvæmt íslenskum lögum dæma menn eftir líkum, rétt eins og gert var í Orderudmálinu norska og Haugberg Madsen málinu danska. Það er ekkert habeas corpus ákvæði í íslenskum, norskum og dönskum lögum. Það þýðir að hægt er að dæma menn fyrir morð og manndráp þótt ekkert finnist líkið.

Karl Birgisson viðist halda að ekki sé hægt að sakfella menn fyrir morð og manndráp nema lík eða önnur líkamleg ummerki finnist (Karl 2021). Það er rangt.

Auðvelt er  að vera vitur eftir á og segja að kannski voru vitnin ekki nógu traust, til dæmis Erla sem ekki var fræg fyrir sannsögli. En á þeim árum vissu menn ekki að margt bendir til þess að vitnum misminni oft heldur hressilega.

Þess utan  voru játningar  á þeim árum taldar vera meðal mikilvægustu sönnunargagna en í dag telja menn sig vita betur. Ofurtrú á játningarmiðaðar yfirheyrslur gerði illt verra.  

Niðurstaðan um G&G málin hlýtur að vera sú að   dómararnir dæmdu út frá fyrirliggjandi sönnunargögnum  og í samræmi við þágildandi lög. En það er mannlegt að skjátlast, margt bendir til að niðurstaðan hafi verið röng.

Klúður og mögulegt ofbeldi lögreglu  er ef til vill meginorsök þess að það fór sem fór í þessum málum.

Lokaorð.

Sennilegt er að sakborningar í G&G málunum  hafi verið saklausir, rétt eins og Nikolæ í sögu Dostojevskís. En margt benti til sektar þeirra fyrir fjörutíu árum, ekki síst sú staðreynd að sumir þeirra játuðu sekt sína í Guðmundarmálinu  skömmu eftir handtöku.

Hvorki dómarar né lögreglumenn vissu að einangrunarvist, játningamiðaðar yfirheyrslur og veilur viðburðaminnisins geta fengið menn til að trúa sekt sinni þótt þeir væru  saklausir (eða trúað sakleysi sínu þótt þeir væru sekir).

Hvorki dómarar né lögreglumenn gátu séð fram í tímann og uppgötvað að síðar myndi koma fram vel rökstutt gagnrýni á yfirheyrsluaðferðina, einangrunarvist og áreiðanleika viðburðaminnisins.

Dómarnir í máli þeirra voru líkast til  mistök, ekki liðir í samsæri enda engar sannanir til fyrir því. Ein meginorsök mistakanna var klúður rannsóknarlögreglu en lögreglumennirnir höfðu hvorki reynslu né menntun til að fást við þetta mál.

Mistök dómaranna voru m.a. þau að sjá ekki þessa vanhæfni rannsóknarlögreglunnar. Þess utan höfðu þeir enga reynslu af slíkum málum.

Hvað samsæriskenningar um málið varðar þá  fyrirfinnast engar sannanir fyrir þeim. Þær eru að líkindum þjóðsögur og slíkar sögu skapa sig oft  á vissan hátt sjálfar, eru ekki afurðir meðvitaðra samsæra.

En ekki skal alveg  útilokað að þær hafi verið samdar með vitund og vilja af  prestunum  í G&G prestakallinu. 

Hvað um það, verði  nefndin,  sem Samfó vildi setja á laggirnar,    raunveruleg rannsóknarnefnd þá mun  ég fagna því ákaft.

Ég er þess fullviss að slík nefnd myndi komast að sömu niðurstöðum og ég.

Ég stóð nánast einn  gegn íslensku þjóðinni árið 2006 þegar ég spáði hruni og talaði um útrásarauðvald. Og hafði á réttu að standa.

Ég stend næstum einn  á ný í G&G málinu, enn er ég sannfærður um að ég sé á slóðum sannleikans. 

Heimildir:

Brynjar Níelsson 2019: „Guðmundar og Geirfinnsmálið í hnotskurn“, Viljinn.

https://viljinn.is/adsendar-greinar/gudmundur-og-geirfinnsmalid-i-hnotskurn/

Dómur 1980. https://www.rikissaksoknari.is/media/arsskyrslur/Domur-i-mali-Haestrettar-nr.-214.1978.pdf

Asbjørn Dyrendal og Terje Emberland 2019: Hva er konspirasjonsteorier? Ósló: Universitetsforlaget.

Einar Bollason 2017. Sjónvarpsviðtal Sigmundar Ernis Rúnarssonar við Einar í Mannamáli.

Jón Daníelsson 2016: Sá sem flýr undan dýri. Reykjavík: Mýrún.

Jón Daníelsson 2018: „Aumingjalegasta hænufet sögunnar“ Stundin https://stundin.is/grein/7536/

Karl Birgissson 2021: „Maðurinn sem fagnaði geðhvarfasýki og fangaði sjálfan sig“, Stundin https://stundin.is/grein/13192/madurinn-sem-fagnadi-gedhvarfasyki-og-fangadi-sjalfan-sig/

Joel Levy 2005: The Little Book of Conspiracies. Thunder Mouth Press.

Sigursteinn Máson 2018: „Ég missit öll tengsl við raunveruleikann“ Viðtal í Mannlífi.

https://www.mannlif.is/frettir/eg-missti-oll-tengsl-vid-raunveruleikann/

Julia Shaw 2020: „Do False Memories look Real?  Frontiers in Psychology. https://www.frontiersin.org/articles/10.3389/fpsyg.2020.00650/full

Stefán Snævarr 2018: „Dómarinn og sálfræðingurinn, böðull hans“. Stundin.

https://stundin.is/blogg/stefan-snaevarr/domarinn-og-salfringurinn-boull-hans/

Stefán Snævarr 2019a: „Jón Daníelsson um G&G málið. Fyrri hluti“. Stundin. https://stundin.is/blogg/stefan-snaevarr/jon-danielsson-um-gg-mali-fyrri-hluti/

Stefán Snævarr 2019b: „Jón Daníelsson um G&G málið. Síðari  hluti“. Stundin. https://stundin.is/blogg/stefan-snaevarr/jon-danielsson-um-gg-mali-siari-hluti/

Svanur Kristjánsson 2020: „Davíð Oddsson. Bjargvættur eða skaðvaldur?“ https://kjarninn.is/skodun/2020-03-05-david-oddsson-bjargvaettur-eda-skadvaldur/

Um samsæriskenningar.

https://stundin.is/grein/11237/covid-samsaerid-mikla/

Um Karl Schütz: Der Spiegel 1979: „Rest Unbehagen“ https://www.spiegel.de/politik/rest-unbehagen-a-460d3cef-0002-0001-0000-000039868883?context=issue

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu