Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Vistarbandstuðið og bæjarleysan

Nú þekkist sú skoðun og þykir fín að vistarbandið hafi verið upphaf alls ills á ísaköldu landi. Sumir álitsgjafar japla stöðugt á þessu, nægir að nefna Guðmund Andra Thorsson sem staðhæfir án raka að fákeppni á Íslandi eigi sér rætur í vistarbandinu. Væri ekki ögn gáfulegra að rekja fákeppnina til einokunarverslunarinnar? Einokun er jú ekkert annað en fákeppni á sterum. En vandinn er sá að fákeppni er eins algeng og kvef. Í Bandaríkjunum, sem hvorki hafa þekkt vistarband né einokunarverslun, náðu auðhringar á borð U.S. Steel og Standard Oil 90% markaðshlutfalli hvort á sínu sviði (sjá t.d. Reed 1980). Á okkar dögum hafa Facebook og Google svipaða aðstöðu. Árið 2013 var markaðshlutur Feisbókar á samfélagsmiðlamarkaðnum um 70%. Um svipað leyti var hlutur Googles á leitarvélamarkaðnum 65% og 97% meðal helstu iðnríkja vesturlanda (samkvæmt Rifkin 2014: 201). Það er því afar ósennilegt að fákeppni á Íslandi sé sök vistarbands og einokunarverslunar.

Vistarbandið vonda og bæjarleysan

Vistarbandstuðarnir tönnlast sýknt og heilagt á því að bandinu vonda sé því að kenna að ekki mynduðust bæir og borgir á Fróni  fyrr en á átjándu/nítjándu öld. En það var vistarband  víðar enn á Íslandi, t.d. í Englandi. Í Danmörk var vistarbandið ekki afnumið fyrr en 1854, reyndar töluvert fyrr en á Íslandi ( Einar Laxness og Pétur Hrafn 2015: 536). Samt mynduðust bæir í þessum löndum. Í þeim eins og víðast í Evrópu var lénsveldi á miöldum og jafnvel bændaánauð. Varla er hægt að tala um lénsveldi á Íslandi þótt telja megi margnefnt band lénskt í eðli sínu, og fátækir bændur vart betur settir en ánauðugir starfsbræður þeirra á meginlandinu. Prófessor Jón Viðar Sigurðsson segir í bók sinni um hið fornnorræna samfélag Íslands og Noregs að norskir bændur á miðöldum hafi í mun ríkara mæli verið leiguliðar en íslenskir bændur á þjóðveldisöld (Jón Viðar 2008: 191). Ég vil bæta við að samt mynduðust einhvers konar bæir í Noregi, það þótt eða vegna þess að konungur var mikilsráðandi meðal norskra. Þegar Gunnar Smári var á Noregsflippinu upplýsti hann landa sína um að aldrei hefði verið höfðingjaveldi í Noregi og hinir góðu jafnaðarsinnuðu víkingar landsins hafi sett bæinn Kaupang á laggirnar. Í fyrsta lagi voru það tæpast Norðmenn, heldur að öllum líkindum Danir sem stofnsettu Kaupang (Jón Viðar og Pedersen 2015/18). Á þeim árum (um 800 e.kr) var stór hluti Austur-Noregs yfirráðasvæði Danakonungs. Í öðru lagi ætti staðhæfing Jón Viðars að svara jafnaðarkenningu Gunnars Smára. Hafi hlutfallslega fleiri norskir bændur verið leiguliðar en þeir íslensku má ætla að norskir höfðingjar hafi verið valdameiri en íslenskir kollegar þeirra.

Konungar stofnuðu borgir

Staðreyndin er sú að bæir og borgir voru á miðöldum, og á fyrri hluta nýaldar, voru yfirleitt stofnsettir af konungum og öflugum höfðingjum. Björgvin (Bergen) er sögð hafa verið sett á laggirnar af norska konungnum Ólafi kyrra, sænski víkingaaldabærinn Birka er talinn hafa verið stofnsettur af stórhöfðingjum. Í Þýskalandi voru miðaldabæir stofnaðir af voldugum smá konungum og höfðingjum. Ekki er ósennilegt að borgarbúar hafi stutt konunga í rimmu við aðal og höfðingja. Sé svo þá hafa konungar haft hag af borgarmyndun, auk þess sem bæjum fylgdi aukið skattfé. Í byrjun nýaldar stofnsettu danskir konungar fjölda bæja í Noregi, þar á meðal Kristjánssand og Kristjánssund sem heita í höfðuðið á dönskum kóngum. Ósló kölluðu þeir Kristjaníu og efldu byggð þar mjög.

Má því ætla að ein meginástæða fyrir bæjarleysu á Íslandi hafi verið sú staðreynd að höfðingjarnir á þjóðbveldisöld voru of máttlitlir til bæjarstofnana. Hvað sem því líður þá var Danakonungum í lófa lagið að stofna bæi á Íslandi en létu það ógert. Þeir stuðluðu að mörgu leyti að framförum í Noregi, hófu námugröft, skipulögðu tiltölulega velvirkandi skrifstofubákn o.s.frv. . En þeir létu Íslendinga aðallega rotna í friði, stuðluðu að rotnuninn með einokunarverslun og með því að aðstoða stórbændur við að herða vistarbandið. Hirðstjóri konungs, Diðrik Píning,  hert  bandið hressilega  um 1490 (Einar Laxness og Pétur Hrafn 2015: 390). Mín kenning er sú að hann hafi m.a. haft hagsmuni konungs í huga. Sá var líklega  næststærsti landeigandi íslands og hlýtur að hafa þénað einhver ósköp á bandsskömminni. Kirkjan sem laut páfanum í Róm var líklega stærsti landeigandinn og hefur örugglega stutt bandið dyggilega. Rétt eins og íslenskir stórbændur sem hvöttu Pining til dáða.

Vistarband, viðarleysa, fjarstaða

Ekki má skilja orð mín svo að ég haldi að vistarbandið hafi ekki átt mikinn þátt í því að ekki varð úr bæjarmyndunum. Auðvitað var bandið vonda einn þeirra mörgu þátta sem ollu bæjarleysinu. Og bannsett bandið varði alltof lengi, lengur en flest slík bönd í Norðvestur Evrópu. En fleira kemur til, viðarleysið olli því að Íslendingar gátu ekki smíðað skip, eftir 1050 eiga þeir ekki lengur eigin hafskip. Án skipakosts var tómt mál að tala um stórbæi við sjávarsíðuna, auk þess þurfti við til að byggja stórhýsi. Fjarstaða landsins hafi líka sitt að segja, fáir sáu sér hag í að skipta við svo fjarstæða (í báðum merkingum orðsins!) þjóð, því var lítil grundvöllur fyrir öflugum verslunarbæjum. Ekki bætti úr skák að snemma fundu menn upp á því að banna útlendingum vetursetu. Ástæðan var reyndar m.a. sú að erlendir sjó- og kaupmenn á miðöldum voru einatt ribbaldar  og sjóræningjar. Kaupskapur í okkar merkingu orðsins verður ekki til fyrr með kapítalismanum, áður voru engin klár skil milli kaupskapar og sjórána.

Lokaorð

Vistarbandstuðið er þreytandi í stórum skömmtum. Vissulega var bandið fjötur á þjóðinni en alls ekki eina ástæðan fyrir bæjarleysunni íslensku. Danakonungar hefðu hæglega getað sett bæi á laggirnar á Íslandi. En viðarleysið og fjarstaðan höfðu líka sitt að segja. Alla vega var það fremur valdaleysi en ofurveldi höfðingjastéttarinnar íslensku sem olli bæjarleysunni á þjóðveldisöld. Spyrja má hvað gerst hefði  ef innlendur maður hefði sameinað Ísland undir sinni stjórn. Hefði hann eða hún séð sér hag í að stofna bæi, fengið með því aukið skattfé og bandamenn gegn höfðingjum? Spyr sá sem ekki veit.

PS Segja má að Valdemar, föðurafi minn, hafi verið fórnarlamb vistarbandsins. Hann fékk ekki að læra með hinum börnunum á bænum af hann var bara sonur vinnukonunnar.

Heimildir

Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason (2015): Íslandssaga A-Ö. Reykjavík: Vaka/Helgafell.

Jón Viðar Sigurðsson (2008): Det norrøne samfunn. Vikingen, kongen, erkebiskoppen og bonden. Oslo: Pax forlag.

Jón Viðar Sigurðsson og Pedersen, Unn (2015/18): „Vikingtidsbyen Kaupang“ Norgeshistorie. no https://www.norgeshistorie.no/vikingtid/hus-og-hjem/0804-vikingtidsbyen-kaupang.html

Reed, Lawrence (1980) „Witch-Hunting for Robber Barons: The Standard Oil Story“, Ideas on Liberty http://www.dadyer.com/Economic%20Readings/witchhunting%20for%20robber%20barons.htm. Síðast halað niður 4/6 2013.

Rifkin, Jeremy (2014): Zero Marginal Cost Society. New York: Palgrave MacMillan.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu