Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

"Svo einfalt er það"...ekki. Karl Th og Jón Steinar

Karl Th. Birgisson  skrifar skemmtilegan pistil um Jón Steinar Gunnlaugsson og nýtt greinasafn hans. Hann víkur líka að bók Jóns Steinars frá 1987, Deilt á dómarana, og segir að gagnrýni hans á Hæstarétt í þeirri bók  hafi verið vel rökstudd.

Jón Steinar ræðir sex dómsmál í   Deilt á dómarana  og kemst að þeirri niðurstöðu að Hæstiréttur hafi verið of fylgisspakur framkvæmda- og löggjafarvaldi í dómum í þessum málum.  Þetta sýni að rétturinn hafi hneigð til slíkrar fylgisspektar.

Útvarpssöguvillan.

En honum verða á a.m.k. fimm meginmistök, svo alvarlegar að málflutningur hans verður lítils  virði fyrir vikið. Þessi málflutningur er flest annað en vel rökstuddur.

Í fyrsta lagi rökstyður Jón Steinar  ekki að þær  sex dómsuppkvaðningar, sem hann ræðir, séu týpískar fyrir dómsuppkvaðningar Hæstaréttar. Rökstyðja verður til dæmis að þær séu ekki undantekningar sem sanni regluna.

Krefjast ber vísindalegra vinnubragða við svona skrif, vísindamaðurinn kappkostar við að finna marktækt úrval. Jón Steinar gerir það ekki og fremur því „Útvarpssögu-villuna“ að draga ályktanir af tilvikum sem kannski ekki eru marktæk.

Ég hef í huga „skoðanakannanir“ Útvarps Sögu og niðurstaðna þeirra. Þátttakendur voru ekki marktækt úrtak  af kjósendum, gaf kolranga mynd af þeim. En margir drógu þá röngu ályktun af könnunum að Guðmundur Franklín væri með meira fylgi en Guðni. Vel má vera að Jón Steinar hafi gert svipuð mistök.

Í öðru lagi var hann sjálfur verjandi í öllum þessum málum og tapaði. En enginn má vera dómari í sjálfs sök, ekki einu sinni Jón Steinar. Samkvæmt lögmálum vísinda eru athuganir  manna á málum,  sem þeir eiga sjálfir aðild að, engan veginn marktæk.

Túlkun og lög.  

Í þriðja lagi gaf hann sér að ekkert mál væri að túlka lög og stjórnarskrá. Hann talaði eins og þau væru sjálfstúlkandi enda segir Karl Th að viðkvæði hans í nýju bókinni sé „Svo einfalt er það“.  En það er einmitt það sem það ekki er, þessi mál eru firnaflókin.

Eða hvers vegna höfum við yfirleitt dómara og löggjafa? Vegna þess að lög og stjórnarskrá túlka sig ekki sjálf, það verður stöðugt að beita þeim við nýjar aðstæður.

Tökum dæmi: Í stjórnarskrám lýðræðisríkja eru ákvæði um prentfrelsi. En svo verða til nýir fjölmiðlar, var sjálfgefið að ákvæði um prentfrelsi gilti um það sem sagt var í ljósvakafjölmiðlum?

Til að taka ákvörðun um slíkt verður að beita upplýstri dómgreind en slík dómgreind getur ekki hagnýtt sér formúlur nema að litlu leyti heldur verður að treysta á brjóstvit og þumalfingursreglur.

Við teljum sjálfsagt að banna morð enda þýðir orðið „morð“ „manndráp sem ekki er réttlætanlegt“. En fóstureyðingafjandinn telur fóstureyðingar morð, andstæðingar hans ekki. Engin formúla er til sem getur hjálpað okkur að ákvarða hvor aðilinn túlki lög og stjórnarskrá rétt.

Bæta má við að lög eru reglur og heimspekingurinn Ludwig Wittgenstein benti á að eina leiðin til að rökstyðja reglu væri að vísa til annarrar reglu, reglu  um hvernig henni skuli beitt. En það þýðir að þá reglu er aðeins hægt að rökstyðja með annarri reglu og svo framvegis, og svo framvegis. Þegar allt kemur til alls verðum við að fylgja reglum í blindni, sagði meginspekingurinn.

Það þýðir ekki að rök leiki ekki mikilvægt hlutverk við skilning og beitingu reglna, bara að þeim er þröngur stakkur skorin. Þetta þýðir heldur ekki að lagatúlkun og -beiting séu  bara vildarefni eða smekksatriði, til eru túlkanir og beitingar sem eru alveg út í hött, jafnvel glæpsamlegar.

Vandinn er sá að það eru ævinlega til fleiri en ein tæk (e. acceptable) túlkun á öllum lögum og öllum greinum stjórnarskrárinnar (það er kannski líka túlkunaratriði hvaða stjórnskrá sé með réttu lagi í gildi á Fróni).

Viðhorf Jóns Steinars, það að einungis beri dæma menn út frá algerlega öruggum sönnunum, ekki góðum líkum, er tæk túlkun á lögum, ein margra.

Meira að segja í harðsoðnum raunvísindum verða menn að kljást við hliðstæðan vanda: Röklega séð geta óendanlega margar skýringar skýrt sama viðburðinn. En í reynd koma ekki mjög margar skýringar til greina, þó nógu margar til vísindamaðurinn getur ekki sagt „Svo einfalt er það“.

Þetta gildir að sjálfsögðu líka um tilraun Jóns Steinars til að skýra dómsuppkvaðningar Hæstaréttar, fleiri skýringar eru í boði og ekki gefið skýring Jóns Steinars sé sú besta. Öðru nær.

Túlkun og frelsi

 Í fjórða lagi gaf hann sér að hin eina rétta túlkun á lögum og stjórnarskrá væri frjálshyggjutúlkunin. Hann skrifaði eins og orðið „frelsi“ hlyti að þýða það sem frjálshyggjumenn telja það merki.

En í þeim táradal sem við mennirnir byggjum er flest flókið, fátt einfalt nema hugur hins frelsaða. Frjálshyggjumenn eiga engan einkarétt á hugtakinu um frelsi, í bók minni Kredda í kreppu deili ég hart á frelsisskilning þeirra.

Ég benti á að til væri  mýgrútur tiltölulega skynsamlegra skilgreininga á frelsishugtakinu þótt auðvitað séu til skilgreiningar sem séu heimskulegar og jafnvel hættulegar (enn sjáum við leikið tilbrigði við meginstefið um fjölbrigði túlkana, kenninga og skilgreininga!!).

Frjálshyggjumenn telja flestir að frelsi sé fjarvera ytri þvinganna af mannavöldum. Ytri þvinganir geta verið boð og bönn eða beint og milliliðalaust ofbeldi.

Margir vinstrimenn eru hallir undir þá  kenningu að frelsi sé máttarhugtak, menn séu þá og því aðeins frjálsir að þeir séu sjálfráða og hafi mátt og möguleika á að velja kosti.

Kona sem beygir sig undir karlaveldi möglunarlaust sé  ekki sjálfráð gerða sinna, hún sé fórnarlamb félagsmótunar. Fjötrarnir séu  í huga hennar, því hafi frjálshyggjumenn á röngu að standa er þeir segi frelsi eingöngu fjarvera ytri þvingana. Þvinganir geti líka verið hið innra.

Tveir andans menn af Bretlandseyjum, Quentin Skinner og Philip Pettit, segja frelsi vera forræðisleysu (e. freedom from dominion). Frjálshyggjumenn telja að menn geti verið frjálsir í einræðisríki en Skinner og Pettit telja það rangt, einræðisherrann hafi forræði, þótt hann hafi kannski ákveðið að láta þegnana í friði í bili. En hann getur hvenær sem er tekið að angra þá, þeir séu því háðir  geðþótta og forræði hans og ekki frjálsir.

Hver af þessum frelsishugmyndum skyldi nú vera best? Er til eitthvert alrím sem getur skorið úr um það? Nei og aftur nei.

Hugsum okkur nú að við fyndum óræk rök fyrir því að frelsi væri ekkert annað en fjarvera ytri þvingana af mannavöldum. Mundi það losa okkur undan túlkunarkvöðinni? Öldungis ekki, eftir sem áður yrði álitamál hvort fóstureyðingar séu aðför að frelsi fóstursins eða frelsisréttur kvenna.

Ekkert bendir til að Jón Steinar hafi vitað af þessu fjölbrigði frelsiskenninga, hann gaf sér án raka að frjálshyggjan ætti einkarétt á frelsishugtakinu.

Ef ég man rétt gagnrýndi hann dóm Hæstaréttar þar sem úrskurðað var að rétt væri að meina manni, sem ekki var í verkalýðsfélagi,  að vinna tiltekna vinnu. Samkvæmt frelsiskilningi frjálshyggjumanna (og þar með Jóns Steinars)  er hér um að ræða frelsisviptingu.

En ekki samkvæmt frelsisskilningi vinstrimanna. Samkvæmt honum skaðast starfsmenn í þessari grein, jafnvel allir launþegar, ef mönnum leyfist að vinna „frjálst“. Sá skaði sem starfsmenn verða fyrir sé frelsissvipting af manna völdum. Því sé rétt að banna „frjálsa“ atvinnustarfsemi í greininni.

Hæstiréttur valdi að túlka frelsishugtakið að hætti vinstrimanna, kannski vegna þess að slík túlkun var í samræmi við lífskoðanir dómara.

Pólitísku og siðferðilegu hlutleysi við dómsuppkvaðningu er  enn  þrengri stakkur skorinn en hlutleysi á vísindasviðinu sem ég ræddi í fyrri færslu.

Það er álitamál hvort þessi vinstritúlkun á frelsishugtakinu sé rétt en eins og áður segir ekki gefið hvaða túlkun sé best, ef eitthvert vit er í að tala um bestu túlkun (ég er nokkuð viss um að svo sé ekki!).   

Jóni Steinari skjátlast um Hæstarétt

 Í fimmta lagi kemst hann að þeirri niðurstöðu út frá þessum fjórum meginvillum að Hæstiréttur sé hliðhollur framkvæmda- og löggjafavaldi. En ólyginn sagði mér árið 1987 að Hæstiréttur hefði hnekkt lagasetningu þingsins sex sinnum, sá danski engri.

Þessi  meinta staðreynd, auk þess sem fyrr segir hér, bendir gegn því  að kenning Jóns Steinars um Hæstarétt sé sönn.  

Svanur Kristjánsson bendir á að fyrir 1990 hafi Sjálfstæðisflokkurinn lítið skipt sér af Hæstarétti en það hafi breyst þegar  Davíð Oddsson tók að skipa sér hliðholla menn í réttinn (Jón Steinar var einn þeirra). Kenning Jóns Steinars um réttinn er kannski sönn í dag en var það ekki árið 1987 þegar hann skrifaði þá bók sem hér er rædd.

Það er of mikið talað um vafasöm klíkutengsl Jóns Steinar, of lítið um pólitíska ofsatrú hans, gagnrýnislausa trú á frjálshyggjuna. Sú trú vill hverfast í sannfæringu um að hann sjálfur hljóti að hafa á réttu að standa í öllum dómsmálum.  

Lokaorð

Ég hef sagt í rúma fjóra áratugi að frjálshyggjumenn líktust marxistum meira en góðu hófi gegnir, báðir eru kreddutrúarmenn af verri gerðinni. Einhvern tímann á árunum upp úr 1970 sagði maóisti nokkur við mig „Stefán, pólitík er einföld“, samanber „Svo einfalt er það“.

En það er einmitt það sem hún ekki er.

PS 1: Nýlega uppgötvaði ég að ég hef eignast sporgengil vestanhafs, íhaldsjálkurinn Robert Locke kennir frjálshyggju við marxisma í greininni Marxism of the Right. En beitir íhaldsrökum, gagnstætt mér.

PS2:  Strangt tekið er ekki hægt að tala um alrétt úrtak af kjósendum og Hæstréttardómum  fremur en alrétta túlkun. En það gildir hið sama um úrtak og túlkanir að til eru bandvitlausar útgáfur af báðum. Úrtak Útvarps Sögu var bandvitlaust, úrtak Jóns Steinars sennilega líka. 

PS3: Einhver kann að spyrja hvort ég sé samkvæmur sjálfum mér. Ef til er fjöldi tækra kenninga um sama svið, er þá ekki mín kenning um þessi mál bara ein margra? Vissulega, kenning mín er fallvölt,þ.e. hún gæti verið röng. En hún kann líka að vera sönn eða a.m.k. betri en ýmsar aðrar kenningar, t.d. kenning Karls Th um að málflutningur Jóns Steinars í dómarabókinni sé rökfastur. '

PS 4: Af  hverju er Karl svona viss um að Jón Steinar hafi á réttu að standa um mál Baldurs Guðlaugssonar? Hefur hann kynnt sér málið vandlega eða gefur hann sér að hinn "rökfasti" Jón Steinar hljóti að hafa á réttu að standa? Er það svo einfalt?

PS5: Karl Th segir að Jón Steinar sé eins konar listamaður laga. En listamenn eru ekki reglustriku-þenkjandi formúlumenn.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu